Loksins fyrsta tönnin!

Fór í dag á ströndina í Klampenborg með börnin og Annette og Thomas & co. Á leiðinni til baka í lestinni var Ellen að bíta mig í hnúgana eins og venjulega þegar ég fann allt í einu eitthvað skarpt rispa mig. Þá var þarna á ferðinni fyrsta tönnin sem við erum búin að bíða svo lengi eftir. Ellen er líka búin að vera á höndum síðustu daga stanslaust, þannig að ekki nema von að eitthvað var að brjóstat upp. Núna vona ég bara að þær fari að koma upp ein af annari á næstu vikum.

Daníel er búinn að eiga í smá erfiðleikum í leikskólanum og neitar að fara á hverjum degi. Þetta er meira að segja farið að ganga svo langt að kvöldið áður er hann farinn að finna upp á veikindum sem eiga að koma í veg fyrir að hann geti farið í leikskólann daginn eftir. Í gær sagði hann t.d. að hann væri orðinn  veikur og mætti þess vegna ekki fara út og gæti ekki farið í leikskólann. Þegar ég sótti hann í gær eftir rúmlega 5 tíma leikskóladvöl þá var hann í fanginu á einni fóstrunni mjög leiður og var bara að bíða eftir að ég sótti hann. Hann fékk því að vera í fríi í dag en ég ætla að sjá til á morgun. Hann kvartar sérstaklega undan einum strák sem heitir Emil og segir að sá strákur sé alltaf að segja að hann megi ekki vera með. Ég hef áður heyrt kvartanir undan þessum strák og þá sagði Daníel að hann væri að slá sig. Þegar ég bar þetta upp við leikskólann þá, neituðu þeir að ræða mál einstakra barna við mig! Greinilegt að ég þarf að láta í mér heyra aftur þarna því það er augljóslega verið að leggja Daníel vísvitandi í einelti. Veit ekki hvað við eigum að gera annað en að reyna að ráðast á vandann og kannski þá mögulega skipta um hóp. Get ekki hugsað mér að láta hann skipt enn einu sinni um leikskóla, nóg er nú fyrir. Daníel talar líka mikið um að honum langi að fara heim til Íslands í gömlu íbúðina, bara ef það væri nú hægt.