Monthly Archives: March 2006

Hitaleysi og horhjúpur

Í morgun var Daníel hitalaus. Ef hann helst hitalaus í dag þá fer hann til dagmömmunar á morgun. Þó svo hitinn sé farinn þá lekur horinn ennþá í lítratali! Það skemmtilega er svo að horinn fer í taugarnar á Daníel og hann fer alltaf beint með hendurnar í hann og nuddar honum yfir allt andlitið og hendurnar á sér. Síðan sér maður bara horhjúpaðan Daníel og þarf sífellt að vera að þvo honum í framan. Karen er orðin nokkuð hress og fór í vinnuna í gær og í dag en ég er ennþá með smá hita og hálsbólgu, þannig að ég verð heima í dag en geri ráð fyrir að fara að vinna á morgun. Það verður mjöööööööög gott, 5 dagar af veikindum eru meira en nóg!

Sýking

Jæja þó svo að læknirinn frá læknavaktinni fann ekkert athugavert við Daníel í morgun þá var okkur samt ekki rótt. Þegar ég kom heim í hádeginu til að taka við vaktinni af Einari þá var Daníel kominn með 40,4 stiga hita þrátt fyrir að hafa nýlega verið búinn að fá stórann skammt af hitalækkandi lyfi. Svo var hann líka að anda ótt og títt og komið mikið slím í augun. Ég fór beint í það að hringja útum allann bæ (fannst mér) með Daníel organdi í einni hendinni og símann í hinni. Ég vil hér með lýsa rosalegri óánægju með 118 eða “Já” eins og það heitir víst. JÁ-SMJÁ segi ég! Þessi gagnslausa þjónusta gerði ekkert annað en að eyða tíma mínum meðan að sonur minn þjáðist með því að svara ekki í símann eða hreinlega að það slitnaði sambandið hvað eftir annað! Þar sem ég átti erfitt með að leita að númerum á netinu vegna fyrrgreindra aðstæðna þá þurfti ég að treysta á minnið og endaði á að hringja í aðalnúmerið á landsspítalnum og bað um að fá samband þaðan við bráðamótöku barna á Hringnum. Þar var fólkið mjög almennilegt og sagði okkur að koma með hann niður eftir. Þannig að Einar stoppaði stutt uppí Kópavogi og við rukum af stað uppá spítala. Þar var Daníel mældur í krók og kima, tekin röntgen og blóðprufa og skoðaður á alla kanta!

Niðurstaðan var að Daníel er með sýkingu í nefgögngunum eða þarna á bakið þannig að allt er stíflað. Svona lítil kríli eru víst ekki komin með almennilega þroskaðar kinnholur og ráða illa við mikið kvef. Þess vegna var farinn að koma gröftur í augun. Það mældist líka eitthvað bólguefni í blóðinu sem studdi þessa sjúkdómsgreiningu. Þannig að við vorum send heim með uppáskrift fyrir sýklalyfjum og nú vonum við bara það besta. Það er óhætt að segja að síðustu dagar eru búnir að taka mikið á þessa fjölskyldu en þó einna mest á þann litla sem má minnst við því.

Ennþá hiti

Í morgun var Daníel ennþá með hita og hann var kominn yfir 40 stig. Við hringdum á læknavaktina og þau sendu lækni hingað. Hún sagði að Daníel væri kominn með flensuna sem væri að ganga og þá mætti alveg búast við hita í 6-7 daga! Við eigum bara að halda áfram að gefa honum hitalækkandi og nóg að drekka. Við spurðum lækninn líka útí naflaslitið hjá honum og hún benti okkur á barnaskurðlækni sem við eigum að tala við útaf því. Við erum semsagt að fara í tíma hjá honum í næstu viku. Hún sagði okkur líka að görnin gæti klemmst útí naflaslitinu og þá þyrfti að fara með hann undireins uppá bráðamóttöku. Þannig að við vonumst bara til að þessi barnaskurðlæknir geti gert við þetta sem fyrst.

Þrjár flugur í einu höggi

Það hlaut að koma að því að við yrðum öll veik í einu. Þetta byrjaði í dag þegar Einar var slappur í maganum um hádegi og svo stuttu seinna mældist Daníel með hita. Þegar svona var komið þá ákvað ég að hætta við boðið sem ég ætlaði að halda á morgun. Það reyndist vera hárrétt ákvörðun því stuttu seinna var ég líka orðin slöpp. Ég er með gubbupest og Daníel er með hita og Einar er með einhverja skemmtilega og hressandi blöndu af þessu tvennu.
Við fórum að sofa stuttu á eftir Daníel í kvöld eða semsagt kl. hálf 9, þess vegna er ég líka vakandi núna!

Ég vona að við verðum öll betri á morgun af þvi að þetta er bara fáránlegt ástand hérna. Í kvöld vorum við að skiptast á að hlaupa á klósettið meðan að hitt reyndi að hafa ofan af fyrir Daníel sem stóð sig samt eins og hetja. Mig grunar að Daníel sé ekki með gubbupest af því að hann borðaði grautinn sinn með bestu lyst í kvöld meðan að bæði ég og Einar þurftum að gubba meðan að á máltíðinni stóð.

Slagsmál!!!

Þegar ég fór að sækja Daníel í dag til dagmömmunar var hann með stórt rautt klór niður alla kinnina! Þá kom í ljós að einhver lítill ofbeldishrotti hafði klórað hann! Ég sá ofbeldismanninn og fór strax að hugsa um hvernig ég gæti hefnt fyrir Daníel. Datt fyrst í hug að segja stráknum að fara að hlaupa með skæri eða eitthvað en síðan sá ég að mér, ég er nú sæmilega þroskaður og fullorðinn maður og á víst ekki að hefna mín á smábörnum. Auk þess er miklu betra að gera það seinna, þegar hann á síst von á því!

En allavegana, við fórum og keyptum græðandi og sótthreinsandi krem og bárum á þetta. Nú verða allar tilraunir til að kenna Daníel að segja “mamma” settar á pásu, fyrst verðum við greinilega að kenna honum að berja frá sér!

Duglegur Daníel!

Fór með Daníel til læknis útaf útbrotum sem hann var með á kroppnum og læknirinn sagði að þetta væri bara exem eða m.ö.o. viðkvæm húð. Fékk stera-krem fyrir kroppinn og svo annað krem fyrir bossann á honum sem reyndist ekki vera til neinstaðar á landinu nema á Raufarhöfn og Höfn! Hann er strax orðinn betri og um leið miklu hressari og skapbetri 😉

Þessa dagana gerum við ekki annað en að eltast við litla gaurinn útum alla íbúð þar sem hann er allt í einu farinn að “þora” að flakka um einn. Fyrst þegar við settum hann á góflið að skríða þá vildi hann bara koma til okkar og oft fylgdi mikið táraflóð með En um leið og Daníel fór að skríða svona mikið eignuðumst við nýja skúringavél! Þannig er að hann slefar svo svakalega og svo þurkar hann það upp og gólfið um leið með maganum þegar hann skríður. Það er best að fara að taka sig á í þrifunum því fötin hans hafa því miður borið merki um slæma húsmóðurshæfileika mína.

Daníel er líka búinn að læra að toga sig upp við stól, borð, sófann og í rauninni hvað sem er. Það er líka mjög gaman að standa núna og dúa og dilla rassinum og svo auðvitað reynir hann að fikra sig meðfram því sem hann stendur við en með misjöfnum árangri. En Daníel er duglegur, þegar hann dettur þá reynir hann bara um leið aftur! 🙂 En um leið og þessi aukni hreyfanleiki kom til sögunnar þá hafa slysagildrurnar aukist um 300% hérna á heimilinu. Til þessa hefur hann næstum því togað heila þvottagrind ofan á sig og rafmagns gítarinn, var á góðri leið með að stinga puttunum í innstungu og hefur hrunið einu sinni fram úr rúminu. Þannig að helst í gær ættum við að vera búin að kaupa hlífar á öll horn og öryggislok á allar innstungur og fjöltengi og það verður gert strax á morgun. Annars erum við búin að vera dádlið upptekin í fasteignaleit undanfarið og það gæti verið að við séum komin með eina í sigtið en meira um það seinna 8).

Útbrot

Jæja, litli gaurinn þarf bara að fara til læknis í dag. Hann er búinn að vera með útbrot núna í nokkra daga, héldum fyrst að það gæti verið útaf Vicks kreminu sem við settum á bringuna á honum en þetta hefur ekkert batnað þó við hættum að nota það. Erum búin að reyna að bera Mildizon krem á þetta í nokkra daga en virðist ekkert hjálpa. Þetta eru svona rauðir flekkir og svo er húðin svona hálfgróf sumstaðar 🙁 . Vonandi getur læknirinn bent á eitthvað krem eða eitthvað til að laga þetta. Annars er hann líka kominn með niðurgang aftur, gáfum honum soyamjólk í gær í staðinn fyrir stoðmjólk og hann þambaði hana eins og vitlaus maður. Þá kom í ljós að hún var díííísæt þannig að hann var bara mjög sáttur! En já, vonandi fer þetta allt að batna, og fljótlega reynum við að ná myndum af efri tönninni sem er komin og setja inn á netið.

Áframhaldandi skrif

Jæja þið segið nokkuð! Það virðist vera áhugi fyrir áframhaldandi skrifum um litla pjakkinn okkar. Við getum víst heldur ekki verið að bregðast öllum “útlendingunum” okkar. Við munum reyna að skrifa hérna áfram reglulega þótt það muni kannski líða dáldill tími á milli. Ég hvet ykkur líka til að commenta eða skrifa í gestabókina. Svo væri nú líka gaman ef EINAR myndi skrifa endrum og eins hérna inná síðuna hjá eina barninu sínu!

Annars er Daníel veikur núna eina ferðina enn og í þetta skipti er það kvef og hósti. Litla greyið getur lítið sofið á nóttunni vegna hósta og óþæginda. Við fengum okkur í dag eukalíptus dropa til að setja á koddann og vonandi munu þeir létta honum öndunina.

Sögulok

Jæja það er komið að sögulokum. Við erum að spá í að hætta með síðuna eða allavegana að hætta að skrifa inná hana og dæla myndum. Það er svona mesta nýjabrumið farið af þessu og heimsóknum hefur fækkað jafnt og þétt. Við þökkum öllum þeim sem hafa fylgst hérna með Daníel og okkur foreldrunum síðan í júní og hafði það sem allra best. En þetta eru ekki endalokin, við erum með tæki sem er kallað sími (meir að segja þrjá!) og fólk notar þetta til að eiga samskipti. Svo þið auðvitað alltaf velkomin í heimsókn ;).