Category Archives: Vinna

Ný vinna á morgun

Jæja, fyrsti vinnudagurinn á morgun. Ég mæti kl. 10, og klukkan 13 byrjar svo julefrukost, sem er framá nótt samkvæmt nýja yfirmanninum mínum. Þetta ætti að verða fínn fyrsti dagur. Ég efast reyndar um að ég verði neitt mjög lengi í julefrukostinum, þar sem ég þekki engan þarna ennþá eða neitt.

Var annars að klára síðasta prófið á mánudaginn. Það var munnlegt próf í kúrsinum Process Modelling & Validation. Gekk bara vel, nú á ég bara eftir að fá einkunnir úr hinum tveimur áföngunum mínum. Skrýtið að vera búinn með alla áfanga sem ég mun taka hérna, mér finnst ekki svo langt síðan ég byrjaði. En samt gott, það verður fínt að geta einbeitt sér að einu verkefni eftir jól, og þurfa ekki að hafa áhyggjur af verkefnaskilum og prófum (ehemm, nema einum ansi stórum verkefnaskilum í júlí…).

Síðan erum við bara að bíða eftir að barnið láti sjá sig. Viljum helst að það komi strax. Karen veðjaði á 9. desember og ég á 11. (daginn í dag) svo við erum bæði búin að tapa, nema eitthvað svakalegt gerist á næstu 46 mínútum…

Ný vinna, masters verkefni og fleira

Það er ýmislegt búið að gerast síðan ég skrifaði hérna síðast. Það er búin að vera mikil óvissa hjá okkur síðustu vikur um framhaldið hérna í Danmörku. Eftir að við náðum loksins að leigja út íbúðina okkar heima var öruggt að við mundum a.m.k. ekki koma heim strax, en síðan þá er óvissan búin að snúast um hvort Karen fengi einhvern fæðingarstyrk og hvort ég gæti þá tekið mastersverkefnið í vor eða hvort ég þyrfti að fresta því og finna mér fulla vinnu í nokkra mánuði. En loksins eftir endalausar heimsóknir hjá Karen í ráðhúsið, þar sem hún hefur verið send fram og til baka og verið í endalausu veseni þá er komið í ljós að hún fær víst fæðingarstyrk. Það virðist vera reglan hjá opinberum starfsmönnum hérna að hjálpa eins lítið og þeir mögulega geta, og sérstaklega benda þeir manni aldrei á neitt að fyrra bragði. Það plús að deildir í ráðhúsinu eru opnar á mismunandi tímum og eru ekki opnar lengi hefur valdið því að þetta hefur allt saman verið hrikalega langt og leiðinlegt vesen. En núna með fæðingarstyrknum + hlutavinnu hjá mér + húsaleigubótum + 2x barnabótum + fríplássi á leikskóla ættum við að geta látið þetta ganga þangað til í sumar þegar ég klára og get fengið mér alvöru vinnu.

Hlutavinnan sem ég er komin með er hjá dönsku hugbúnaðarfyrirtæki sem heitir Maconomy. Ég fór á kynningu hjá þeim fyrir nokkrum vikum og leist vel á. Ég sendi svo inn umsókn og fór í tvö viðtöl og fékk svo hlutastarf. Ég byrja í einhverri test deild og fer svo sennilega í forritunarstöðu í vor þegar þeir fara að endurskrifa einhvern server sem þeir eru með.

Fyrir utan það er ég kominn með Masters verkefni. Er búinn að finna leiðbeinanda sem ég er mjög sáttur með og eftir að tala við hann í gær kom ég með tillögu sem honum leist vel á. Nú þurfum við að fylla út eitthvað form og láta samþykkja tillöguna, en ég geri ráð fyrir að það sé ekkert mál fyrst þetta er eitthvað sem honum þykir vænlegt. Verkefnistillagan hefur titilinn ‘PLR: A Process Language Runtime for the .NET platform’ og gengur útá að útfæra process calculus mál eins og CCS og CSP í .NET. Nánar tiltekið að búa til runtime sem einfaldar að útfæra svona mál (sambærilegt við Dynamic Language Runtime) og útfæra svo 2 mál sem proof-of-concept til að sanna að þetta virki.

Fyrir utan þetta allt saman erum við svo bara að bíða eftir barninu sem á að koma 17. desember en við erum að vonast eftir að komi fyrr. Erum orðin óþolinmóð og viljum helst fá það bara í byrjun Desember. Karen vill reyndar fá það strax en ég vill að það komi daginn eftir síðasta prófið mitt :).

NordSec ’08 og íbúðarleit

Ég og Luke fengum niðurstöðuna úr verkefninu okkar og pappírinn okkar verður birtur í ráðstefnuriti fyrir ráðstefnuna ‘13th Nordic Workshop on Secure IT Systems‘ eða NordSec ’08. Fengum review frá þremur gaurum sem voru svona ágæt, ekkert æðisleg en nógu góð til að pappírinn verður birtur. Nú þurfum við að laga pappírinn eitthvað til skv. athugasemdum og skila inn lokaútgáfu 24. sept. Ráðstefnan er svo haldin í DTU 9-10. okt og þá verðum við með einhverja smá kynningu. Að halda kynningar er nú ekki eitthvað sem mér finnst gaman en maður hefur sjálfsagt gott af því.

Annars erum við bara á fullu núna að leita að nýrri íbúð. Við missum þessa íbúð í lok september þannig að þetta er farið að verða svolítið tæpt en við reddum þessu. Getum alltaf fengið einhverja íbúð á slæmum stað, við viljum bara reyna að fá íbúð sem er sæmilega nálægt skólanum svo ég sé ekki 2 tíma á dag í metro+lest+strætó. Þetta er aðeins skárra en í haust, núna erum við a.m.k. orðin nógu sleip í dönsku til að tala við væntanlega leigusala, maður heyrði það á mörgum í haust að þeir voru ekki sérlega hrifnir af því að þurfa að tala ensku við mann. Sumar auglýsingarnar á þessum leiguvefsíðum eru ansi spes. Einn vildi leigja íbúðina sína, en ekki einhverjum sem mundi búa þar full time, vildi bara leigja einhverjum sem byggi til dæmis á Jótlandi en kæmi nokkra daga í viku til Køben útaf vinnu. Annar vildi leigja íbúðina í meira en ár, en áskildi sér rétt til að henda leigjendunum út í 2-6 vikur á sumrin og láta vita af því með mánaðar fyrirvara. Svo eru náttúrulega margir sem geta alls ekki hugsað sér að fá börn í íbúðirnar sínar, algjör horror náttúrulega að leigja barnafjölskyldum!

Annars lentum við líka í leiðinlegu krappi um daginn. Vorum búin að finna mjög vænlega íbúð í Gentofte sem er rétt hjá skólanum, verðið var í lagi og konan hljómaði vingjarnleg í símanum. Vorum á leiðinni að skoða síðasta sunnudag og þá hringir hún í okkur svona 20 mínútum áður en við áttum að mæta og spyr hvar við séum. Við sögðum að við værum bara að labba niður götuna til hennar og hún sagði OK. Svo þegar hún fer að sýna okkur íbúðina er hún voðalega áhugalaus eitthvað, nennir ekkert að hlusta á okkur, sýnir ekki sameign eða kjallara og hafði engan áhuga á okkur. Áður en við förum segir hún að það sé einn annar mögulegur leigjandi sem sé að koma og hún láti okkur vita. Seinna um daginn hringir hún svo og segir að hún sé búin að selja íbúðina!!! Það stóð ekkert um að hún væri til sölu í auglýsingunni eða neitt. Þá fórum við að pæla meira í þessu og föttuðum að hún hefur auðvitað vitað áður en við komum að hún ætlaði ekkert að leigja okkur íbúðina, hringdi í okkur 20 mínútum á undan til að segja okkur að koma ekki en hefur hætt við það þegar hún heyrði að við værum rétt ókomin. Síðan vorum við skoðandi íbúðina og reynandi að segja henni eitthvað frá okkur eins og fífl, og áttum aldrei séns. Vorum grjótfúl restina af deginum og hugsuðum upp ýmis ljót dönsk orð til að kalla hana. Ég prófaði að leita að “danish swear words” núna á google og fann þessa fínu síðu. Kannski ekki góð síða til að opna t.d. í vinnunni þar sem það eru auglýsingar í kring með berbrjósta konum en þarna eru nokkrar góðar móðganir og blótsyrði, t.d. “Du er så grim at du gør blinde børn bange” og “Du ligner en ged og du lugter af tis“. Nú verð ég aldeilis tilbúinn fyrir næsta leigusala sem er fífl!

Danmörk – Dagur 365…

Í dag er dagur 365 hér í Danmörku. Ég kom hingað 24. ágúst í fyrra og flutti inn í gáminn góða. Margt búið að gerast á síðastliðnu ári. Var fyrst einn hérna í 4 mánuði í gámnum með fólki úr öllum heimshornum. Það var að mörgu leyti mjög skemmtilegt en líka erfitt að vera í burtu frá Karen og Daníel. Búinn að prófa að vinna hjá Microsoft sem var áhugavert að öllu öðru leyti en því að það sem ég var actually að gera var frekar óspennandi. En það var fróðlegt að vinna í svona stóru fyrirtæki, kynnast fólkinu og sjá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þarna. Búinn að vinna sjálfstætt rannsóknarverkefni með öðrum nemanda undir leiðsögn tveggja prófessora, við sendum inn pappír til birtingar í ráðstefnu sem verður í haust, NordSec ’08, og fáum að vita á næstu dögum hvort hann verður birtur þar. Búinn að vinna í skólanum með Dönum, Bretum, Hollendingum, Litháum, Lettum og Pólverjum að allskonar spennandi og óspennandi verkefnum. Ég og Karen erum búin að koma Daníel inná leikskóla, fara til Legolands, þvælast um alla garða og legaplads í Kaupmannahöfn, læra talsvert meira í dönsku og búa til eitt stykki nýtt barn. Í heildina er ég bara mjög ánægður með þetta allt saman, þó að það sé erfitt að mörgu leyti að flytja milli landa þá er það líka áhugavert og gaman að prófa að búa í nýju umhverfi.

Í dag er líka afmælisdagurinn minn, ég er orðinn 28 ára. Eldri en Jimi Hendrix, Kurt Cobain, Jim Morrison og Janis Joplin urðu 🙂 .  Karen fann til fínan morgunverð fyrir okkur í morgun, síðan skruppum við í Fields að kaupa nokkra hluti, m.a. afmælisköku og lentum svo í brjálaðri rigningu á leiðinni til baka, komum inn öll hundblaut. Vorum svo bara þrjú saman með afmæliskaffi en fáum nokkra gesti í kvöld, Öglu og Ragga, Ebbu og Hilmar, og Hildi og Gúnda. Maður má víst samt ekki vera of lengi að í kvöld því maður verður að vakna til að sjá handboltann á morgun þar sem við munum að sjálfsögðu vinna gullið!!!

Loksins að komast í frí.

Punktablogg þar sem ég nenni ekki að tengja þetta saman.

  • Skilaði inn verkefninu í Biometric systems í dag og er þar með búinn með alla áfanga. Nú á ég bara eftir að vinna á sunnudaginn og mánudaginn og þá er ég kominn í sumarfrí í tvo mánuði.
  • Luke, sá sem ég vinn með hefur það fyrir vana að skrifa á töfluna í skrifstofunni okkar ýmis kvót sem honum finnast fyndin. Núna stendur efst á töflunni okkar “Since the dawn of time man has dreamt of destroying the sun!”. Restin af töflunni er full af jöfnum, formúlum og algóriþmum. Fólk sem kemur í fyrsta sinn inná skrifstofuna okkar gæti alvarlega misskilið hvað verkefnið okkar gengur útá. (Smørrebrød í verðlaun fyrir þann sem þekkir kvótið).
  • Við fórum í fyrsta skipti til Svíþjóðar á mánudaginn, tókum lestina yfir Øresund til Malmø. Það var gaman. Besti parturinn var að í Svíþjóð eru Subway staðir sem við erum búin að sakna hérna á Danmörku. Ansi dýrt að fara til Svíþjóðar bara til að fá Subway reyndar…
  • Á forsíðunni á Urban í dag var fyrirsögnin “Nasista-barnaníðingur handtekinn fyrir að skipuleggja hryðjuverk!”. Þetta hlýtur nú bara að vera versti maður í heimi! Hvað gæti verið verra en nasista-barnaníðingur? Sem skipuleggur hryðjuverk í þokkabót!!
  • Ég hef gegnum tíðina reynt að fylgjast með helstu tækninýjungum, og nýtt mér margar þeirra s.s. veraldarvefinn og rafpóst. Núna nýlega skráði ég mig á vefsíðu sem ég hef heyrt að sé mjög vinsæl hjá ungdómnum og nefnist “Facebook” uppá ensku. Á þessari svokölluðu “Facebook” getið þið fundið mig á slóðinni http://www.facebook.com/profile.php?id=808179882 og addað mér ef þið þekkið mig og ég hef ekki nú þegar addað ykkur.
  • Venjan hjá Dönum sem eru að útskrifast með stúdentspróf er að leigja pallbíla fyrir hóp af fólki, standa svo öll á pöllunum með stúdentshúfurnar, keyra um bæinn og öskra og flauta á fólk. Bærinn var fullur af svona bílum í dag.
  • Atli frændi kom í heimsókn í dag og kom með osta og nammi frá Íslandi. Danir hafa ekki fattað hvað lakkrís með súkkulaði utanum er mikil snilld, ekkert þannig nammi fæst hérna sem er ömurlegt. Reyndar getur maður fengið 3-4 tegundir af íslensku nammi í Irma en það er eini staðurinn.

Ný vinna, þorrablót og dönsk tækni

Jæja, þá er ég búinn að skipta um vinnu. Ég var búinn að pæla í því í smá tíma að hætta hjá Microsoft, 15 tímar á viku (+ 4 í samgöngur) var of mikið en ég vildi ekki hætta alveg og vera ekki með nein laun lengur. En svo benti Luke (sem er með mér í skólanum) mér á að það var verið að óska eftir masters nemum í DTU til að vinna ákveðið verkefni í skólanum, 1 dagur í viku og ágætis laun þannig að ég ákvað að sækja um það með Luke. Ég sagði upp hjá Microsoft og fékk að hætta undireins, yfirmaðurinn var mjög fínn, reyndi að fá mig til að vera áfram en sagði mér svo bara að láta sig fá uppsagnarbréf þar sem ég segðist mundu vinna næstu 2 vikur, því ef ég hætti samstundis gæti það haft áhrif ef ég vildi einhverntímann sækja um aftur. Þó ég segðist ætla að vinna 2 vikur í viðbót þurfti ég ekkert að mæta og gat þess vegna byrjað strax í nýju vinnunni. Nýja verkefnið er partur af stærra rannsóknarverkefni, okkar partur gengur útá að skoða hvernig sé hægt að nota Aspect oriented programming og static analysis til að bæta öryggi í existing kerfum. Við fáum skrifstofu með 2 öðrum mastersnemum sem er algjör snilld þar sem maður getur líka notað hana til að læra fyrir önnur fög og hefur stað til að geyma dótið sitt og svona. Ég vinn í þessu 1 dag í viku framí júní og þá sjáum við til með framhaldið.

Annars er allt fínt að frétta bara. Síðasta föstudag buðum við Luke, Giedrius og Rimanda í mat til okkar. Giedrius er strákur frá Litháen sem er með mér í skólanum og var að vinna hjá Microsoft, Rimanda er kærastan hans. Á laugardaginn fengum við svo Öglu til að passa fyrir okkur og fórum með Ebbu, Hilmari, Rakel og einhverjum vinum Ebbu og Hilmars á þorrablót hjá Íslendingafélaginu. Það var ágætt, skrýtið að vera allt í einu með eintómum íslendingum aftur. Hljómsveitin hefði samt mátt vera betri til að fá betri stemmningu. En það var gott að komast út, þetta var í fyrsta skipti sem við höfum farið eitthvert saman út síðan við komum til Danmerkur.

Ég ætla að bæta við nýjum föstum lið á þessa síðu. Þetta er nýr dálkur sem heitir Dönsk tækni dagsins þar sem ég mun segja frá æsispennandi dönskum tækninýjungum eins og peningafæriböndum, skiptimyntarvélum og fleiru sniðugu.

Dönsk tækni dagsins:

Við fengum okkur að borða í Fields á svona skyndibitastað. Í staðinn fyrir að fá númer og vera kölluð upp þegar maturinn er tilbúin fengum við svona smá flögu einhverja til að taka með okkur. Þegar maturinn okkar var tilbúinn þá pípti flagan og blikkaði ljós á henni. Snilld!

Jólabjór

Sit í vinnunni með bjór í annarri hendi og snakk í hinni. Var að koma úr kaffiteríunni þar sem stelpur í jólasveinabúningum löbbuðu um og gáfu fólki Tuborg julebryg. Í dag eða gær er semsagt dagurinn þegar jólabjórinn kemur í búðir og af því tilefni fáum við þetta í dag. Stuð 🙂

Danmörk – Dagur 70

Lífið gengur sinn vanagang hérna í Danmörku. Íbúðarleitin er í fullum gangi, er skráður á tveim vefsíðum og er sífellt að senda út pósta útaf íbúðum. Búinn að skoða eina sem var fín en of langt í burtu og fer að skoða 2 vænlegar á sunnudaginn. Fór í dag í einhverja reception fyrir þau fyrirtæki sem eru að sponsora stúdenta frá DTU, það voru kennarar, stúdentar og fulltrúar fyrirtækjanna þarna. Komst að því að þetta er mjög misjafnt milli fyrirtækja, hjá Microsoft er þetta hlutavinna en hjá sumum öðrum, t.d. hjá einhverju heyrnartækjafyrirtæki er þetta bara styrkur. Þekki þýskan strák hérna sem er sponsoraður af þeim, fær bara pening, þarf ekkert að vinna. Hljómar vel :). Móttakan var annars fín, fékk snittur og bjór og spjallaði heilmikið við einhverja konu frá Microsoft og yfirmann tölvunarfræðideildarinnar hérna í DTU.

Er annars búinn að vera að vinna frekar mikið undanfarið. Fór í hádegismat í Microsoft á miðvikudaginn með 3 öðrum íslendingum sem vinna þar. Þeir hittast alltaf hálfsmánaðarlega í mat og buðu mér með í þetta sinn. Sögðust vera fegnir að fá annan íslending, þeim er búið að fækka undanfarið, voru víst 5 eða 6 þarna þegar mest var. Svo var einhver SQL Server gaur frá bandaríkjunum í heimsókn þarna og hélt 2 tíma fyrirlestur um SQL Server 2008 í matsalnum eftir hádegi þannig að ég fór á það, mjög fínt bara. Allt fullt af Halloween skreytingum í matsalnum, kóngulóarvefir og grasker útum allt.

Svo er allt á fullu núna í öllum áföngum, verkefnin hrúgast upp, flest hópverkefni. Sem betur fer er ég í fínum hópum í öllum áföngum. Dæmatímakennarinn kom með kökur handa okkur í Computational Hard Problems á þriðjudaginn. Hann hafði lofað í vikunni áður að ef einhver gæti leyst ákveðið vandamál með því að breyta því í Sudoku þá myndi hann koma með kökur handa okkur, og einhver snillingurinn gerði það þannig að kennarinn þurfti að standa við loforðið. Svo í framhaldi af verkefni sem var í sama áfanga var ákveðið að hafa smá keppni, þar sem forritin okkar keppa og fá stig fyrir hraða + góðar lausnir, og það verða víst verðlaun fyrir 3 efstu sætin. Verður gaman að sjá hvað kemur útúr því.

Næsta Íslandsferð er svo 15 – 19 nóv og kem svo heim í jólafrí kringum 17. des.

Danmörk – Dagur 62

Jæja, er ekki komið tími á eitt stórt blogg? Ég var á Íslandi í síðustu viku, þar sem ég var í haustfríi í skólanum. Kom heim á laugardegi og fór á sunnudeginum viku seinna. Mjög gott að komast heim, hitta fjölskylduna og slappa aðeins af. Sé þvílíkar framfarir hjá Daníel, hann er farinn að tala miklu meira, farinn að segja flóknari hluti og það sem er best, hann er farinn að syngja á fullu! Gulur, rauður, grænn og blár, Dansi dansi dúkkan mín, Á leikskóla er gaman og fleiri lög sungin af miklum krafti. Annars tókum við það bara rólega, við urðum reyndar öll veik, samt aðallega Daníel. Það virðist gerast í hvert skipti sem ég kem heim, ég hlýt að vera að koma með einhverja danskar veirur með mér heim. Daníel fór svo í pössun til afa og ömmu á föstudeginum og ég og Karen kíktum í bíó á myndina Stardust, sem var bara nokkuð fín (Alda, þú ættir að sjá hana, mundir eflaust dýrka hana!). Svo tókst mér að gleyma skólabók, peysu, inniskóm og fleiru heima á Íslandi þegar ég fór til baka, sterkur leikur það.

Kom heim til Danmerkur á sunnudagskvöldið. Fór að spjalla við einhvern írskan strák meðan ég var að bíða eftir lestinni á Kastrup. Hann var semsagt chemical engineer (þó hann liti út fyrir að vera svona tvítugur!) og var sendur til Danmerkur af fyrirtækinu sínu til að vinna að einhverju projecti og var búinn að vera þarna í 4 mánuði. Hann hélt að Ísland væri ennþá partur af Danmörku! Fyndið hvað fólk veit lítið um Ísland, ég veit miklu meira um Írland og hin afríkuríkin heldur en hann vissi um Ísland!

Áður en ég fór til Íslands í fríið var búið að kríta á eldhús og baðherbergishurðina “Eldhús” og “Klósett” á sex mismunandi tungumálum. Þegar ég kom heim sá ég að það var líka búið að kríta gælunöfn utan á herbergishurðirnar. “Daddy” stóð utan á minni, hjá Giaullime stóð “Le Chef”, Sebastian var “Le Sous Chef”, Eduarda var “The Grandmother” (2 árum eldri en ég), Bruno var “Pizza Boy” (vinnur hjá Dominos), Xavier var “Mumbler” (talar mjög óskýrt) og Tiberiu var “Ratatouille” (hann eldar mjög skrýtinn mat). Julie var ekki með neitt og ég man ekki hvað Matteus var með. Annars fengum við líka nýjan herbergisfélaga í gær, spænskan strák sem heitir Jorge.

Er svo bara búinn að vera að vinna á fullu í Microsoft í þessari viku til að bæta upp frívikuna. Erum komnir með nýtt verkefni sem er nokkuð spennandi. Á mánudaginn var svo “all hands meeting” þar sem allir starfsmennirnir komu saman og einhver bigshot frá Bandaríkjunum hélt smá fyrirlestur og allir fengu gefins gríðarlega fallega bláa húfu með Microsoft Dynamics merki framan á. Það er alltaf gott að hafa nafnið á því sem maður vinnur við framan á enninu á sér svo maður gleymi því nú örugglega ekki. Einn af hinum student workerunum benti mér svo á annan Íslending sem er að vinna þarna og ég spjallaði aðeins við hann. Það eru víst 3 íslendingar þarna í fullu starfi og þeir hittast alltaf í hádegismat á miðvikudögum þannig að kannski lít ég við hjá þeim við tækifæri.

Er annars að fara að sofa. Aftur orðinn veikur með hressilegt kvef og eins gott að fara ekki of seint í háttinn.

Danmörk – Dagur 39

Punktablogg í þetta skiptið.

  • Prófaði DTU special pizzu á pizzastaðnum sem er á campusnum. Hún átti að vera með kebab skv. lýsingunni. Það þýddi ekki bara kjötið, heldur var eins og einhver hefði hellt úr heilli salatskál yfir alla pizzuna. Mæli ekki með því.
  • Fór í mat til Ebbu og Hilmars á föstudaginn. Þar voru líka Lára og Ómar og svo kom annað íslenskt par sem býr í húsinu líka. Fórum að djamma á einhverjum klúbb sem ég man ekki hvað heitir. Það var stuð. Skrýtið samt að djamma með Láru og Ebbu án þess að Karen væri með.
  • Var uppí Microsoft í morgun, skoðandi villu sem hafði komið upp og skrifandi test til að kalla hana fram. Þá krassaði Visual Studio hjá mér og spurði mig “Do you want to send an error report to Microsoft?”. Ég smellti á No.
  • Fer á kynningardag fyrir nýja starfsmenn á miðvikudaginn, það er eitthvað heilsdagsprógram. Þá er akkúrat mánuður síðan ég byrjaði að vinna.
  • Extra bladet er með slagorðið “Tør, hvor andre tiger”. Alveg eins og DV var áður með, “þorir þegar aðrir þegja”. Væntanlega hafa DV tekið það héðan.
  • Annað borðið úr eldhúsinu í gámnum okkar er horfið. Grunur leikur á að aðrir gámabúar hafi tekið það til að nota í gámapartýi.
  • Ég hef fengið það starf að vera þýðandi í gámnum mínum. Er sífellt að þýða matarumbúðir, bréf og fleira yfir á ensku fyrir hina íbúana. Sebastian sagðist um daginn vilja skoða danska klámsíðu, spurði hvort ég gæti hjálpað honum. Ég sagði honum að hjálpa sér sjálfur.
  • Eftir að tala við Hilmar komst ég að því að það er ekki mistök að danska CPR númerið mitt er ekki sama og íslenska kennitalan mín. Hélt að það væru mistök því bara næstsíðasta talan er öðruvísi, en þá eru þeir bara með eins kerfi, og bara tilviljun að stafir 7 og 8 eru þeir sömu og í íslensku kennitölunni minni. Getur samt ekki verið alveg eins kerfi því vartalan er öðruvísi. [Er búinn að forrita vartölutékk a.m.k. 5 sinnum, ég pæli í þessum hlutum… 🙂 ]