Monthly Archives: October 2011

Viðkvæmur strákur

Daníel fékk að horfa á Garfield myndina í dag. Við kíktum á hana með öðru meðan við vorum að ganga frá og búa til mat. En allt í einu sagði Daníel að hann vildi alls ekki horfa á meira af myndinni og var í miklu uppnámi. Við spurðum hann hvað væri að og hann sagði okkur að hann vildi ekki horfa á mynd þar sem kötturinn væri að henda hundinum út og væri alltaf vondur við hann, og samt væri hundurinn alltaf góður við hann og hefði áhyggjur af honum. Hann fann mikið til með hundinum og var hálfgrátandi þegar hann var að segja okkur þetta. Við hugguðum hann, og sögðum að við gætum horft saman á restina eftir mat, og að kötturinn myndi örugglega læra að maður ætti ekki að haga sér svona. Síðan varð reyndar ekkert úr því þar sem Daníel var svo óþekkur að hann var sendur snemma að sofa.

Ellen byrjaði á leikskólanum í síðustu viku. Við vorum með henni fyrstu tvo dagana og svo var hún bara frá 9-4 hina þrjá dagana. Hún verður í skógarhópinum, en þau voru í bænum alla þessa viku. Á mánudaginn fer hún svo í skóginn í fyrsta skipti og þá fer Karen með henni. Hún er annars bara mjög ánægð með að byrja í leikskóla og líst vel á þetta allt saman. Við erum aðeins stressuð um hvernig það verði fyrir hana að vera alltaf í skóginum, sérstaklega þegar það er kalt og svona, þar sem hún verður stundum svo blá í framan, en við sjáum hvað gerist. Ef það gengur illa þá komum við henni í bæjarhóp.