Monthly Archives: May 2012

Vor

Vorið er komið hérna í Danmörku með endalausum frídögum. Store bededag, Kristi Himmelfarts dag, 2. pinsedag, grundlovsdag. Það eru frídagar í næstum hverri viku, sem lætur tímann líða ennþá hraðar en venjulega.

Ellen er orðin duglegri að fara á leikskólann á morgnana. Það hefur verið erfitt fyrir Karen að skilja hana eftir á morgnana, en nú er komin venja að hún fær að halda í hendina á einhverjum fullorðnum þegar Karen fer og þá er hún sáttari. Hún leikur heilmikið með eldri stelpunum á leikskólanum og er almennt mjög sátt við leikskólann, fyrir utan morgnana. Hún lenti í smá slysi útí garði fyrir nokkrum vikum, var að leika sér í grindunum sem eru þar, en datt framfyrir sig og fékk högg á efri vörina. Fór að hágráta og vörin stokkbólgnaði, og svo á næstu dögum á eftir kom í ljós að önnur framtönnin er dauð, og er núna orðin mjög dökk. Leiðinlegt, en svosem ekkert við því að gera.

Daníel er mjög duglegur í skólanum, duglegur að lesa og sérstaklega duglegur í stærðfræði. Hann er oft að pæla í öllu mögulegu, spyr t.d. uppúr þurru “Pabbi, hvað eru 5 sinnum 15”? og margt fleira. Hann er líka búinn að vera í skáknámskeiði í skólanum og hefur gengið vel þar. Allt svona lógískt virðist liggja vel fyrir honum, stærðfræði, skák, Sudoku o.s.fv. Hann fékk nýja súpertöffaraklippingu fyrir nokkrum, svona feitan hanakamb og er hæstánægður með hana. Karen rakar reglulega hliðarnar til að halda því við. Strákarnir í skólanum ætluðu varla að trúa því að mamma hans gæti gert svona töff klippingu og voru mikið að spurja hvað það hefði kostað 🙂