Málgleði

Hann Daníel er alveg ótrúlegur og þroskinn þeysist áfram. Daníel er farin að tengja mikið orðin saman sem hann kann og út koma oft ótrúlega fyndnar meiningar.
Eins og sumir vita þá á ég það til að vera dáldið stjórnsöm og meira að segja afskiptasöm á köflum myndu sumir segja. Hann Daníel hefur kannski ekki erft frá mér neitt útlitstengt en hann hefur svo sannarlega marga skapgerðarþætti sem koma beint frá mér! Hann er farinn að vera dáldið frekur og lætur ganga mikið á eftir sér. Auk þess er hann farinn að skipa fólki mikið fyrir. Hann á það til að fara út á svalir ef krakkar eru að leika sér í garðinum og kalla (öskra) yfir þá alskyns skipanir sem hvorki þau né við skiljum. Það eina sem við skiljum er að hann bannar þeim að gera þetta eða hitt og vill oft á tíðum að þau hætti einhverju! Svo í gær þá tók hann pabba sinn algjörlega fyrir. Þetta var semsagt um eftirmiðdaginn og það var opið útá svalir þar sem við erum með borð og stóla.

D: pabbi út
E: nei ekki núna Daníel
D: út núna!
E: ok
D: pabbi sitja
E: (gáttaður sest)
D: pabbi ekki sitja!
E: (yfir sig hrifinn af setningunum) ok og stendur upp og fer inn
D: NEI! Pabbi út!

Þarna er ég farin að veltast úr hlátri inní eldhúsi. Þetta er alveg ótrúlegt að um leið og hann er farinn að geta tjáð sig eitthvað þá byrjar hann á að skipa okkur fyrir hægri vinstri! Greinilega sonur minn!
Ég er voðalega hissa á þessu skyndilega tali því þetta gerðist næstum því allt á bara 1-2 dögum að hann fattaði að tengja þetta saman. Hann kann fleiri fleiri orð en þarna loksins fattaði hann hvað hann ætti að gera, alveg eins og þegar maður lærir að lesa… þetta bara allt í einu smellur!
Í morgun var hann síðan að tjá sig um það að hann vildi ekki fara til dagmömmunnar heldur vera heima að kúra. Getur einhver ímyndað sér eitthvað betra en að vera heima með barninu sínu og kúra bara undir teppi og hafa það huggó? Ekki ég allavegana þannig að ég þurfti að taka á öllu mínu til að neita honum um þetta og skella honum beint í fötin. En núna um leið og Daníel er byrjaður að tala þá er hann farinn að gabba mig enn meira. Áðan vorum við að fara í bað. Þá segir minn allt í einu “Daníel kúka”. Ég auðvitað hendist af stað og kippi honum blautum uppúr og vonast eftir fyrstu koppaferðinni. En allt kemur fyrir ekki og Daníel viðurkennir að hann þurfti ekki að kúka! Skamm skamm Daníel fyrir að gabba mömmu svona þannig að uppskeran var aðeins rennandi blautt gólf.