Monthly Archives: March 2009

Vor og viðsnúningur

Þá er Ellen María búin að fara í fyrstu flugferðina sína og líkaði það svo svakalega vel að hún vildi sem minnst sofa báðar leiðir, móður sinni til mikillar gleði. Afi og amma á Há-ó voru að vonum rosalega glöð að sjá litlu og fyrstu ömmustelpuna sína og tóku varla eftir burðarfólkinu sem fylgdi með (ég og Tommi). Það var svo mikið dáðst að stelpunni en allt í einu kviknaði ljós og við vorum boðin velkomin líka 😀 Því miður var ég veik mest alla ferðina og Ellen skynjaði þreytuna í mér og eins breytt umhverfi og svaf því lítið sem ekkert. Það breyttist hins vegar um leið og við komum heim.

Núna er “venjulegur” dagur hjá okkur ca. svona: Förum á fætur kl. 7 og höfum okkur til. Síðan fer Ellen í vagninn kl.08.10 og við fylgjum Daníel á leikskólann. Svo er Ellen sett í garðinn í vagninum þegar við komum heim og sefur þar til ca.11. Svo tekur hún hálftíma til klukkutímalúr inni og svo fer hún aftur út í vagn ca.14 og þar til við sækjum Daníel í leikskólann hálf 4. Þessir lúrar ganga auðvitað misvel og Ellen viðist, eins og flest önnur börn, finna á sér hvenær er óhenntugast fyrir okkur foreldrana að hún vakni t.d. alltaf þegar ég sest við matarborðið.

Ellen María er alltaf meira og meira að skoða allt í kringum sig og já meira en bara veggmyndirnar. Hún fylgir okkur eftir þegar við löbbum framhjá henni og það nýjasta er að hún er byjuð að snúa sér. Hún byrjaði á því að snúa sér af bakinu yfir á magann í fyrradag en það var reyndar smá svindl því hún var uppí hjónarúmi. Svo fór ég að prófa að láta hana velta sér af maganum yfir á bakið og þökk sé risahausnum, sem hún erfið frá ónefndu foreldri, gengur það mjög vel. Hún er líka orðin rosalega góð í að liggja á maganum og hætta að tryllast þegar ég legga hana á hann.

Daníel er búinn að vera að reyna hressilega á uppeldishæfileika okkar og þolinmæði síðastliðna daga. Hann er búinn að vera gjöramlega á haus og að gera okkur klikkuð. Það eru allir að segja okkur að hann sé að láta reyna á mörkin og bla bla bla já og honum gengur það bara svona svakalega vel. Það er ótrúlegt hvað maður leyfir honum að tjúna sig mikið upp og hann gjörsamlega gerir í þess t.d. með því að svara okkur ekki og segjast líka vel við að vera í skammarkróknum, hverju svara maður þá??? Hann er reyndar búinn að vera að þjást af þrálátri eyrnabólgu greyið og fékk loksins rör í eyrun í gær. Það var mjög óhuggnalegt að sjá hann svæfðan og líka þegar hann var að vakna því hann var svo ólíkur sjálfum sér en samt fljótur að jafna sig. Fljótlega eftir aðgerðina sagði hann “mamm, þú talar svo  hátt!” og svo beint á eftir “ég heyri svo hátt”. Vonandi að honum líði betur og það kæmi mér ekki á óvart að þessi veikindi séu búin að vera að hafa áhrif á skapið hjá honum. Núna bind ég sterkar vonir við að við getum farið að vinna í því að leiðrétta talið hjá honum enda er hann farinn tala svo óskýrt að það erum bara við foreldrarnir sem skiljum hann.