Monthly Archives: October 2009

Gullkorn og 10 mánaða

“Þegar þú kemur heim eftir leikskóla þá þarftu að taka til í herberginu þínu Daníel”

“Afhverju?”

“Afhverju?!? Af því að það er allt í drasli og það er ljótt svona”

“En herbergið þitt er allt í drasli líka! Það er fullt af fötum á gólfinu….”

Þarna var ég alveg orðlaus sama hvað ég reyndi. Litli gaurinn skaut mér algjörlega ref fyrir rass þannig að ég gat ekki annað en farið í hjónaherbergið og byrjað að vinna í því. “Do as I say, not as I do” var mér helst í huga en maður á nú að vera góð fyrirmynd og svona…… Úff, þetta var eins og að fá högg í magann! Annars er Daníel því miður lítið að fara fram í talinu og við orðin dáldið ráðþrota varðandi það. Ætlum að athuga hjá Jónshúsi eitthvað í sambandi við íslenskuskólann en kannski ekki stórar líkur á að hér leynist íslenskur talþjálfi. Danskan gengur vel og hann er búin að aðlagast betur dönsku krökkunum í leikskólanum og talar oft um hina og þessa hérna heima. Í síðasta mánuði var hann í sérstöku sprogtest sem er gert á hálfsárs fresti til að fylgjast með framförum hjá honum og þróun í læra málið og það kom nokkuð vel út. Hann kann líka orðið Þónokkuð af dönskum lögum og að telja uppí 30 og alla vikudagana og margt fleira.

Ellen er orðin 10 mánaða og loksins er farið að birta til í öllum hennar málum. Þegar ég hugsa þetta til baka þá finnst mér nánast eins og maður sé búinn að standa í erfiðleikum með hana allt frá því hún hætti svona skyndilega á brjósti 4 mánaða. Það tók mánuð fyrir mig að átta mig á þeirri breytingu og þega það var komið þá hætti hún að vilja næturgjöfina líka og byrjaði að sofa illa. Þá ákváðum við að byrja að reyna að gefa henni að borða sem gekk vægast sagt illa og svo varð hún veik í nokkrar vikur. Uppúr 6 mánaða héldum við áfram að reyna að gefa henni að borða og blönduðum dýru lífrænu mjólkina með grauti til að hún fengi meiri fyllingu í magann og svæfi betur en allt kom fyrir ekkert.  Svefnlaus vorum við áfram fram til á 8 mánuð þegar við fengum hjálp frá hjúkrunarfræðingnum. Þá tók langt, langt tannatímabil við og við bættust 5-6 vikur af niðurgangi alla daga og stundum uppí 10-12 bleyjur á dag og líka á nóttunni! Maður þorði varla að hætta sér of langt að heimann. Ekkert fékkst úr læknisheimsóknum og ekki sló það á undirliggjandi áhyggjur af barninu. Við þetta bættist svo mikill aðskilnaðarkvíði þannig að maður hefur varla getað látið hana frá sér og ég orðin þrautþjálfuð í að gera flest með einni hendi. Svona til baka litið þá hefur þetta verið mjög strembið tímabil og það er ekki fyrr en núna nýlega að Ellen er farin að borða almennilega þó hún sé kræsin. Svefninn hefur lagast hjá báðum krökkunum (Daníel með martraðir) og ég held að við séum búin að ná upp svefni síðustu mánaða. Ég vona bara að við séum komin yfir það versta en það er svo sem búið að enduhlaða batterínin þannig að bara – bring it!

Ellen labbar meðfram öllu og fyrir 2-3 vikum lærði hún að vinka. Í fyrradag kenndi ég henni loksins að klappa og nú erum við að æfa fingurkossa 😀 Hún er líka duglega að benda með vísifingri á hluti sem hún vill fá t.d. vatn. Hún hlustar líka eftir nafninu sínu og kemur þegar ég  bið hana um að fylgja mér t.d. inní eldhús. Hún stoppar líka ef ég segi NEI en reynir auðvitað jafnóðum aftur.  Eins og áður þá er herbergið hans Daníels mest spennandi en nú er hún orðin það stór að hún getur klifrað uppí rúmið hans þannig að ekki er lengur óhætt að skilja hana þar eftrir. Þau systkynin eru líka byrjuð að leika meira saman og Daníel hefur alveg jafn gaman af systur sinni eins og hún af honum.

Á fimmtudaginn eru feðginin að fara í ferðalag til Belgíu að hitta Krumma frænda í fyrsta skiptið. Við Daníel ætlum að vera heima á meðan og okkur er búið að hlakka mikið til að fá að vera bara tvö saman 😀 Ég er búin að lofa Daníel að hann megi sofa uppí hjá mér allar næturnar og við erum búin að plana ferð í Tívolí og bíó!!! Nokkuð ljóst að þessir dagar verða nýttir til hins ýtrast enda veitir litla gaurnum ekkert af óskertri athygli.