Finnst þér góð lykt af prumpi?

Daníel talar alveg endalaust (stundum of mikið!) og er með ýmsa góða frasa. Nokkrir af þeim hlutum sem hann segir:

  • “Finnst þér góð lykt af prumpi?”. Fyrst prumpar hann hressilega, svo spyr hann  og springur svo úr hlátri! Og þetta hættir aldrei að vera fyndið!
  • “Ertu glaður?” og “Ertu pirr?”. Þegar hann er að tékka á því hvort við séum í góðu skapi. Stundum spyr hann aftur og aftur hvort maður sé glaður og maður þarf stanslaust að svara “já, ég er glaður. Já, pabbi er mjög glaður. Mjög glaður”. Og pirraður/pirruð heitir bara pirr.
  • Talar um sjálfan sig sem “þessi strákur” eða “strákurinn”. Dæmi: “Er pabbi mjög ánægður með þessi strákur?” og bendir á sjálfan sig. Eða “strákurinn er duglegur að taka til”.
  • “Þetta er ekki gott bull”. Sagt þegar ég var eitthvað að bulla í honum.
  • “Óþekkar pönnukökur” eru pönnukökur sem voru bakaðar heima hjá Öglu og festust saman á pönnunni. “Óþekkur pottur” var pottur sem sauð upp úr.

Annars er hann búinn að vera mikið á róló og legestue meðan við bíðum eftir að hann fái leikskólapláss. Legestue er svona hús með dóti þar sem foreldrar geta komið með börnin sín til að leika og hitta önnur börn, og er mjög gott einmitt meðan maður bíður eftir leikskóla. Hann fer yfirleitt þangað tvisvar í viku og svo á róló alla daga. Hann er líka orðinn aðeins ófeimnari við að byrja að tala við hin börnin og er alltaf mjög glaður þegar þau svara honum og kemur og segir okkur “Stelpan sagði hæ við mig”. Hann hefur líka sterkar skoðanir á mat, melóna var “besti matur í heimi” en þegar við spurðum hvort hún væri betri en hamborgari var svarið samt “neeeeeiiiiii”. Vonandi fer hann svo bráðum að komast inn á leikskóla, þá fer hann örugglega að koma með nokkra góða danska frasa hérna heima 🙂