Monthly Archives: January 2009

Fyrstu dagarnir og jólin

Við komum heim með litluna okkar 22.des og sem betur fer höfðum við haft vit á því að klára matarinnkaupin fyrir jólin fyrir fæðinguna. Við vorum því bara í þægilegheitunum heima fram að jólum þar sem Daníel var byrjaður í jólafríi í leikskólanum. Daníel var spenntur fyrir litlu systur en átti auðvitað erfitt að skilja að hún væri viðkvæm og þoldi ekki mikið hnoð og pot. Við reyndum samt eftir besta megni að leyfa honum að vera eins mikið með henni og hægt er t.d. með því að leyfa honum að halda á henni í sófanum og kúra smá saman uppí rúmi og svol. Daníel átti samt erfitt með að taka þessum miklu breytingum á heimilislífinu og til að bæta gráu ofan á svart þá var hann í jólafríi þannig að hans venjulega rútína var heldur ekki til staðar. Við reyndum hins vegar að gera það besta úr þessu og halda jákvæðninni án þess þó að leyfa honum að komast upp með allt. Við áttum yndisleg jól saman í rólegheitunum hérna heima á aðfangadag og á jóladag fórum við í hangikjötsveislu til Öglu og Ragga. Ellen lét lítið fyrir sér fara öll jólin enda vaknaði hún bara rétt til að drekka og svo farin aftur að sofa eins og engill.

Heimferðin

Eftir frábæra fæðingu var ég ólm í að komast heim til Daníels því ég fékk samviskubit að  vera ekki heima hjá honum og hann ekki alveg viss hvað væri í gangi. Við Einar ákváðum þó að lokum að ég myndi gista 2 nætur í friði á spítalanum víst það var í boði en hann fór heim eftir eina nótt. Ég sá ekki eftir því enda var þetta eina tækifærið fyrir okkur tvær að kynnast og vera í rólegu umhverfi til að koma brjóstagjöfinni vel í gang. Feðgarnir komu síðan að heimsækja okkur um eftirmiðdaginn 21.des og Daníel var pínu áttavilltur og vissi ekki alveg hvaðan á sig stóð veðrið. Hann var þó spenntur að sjá litlu systur en það voru líka margir aðrir hlutir á spítalanum sem fönguðu athygli hans ekki síður þannig að þessi heimsókn var í styttra lagi. Þeir komu síðan daginn eftir að sækja mig í hádeginu með barnavagninn. Mér fannst tíminn vera endalaust að líða meðan að ég var að bíða eftir þeim til kl.13. Ég saknaði þess að vera heima hjá mér með strákunum mínum þó svo að það var auðvitað yndislegt að vera með litlunni líka. Þeir komu að lokum eftir að ég hringdi til að athuga stöðuna og var stelpunni pakkað í galla sem var ALLTOF stór og svo í vagninn og svo heim með strætó og lest.

Fæðing Ellenar

Jæja, ekki var þetta gabb eins og síðast.

Fyrstu verkir komu um nóttina aðfaranótt laugardagsins 20. desember. Við vorum ekki viss framanaf hvort að þetta væri að fara af stað en til öryggis þá fór Einar í verslunarferð snemma um morguninn. Um 10 leytið var orðið ljóst að fæðingin var að byrja og við hringdum í Öglu systur Einars stuttu seinna og báðum hana um að gera ekki nein plön fyrir daginn. Svo um hádegi var farið að vera 5 mín á milli þannig að við hringdum aftur í hana og báðum hana að koma. Hún var alveg róleg þangað til við sögðum henni hvað væri langt á milli, þá stökk hún af stað á hjólið með símann í hendinni. Við vildum frekar vera í rólegheitunum heima heldur en að fara of snemma á fæðingardeildina. Verkirnir voru þolanlegir og við skreyttum saman jólatréð með Öglu en Daníel hafði smá áhyggjur af mömmu sinni. Uppúr klukkan 2 voru 3-4 mínútur á milli og þá hringdum við á leigubíl.

Leigubílstjórinn var ekkert mjög glaðlegur þegar hann sá Karen og heyrði hvert við vorum að fara – hehe var örugglega hræddur um að vatnið mynda fara í bílnum. Komum á fæðingardeildina rétt um 3 og sett í skoðun, útvíkkunin var þá orðin 7 sem gladdi okkur mjög. Þá ákváðum við að sleppa mænudeyfingu og hinu sem við vorum búin að plana einfaldlega af því að þetta var búið að ganga svo vel og við töldum Karen vel geta þolað framhaldið. Karen fór í sturtu og heitan pott og 2 mínútur yfir 5 fæddist krílið okkar. Einar fékk að kíkja til að sjá hvort kynið það væri og það reyndist vera yndisleg lítil stelpa. Einar klippti svo á naflastrenginn.

Þetta var svo ótrúleg upplifun og svo allt öðruvísi en síðasta fæðing. Okkur fannst við vera við stjórn allan tíman og jákvætt hugarfar og samheldni hafði mikið að segja um hvað þetta gekk vel. Stelpan var vel vakandi þegar hún fæddist og byrjaði að gráta um leið og hún kom út. Hún var 3930g, 53cm og höfuðmál var 37cm, semsagt ívið stærri en ljósmóðirin hafði spáð.

Við gistum bæði á spítalanum fyrstu nóttina. Spítalinn var mjög fínn og mjög vel hugsað um okkur. Daginn fór Einar svo og náði í Daníel og kom með hann í heimsókn að sjá litlu systur. Daníel var ekkert yfir sig hrifinn, en var soldið spenntur og hissa. Einar og Daníel fóru svo heim en Karen og Ellen voru eina nótt í viðbót í góðu yfirlæti á spítalanum.