Kvót

Jæja, búinn með tölvugrafík prófið. Ekki hægt að byrja að læra strax eftir próf þannig að ég nýtti tímann til að búa til svona random quote á síðuna, sést hérna niðri til vinstri. Kvótin eru úr myndum sem mér þykja fyndnar, eða frá rithöfundum og grínistum. Nafn höfundarins er yfirleitt linkur á síðuna fyrir hann, eða fyrir myndina ef þetta er kvikmyndakvót. Kvikmyndakvótin meika reyndar örugglega ekkert sens ef maður hefur ekki séð myndirnar sem þau eru úr 🙂 Reyni sennilega fljótlega að setja inn eitthvað form þar sem gestir geta slegið inn ný kvót. Kannski eftir næsta próf 😉

Vantar ísskáp

Erum að leita okkur að nýjum ísskáp, þar gamli ísskápurinn okkar er orðinn hálf slappur en það þarf einmitt að affrysta hann á um það bil 17 sekúndna fresti. Sem er kannski ekki skrýtið þar sem hann er rétt rúmlega 300 ára gamall (Ok, ekki alveg, en er orðinn 50 ára). Mjög töff ísskápur samt, heitir Kelvinator, svona næstum því eins og Terminator, myndi helst vilja hafa hann áfram ef frystirinn væri ekki bilaður. Ætlum að kaupa notaðan ísskáp en það er ekkert auðvelt, sérstaklega ekki þegar fólk setur svona snilldarauglýsingar í blaðið eins og í dag:

Árs gamall Ariston ísskápur til sölu, vel með farinn, 150×56, selst á um 20.000 kr.

Hmmm. Skyldi þessum manni ganga vel að selja ísskápinn sinn? Gengi örugglega betur ef hann mundi setja SÍMANÚMER Í AUGLÝSINGUNA SÍNA!! Hann situr örugglega heima hjá sér núna og hugsar: “Skrýtið, enginn er búinn að giska á símanúmerið mitt ennþá…”

…og núna er ég farinn aftur að læra stærðfræðigreiningu.

Á leið í líkamsrækt

Nú hef ég í soldinn tíma, u.þ.b. 10 ár, verið á leiðinni að koma mér í gott form. Í þessi 10 ár hef ég pælt mikið í því hverskonar líkamsrækt henti mér best. Eftir 10 ára umhugsun hef ég komist að því að það þarf að vera eitthvað sem reynir ekki mikið á og krefst þess ekki að ég hætti að borða nammi. Þarna er ég búinn að útiloka 97% af öllum íþróttum þannig að þetta er allt að koma. Nokkrar af þeim íþróttum sem ég hef íhugað að fara að stunda eru:

  • Keila: Hægt að borða pizzu á meðan maður er að keppa, góður kostur.
  • Pílukast: Mjög lítil hreyfing, mataræði skiptir ekki máli, gott mál.
  • Skák: Mjög lítil hreyfing sem er kostur. Eini gallinn er að skák er ekki íþrótt.
  • Sund: Sund er heldur ekki íþrótt, að synda er bara aðferð til að komast hjá því að drukkna. Hinsvegar finnst mér sund skemmtilegt þannig að það kemur sterkt inn.
  • Fótbolti: Reyndi það í fyrra, eyðilagði ökklann á mér eftir 5 tíma og var á hækju í mánuð.
  • Körfubolti: Allir þessir HR-ingar vilja bara fótbolta…
  • Badmington: Spilaði síðast þegar ég var 8 ára, en þá var það gaman.

Ef einhver hefur góða hugmynd um líkamsrækt sem hentar mér, endilega láta mig vita. Og nei, mig langar ekki að fara í líkamsræktarstöð að lyfta eða hlaupa eða eitthvað svona grjótleiðinlegt, þetta verður að vera skemmtileg íþrótt.

Geðsýki

Tekið af mbl.is:

Ungur háskólanemi var greindur með bráðageðsýki og færður á geðdeild Landspítalans eftir að samnemendur hans komu að honum þar sem hann var berjandi höfðinu á sér utan í vegg og hrópandi í sífellu “Heildun er ANDSTÆÐA diffrunar, heildun er andstæða DIFFRUNAR!”. Talið er að ungi maðurinn hafi snappað eftir að hafa reynt að heilda kvaðradrótina af ex í 18 klukkustundir án árangurs. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Skúli Guðjohnsen, yfirlæknir á Landspítalanum, að tilfellum sem þessu hefði fjölgað allverulega undanfarinn mánuð og að Landspítalinn sæi fram á skort á sjúkrarúmum á geðdeild ef þetta héldi áfram. Ekki er vitað á þessu stigi málsins hvort geðsýki unga mannsins er tímabundin eða varanleg, en honum er nú haldið rólegum með stórum skömmtum af Xanax og Prozac.

Kók

Hef núna smakkað nýja kókið, C2. Auglýsingarnar segja að það sé mitt á milli alvöru kóks og Diet kóks. Aldrei þessu vant segja auglýsingarnar satt, þetta bragðast nákvæmlega eins og maður hafi blandað saman hálfri kók og hálfri diet-kók. Semsagt viðbjóður. Breytingar á kóki eru alltaf slæm hugmynd. Ef ég ber saman nokkur mismunandi afbrigði af kóki og gef því frá núll og uppí 5 stjörnur þá er niðurstaðan þessi:

  1. Venjulegt kók: Hrein snilld! ***** (5 stjörnur)
  2. Diet kók: Ógeðslegt sorp!! Maður hefði haldið að Diet kók mundi bragðast eins og kók nema án sykurs. Nei! Það bragðast eins og piss!! (0 stjörnur)
  3. Vanilla kók: Vanilluskyr, já. Vanillukók, nei. Viðbjóður. (0 stjörnur)
  4. Cherry kók: Viðbjóðslegt drasl. Ef ég vildi ber færi ég í berjamó. (0 stjörnur)
  5. C2: 50% snilld + 50% viðbjóður = 90% viðbjóður. Samt skárra en Diet-kók. (0 störnur)

Djamm á Dillon

Fór að djamma í gær. Hitti Grím, Laugu, Tinnu, Jóhönnu og frænda hans Gríms á Dillon. Hef ekki farið á Dillon áður. Snilldartónlist, Doors, Led Zeppelin, Guns’n’roses o.s.fv. Klósettin hinsvegar ekki ósvipuð Trainspotting-klósettinu. Fórum síðan á Kaffibarinn þar sem var hellt yfir mig svona 800 lítrum af bjór eins og gerist alltaf á Kaffibarnum. Hitti svo Öldu og varð samferða henni heim. Nú er það bara liggja heima, horfa á Spiderman 2 og borða 10 kíló af nammi. Gott mál!