Monthly Archives: July 2005

6 vikna skoðun

Fórum með Daníel í 6. vikna skoðunina og er strákurinn orðinn rúm 5 kg og 58 cm. Ekki að furða að hver flíkin á fætur annarri er að verða of lítil og á leiðinni á eftirlaun. Ég held ég verði að fara yfir fatahrúguna í kvöld og taka út það sem er of lítið og fara að taka uppúr kassanum sem ég merkti “eldri” og skellti í geymsluna. Fyndið, ég átti einhvern veginn ekki von á því að hann myndi stækka svona fljótt!

Uussssss

uussssss….í kvöld erum við Einar að byrja að venja Daníel á að fara snemma að sofa og sofa alla nóttina. Við lögðum hann klukkan hálf átta og hann er núna búinn að sofa í rúma þrjá tíma. Okkur kvíðir dáldið fyrir nóttinni því við vitum hvað bíður okkar í nótt… og næstu nætur… jafnvel vikur……

Tómas skírður

Fórum í skírn Tómasar í gær. Daníel stóð sig mjög vel á meðan á skírninni stóð og var ekki með nein læti. Hann hins vegar bætti það upp með því að pissa og gubba á spariföt okkar beggja, Einar slapp 🙂 . Athöfnin var mjög falleg og það var rosalega skemmtilegt þegar bræður hennar Unnar spiluðu saman á gítar og sungu fallega sálma og lög (uppáhaldið mitt var Beautiful boy).

Annars er Daníel að stækka og stækka og sífellt fleiri föt sem þarf að leggja á hilluna og það sem meira er þá er hann kominn uppí næstu bleyjustærð!

Nú er Daníel líka farinn að brosa greinilega þegar maður er að leika við hann og hann er líka mjög duglegur í hálsæfingunum. Hann er líka alltaf að vera sterkari í fótunum og er duglegur að sparka í allt sem kemur nálægt þeim mér til ómældrar ánægju þegar ég er að reyna að gefa honum liggjandi uppí rúmi. Jæjja litli kallinn er vaknaður og er að “biðja” um þjónustu 😀 .

Heimsókn frá Bretlandi

Friðrik, Unnur og Tómas komu í heimsókn á sunnudaginn. Þau búa í Bretlandi og voru að koma heim í sumarfrí þannig að þetta var í fyrsta sinn sem við fengum að sjá Tómas en hann er einmitt 6 vikum eldri en Daníel. Greinilegt að börn stækka alveg fáránlega mikið á 6 vikum þar sem hann var MIKLU stærri en Daníel og virkaði ekki næstum því jafn brothættur, var farinn að halda haus og allt.

Annars fara dagarnir núna í ýmiskonar stúss og útréttingar fyrir brúðkaup og skírn, vorum að smakka kökur í dag, erfitt líf 🙂 . Pössum þó að hafa nógan tíma til að fara reglulega í göngutúra með Daníel og vera úti.

Fyrsta pössunin

Ekki mikið spennó að segja frá þessa dagana nema að Daníel fór í pössun í fyrsta skipti til Hrefnu ömmu og virðist bara hafa líkað það mjög vel. Hrefna amma hefur greinilega haft gaman af því að passa litla ömmustrákinn sinn þar sem stuttu síðar barst okkur tölvupóstur þar sem við vorum hvött til að kíkja meira út og um leið boð um að passa á meðan 😉 .

Annars langar okkur bara að þakka kærlega öllum vinum og kunningjum fyrir hlýjar kveðjur og góðar gjafir. Gaman að vita líka hvað margir fylgjast með honum Daníel hérna í gegnum heimasíðuna 🙂 .

Come on, vogue!

Come on, vogue ! Let your body move to the music!

Þetta er alveg í uppáhaldi hjá Daníeli þessa dagana eða ekki lagið sko heldur dansinn sem fylgir því. Hann er sko alveg með handahreyfingarnar á hreinu og er duglegur að sýna okkur (jafnt dag sem nótt).

Þar sem að strákurinn er að taka vaxtarkipp núna þá drekkur hann rosalega mikið þessa dagana eða á ca. 1-1 og hálfs tíma fresti og þar sem Einar er því miður ekki gæddur þeim kosti að hafa mjólkandi brjóst (já, ég er búin að biðja til guðs) þá er nánast ómögulegt fyrir mig að fara út fyrir hússins dyr.

Annars hafa tvær nýjar íþróttagreinar verið kynntar til sögunnar í vikunni af honum Daníel; annars vegar er um að ræða hið skemmtilega “brjóstamaraþon”, sem gengur út á að reyna á þolinmæði móður sinnar og sjá hvað maður kemst upp með að hanga lengi á brjóstinu, og hins vegar “lang-kúkur”, sem gengur út á að spýta nr.2 eins langt frá rásmarkinu og mögulegt er meðan á bleyjuskiptingum stendur. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af hvorugri íþróttinn enda ekki þekkt fyrir að vera mikil íþróttamanneskja.

Í gær fórum við í heimsókn til Völu og Hjalta til að kíkja á Jökul. Hann Jökull er sko alveg pínulítill miðað við risann hann Daníel (bara 10 dagar á milli) en munurinn leynist ekki í lengdinni heldur í holdarfari. Daníel er nefnilega algjör bolla miðað við vin sinn hann Jökul og hef ég því verið mikið að spá í að skipta yfir og fara að framleiða léttmjólk handa drengnum. Annars var þetta dáldið furðuleg heimsókn þar sem við Vala sátum bara í sófanum og vorum eiginlega allann tímann að gefa strákunum okkar. Síðan þakkaði Daníel fyrir sig með því að æla smá í sófann en Vala og Hjalti tóku það nú ekki nærri sér og sögðu að það hefði margt verra farið í þennan sófa síðan Jökull kom til sögunnar 😉 .

Eftir heimsóknina í Vegghamrana fórum við til pabba þar sem Daníel spreytti sig í “lang-kúk” og tókst að ná góðum 50-60 cm sem náði vel út fyrir allar varnir sem ég var búin að setja upp. Pabba mínum fannst þetta mjög skondið meðan að við foreldrarnir vorum ekki eins hrifnir meðan við vorum að þrífa teppi og fleira. Meðan á þrifunum stóð þá toppaði litli kallinn þetta og bætti við smá Golden-shower tilþrifum við. Daníel Máni fær því fullt hús stiga fyrir gærdaginn og það er spennandi að fylgjast með hvað hann gerir næst!

3 vikna

Daníel Máni er alltaf að stækka og er nú orðinn rúmlega þriggja vikna gamall. Hann er farinn að drekka allsvakalega mikið, svona eins og hálft mjólkurbú flóamanna á hverjum degi og vill helst vera á brjóstinu allan daginn. Hann reyndar ælir soldið inná milli en eins og alvöru víkingur lætur hann það ekki á sig fá og bætir það bara upp með meiri mjólk. Hann er hættur að pissa jafnoft á skiptiborðinu en til að halda uppi fjörinu þá er hann farinn að kúka stundum á það í staðinn. Til að þrífa upp kúk, piss, ælu og brjóstamjólk þá notum við svona u.þ.b. 500 taubleyjur á dag og þvottahúsið okkar er óneitanlega farið að minna á þvottaefnisauglýsinguna þar sem er mörg hundruð metra löng þvottasnúra með engu nema skjannahvítum bleyjum.

Í öðrum fréttum er það helst að Daníel Máni sagði fyrstu orðin sín í gær. Það var nú meira bara svona hjal en ég gat nú samt greint nokkuð vel hvað hann var að reyna að segja. Það sem hann sagði var “Pabbi, kauptu handa mér fjarstýrðan bíl og sýndu mér hvernig á að nota hann. Takk”. Því miður var ég einn vitni að þessum merkisatburði og Karen virðist vera eitthvað vantrúuð á þetta þannig að það verða víst ekki keyptir neinir fjarstýrðir bílar strax. En það kemur að því!!