Ellen 10 vikna

Ellen er 10 vikna í dag. Hún heldur áfram að stækka og stækka, var 61 cm á lengd og 5.8 kg í læknisskoðun í vikunni. Hún fór líka til læknis til að láta tékka á mjöðmunum um daginn, þegar hún fæddist fannst lækninum að þær væru kannski aðeins lausar, en í læknisskoðuninni núna kom í ljós að mjaðmirnar eru í fínu lagi. Hún er farin að hjala á fullu og brosa, lætur stundum heyra vel í sér þegar hún er í stuði. Karen og Ellen fóru svo í viku heimsókn til Íslands þar sem Ellen fékk að hitta ömmu sína og báða afa, Tomma frænda og fleiri. Hún er almennt dugleg að sofa og svaf t.d. í þrjá og hálfan tíma úti í vagni í gær.

Daníel er aftur kominn með eyrnabólgu og þarf að fá eyrnadropa tvisvar á dag, sem er alls ekki vinsælt. Hann heyrir ekki mjög vel og á tíma hjá eyrnalækni núna í næstu viku. Þessi tími var pantaður fyrir mánuði síðan þegar hann var nýbúinn að klára síðustu eyrnabólgu, þá sagði læknirinn að ef það væri ennþá vökvi í eyrunum næst myndi hann fá rör í eyrun. Fyrst hann er kominn aftur með eyrnabólgu þá held ég að það sé nú 100 % öruggt að það verði gert. Við vonum að það hjálpi svo þetta eyrnavesen hætti að koma upp aftur og aftur. Annars er hann mikið að reyna á þolinmæði foreldrana þessa dagana, sífellt að ögra og sjá hvað hann kemst upp með, það eru t.d. búin að vera nokkur grátköst í dag. Hvenær klárast þetta tímabil eiginlega…?