Stúlka Einarsdóttir

20. Desember kl. 17:02 kom Stúlka Einarsdóttir í heiminn.  Fæðingin gekk eins og í sögu og hún var komin í heiminn tveim tímum eftir að við komum á spítalann. Hún var 3930 g og 53 cm við fæðingu. Nú eru mæðgurnar komnar heim og við erum bara að hafa það gott saman. Ég skelli svo inn myndum fljótlega, hérna er ein til að byrja með.

Ný vinna á morgun

Jæja, fyrsti vinnudagurinn á morgun. Ég mæti kl. 10, og klukkan 13 byrjar svo julefrukost, sem er framá nótt samkvæmt nýja yfirmanninum mínum. Þetta ætti að verða fínn fyrsti dagur. Ég efast reyndar um að ég verði neitt mjög lengi í julefrukostinum, þar sem ég þekki engan þarna ennþá eða neitt.

Var annars að klára síðasta prófið á mánudaginn. Það var munnlegt próf í kúrsinum Process Modelling & Validation. Gekk bara vel, nú á ég bara eftir að fá einkunnir úr hinum tveimur áföngunum mínum. Skrýtið að vera búinn með alla áfanga sem ég mun taka hérna, mér finnst ekki svo langt síðan ég byrjaði. En samt gott, það verður fínt að geta einbeitt sér að einu verkefni eftir jól, og þurfa ekki að hafa áhyggjur af verkefnaskilum og prófum (ehemm, nema einum ansi stórum verkefnaskilum í júlí…).

Síðan erum við bara að bíða eftir að barnið láti sjá sig. Viljum helst að það komi strax. Karen veðjaði á 9. desember og ég á 11. (daginn í dag) svo við erum bæði búin að tapa, nema eitthvað svakalegt gerist á næstu 46 mínútum…

Ný vinna, masters verkefni og fleira

Það er ýmislegt búið að gerast síðan ég skrifaði hérna síðast. Það er búin að vera mikil óvissa hjá okkur síðustu vikur um framhaldið hérna í Danmörku. Eftir að við náðum loksins að leigja út íbúðina okkar heima var öruggt að við mundum a.m.k. ekki koma heim strax, en síðan þá er óvissan búin að snúast um hvort Karen fengi einhvern fæðingarstyrk og hvort ég gæti þá tekið mastersverkefnið í vor eða hvort ég þyrfti að fresta því og finna mér fulla vinnu í nokkra mánuði. En loksins eftir endalausar heimsóknir hjá Karen í ráðhúsið, þar sem hún hefur verið send fram og til baka og verið í endalausu veseni þá er komið í ljós að hún fær víst fæðingarstyrk. Það virðist vera reglan hjá opinberum starfsmönnum hérna að hjálpa eins lítið og þeir mögulega geta, og sérstaklega benda þeir manni aldrei á neitt að fyrra bragði. Það plús að deildir í ráðhúsinu eru opnar á mismunandi tímum og eru ekki opnar lengi hefur valdið því að þetta hefur allt saman verið hrikalega langt og leiðinlegt vesen. En núna með fæðingarstyrknum + hlutavinnu hjá mér + húsaleigubótum + 2x barnabótum + fríplássi á leikskóla ættum við að geta látið þetta ganga þangað til í sumar þegar ég klára og get fengið mér alvöru vinnu.

Hlutavinnan sem ég er komin með er hjá dönsku hugbúnaðarfyrirtæki sem heitir Maconomy. Ég fór á kynningu hjá þeim fyrir nokkrum vikum og leist vel á. Ég sendi svo inn umsókn og fór í tvö viðtöl og fékk svo hlutastarf. Ég byrja í einhverri test deild og fer svo sennilega í forritunarstöðu í vor þegar þeir fara að endurskrifa einhvern server sem þeir eru með.

Fyrir utan það er ég kominn með Masters verkefni. Er búinn að finna leiðbeinanda sem ég er mjög sáttur með og eftir að tala við hann í gær kom ég með tillögu sem honum leist vel á. Nú þurfum við að fylla út eitthvað form og láta samþykkja tillöguna, en ég geri ráð fyrir að það sé ekkert mál fyrst þetta er eitthvað sem honum þykir vænlegt. Verkefnistillagan hefur titilinn ‘PLR: A Process Language Runtime for the .NET platform’ og gengur útá að útfæra process calculus mál eins og CCS og CSP í .NET. Nánar tiltekið að búa til runtime sem einfaldar að útfæra svona mál (sambærilegt við Dynamic Language Runtime) og útfæra svo 2 mál sem proof-of-concept til að sanna að þetta virki.

Fyrir utan þetta allt saman erum við svo bara að bíða eftir barninu sem á að koma 17. desember en við erum að vonast eftir að komi fyrr. Erum orðin óþolinmóð og viljum helst fá það bara í byrjun Desember. Karen vill reyndar fá það strax en ég vill að það komi daginn eftir síðasta prófið mitt :).

Gamlir Nintendo leikir á netinu

Besta tölva allra tíma er og mun alltaf vera NES, gamla grá Nintendo tölvan. Ég hef stundum downloadað einhverjum Nintendo emulator forritum til að spila gömlu góðu leikina aftur en hef oft hugsað að það væri nú miklu betra ef það væri hægt að gera það beint á netinu. Mér var meira segja farið að detta í hug að taka einn af þessum emulatorum, sem eru flestir open source, og porta honum yfir í Flash eða eitthvað. En, þegar maður fær góðar hugmyndir þá er yfirleitt einhver sem hefur fengið þær áður og á snilldarsíðunni http://www.virtualnes.com/ getur maður gert nákvæmlega þetta, spilað Nintendo án þess að downloada neinu eða standa í neinu veseni. Þessi emulator er reyndar skrifaður í Java svo maður þarf að hafa Java plugin en það eru nú flestir með. Eini gallinn er að útaf lagaástæðum segjast þeir bara mega birta þá leiki sem þeir eiga sjálfir, þ.e. þeir eiga sjálf leikjahulstrin. En þessir frægustu eru allavega þarna, Super Mario Bros o.fl. Og ef maður á einhverja gamla leiki þá getur maður sent þá á gaurana sem reka síðunni og deilt þeim þannig með öllum.

Kaupmannahöfn – Borg óttans

Síðustu vikur hafa verið skotárásir hérna á svona 2-3 daga fresti í Kaupmannahöfn. Það er semsagt gengjastríð í gangi milli “rokkara” (sem eru semsagt Hells Angels) og innflytjenda (eða “manna með innflytjendabakgrunn” eins og þeir kalla það hérna). Miðað við hvar við búum ættum við nú kannski að standa með innflytjendunum þar sem hverfið okkar er örugglega svona 60-70% innflytjendur. Sala á skotheldum vestum er líka búin að aukast um 800%, kannski maður ætti að splæsa í svoleiðis?

Við flytjum inní nýju íbúðina á næstu dögum, nú er bara spurning um hvenær við getum fengið lyklana. Ég var rétt í þessu að hringja í húsvörðinn og skilja eftir skilaboð á símsvaranum. Mér finnst mjög fínt að tala dönsku við símsvara, miklu betra en að tala við alvöru fólk. Ef ég ég fengi að ráða mundi ég aldrei tala við fólk, bara skiptast á símsvaraskilaboðum. Það eru allir búnir að bjóðast til að hjálpa okkur við flutningana þannig að þetta ætti nú að ganga fljótt og vel. Við ætlum að leigja sendiferðabíl þannig að við getum gert þetta sjálf í rólegheitum, þá fæ ég líka að prófa að keyra hérna sem verður áhugavert.

Annars er danskan öll að koma til hjá bæði mér og Karen. Við vorum hjá ljósmóður í dag, sú íslenska sem við höfðum var veik svo það voru 2 danskar í staðinn. Karen talaði við þær um allt á dönsku eins og ekkert væri. Ég fór líka í fyrsta sinn að tala við prófessorana mína í skólanum á dönsku um daginn og það gekk bara vel. Einu skiptin sem við tölum orðið ensku við dani núna er ef það er eitthvað mjög mjög mikilvægt sem við viljum ekki misskilja eða kunnum alls ekki að segja á dönsku. Ég les líka dönsk dagblöð á hverjum degi og hef verið að hlusta á danskt útvarp í lestinni, sérstaklega eina stöð þar sem er bara tal. Þetta er reyndar hundleiðinlegt stöð en þeir tala frekar skýrt, nú veit ég allt of mikið um einhverja Lene Espersen sem er að taka við sem formaður hjá konservatíva flokknum og hvernig hún mun standa sig í samanburði við Bendt Bensen. Þegar ég kem heim ætla ég svo að verða svona óþolandi dana íslendingur sem segir altså, faktískt og interessant í öðru hvoru orði. Ég er meira að segja sjálfviljugur að downloada plötu með Kim Larsen (eða best-of Gasolin, gömlu hljómsveitinni hans). Ef einhver hefði sagt mér það fyrir 10 árum hefði ég sagt að þeir væru eitthvað klikkaðir. Er einmitt að hlusta á plötuna núna, nánar tiltekið þetta lag:

Idiot

Síðustu daga og vikur hefur hobbý forritunar projectið mitt verið að búa til spilið Idiot í Javascript. Mig hefur alltaf langað að búa til spilaleik og ákvað að gera hann í Javascript til að hægt væri að spila hann á netinu. Ólíkt flestum svona smáprojectum sem ég geri þá actually kláraði ég þetta og hægt er að spila leikinn á hinni frekar óheppilegu slóð http://einaregilsson.com/idiot/. Þegar ég fór að leita að Idiot á netinu þá fann ég massífa síðu um hann á Wikipedia (undir nafninu Shithead) þar sem eru útskýrð allskonar afbrigði. Mín útfærsla virkar eins og ég hef alltaf spilað hann:

  • Í byrjun má skipta út spilum á hendi og þeim sem snúa upp í borði
  • Tvist má láta ofan á hvaða spil sem er
  • Fimmu má láta ofan á hvaða spil sem er og þá verður næsti að láta spil sem er lægra eða jafnt og fimma.
  • Tíu má láta ofan á hvað sem er og þá hverfur bunkinn.
  • Það má láta út fleiri en eitt spil í einu ef þau eru með sama númer.
  • Ef fjögur eins spil eru efst í bunkanum þá hverfur hann.
  • Ef maður þarf að taka bunkann þá má maður fyrst draga efsta spilið úr stokknum og láta ofan á, ef það er gilt þá tekur maður ekki bunkann.

Ekki búast við einhverju svaka animation eða neinu svoleiðis. Maður velur bara spilin sem maður vill spila út með því að smella á þau og smellir svo á ‘Láta út valin spil’ takkann. Þegar tölvan er að gera þá hverfa bara spilin úr hendinni á henni og birtast á bunkanum. Það er samt smá delay milli spilanna sem hún setur út þannig að maður á alveg að geta séð t.d. þegar hún lætur út 3 spil í einu. Ef maður þarf að taka bunkann þá smellir maður bara á ‘Taka bunkann’, þá er sjálfkrafa dregið eitt spil úr stokknum og sett ofaná. Ef það er löglegt þá færðu ekki bunkann, ef það er ekki löglegt fer allur bunkinn á hendina hjá þér. Leikurinn ætti að virka á öllum helstu browserum en það eru örugglega einhverjar villur í þessu ennþá þannig að ef þið rekist á eitthvað skrýtið þá endilega sendið mér póst og látið vita.

Húsnæði, Íslandsferð og fleira

Húsnæðismálin eru búin að reddast hjá okkur, a.m.k. hérna í Danmörku. Við enduðum á því að hafa samband við Sigrúnu Þormar, sem vinnur við það hérna í Danmörku að hjálpa Íslendingum að finna húsnæði, gera skattaskýrslu, sækja um bætur og bara hvað sem er. Við báðum hana sérstaklega að athuga hvort það væri laus íbúð í húsi í Frederiksberg þar sem vinir okkar búa. Hún fann íbúðina fyrir þau, og þau höfðu sagt okkur að það væru lausar íbúðir þannig að hún reddaði þessu og við getum flutt inn 1. október. Íbúðin er frábær, tvö svefnherbergi, þvottavél+þurrkari inní íbúðinni, uppþvottavél í eldhúsinu og allt mjög snyrtilegt og fínt. Svo er lokaður garður þar sem maður getur farið út með Daníel, það búa líka nokkrar aðrar íslenskar fjölskyldur þarna þannig að kannski eru einhverjir krakkar sem hann getur talað við. Húsnæðismálin á Íslandi eru hinsvegar ekki nógu góð, við erum ennþá ekki búin að leigja aftur út okkar íbúð. Ef einhver veit um einhvern sem er að leita að 4 herb íbúð í tæpt ár, þá endilega hafa samband.

Talandi um Ísland, ég og Daníel komum í stutta Íslandsferð 11.-15. október. Þá er ég í haustfríi og við ákváðum að nýta tækifærið og kíkja í heimsókn. Karen kemur ekki með þar sem konur sem eru komnar svona langt eiga ekki að fljúga. Við nýtum örugglega ferðina líka til að byrgja okkur upp af íslensku nammi og svona. Þannig að, sjáumst í október 🙂

NordSec ’08 og íbúðarleit

Ég og Luke fengum niðurstöðuna úr verkefninu okkar og pappírinn okkar verður birtur í ráðstefnuriti fyrir ráðstefnuna ‘13th Nordic Workshop on Secure IT Systems‘ eða NordSec ’08. Fengum review frá þremur gaurum sem voru svona ágæt, ekkert æðisleg en nógu góð til að pappírinn verður birtur. Nú þurfum við að laga pappírinn eitthvað til skv. athugasemdum og skila inn lokaútgáfu 24. sept. Ráðstefnan er svo haldin í DTU 9-10. okt og þá verðum við með einhverja smá kynningu. Að halda kynningar er nú ekki eitthvað sem mér finnst gaman en maður hefur sjálfsagt gott af því.

Annars erum við bara á fullu núna að leita að nýrri íbúð. Við missum þessa íbúð í lok september þannig að þetta er farið að verða svolítið tæpt en við reddum þessu. Getum alltaf fengið einhverja íbúð á slæmum stað, við viljum bara reyna að fá íbúð sem er sæmilega nálægt skólanum svo ég sé ekki 2 tíma á dag í metro+lest+strætó. Þetta er aðeins skárra en í haust, núna erum við a.m.k. orðin nógu sleip í dönsku til að tala við væntanlega leigusala, maður heyrði það á mörgum í haust að þeir voru ekki sérlega hrifnir af því að þurfa að tala ensku við mann. Sumar auglýsingarnar á þessum leiguvefsíðum eru ansi spes. Einn vildi leigja íbúðina sína, en ekki einhverjum sem mundi búa þar full time, vildi bara leigja einhverjum sem byggi til dæmis á Jótlandi en kæmi nokkra daga í viku til Køben útaf vinnu. Annar vildi leigja íbúðina í meira en ár, en áskildi sér rétt til að henda leigjendunum út í 2-6 vikur á sumrin og láta vita af því með mánaðar fyrirvara. Svo eru náttúrulega margir sem geta alls ekki hugsað sér að fá börn í íbúðirnar sínar, algjör horror náttúrulega að leigja barnafjölskyldum!

Annars lentum við líka í leiðinlegu krappi um daginn. Vorum búin að finna mjög vænlega íbúð í Gentofte sem er rétt hjá skólanum, verðið var í lagi og konan hljómaði vingjarnleg í símanum. Vorum á leiðinni að skoða síðasta sunnudag og þá hringir hún í okkur svona 20 mínútum áður en við áttum að mæta og spyr hvar við séum. Við sögðum að við værum bara að labba niður götuna til hennar og hún sagði OK. Svo þegar hún fer að sýna okkur íbúðina er hún voðalega áhugalaus eitthvað, nennir ekkert að hlusta á okkur, sýnir ekki sameign eða kjallara og hafði engan áhuga á okkur. Áður en við förum segir hún að það sé einn annar mögulegur leigjandi sem sé að koma og hún láti okkur vita. Seinna um daginn hringir hún svo og segir að hún sé búin að selja íbúðina!!! Það stóð ekkert um að hún væri til sölu í auglýsingunni eða neitt. Þá fórum við að pæla meira í þessu og föttuðum að hún hefur auðvitað vitað áður en við komum að hún ætlaði ekkert að leigja okkur íbúðina, hringdi í okkur 20 mínútum á undan til að segja okkur að koma ekki en hefur hætt við það þegar hún heyrði að við værum rétt ókomin. Síðan vorum við skoðandi íbúðina og reynandi að segja henni eitthvað frá okkur eins og fífl, og áttum aldrei séns. Vorum grjótfúl restina af deginum og hugsuðum upp ýmis ljót dönsk orð til að kalla hana. Ég prófaði að leita að “danish swear words” núna á google og fann þessa fínu síðu. Kannski ekki góð síða til að opna t.d. í vinnunni þar sem það eru auglýsingar í kring með berbrjósta konum en þarna eru nokkrar góðar móðganir og blótsyrði, t.d. “Du er så grim at du gør blinde børn bange” og “Du ligner en ged og du lugter af tis“. Nú verð ég aldeilis tilbúinn fyrir næsta leigusala sem er fífl!

Skólinn að byrja aftur

Þá er skólinn að byrja aftur. Reyndar fór ég á tvo fyrirlestra í þessari viku, gaur frá háskóla í bandaríkjunum sem hefur verið að vinna að nýrri compiler tækni fyrir forritunarmál kom hérna og hélt tvo mjög áhugaverða fyrirlestra. Hann + tveir stúdentar hjá honum eru á bakvið nýja tækni sem er komin í Firefox 3.1 og er að hraða javascript í honum um nokkur hundruð prósent. Mjög cool. Svo byrjar alvöru skólinn á þriðjudaginn. Ég er bara í þremur áföngum þessa önn og ekki að vinna svo þetta ætti nú ekki að verða neitt of massíft. Áfangarnir sem ég tek eru:

  • Process modelling and validation – Erfiður fræðilegur kúrs sem á kannski eftir að hjálpa við masters verkefnið mitt.
  • Technology, economics, management and organisation – 10 eininga (!!!) management áfangi. Ég tók ekki einn einasta viðskiptafræði áfanga í B.Sc. náminu á íslandi þannig að ég ákvað að kannski væri kominn tími á að prófa eitthvað nýtt. Svo er Luke félagi minn líka að kenna í honum sem verður fyndið.
  • Introduction to Computer Game Prototyping – Búa til litla tölvuleiki í Python. Þetta verður örugglega snilldar áfangi sem ég ákvað að taka þó það þýddi að ég lenti í árekstri við Process modelling áfangann. Ég skelli örugglega inn einhverjum leikjum hérna þegar líður á önnina.

Það besta er samt að ég er bara 3 daga í viku í skólanum sem er ansi þægilegt. Er í fríi frá hádegi á föstudegi til hádegis á þriðjudegi og fimmtudagur er frí líka.

Annars erum við núna á fullu að leita að íbúð. Vantar 3 herbergja íbúð áður en barnið kemur, erum búin að segja okkar íbúð upp og verðum að vera komin út 1. október. Ætlum líka að reyna að komast nær skólanum, síðasta vetur tók klukkutíma að komast í skólann með hjóli+metro+lest+strætó þannig að 2 tímar á dag fóru bara í samgöngur. Erum að fara að skoða a.m.k. tvær íbúðir um helgina, vonandi kemur eitthvað útúr því.