Category Archives: Matur

Endalausar framfarir

Daníel er farinn að biðja um áfyllingar á mjólkina sína. Þetta gerist þannig að hann kemur með málið sitt inní eldhús (heldur á því eins og hundur í munninum) stansar hjá ísskápnum og horfir síðan uppá mann og teygir út höndina með glasinu. Ekki vitlaus strákur þetta, enda er það ástæðan fyrir því að það er komin barnalæsing á ísskápinn!!! Hann er svo svakalega snöggur að læra þessa dagana að maður hefur varla undan að finna uppá nýjum hlutum. Hann hermir eftir okkur villt og galið. Hann talar í símann eða fjarstýringar (þekkir ekki muninn enda mjög svipað ) greiðir sjálfum sér með kambinum og hermir eftir einstaka orðum og stundum jafnvel málrómnum þegar maður er að tala við hann.

Reyndar er Daníel búinn að vera eitthvað slappur í dag. Var með hita á miðvikudaginn og svo aftur í nótt og í dag. Hann var svo þreyttur eftir nóttina að við kúrðum uppí rúmi og sváfum til rúmlega 11 sem er algjört met hjá þessum gæja. Til að toppa þetta þá svaf hann í tæpa 2 tíma í eftirmiðdaginn þannig að það er greinilegt að þessi hiti er að þreyta hann ansi mikið. Vonandi hressist hann sem fyrst.

Nýjar myndir komnar inn!

Þrjár flugur í einu höggi

Það hlaut að koma að því að við yrðum öll veik í einu. Þetta byrjaði í dag þegar Einar var slappur í maganum um hádegi og svo stuttu seinna mældist Daníel með hita. Þegar svona var komið þá ákvað ég að hætta við boðið sem ég ætlaði að halda á morgun. Það reyndist vera hárrétt ákvörðun því stuttu seinna var ég líka orðin slöpp. Ég er með gubbupest og Daníel er með hita og Einar er með einhverja skemmtilega og hressandi blöndu af þessu tvennu.
Við fórum að sofa stuttu á eftir Daníel í kvöld eða semsagt kl. hálf 9, þess vegna er ég líka vakandi núna!

Ég vona að við verðum öll betri á morgun af þvi að þetta er bara fáránlegt ástand hérna. Í kvöld vorum við að skiptast á að hlaupa á klósettið meðan að hitt reyndi að hafa ofan af fyrir Daníel sem stóð sig samt eins og hetja. Mig grunar að Daníel sé ekki með gubbupest af því að hann borðaði grautinn sinn með bestu lyst í kvöld meðan að bæði ég og Einar þurftum að gubba meðan að á máltíðinni stóð.

Útbrot

Jæja, litli gaurinn þarf bara að fara til læknis í dag. Hann er búinn að vera með útbrot núna í nokkra daga, héldum fyrst að það gæti verið útaf Vicks kreminu sem við settum á bringuna á honum en þetta hefur ekkert batnað þó við hættum að nota það. Erum búin að reyna að bera Mildizon krem á þetta í nokkra daga en virðist ekkert hjálpa. Þetta eru svona rauðir flekkir og svo er húðin svona hálfgróf sumstaðar 🙁 . Vonandi getur læknirinn bent á eitthvað krem eða eitthvað til að laga þetta. Annars er hann líka kominn með niðurgang aftur, gáfum honum soyamjólk í gær í staðinn fyrir stoðmjólk og hann þambaði hana eins og vitlaus maður. Þá kom í ljós að hún var díííísæt þannig að hann var bara mjög sáttur! En já, vonandi fer þetta allt að batna, og fljótlega reynum við að ná myndum af efri tönninni sem er komin og setja inn á netið.

Orkudrykkir, vinna og ný kerra

Ég hafði samband við heilsugæsuluna þar sem ég var farin að hafa áhyggjur af þessu mallaveseni hans Daníels. Hjúkkan sagði mér að þetta gætir verið komið í einhvern vítahring og að hann vantaði sennilega öll steinefni og að ég ætti að gefa honum einhvern ORKUDRYKK! Hún var að meina gatorade eða powerrade sem eru fljót að vinna upp vökvatap. Ég ræddi þetta fram og til baka við hana en hún sannfærði mig um að þetta væri allt í góðu og ég ætti líka að gefa honum LGG fyrir gerlana. Jæja, ég fylgdi þessum ráðum enda komin frá fagmanneskju og fór og verslaði þetta. Fór svo heim og hugsaði að það væri eins gott að þetta myndi virka. Það er ekki hægt að segja annað en að Daníel var hrifin af orkudrykknum en það var ekkert í líkingu við þegar hann prófaði LGG-ið! Guð, minn góður! Ég var fljót að átta mig að ég hafði opnað fyrir flóðgátt og Daníel var ekki síður hrifinn af umbúðunum en innihaldinu. Svo seinna um kvöldið er ég að taka til eftir kvöldmatinn og tek flöskuna og þá bara alveg tryllist Daníel og róast ekki fyrr en ég gef eftir og læt hann fá hana. Staðan í dag er sú að ég er búin að fela LGG-ið aftast í ískápnum og planið er að við Einar drekkum þetta þegar Daníel er farinn að sofa á kvöldin!

Annað sem er nýtt hjá okkur er það að ég er búin að skrifa undir starfsamning hjá Landsbankanum og er að fara að byrja að vinna núna á þriðjudaginn. Deildin sem ég er að fara að vinna í heitir varsla og viðskiptaumsjón og er staðsett í Hafnarstræti 7 og vinnutíminn er sveigjanlegur milli 8 og 18. Starf mitt mun felast í því að sjá um nokkra lífeyrissjóði sem eru í þjónustu hjá bankanum,bókhald og skýrsur og fleira spennandi. Þetta er vel launað og það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég kom út eftir að hafa verið búin að skrifa undir var: “Nú ætla ég að kaupa nýja kerru handa Daníel!” Þannig að ég skundaði niður í Smáralind og kom út með þessa fínu kerru. Hún verður notuð til að ferja Daníel yfir til dagmömmunnar á morgnana og svo sækir Einar hann um eftirmiðdaginn.

Þannig að við erum bara mjög hress og nú ætlum við að herða á róðrinum varðandi íbúðarmálin og ég held að við séum eiginlega búin að ákveða Fossvogin sem framtíðar aðsetur.

Jæja, þarf að fara að vekja Daníel. Við erum að fara í 8 mánaða skoðun og sprautu núna í hádeginu.

Byrjaður hjá dagmömmu

Við Daníel byrjuðum á mánudaginn hjá Ingu dagmömmu. Við byrjuðum bara rólega og erum bara búin að vera ca. 2 tíma á dag og ég hef skroppið aðeins frá til að leyfa þeim að vera einum. Í dag fór ég svo frá í tæpa 2 tíma og Daníel var bara alsæll allann tímann, ég er greinilega ekki eins ómissandi eins og ég vil halda! Þannig að á morgun er planið að fara hálf 9 og vera fram á hádegi. Svo vonandi verðu hann farinn að geta verið allann daginn í næstu viku kannski og þá ætla ég að fara í atvinnuleit.

Annars vorum við Sandra í dag að láta okkur dreyma um að geta farið út í göngutúr með vagninnn en það er ekki glæta meðan að snjóruðningstækni Reykjavíkurborgar er ekki betri en þetta. Hérna kemur dæmi: maður sér vel rudda gangsétt og fylgir henni en síðan af einhverjum ástæðum hefur snjóruðningsmaðurinn ákveðið að hætta að skafa snjóinn 3-4 metra og byrja svo aftur. Annað dæmi er að þegar komið er að götu eða gatnamótum þá er búið að ryðja snjónum af götunni uppá gangstéttina þannig að maður þarf að klífa yfir skaflana til að komast yfir. Getur einhver ímyndað sér hvernig það er að reyna að reyna að komast leiðar sinnar með barnavagn í þessari færð eða hvað þá með gamla fólkið??? Sem betur fer var Sandra með mér og saman HÉLDUM VIÐ Á VAGNINUM yfir verstu kaflana. Fáránlegt, verð fegin þegar snjórinn verður farinn.

Það eru endalausar framfarir hjá Daníel. Hann er farinn að sitja í lengri tíma að leika sér óstuddur og hann getur staðið með ef hann nær taki á einhverju. Svo er Daníel byrjaður að borða brauð með smjöri og kæfu í litlum bitum og fisk með kartöflum og gulrótum og ofan á er hann byrjaður að borða kjúkling og lamb. Næsta skref í matarmálunum er að prófa þorsk og brún hrísgrjón.

Stofufangelsi

Daníel í leikgrindinniDaníel er búinn að sýna það og sanna að það þarf ekki að kunna að skríða til að komast frá A til B. Ég er orðin frekar þreytt á því að eltast við litla gaurinn út um alla stofu og sjá hann vera að reka sig í allt sem verður á vegi hans þannig að við ákváðum að taka fram leikgrindina sem er búin að vera að bíða þolinmóð útí geymslu. Daníel var nú ekkert rosalega ánægður með litla litríka fangelsið sitt í fyrstu en er núna tvímælalaust búinn að uppgötva kostina við að leikföngin sleppi aldrei frá honum. Ég er rosalega ánægð með þetta þar sem að ég slepp við að vera alltaf að hlaupa til og svo er þetta rosalega flott leikgrind sem litlu frændur mínir áttu.

Nú er Daníel búinn að komast uppá lagið með að sitja eða svo gott sem. Hann er nú frekar valtur ennþá greyið en hann er þó að reyna og er hættur að spenna sig svona svakalega. Það kemur þó oft fyrir að hann reyni að lokum að spenna sig því það er fátt eins skemmtilegt og að standa í lappirnar enda er hann orðinn nokkuð stöðugur.

Tennurnar halda áfram að spretta og þessar tvær vinkonur sem eru komnar í neðri góminn eru rúmlega hálfnaðar á leiðinni upp. En það er eins og hún Steina vinkona mín sagði að nú styttist í að Daníel færi að bíta mig í brjóstið og það stóðst. Hann tók fyrst uppá þessu í gær og síðan þá er hann búinn að bíta mig fjórum sinnum!!! Þetta er svakalega sárt!!! Ég auðvitað rykkist til og kveina og þá verður aumingja Daníel hræddur og fer að gráta og er síðan nánast ófáanlegur til að halda áfram að drekka. Ég fæ smá samviskubit af því að hræða hann svona og ég verð að finna betri leið til að stöðva þetta af því að svona getur þetta ekki gengið. Þetta er strax komið á það stig að mig er farið að kvíða fyrir því að gefa honum og er alltaf tilbúin að kippa mér frá. Vonandi finnum við lausn á þessu EINS FLJÓTT OG MÖGULEGT ER! Annars erum við bara að undirbúa okkur svona smám saman undir að fara til dagmömmunnar og erum að breyta svefnrútínunni eina ferðina enn (ég þoli ekki að breyta rútínum). Ég er líka að prófa að gefa Daníel smá smakk af brauði bleyttu í mjólk en hann er ekki alveg til í þetta og kúgast. Það þýðir ekkert annað en að halda áfram að reyna af því að hann þarf að fara að venjast fleiri hlutum en silkimjúku mauki.

Jæja, tími til kominn að fara að sofa þar sem við erum ennþá mjög árrisul hérna á þessu heimili þökk sé Daníel en það fer brátt að breytast þar sem við erum búin að ákveða að reyna að vera búin að hætta morgungjöfunum áður en ég byrja að vinna. Góða nótt.

Ammælisbörn

Við Daníel vorum ammælisbörn á þriðjudaginn síðasta og hann var hálfs árs og ég fimmtíu sinnum eldri!!! Takk fyrir allar kveðjurnar bæði hérna og í meili og pósti (Sandra). Fyndið hvað maður er farinn að gera lítið á ammælinu sínu, hélt eiginlega meira uppá það að Daníel var orðinn hálfsárs.

Tennurnar hjá Daníel eru farnar að sjást meira og hann hefur mikla unun af því að naga kæli-leikföngin sín. Við erum eiginlega líka hætt að leyfa honum að naga puttana á okkur og hnúana því …ÁÁÁ… það er orðið vont! Við fórum í hálfsársskoðunina líka á þriðjudaginn þar sem Daníel var vigtaður, skoðaður og fékk að lokum sprautu við heilahimnubólgu. Það vildi svo til að það var ungbarnasérfræðingur á heilsugæslustöðinni sem skoðaði hann og ég spurði hvort það gæti verið eitthvað að Daníel af því að hann vill alls ekki vera í sitjandi stellingu. Hann vill alltaf reisa sig við með því að spyrna og fetta sig og vill bara standa. Hann sagði að hann væri bara með svona svakalegt viðbragð og að þetta myndi eldast af honum og ekki hafa áhyggjuar af þessu. Hann gerði smá athugasemd við naflann á stráknum (sem er svakalega útstæður) og talaði eitthvað um gat sem væri að gróa… kíkja á þetta í fyrsta lagi þegar hann væri orðinn eins árs. Veit ekki meir. Svo var það þyngdin sem er 7,15 kg sem er bara nokkuð gott miðað við þennan strák. Það þýðir að hann hefur þyngst um tæp 200 gr á tæpum 2 vikum. Ég er bara löngu búin að sætta mig við að þetta er bara langur og mjór strákur eins og annar fjölskyldurmeðlimur sem þið kannist kannski við. Núna er ég búin að bæta inn smá kjúlla inná matseðilinn og líkar Daníel þetta bara mjög vel.

Úff, komin löng færsla.

Að lokum ætla ég að koma með topp 5 hluti sem geta verið frekar pirrandi en samt mjög fyndnir eftirá.

  1. Þegar maður er nýbúinn að skipta á og klæða Daníel til að fara út að sofa þegar maður allt í einu…. finnur kúkalykt!
  2. Þegar maður er nýbúinn að setja Daníel út í vagn og er í miðri hárlitun þegar… Daníel fer að gráta og maður þarf að hlaupa út!
  3. Þegar maður er nýbúinn að skipta um á Daníel og hann kúkar þannig að maður þarf að skipta aftur og svo þegar hann er tilbúinn og kominn í allt þá… ælir hann yfir allt!
  4. Þegar Daníel er orðinn þreyttur og pirraður og maður er að drífa sig í að hátta hann og svo þegar hann er kominn í vagninn eða rúmið þá… er hann glaðvakandi og alls ekki á leið að fara að sofa!
  5. Þegar maður er að gefa Daníel graut og hann annaðhvort puðrar eða hnerrar heilli munnfylli yfir mann!!!

Alltaf eitthvað nýtt

Þroskanum hjá Daníel fleygir fram og hann er alltaf að taka uppá einhverju nýja. Ég prófaði fyrir einhverjum 2-3 vikum að gefa honum smá safa í stútkönnu en hann var engann veginn að fatta það. Í gær gerði ég svo aðra tilraun og gaf honum fyrst í stútkönnu sem lekur úr og hjálpaði honum aðeins og allt gekk vel. Svo seinna um daginn ákvað ég að gefa honum í stútkönnu sem lekur ekki úr og hugsaði með mér að hann gæti þá bara leikið sér með þetta en hann fattaði þetta sko strax og stakk beint uppí sig og drakk pínu í einu. Það var samt mesta sportið að leika sér með könnuna og handfjatla hana og svo fá sér sopa öðru hvoru.

Daníel er líka orðinn handaóður og borðbúnaði, dúkum og öðru lauslegu er ekki lengur óhætt þegar hann er nærri. Hann er líka farinn að sitja í tripp-trapp stólnum sínum til borðs en líkar það svona misvel. Annað sem hann er líka að gera er að fylgajst náið með öllu því sem ég legg mér til munns og í fyrradag tók hann kók-flöskuna mína í gíslingu og var alveg frá ef ég ætlaði að taka hana af honum 😉 . Minnir þetta ykkur á einhvern kók fíkil sem þið kannist við? Vísbending: Hár, grannur og er pabbi Daníels!

Annars erum við að fara í sund með Völu og Hjalta á eftir. Okkur fannst það vel til fundið að fara saman þar sem það er örugglega hvergi jafngóð aðstaða til að leggja frá sér ungbörn eins og í ungbarnasundinu eins og við erum vön. Það verður gaman að prófa að fara í alvöru laug með strákana.

Klukk!

Var að sjá að við vorum klukkuð af Friðrk og Unni þannig að hérna koma 5 atriði um Daníel:

  1. Daníel er mjög stundvís strákur. Fæddist daginn sem hann var settur og vaknar alltaf rétt yfir 6 til að fá morgunmjólkina sína.
  2. Hann var og er mjög líkur pabba sínum á fleiri en einn hátt.
  3. Daníel finnst ekkert skemmtilegra þessa dagana en að rúlla sér á teppinu og reyna að skríða.
  4. Daníel er algjört matargat og borðar flest allt sem honum er boðið, líka þótt það sé ekki matur!
  5. Daníel er mikill húmoristi og er ekkert vandlátur á hvað honum finnst fyndið. Hann getur samt verið á stundum algjör drama-drotting líka.

Við klukkum hér með Jökul og Svein Skúla!

Nú gerast hlutirnir hratt!

Daníel sem er búinn að ná núna fullum tökum á rúllutækninni, finnst ekkert skemmtilegra núna en að liggja á maganum. Ef við setum hann á bakið þá er hann búinn að velta sér yfir á augabragði. Þessi skyndilega rúllutækni kom okkur í opna skjöldu og þá sérstaklega Einari. Þannig var að Einar fór inní eldhús að búa til graut handa Daníel sem lá á teppi inná stofugólfi. Það er hægt að sjá beint innan úr eldhúsinu þar sem Daníel liggur alltaf í stofunni en þegar Einar er síðan að koma inní stofu þá er DANÍEL BARA HORFINN! En hann fór nú ekki langt, náði bara að rúlla sér nokkrum sinnum og útaf teppinu og þar með úr augnsýn! Ég held að hann hafi ætlað að kíkja í heimsókn til mín í skólann 🙂 . Ætli það fari ekki að fara bráðum að koma tími á leikgrindina?

Um leið og Daníel varð svona spenntur fyrir því að rúlla sér þá kom annar áhugi samfara því og það er að skríða!!! Hann er nú ekki byrjaður að skríða en hann er byrjaður að reyna að lyfta bossanum og hreyfa lappirnar með, þó með litlum árangri enn sem komið er. Ég veit ekki hvað eg er búin að reyna oft að lyfta upp bossanum á honum og kenna honum svona handa og fótatökin en það hefur alltaf komið fyrir ekkert. Það er greinilegt að börnin láta ekkert ýta á eftir sér í svona efnum heldur fara bara á eigin hraða, í þessu tilfelli ljóshraða 😉 . Ég held ég standist ekki mátið og ætli að fara að kaupa handa honum einhverskonar skriðsokkabuxur sem eru með eitthvað stammt efni á hnjánum.

Ég er að fara í próf í dag (jákvæðir straumar milli kl 14-17 eru vel þegnir) og Einar ætlar að fara í millitíðinni með Daníel í vigtun og svo í ungbarnasundið sem ég því miður missi af í þetta skipti. Ég vona að Daníel hafi þyngst eitthvað af viti núna því að hann borðar eins og hestur! Svo er hann líka búinn að taka sig á í mjólkurdrykkjunni, held að hann hafi bara verið hálflystarlaus útaf kvefinu og hóstanum.

Það er eitt búið að vera að angra mig dáldið og það er hvað það eru margir búinir að koma inná þessa síðu og ég veit ekkert hverjir það eru. Þetta fer að nálgast 3000 hitt og ég veit auðvitað að nánasta fjölskylda og vinir kíkja hingað en hvað með allt hitt? Og enginn skrifar í gestabókina eða kommentar eða neitt. Mig er farið að gruna að fólk útí bæ sem kannski rétt þekkir okkur Einar sé að lesa hérna um heimilislífið hjá okkur og ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Kannski maður ætti að setja inn password… Einhverjar skoðanir á því?