Monthly Archives: August 2009

Bíóferð

Í dag fór Daníel í fyrsta sinn í bíó. Við fórum tveir saman að sjá mynd um Pedersen og Findus í Falkoner Biografen. Við spurðum Daníel í morgun hvort hann langaði að fara á bíó og útskýrðum hvernig það væri og hann var mjög spenntur. Við fórum svo og ætluðum að kaupa miða bara áður en við færum inn og fengum síðustu tvö sætin! Danir panta yfirleitt miða fyrirfram og sæti eru númeruð þannig að það borgar sig að plana soldið áður en maður fer á bíó. Það var svakalega mikið af auglýsingum á undan myndinn um aðrar barnamyndir og allskonar skemmtigarða. Svona 20 mínútur af auglýsingum. Þegar það voru búnar svona 70 mínútur af myndinn var Daníel búinn að fá nóg og langaði bara að fara. Hann hefði örugglega horft á alla myndina ef það hefðu ekki verið svona margar auglýsingar fyrst. En hann var samt hæstánægður með bíóferðina og sagði öllum eftirá að hann hefði verið á “alvörubíó, ekki fjölskyldubíó”. (Fjölskyldubíó er þegar við horfum öll saman á vídeo).

Ellen María er líka rosa hress þessa dagana. Hún er reyndar að gera okkur foreldrana vitlausa með því að neita að borða alla fínu grautana sem við höfum keypt handa henni. Hún borðar samt ágætlega ef maður gefur henni brauðmola eða bananabita. Hún virðist bara ætla að fara beint úr mjólk í fastan mat. Hún er líka mjög aktíf og getur ekki verið kyrr eitt andartak, heldur fer strax að skríða útum allt ef hún er látin niður á gólf. Í gær var hún með mér og Daníel inní hans herbergi og ég var ekki að horfa á hana. Síðan leit ég við og þá stóð hún bara upp við bókahilluna! Bara alveg á tveimur fótum og hafði komist þangað alveg sjálf. Við erum líka að byrja að venja hana af því að drekka á nóttunni núna með því að gefa henni bara vatn. Fyrsta nóttin af því var núna síðustu nótt og gekk sæmilega. Nú vonum við bara að næsta nótt gangi aðeins betur.

Loksins fyrsta tönnin!

Fór í dag á ströndina í Klampenborg með börnin og Annette og Thomas & co. Á leiðinni til baka í lestinni var Ellen að bíta mig í hnúgana eins og venjulega þegar ég fann allt í einu eitthvað skarpt rispa mig. Þá var þarna á ferðinni fyrsta tönnin sem við erum búin að bíða svo lengi eftir. Ellen er líka búin að vera á höndum síðustu daga stanslaust, þannig að ekki nema von að eitthvað var að brjóstat upp. Núna vona ég bara að þær fari að koma upp ein af annari á næstu vikum.

Daníel er búinn að eiga í smá erfiðleikum í leikskólanum og neitar að fara á hverjum degi. Þetta er meira að segja farið að ganga svo langt að kvöldið áður er hann farinn að finna upp á veikindum sem eiga að koma í veg fyrir að hann geti farið í leikskólann daginn eftir. Í gær sagði hann t.d. að hann væri orðinn  veikur og mætti þess vegna ekki fara út og gæti ekki farið í leikskólann. Þegar ég sótti hann í gær eftir rúmlega 5 tíma leikskóladvöl þá var hann í fanginu á einni fóstrunni mjög leiður og var bara að bíða eftir að ég sótti hann. Hann fékk því að vera í fríi í dag en ég ætla að sjá til á morgun. Hann kvartar sérstaklega undan einum strák sem heitir Emil og segir að sá strákur sé alltaf að segja að hann megi ekki vera með. Ég hef áður heyrt kvartanir undan þessum strák og þá sagði Daníel að hann væri að slá sig. Þegar ég bar þetta upp við leikskólann þá, neituðu þeir að ræða mál einstakra barna við mig! Greinilegt að ég þarf að láta í mér heyra aftur þarna því það er augljóslega verið að leggja Daníel vísvitandi í einelti. Veit ekki hvað við eigum að gera annað en að reyna að ráðast á vandann og kannski þá mögulega skipta um hóp. Get ekki hugsað mér að láta hann skipt enn einu sinni um leikskóla, nóg er nú fyrir. Daníel talar líka mikið um að honum langi að fara heim til Íslands í gömlu íbúðina, bara ef það væri nú hægt.