Ímyndunarleikur

Daníel er mikið í því að ímynda sér hluti núna og er það ýmist hús, bátur, flugvél eða bakarí. Þetta er mun vinsælla en allt dótið hans til samans og það mætti sennilega pakka helmingnum af því saman og henda í geymslu. Þessir leikir eru teknir mjög alvarlega og himinn og jörð farast næstum því ef maður labbar óvart í gegnum lokaða og hvað þá læsta hurð. Þannig að ef við foreldrarnir erum orðnir dáldið leiðir á því að sitja inní húsin með Daníel þá verðum við eiginlega að fá hann til að opna með lyklinum og hleypa okkur út ef við ætlum að halda honum góðum. Um daginn var hann meira að segja farinn að tala við ímyndaða stelpu sem hann var að neita að baka snúða fyrir….. humm hvenær ætti maður að fara að hafa áhyggjur? Nei, við höfum svo sem engar áhyggjur af þessu því það er bara gaman að fylgjast með þessu öllu saman.