Ýmislegt

Margir leikarar þakka Guði þegar þeir vinna Óskarsverðlaun. Ætli Mel Gibson þakki Jesú þegar hann vinnur fyrir Passion of the Christ?

Dávaldurinn var hérna í hádeginu. Mjöööööööög skrýtið. Birna, Gunnar, Sólrún og Stella voru öll dáleidd. Mjög fyndið 🙂 Ætla samt pottþétt aldrei að láta dáleiða mig, of creepy!!

Var að koma úr tvöföldum tíma í Stöðuvélum og Reiknanleika. Skemmtilegri áfangi en ég bjóst við. Finnst eiginlega eins og ég sé bara að leysa gestaþrautir. Gestaþrautir og Reiknanleiki.

Er annars bara að skrifa hérna til að fresta því að gera heimadæmin í Stærðfræðilegri greiningu. Vandamálið við Stærðfræðilega greiningu er ekki að hún sé erfið eða leiðinleg eða tilgangslaus, nei, vandamálið er að hún er AFSPRENGI DJÖFULSINS!

DNS lookup

Ákvað um daginn að mig langaði að geta haft reverse DNS lookup á síðunni minni til að sjá hvaðan fólk er að koma. Leitaði á netinu en eina lausnin sem ég fann fyrir .asp var einhver krapp lausn sem gekk útá að keyra nslookup, senda outputið í textaskrá og lesa svo textaskrána og eyða henni. Breytti þessu þannig að þarf ekki að skrifa í neina skrá eða neitt svoleiðis, les bara beint output strauminn frá nslookup.exe, virkar fínt. Skelli þessu sennilega inná forritunarsíðuna fljótlega, þá getið þið náð í þetta ef þið viljið sjá hverjir eru að heimsækja síðurnar ykkar.

BREAKOUT!!!

“…the biggest PC game release in years…”

“…Doom 3Breakout should keep most gamers hooked from beginning to end!”

***** (5 stars)
GameSpy.com

“…the best game of 2004!”
***** (5 stars)
PC Gamer Magazine

Jamm, þá er hann loksins tilbúinn, leikurinn sem allir hafa verið að bíða eftir, BREAKOUT! Forritaður af mér, borð hönnuð af Karen, algjör snilld! Smellið hér til að downloada leiknum.

Hérna er screenshot af leiknum:

Screenshot af BreakoutEn í alvöru talað, ef ég ætti að gefa algjörlega hlutlaust mat á leiknum þá væri niðurstaðan þessi: BESTI LEIKUR Á JÖRÐINNI!!!

Goldfinger

Hmm. Er að horfa á Goldfinger. Snilldarmynd. En að drepa konu með því að mála hana frá toppi til táar með gullmálningu þannig að húðin fái ekki súrefni og hún kafni? Er það ekki u.þ.b. flóknasta og seinlegasta drápsaðferð sem til er? Og dýrasta? Gullmálning? Snilld samt sem áður 🙂

Extreme…

Ég var að horfa á Discovery áðan. Þá sá ég auglýsingu um nýjan þátt sem heitir “Extreme Engineering”. Hmmm. “Engineering” finnst mér ekki hljóma spennandi en fyrst þetta er “Extreme Engineering” þá hlýtur það að vera cool. Allt sem er “Extreme” er cool, maður getur tekið hvaða hlut sem er, sett “Extreme” fyrir framan nafnið og þá verður hann meira cool. T.d. Extreme Sports, Extreme Makeover, Extreme Programming, Extreme Engineering, Extreme Robot Fighting

Nú vita allir að íþróttir eru grjótleiðinlegar og hundleiðinlegt að horfa á þær. En það væri auðveldlega hægt að gera fullt af íþróttum miklu skemmtilegri með því að gera þær aðeins meira “Extreme”. T.d:

  • Extreme Football: Ef þeir eru ekki búnir að drullast til að skora eitt einasta mark á fyrstu 45 mínútunum þá er random leikmaður hálshöggvinn og hausinn á honum notaður sem bolti í seinni hálfleik.
  • Extreme Formula 1: Þriðji hver bíll keyrir öfugan hring við hina…
  • Extreme Tennis: Tveir menn. Tveir spaðar. Ein handsprengja.
  • Extreme Skák: Hmmmmmmmmm, ok, virkar kannski ekki fyrir allt.

Þetta væri líka hægt að gera við sjónvarpsþætti. Gott dæmi er Extreme Makeover. Enginn mundi horfa á hann ef hann væri bara “Makeover”. Nú horfir enginn sem er með greindarvísitölu hærra en skónúmerið sitt á Innlit/Útlit. En!! Hver mundi ekki vilja sjá “Extreme Innlit/Útlit”: Vala Matt á amfetamíni brýst inn til óviðbúins fólks um miðja nótt:
zzzzzzzZZZZZZZZZZzzzzZZZZZ*CRASH* “GASALEGA ER ÞETTA SKEMMTILEGT RÝMI HÉRNA HJÁ YKKUR!!” “Hva, hver…” “KEYPTUÐ ÞIÐ ÞETTA RÚMTEPPI Í IKEA? ÞETTA ER *ÆÐISLEGT*”.

Orð

Kennarinn okkar í forritunarmálum var að tala um að ef það væri ekki til orð yfir eitthvað hugtak í tungumáli þá gæti fólk ekki hugsað um það og þar með væri hluturinn eiginlega ekki til. Hann sagði okkur frá því að í bókinni 1984 hefði fasistastjórnin tekið upp á því að fjarlægja óæskileg orð úr tungumálinu, t.d. uppreisn og óánægja. Þannig gat enginn verið óánægður, allir voru bara mismunandi ánægðir. Þetta finnst mér mögnuð snilld! Það er t.d. fullt af orðum í íslensku sem mætti fjarlægja og enginn myndi sakna! Bara sleppa þeim í næstu útgáfu af orðabókinni og þá eru þau farin. Þau orð sem mættu mín vegna hverfa úr íslenskri tungu eru m.a.

  • Stærðfræðileg greining
  • Plokkfiskur
  • Sjálfstæðisflokkurinn
  • Jeppi
  • Powersýning
  • Davíð
  • Oddsson
  • Lagadeild HR
  • Landshornaflakkari
  • Diet kók
  • Trúnó
  • Fólk
  • Sirrý
  • með

Hörmulegt sjónvarpsefni

Ég hef horft á mikið af lélegu sjónvarpsefni gegnum tíðina og tel mig ýmsu vanan. Hef séð Kastljós, Derrick, Nylon, sænska sjónvarpsmynd um sérstaka vináttu ungs drengs og hunds og margt fleira. Nú hefur hinsvegar botninum verið náð og titilinn VERSTA SJÓNVARPSEFNI EVER hlýtur:

Landshornaflakkarinn!

Skjár 1 á bara að sýna bandaríska afþreyingu, engan langar að sjá Súsönnu Svavarsdóttur tala við Sigurbjörn bónda frá bænum Rassaholu í Neðridal um hvað landsbyggðin sé frábær!! En almennt, ef maður vill vita hvað maður á ekki að horfa á þá eru hér nokkrar reglur:

  1. Allar myndir eða þættir með börnum í aðalhlutverkum eru rusl. Börn eru í 99% tilfella óþolandi í kvikmyndum.
  2. Allar myndir eða þættir með gömlu fólki sem aðalpersónum eru rusl. Tvöfalt rusl ef myndin er íslensk. Þrefalt rusl ef myndin er um gamalt íslenskt fólk úti á landi.
  3. Ef aðalpersónan á sniðugt gæludýr þá er myndin rusl. Tvöfalt rusl ef gæludýrið talar. (Þetta á ekki við um teiknimyndir).
  4. Allar íslenskar myndir sem eru ekki Sódóma Reykjavík eða 101 Reykjavík eru rusl. Tvöfalt rusl ef þær gerast í gamla daga. 800falt rusl ef þær eru eftir Hrafn Gunnlaugsson.
  5. Allt efni með Hemma Gunn, Gísla Marteini, Meryl Streep, Sally Field, Madonnu, Súsönnu Svavars eða einhverjum úr Nylon er rusl.
  6. Allar myndir þar sem tónlistarmenn halda að þeir séu leikarar eru rusl. Tvöfalt rusl ef tónlistarmaðurinn er rappari. Þrefalt rusl ef tónlistarmaðurinn er Madonna.

Ef myndin uppfyllir 2 eða fleiri atriði á þessum lista þá er hún súperrusl. Versta mynd í heimi væri semsagt íslensk mynd sem gerðist árið 1773, leikstýrt af Hrafni Gunnlaugssyni, með Madonnu, Sally Field og Gísla Marteini í aðalhlutverkum, þar sem þau byggju á Fáskrúðsfirði með 2 lítil börn, afa og ömmu og talandi hund.

…og þá byrjar það

Jæja, þá er ég búinn að uppfæra síðuna mína, er búinn að vera á leiðinni að gera það í nokkra mánuði. Er búinn að færa Binary klukkuna á sér síðu, líka búinn að færa kvikmyndagetraunina á sér síðu. Ég er búinn að bæta við þessum stíl sem default stílnum, það er ennþá hægt að nota gamla supercool svarta og græna lookið með því að smella á linkinn hérna til vinstri.

Ég bætti við skoðanakönnun á síðuna, forritaði hana um daginn, super einfalt að nota, ASP klasi, hægt að downloada hérna. Source kóðinn fyrir binary klukkuna er líka hérna ef einhver hefur áhuga, hægt að skoða hér.

Planið er að reyna að uppfæra þessa blessaða síðu öðru hvoru, bæta við nýju dóti, nýjum skoðanakönnunum og svona. Sjáum hvernig það gengur…