Monthly Archives: December 2009

Sterk lungu!

Ellen er mjög hávær, vægt til orða tekið. Veit ekki hvaðan hún hefur þessi sterku lungu og kröftugu rödd en maður fær óspart að heyra hana t.d. við matarborðið, á skiptiborðinu og þegar krakkarnir eru að leika. Daníel verður meira að segja skelkaður þegar Ellen rekur upp öskur þegar henni er gert eitthvað á móti skapi.

En litla kellingin byrjaði að reisa sig upp sjálf og standa fyrir nokkrum dögum. Þetta finnst henni mjög skemmtilegt og ekki verra þegar við erum öll að hvetja hana áfram með klappi. Þá stendur hún oft upp sjálf og byrjar að klappa líka. Þetta kallar fram gríðarleg afbrýðisköst hjá Daníl sem segir líka sjálfur vel kunna að standa og heimtar að við hrósum honum líka. Í framhaldi af þessu þá erum við að reyna að fá hana til að byrja að labba en Ellen hefur engann áhuga á því og hún vill ekki einu sinni að við reisum hana upp heldur vill hún sjálf gera þetta allt. Það er í gangi veðmál milli okkar Einars hvort hún mun læra að ganga fyrir eða eftir áramót og ég sagði fyrir. Ég vona bara að hún fari að drífa í því að taka þessi fyrstu skref fyrir mömmu sína því annars lendi ég í því að þurfa að gera eitthvað heldur pínlegt.

Jólin komu og fóru og voru hvít í fyrsta skipti í 14 ár hér í Danmörku. Allt fór að óskum nema að þessi dýrindismatur sem við Einar höfðum á aðfangadag féll í grýttann jarðveg hjá börnunum. Í forrétt var rækjubrauðréttur sem var neitað að smakka. Í aðalrétt var fyllt önd með hnetu og döðlusósu og Daníel var hreinlega að kúgast við að borð hana! Jólamaturinn hjá þeim báðum var því banani! Þau fengu síðan fullt,full af pökkum eins og við var að búast. Flottasti pakkinn var Flexitrax bílabraut frá okkur foreldrunum. Daníel lék sér að þessu næstum öll jólin og það hefur þurft að draga hann í burtu frá þessu oftar en einu sinni til að gera hin daglegu verk eins og að þvo sér og borða. Annars er allt gott og nú hlökkum við bara til áramótanna saman í jólafríi 😀

Í lokin þá er Ellen komin með 5 tennur og núna í dag vorum við búin að uppgötva að fyrstu jaxlinn er kominn í gegn vinstra megin uppi enda skemmtileg nótt að baki .

Desember í Danmörku

Íslensku jólasveinarnir eru komnir til Danmörku og Daníel er mjög spenntur fyrir þeim. Það var búið að telja niður dagana fram að 11. þegar Stekkjastaur átti að koma og nú lesum við á hverju kvöldi um þann jólasvein sem á að koma um nóttina í jólasveinabók sem Hrefna amma sendi honum. Við foreldrarnir erum duglegir að minna gaurinn á að jólasveinar vilja að börn séu þæg því annars fái þau kartöflu í skóinn. Daníel er nú ekki búinn að fá neina kartöflu ennþá en fékk gulrót í nótt, sem er svona millistig milli kartöflu og einhvers meira spennandi. Hann er líka búinn að reyna að leika á jólasveininn með því að setja þrjá skó útí glugga og var soldið svekktur að mamma hans skyldi taka tvo af þeim í burtu.

Núna á föstudaginn lenti hann svo í smá slysi í leikskólanum, datt með hausinn á ofn og þurfti að fara á skadestuen og láta sauma tvö spor í hnakkann á sér. Hann stóð sig samt eins og hetja þegar verið var að sauma og saumarnir verða svo teknir út næsta föstudag.

Ellen er svo að verða eins árs eftir 5 daga. Hún er byrjuð að kunna nokkur orð, mamma, baba (pabbi), da (Daníel) og tssss (kisa).  Þannig að hún getur spjallað við alla fjölskyldumeðlimi. Hún er líka nýlega byrjuð að sofa einn lúr á daginn í staðinn fyrir tvo. Það hefur gengið svona misvel, stundum hefur hún fengið tvo lúra af því að það hefur ekki verið mögulegt að halda henni vakandi en það er að venjast að hafa þetta bara einn lúr. Við höfum verið að reyna að kenna henni að labba svolítið en hún er bara alls ekkert spennt fyrir því, er bara mjög ánægð með að skríða um allt. Hún er líka farin að taka uppá því að reyna að flýja þegar hún veit að hún er að gera eitthvað sem má ekki. Þegar hún sér að maður er að koma að taka eitthvað af henni þá allt í einu fer hún að hlæja og skríður í burtu eins hratt og hún getur.

Annars er bara allt gott að frétta af okkur, afmæli á næstu dögum og svo höldum við okkar önnur jól hérna í Danmörku.

Þessi börn….

“mamma, þú ert ekki gömul!”

“nei, ég er það ekki”

“þú ert ekki gömul af því að þú ert ekki orðin svona skrýtin í framan…..!”

Það er gaman að sjá hvað litli gaurinn er að hugsa. Það fer heldur ekkert framhjá honum og hann heyrir hvert orð sem við Einar segjum okkar á mili. Um daginn var ég að uppgötva að Einar hennti glænýrri og rándýrri ullarhúfu af Daníel í þvottavélina(!!!) Ég sagði síðan seinna við Daníel að við þyrftum að kíkja við í búð og kaupa aðra húfu. “Er það af því að pabbi þvoði húfuna mína í þvottavélinni og eyðilagði hana?!?” Hann er líka komin með fyrstu kærustuna sína sem heitir Caroline og við erum oft samferða úr leikskólanum. Þau fá alltaf að hlaupa saman og skiptast á að gefa hvort öðru eitthvað að narta í. Stundum leiðast þau og stundum halda þau utan um axlirnar á hvort öðru sem er samt dáldið erfitt þar sem Caroline er mun hærri en Daníel litli. Hún er meira að segja búin að kyssa hann pínu og Daníel fer þvílikt hjá sér!!! Við mömmurnar horfum alveg dáleiddar á þetta og brosum útí eitt 😀

Ellen er (finnst mér) alltaf jafn erfið viðureignar. Mér finnst bara að það sé alltaf eitthvað að hjá henni. Ef það eru ekki matarmálin þá eru það svefnmálin, eða veikindin eða tennur og þannig mætti lengi telja. Ég bíð eftir því að hún komist inná vöggustofu því við þurfum báðar á því að halda. Í millitíðinni förum við tvisvar í viku á innileiksvæði sem er ætlað börnum 0 til 3gja ára á þriðjudags og fimmtudagsmorgnum. Hún hefur svo gaman af því að um leið og við erum komin inn þá er hún búin að gleyma mér og arkar af stað.  Hún er ansi ákveðin þessi litla dama og hefur sterk og góð lungu eins og hefur sýnt sig. En hún er mjög ólík bróður sínum á þann hátt að ef eitthvað fer ekki eins og hún sá það fyrir þá verður hún ekki reið og fer að grenja (eins og sumir) heldur finnur nú yfir leitt aðra lausn t.d. aðra leið til að klirfa uppá eitthvað eða annan bolta ef einhver tekur af henni þennan sem hún er með.