Monthly Archives: April 2007

Leikskóli og svefn

Daníel er alltaf að verða skemmtilegri og skemmtilegri með hverjum deginum. Það er alltaf að bætast við orðaforðann og skilningurinn er orðinn mjög góður. Við fengum tilkynningu fyrir páska um að eftir Daníel biði pláss á leikskóla  og erum við Einar að fara að kíkja á leikskólann á mánudaginn næsta. Mér tókst víst að klúðra aðeins leikskólaumsókn Daníels og sótti ég um Hamraborg í staðinn fyrir Klettaborg. Maður hefði haldið að Hamraborg væri í Hamrahverfi en svo er víst ekki heldur er Hamraborg í Grænuhlíð í Hlíðahverfi (sennilega eitthvað tengt við Hamrahíð?). En allavegana þá er Daníel semsagt kominn með pláss þarna sem er svo sem allt í lagi. Ég nenni varla að vera að standa í því að breyta þessu þar sem þetta er hvort sem er í leiðinni í vinnuna til mín og þar sem Daníel byrjar ekki á leikskólanum fyrr en Einar verður farinn út þá fellur það hvort sem er í minn hlut að sjá um að alla keyrslu til og frá.

Daníel virðist hafa farið mjög mikið fram í svefntækni sinni við að fá að vera í pössun hjá ömmu og afa meðan að við vorum í Amsterdam. Ég hef aldrei vitað til þess að hann hafi sofið eins vel og hann gerir núna. Hann byrjar á því að sofna í sínu herbergi og síðan fljótlega uppúr miðnætti kemur hann yfir til okkar. Hann kemur alltaf mín megin og vekur mig og segir “kúúúúúúúraaa….mamma kúúúúúúraaaaaaa” þá tek ég hann yfirleitt hálfsofandi uppí rúm til mín með einu handtaki. Þegar hann kemur uppí þá virkilega SEFUR hann! Ekki þetta endalausa brölt eins og maður er svo vanur. Þetta er búið að ganga svona alla vikuna og ég ætla varla að trúa þessu. Það er ekki einu sinni hægt að treysta á að hann veki okkur tímanleg lengur og þegar klukkan hringir þá vill minn yfirleitt lúlla lengur!!! Ég get varla beðið eftir laugardagsmorguninum, hver veit nema að við fáum öll að lúlla saman til kl.8???