Fyrstu vikurnar hjá Ellen

Ellen litla hefur sofið eins og engill síðan hún fæddist og vaknar bara til að drekka og láta skipta á sér. Við höfum því enn sem komið er lítið fengið að sjá hana vakandi en lærðum það síðast að láta börnin sofa ef þau sofa. Hjúkrunarfræðingurinn Pernille kom í heimavitjun þegar Ellen var 9 daga og þá var hún orðin 4,3 kg eða semsagt búin að þyngjast um 400 gr! Stelpan kom vel út úr skoðuninni og sagði Pernille að henni sýndist mjaðmirnar vera búnar að jafna sig. Daníel hefur haldið áfram að vakna á nóttunni grátandi og kom í ljós að hann var með alvarlega eyrnabólgu sem hann fékk sýklalyf við. Það dugði hins vegar ekki og hljóðhimnan sprakk hægra megin að lokum. Hann var veikur samtals í 9 daga og heimavið með okkur Ellen auðvitað allan tímann. Það hefur verið ansi krefjandi að vera heima með bæði börnin en gekk þó þar sem Ellen hefur sofið svo vel allann daginn. Okkur hefur stundum liðið eins og æðra vald sé að reyna að halda Daníel í burtu frá leikskólanum eða mér í burtu frá þægilegu lífi. Daníel var fyrst með hlaupabóluna í 10 daga í desember og svo veikur í aðra viku og daginn sem Ellen fæddist byrjaði hann í jólafríi. Núna í janúar náði hann að fara 5 daga í leikskólann áður en næstu veikindi helltust yfir. Eins og ég elska strákinn minn mikið þá er komið nóg af þessari heimaveru fyrir næsta árið enda takmarkað hvað maður þolir mikið að vera innilokaður með eitt nýfætt og eitt veikt barn.

Ég byrjaði að mæta á mömmumorgnana 13.janúar og það gengur vel að smala inn mömmum í  hópinn. Rosalega gott að eiga eitthvað svona eitt fast stefnumót í viku og drífa sig út og hitta aðrar íslenskar stelpur.