Category Archives: Hreyfing

Bíóferð

Í dag fór Daníel í fyrsta sinn í bíó. Við fórum tveir saman að sjá mynd um Pedersen og Findus í Falkoner Biografen. Við spurðum Daníel í morgun hvort hann langaði að fara á bíó og útskýrðum hvernig það væri og hann var mjög spenntur. Við fórum svo og ætluðum að kaupa miða bara áður en við færum inn og fengum síðustu tvö sætin! Danir panta yfirleitt miða fyrirfram og sæti eru númeruð þannig að það borgar sig að plana soldið áður en maður fer á bíó. Það var svakalega mikið af auglýsingum á undan myndinn um aðrar barnamyndir og allskonar skemmtigarða. Svona 20 mínútur af auglýsingum. Þegar það voru búnar svona 70 mínútur af myndinn var Daníel búinn að fá nóg og langaði bara að fara. Hann hefði örugglega horft á alla myndina ef það hefðu ekki verið svona margar auglýsingar fyrst. En hann var samt hæstánægður með bíóferðina og sagði öllum eftirá að hann hefði verið á “alvörubíó, ekki fjölskyldubíó”. (Fjölskyldubíó er þegar við horfum öll saman á vídeo).

Ellen María er líka rosa hress þessa dagana. Hún er reyndar að gera okkur foreldrana vitlausa með því að neita að borða alla fínu grautana sem við höfum keypt handa henni. Hún borðar samt ágætlega ef maður gefur henni brauðmola eða bananabita. Hún virðist bara ætla að fara beint úr mjólk í fastan mat. Hún er líka mjög aktíf og getur ekki verið kyrr eitt andartak, heldur fer strax að skríða útum allt ef hún er látin niður á gólf. Í gær var hún með mér og Daníel inní hans herbergi og ég var ekki að horfa á hana. Síðan leit ég við og þá stóð hún bara upp við bókahilluna! Bara alveg á tveimur fótum og hafði komist þangað alveg sjálf. Við erum líka að byrja að venja hana af því að drekka á nóttunni núna með því að gefa henni bara vatn. Fyrsta nóttin af því var núna síðustu nótt og gekk sæmilega. Nú vonum við bara að næsta nótt gangi aðeins betur.

Ellen að rúlla sér og byrja að sitja

Ellen verður stærri og duglegri með hverjum deginum. Síðasta miðvikudag velti hún sér í fyrsta skiptið af bakinu yfir á magann, hún hefur verið næstum því búin að ná því í nokkrar vikur en nú gat hún gert það alveg almennilega. Um leið og það tókst þá var það líka gert á fullu, velta sér á magann, aftur á bakið, aftur á magann o.s.fv. Þetta er ágætis leið fyrir hana til að ferðast um, er stundum búin að færast ágætlega frá þeim stað sem við settum hana niður. Eftir að hún fór að gera þetta er hún líka duglegri við að vera á maganum, sem er mjög fínt fyrir hana til að æfa sig og verða stífari.

Hún er líka alveg að verða tilbúin að sitja sjálf, vantar bara aðeins uppá að vera nógu stíf og halda jafnvæginu. Hún getur stundum setið í nokkrar sekúndur sjálf en dettur alltaf niður á endanum. Við höfum líka verið að leyfa henni að sitja uppi í kerrunni sinni og skorða hana bara með sænginni, það gengur mjög vel og hún er hrifin af því. Nú bíðum við bara eftir að hún geti farið að sitja alveg sjálf, það verður mikið stuð!

Leikskóli og fleira

Við erum nú að mestu leyti hætt að skrifa inná þessa síðu en ákvað að henda samt inn nokkrum punktum. Daníel byrjaði í aðlögun á leikskólanum Hamraborg í síðust viku. Hann náði 3 dögum í aðlögun áður en við fórum út og fer síðan í svona 2-3 í viðbót eftir að hann og Karen koma heim. Fyrstu 3 dagarnir voru svona:

  1. Komum bara í heimsókn í klukkutíma. Töluðum við Nönnu aðstoðarleikskólastjóra sem var mjög fín. Daníel var síðan í svona hálftíma úti að leika með krökkunum og ég með, hann vildi helst vera lengur.
  2. Komum kl. 8:30 og vorum í morgunmat með krökkunum. Daníel fékk hafragraut með smá Cheerios útí og var bara svona ágætlega sáttur. Svo var smá leikstund inni og svo rétt eftir 9 fór hann út með krökkunum. Þá skrapp ég í burtu og kom svo aftur um kl. 10:30. Þá var hann ennþá úti og bara hæstánægður.
  3. Komum aftur kl. 8:30 í morgunmat. Daníel mjög ósáttur með morgunmatinn, vildi alls ekki borða og neitaði að sitja meðan hinir krakkarnir voru að borða. Mikill grátur og læti og fóstrurnar sögðu mér að fara bara með hann strax í leikherbergið. Eftir morgunmatinn fór ég svo aftur og kom svo til baka kl. 12, þá var Daníel búinn að borða hádegismat með krökkunum, borðaði vel og var í fínu skapi.

Á degi 4 ætti hann svo að vera framyfir hvíldartímann og á degi 5 að vera fram yfir síðdegishressinguna. Við sjáum til hvernig gengur þegar Karen kemur heim, hann þarf sennilega a.m.k. að taka dag 3 aftur þar sem hann verður búinn að vera í burtu í 2 vikur.

Aðrir punktar:

  • Allar hreyfingar eru orðnar miklu öruggari. Getur t.d. labbað upp stiga án þess að halda sér í (ef tröppurnar eru ekki mjög háar).
  • Talið er alltaf að aukast. Getur sagt setningar eins og ‘Ekki mamma tala Hönnu’. Vantar soldið uppá að hann fara að nota svona smáorð og samtengingar rétt.
  • Einn vinsælasti leikurinn er að láta mömmu og pabba kúra uppí rúmi og gera síðan krókódílaárás. Það gengur nokkurnveginn svona fyrir sig:
    D: Mamma kúa. Mamma Pabbi kúa!
    M & P: Já, við erum að kúra.
    D: [stekkur oná okkur] KOKKALI!!!!! (Krókódíll)
    M & P: ónei, enn ein krókódílaárás…
    D: KOKKKALIIIII!!!!!!

Tíminn líður hratt…

Loksins er komið fullt af nýjum myndum í albúmið undir Ágúst 2006. Annars er bara allt gott að frétta af okkur. Daníel er núna búinn að vera síðustu tvær vikurnar með mér í sumarfríi og við erum búin að hafa það rosalega fínt. Í síðustu viku var rosalega gott verður fyrripart vikunnar og þá vorum við mikið úti að leika en núna seinni vikuna er búið að vera frekar blautt. Í húsinu okkar búa tveir kisar og Daníel er rosalega hrifinn af þeim og stundum leyfir útikisinn okkur að klappa sér. Daníel er orðinn mjög laginn og blíður við Simba og ég þarf bara að segja “vera aaaa við kisa” ef hann gleymir sér og þá áttar hann sig strax. Kannski hefur hann erft það frá mér að vera svona hrifinn af dýrunum.

Svo er Daníel alveg þvílíkt duglegur að læra nýja hluti. Hann er búinn að læra að klifra uppá alla skapaða hluti og meira að segja uppí rúm en hann er ekki alveg eins duglegur að fara niður aftur, en þetta er allt að koma. Svo er hann orðinn svo duglegur að labba útum allt og líka á grasi og ósléttu og meira að segja farinn að hlaupa smá! Maður hefur varla undan að hlaupa um á eftir honum og honum finnst alveg þvílíkt hallærislegt ef maður reynir að halda í höndina á honum t.d. í Kringlunni.

Daníel er líka búinn að læra fullt af nýjum orðum eins og; nei, Dani (Danni), glug (gluggi), boti (bolti), disi (kisi), vumm (brummi) og bíbí og svo er það dudda sem á við um allt sem hann bendir á og vill fá í hendurnar.

Sumarfrí

Jæja lítið að frétta nema að Daníel er í pössun hjá Hrefnu ömmu í þessari viku og svo er hann líka farinn að labba síðan um helgina. Nýjar myndir komnar inn.

Flutningar + tanntaka = ÁRANGUR

…eða kannski ekki alveg. Jú, mikið rétt við fluttum um helgina og íbúðin okkar er meira og minna í kössum og svörtum ruslapokum as we speak. Við hittum líka svo vel á að Daníel er að taka sjöttu tönnina sína og er búinn að eiga voðalega mikið bágt um helgina. Fimmta tönnin kom okkur alveg að óvörum þar sem við vorum alltaf að stara á neðrigóminn (þar sem nr.6 er að koma) og svo bara einn daginn: ha, komin tönn þarna líka? Vonandi tekur þetta fljótt af því að hann finnur greinilega mikið til og er með nokkrar kommur af og til. Við gáfum honum lítinn stíl í gær og það sló á hitann en ekki svo mikið á óþægindin því miður. Svo var litli anginn alveg lystarlaus í gærkvöldi og vildi ekkert borða sama hvað ég bauð honum. Hann þambaði hins vegar mjólk eins og hann ætti lífið að leysa og að lokum tókst mér að koma í hann ískaldri ab-mjólk með mauki. Þetta hefur sennilega verið hitinn, maður þekkir þetta sjálfur þegar maður er slappur.

Daníel líst held ég samt nokkuð vel á íbúðina og hann er duglegur að fara í könnunarleiðangra enda mikið nýtt til að kanna og skoða. Hann er samt ekki eins hrifinn af sólskálanum eins og ég átti von á en hann á sennilega bara eftir að fatta þetta aðeins betur. Ég sé líka að honum finnst rosa sport ef maður fer út einu megin í eldhúsinu og kemur inn hinu megin. Eitt af okkar fyrstu verkum var að troða öryggisdóti í allar innstungurnar og setja horn á borðið og læsingar á skúffurnar. Það er nefnilega ótrúlegt hvað hann hefur mikinn á huga á þessu allt í einu núna. Restin af vikunni fer í að taka uppúr kössum og koma okkur fyrir en okkur líður öllum rosalega vel í íbúðinni og svo er ekki verra að eiga Völu, Hjalta og Jökul sem nágranna!

Þvílík bong og blíða!!!

Helgin er búin að vera alveg frábær. Í gær var lokaverkefnis-sýning hjá Listaháskólanum í Listasafni Reykjavíkur. Þar sem Agla systir hans Einars var að útskrifast þá skelltum við okkur niðrueftir og fengum loksins að líta augum þetta margumtalaða verk hennar. Ég verð að segja að ég er ekki mikil listaspýra en mér fannst ísskúlptúrinn henna Öglu mjög flottur og ekki síður umbúðirnar sem var plexiglerkassi með frysti. Svo spókuðum við okkur aðeins í bænum og hafði Daníel mjög gaman af öllum mannfjöldanum.

Í dag fórum við Daníel í sund með Jóhönnu, Maríu og Jakob. Þar sem það er svo langt síðan við fórum síðast í sund þá var Daníel vaxinn uppúr sundskýlunni sinni en Jakob var svo góður að lána honum gamla sundskýlu af sér. Við vorum svo djörf að fara í útilaugina þar sem það var ungbarnasundstími í gangi í innilauginni. Daníel var með fína sundhettu og skemmti sér konunglega þar sem hann var að busla eins og brjálæðingur og fylgjast með öllum krökkunum. María var síðan dugleg að hjálpa mér að halda á honum 🙂 Jóhanna spurði Jakob hvort að Daníel mætti ekki fá lánaða sundskýluna hans aðeins lengur og var þá að meina sundskýluna sem Daníel var í. Jakob stökk hins vegar glaður upp og sagði ekkert mál og ætlaði að toga niður um sig skýluna sína!!! Við Jóhanna rétt náðum að stoppa hann af áður en það skein í berann bossann! Svona góður er hann Jakob!

Eftir sundið fórum við í Grasagarðinn þar sem Daníel lagði sig í kerrunni meðan að við hin gæddum okkur á rúnstykkjum og bakkelsi. Litli gaurinn vaknaði síðan og var alveg hreint dáleiddur af gæsunum sem mér fannst á stundum koma alltof nálægt okkur, sérstakelga þar sem þær eru næstum því stærri en Daníel! Það var svo þreyttur lítill strákur sem fór að lúlla í kvöld.

Nýjar myndir komnar.

Öskur og tunga!

Margt nýtt að gerast hjá peyjanum eins og við má búast. Núna, eftir að hafa nokkrum sinnum bitið hana til blóðs, er Daníel búinn að uppgötva í sér tunguna! Jebb, það er eitthvað þarna fyrir neðan nefið sem hann sér varla en er mjög næmt og skemmtilegt. Hann er semsagt búinn að eyða góðum tíma í að ulla, koma við hana og toga í þennan merkilega hlut undanfarið. Annað skemmtilegt er að Daníel er farinn að nota röddina sína óspart og hún er ekki lengur svo lítil og sæt. Af engri sérstakri ástæðu byrjar hann að öskra: DADADADA!!!!!!! JAAAAJAAAAAJAAAJAAAAA! Og þetta er ekkert smá hátt. Hann lætur líka heyra í sér ef hann er búnn með brauðið eða öll leikföngin eru dottin á gólfið. Ég bíð spennt eftir að flyta í fjölbýlishúsið þar sem nágrannarnir fá að njóta látanna með okkur 🙂

Daníel fékk nýtt leikfang í gær frá Ársæli afa. Það var hvorki meira né minna en stór slökkviliðs-sparkbíll! Þetta vakti mikla gleði og forvitni hjá litla mannin þó hann sé ennþá aðeins og lítill til að sitja á honum einn og óstuddur. Það sem er líka mjöööööög vinsælt hjá Daníel er svona þræða víra-kubba dót eins og er oft á læknastofum. Ég keypti þetta þegar ég var í DK og það er búið að skapa mikla lukku. Annars er Daníel ekkert sérstaklega vandlátur á leikföng.Til að mynda er svitalyktaeyðirinn minn ekkert minna spennandi en þessir svaka þroskaleikföng. Svo þegar hann er komin með leið á honum þá skellir maður bara litríkri hárteygju á hann og þá heldur gleðin áfram. Hver man svo ekki eftir Nivea-dollunni vinsælu? Og svo er það auðvitað greiðan, meikdollan mín og þvottapokinn…. er einhver að sjá munstur í þessu? Já þetta eru allt hlutir úr baðherberginu þar sem að Daníel er oft sprikklandi eins og lítill fiskur á skiptiborðinu og við verðum að hafa ofan af fyrir honum til að ná að skipta um bleyju eða smeygja honum í föt!

Göngutæknin er líka öll að koma til en það fyndnasta er þegar hann vill setjast niður þá ,,,,,,,,,þ.æ(Daníel að skrifa)nnnnnnnnnnnnnnn já eins og ég sagði þá er fyndnast þegar hann vill setjast niður þá sperrir hann bossann útí loftið og POMMP lætur sig detta beint niður! Þetta finnst mér mjög sniðug tækni. Svo er hann farinn að fara á mill hluta t.d. stóla bara alveg eins og Tarzan!

Við erum svo að fara að fá nýju íbúðin í Svarthömrunum afhenta á sunnudaginn í næstu viku. Reikna með að vera síma og netsambandslaus allavegana viku eftir það þannig að ég ætla að reyna að skella inn myndum núna bráðulega áður en við flytjum. Þá fær Daníel líka sér herbergi…. spennó!

Komin frá Danmörku

Þá er maður loksins komin heim aftur og mikið svakalega er það gott að geta knúsað Daníel og auðvitað Einar líka aftur. Það er alveg hræðilegt að fara frá í miðjum þroskakipp eins og ég gerði. Daníel er bara allt annar strákur. Hann er orðinn svo svakalega duglegur að labba með fram öllu og alltaf að uppgötva eitthvað nýtt til að leika sér með, okkur til mikillar gleði (einmitt!). Mér finnst eins og ég hafi verið í burtu í heilann mánuð!

Nú er Daníel líka farinn að sofa alla nóttina (7,9,13) en hins vegar farinn að vakna alltaf kl.6 og stendur og gólar. Ég get nú ekki sagt annað en að ég hlakka til að flytja í nýju íbúðina þar sem Daníel verður settur í sérherbergi. Þá kannski fáum við foreldrarnir að sofa aðeins lengur í það minnsta 🙂

Heilsugæsla

Ég fór með Daníel á heilsugæsluna í fyrradag til að athuga með gröftinn sem var að koma í augun á honum. Það var svipað og var þegar hann var veikur um daginn, læknirinn sagði að það væri sennilega aftur smá sýking og gaf honum lyf fyrir því og líka nýtt sterakrem fyrir útbrotin sem hann er með. Fór svo í gær í 10 mánaða skoðun, Daníel var akkúrat á lengdarkúrfunni en aðeins undir meðalþyngd. Annars gekk það allt bara vel.

Það sem er mest fjör núna er hinsvegar að standa upp við stóla, borð og í rúminu. Um leið og maður lætur Daníel á gólfið þá rýkur hann beint á næsta borð eða stól og fer að standa upp. Þetta tekst í svona 80% tilfella en í hinum 20% tilfella þá annaðhvort tekst honum ekki að standa upp eða hann skellur með hausinn utaní borðið eða gólfið. Hann verður örugglega kominn með fullt af kúlum á hausinn fljótlega. Þó hann meiði sig aðeins þegar hann dettur þá þarf bara að hugga hann í nokkrar sekúndur, svo rýkur hann aftur á borðið og fer að reyna að standa upp aftur. Þetta veldur því líka að það má ekki líta af honum eina sekúndu þegar hann er á gólfinu sem er mjög hressandi…