Sterk lungu!

Ellen er mjög hávær, vægt til orða tekið. Veit ekki hvaðan hún hefur þessi sterku lungu og kröftugu rödd en maður fær óspart að heyra hana t.d. við matarborðið, á skiptiborðinu og þegar krakkarnir eru að leika. Daníel verður meira að segja skelkaður þegar Ellen rekur upp öskur þegar henni er gert eitthvað á móti skapi.

En litla kellingin byrjaði að reisa sig upp sjálf og standa fyrir nokkrum dögum. Þetta finnst henni mjög skemmtilegt og ekki verra þegar við erum öll að hvetja hana áfram með klappi. Þá stendur hún oft upp sjálf og byrjar að klappa líka. Þetta kallar fram gríðarleg afbrýðisköst hjá Daníl sem segir líka sjálfur vel kunna að standa og heimtar að við hrósum honum líka. Í framhaldi af þessu þá erum við að reyna að fá hana til að byrja að labba en Ellen hefur engann áhuga á því og hún vill ekki einu sinni að við reisum hana upp heldur vill hún sjálf gera þetta allt. Það er í gangi veðmál milli okkar Einars hvort hún mun læra að ganga fyrir eða eftir áramót og ég sagði fyrir. Ég vona bara að hún fari að drífa í því að taka þessi fyrstu skref fyrir mömmu sína því annars lendi ég í því að þurfa að gera eitthvað heldur pínlegt.

Jólin komu og fóru og voru hvít í fyrsta skipti í 14 ár hér í Danmörku. Allt fór að óskum nema að þessi dýrindismatur sem við Einar höfðum á aðfangadag féll í grýttann jarðveg hjá börnunum. Í forrétt var rækjubrauðréttur sem var neitað að smakka. Í aðalrétt var fyllt önd með hnetu og döðlusósu og Daníel var hreinlega að kúgast við að borð hana! Jólamaturinn hjá þeim báðum var því banani! Þau fengu síðan fullt,full af pökkum eins og við var að búast. Flottasti pakkinn var Flexitrax bílabraut frá okkur foreldrunum. Daníel lék sér að þessu næstum öll jólin og það hefur þurft að draga hann í burtu frá þessu oftar en einu sinni til að gera hin daglegu verk eins og að þvo sér og borða. Annars er allt gott og nú hlökkum við bara til áramótanna saman í jólafríi 😀

Í lokin þá er Ellen komin með 5 tennur og núna í dag vorum við búin að uppgötva að fyrstu jaxlinn er kominn í gegn vinstra megin uppi enda skemmtileg nótt að baki .