3 vikna

Daníel Máni er alltaf að stækka og er nú orðinn rúmlega þriggja vikna gamall. Hann er farinn að drekka allsvakalega mikið, svona eins og hálft mjólkurbú flóamanna á hverjum degi og vill helst vera á brjóstinu allan daginn. Hann reyndar ælir soldið inná milli en eins og alvöru víkingur lætur hann það ekki á sig fá og bætir það bara upp með meiri mjólk. Hann er hættur að pissa jafnoft á skiptiborðinu en til að halda uppi fjörinu þá er hann farinn að kúka stundum á það í staðinn. Til að þrífa upp kúk, piss, ælu og brjóstamjólk þá notum við svona u.þ.b. 500 taubleyjur á dag og þvottahúsið okkar er óneitanlega farið að minna á þvottaefnisauglýsinguna þar sem er mörg hundruð metra löng þvottasnúra með engu nema skjannahvítum bleyjum.

Í öðrum fréttum er það helst að Daníel Máni sagði fyrstu orðin sín í gær. Það var nú meira bara svona hjal en ég gat nú samt greint nokkuð vel hvað hann var að reyna að segja. Það sem hann sagði var “Pabbi, kauptu handa mér fjarstýrðan bíl og sýndu mér hvernig á að nota hann. Takk”. Því miður var ég einn vitni að þessum merkisatburði og Karen virðist vera eitthvað vantrúuð á þetta þannig að það verða víst ekki keyptir neinir fjarstýrðir bílar strax. En það kemur að því!!