Monthly Archives: August 2008

Skólinn að byrja aftur

Þá er skólinn að byrja aftur. Reyndar fór ég á tvo fyrirlestra í þessari viku, gaur frá háskóla í bandaríkjunum sem hefur verið að vinna að nýrri compiler tækni fyrir forritunarmál kom hérna og hélt tvo mjög áhugaverða fyrirlestra. Hann + tveir stúdentar hjá honum eru á bakvið nýja tækni sem er komin í Firefox 3.1 og er að hraða javascript í honum um nokkur hundruð prósent. Mjög cool. Svo byrjar alvöru skólinn á þriðjudaginn. Ég er bara í þremur áföngum þessa önn og ekki að vinna svo þetta ætti nú ekki að verða neitt of massíft. Áfangarnir sem ég tek eru:

  • Process modelling and validation – Erfiður fræðilegur kúrs sem á kannski eftir að hjálpa við masters verkefnið mitt.
  • Technology, economics, management and organisation – 10 eininga (!!!) management áfangi. Ég tók ekki einn einasta viðskiptafræði áfanga í B.Sc. náminu á íslandi þannig að ég ákvað að kannski væri kominn tími á að prófa eitthvað nýtt. Svo er Luke félagi minn líka að kenna í honum sem verður fyndið.
  • Introduction to Computer Game Prototyping – Búa til litla tölvuleiki í Python. Þetta verður örugglega snilldar áfangi sem ég ákvað að taka þó það þýddi að ég lenti í árekstri við Process modelling áfangann. Ég skelli örugglega inn einhverjum leikjum hérna þegar líður á önnina.

Það besta er samt að ég er bara 3 daga í viku í skólanum sem er ansi þægilegt. Er í fríi frá hádegi á föstudegi til hádegis á þriðjudegi og fimmtudagur er frí líka.

Annars erum við núna á fullu að leita að íbúð. Vantar 3 herbergja íbúð áður en barnið kemur, erum búin að segja okkar íbúð upp og verðum að vera komin út 1. október. Ætlum líka að reyna að komast nær skólanum, síðasta vetur tók klukkutíma að komast í skólann með hjóli+metro+lest+strætó þannig að 2 tímar á dag fóru bara í samgöngur. Erum að fara að skoða a.m.k. tvær íbúðir um helgina, vonandi kemur eitthvað útúr því.

Danmörk – Dagur 365…

Í dag er dagur 365 hér í Danmörku. Ég kom hingað 24. ágúst í fyrra og flutti inn í gáminn góða. Margt búið að gerast á síðastliðnu ári. Var fyrst einn hérna í 4 mánuði í gámnum með fólki úr öllum heimshornum. Það var að mörgu leyti mjög skemmtilegt en líka erfitt að vera í burtu frá Karen og Daníel. Búinn að prófa að vinna hjá Microsoft sem var áhugavert að öllu öðru leyti en því að það sem ég var actually að gera var frekar óspennandi. En það var fróðlegt að vinna í svona stóru fyrirtæki, kynnast fólkinu og sjá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þarna. Búinn að vinna sjálfstætt rannsóknarverkefni með öðrum nemanda undir leiðsögn tveggja prófessora, við sendum inn pappír til birtingar í ráðstefnu sem verður í haust, NordSec ’08, og fáum að vita á næstu dögum hvort hann verður birtur þar. Búinn að vinna í skólanum með Dönum, Bretum, Hollendingum, Litháum, Lettum og Pólverjum að allskonar spennandi og óspennandi verkefnum. Ég og Karen erum búin að koma Daníel inná leikskóla, fara til Legolands, þvælast um alla garða og legaplads í Kaupmannahöfn, læra talsvert meira í dönsku og búa til eitt stykki nýtt barn. Í heildina er ég bara mjög ánægður með þetta allt saman, þó að það sé erfitt að mörgu leyti að flytja milli landa þá er það líka áhugavert og gaman að prófa að búa í nýju umhverfi.

Í dag er líka afmælisdagurinn minn, ég er orðinn 28 ára. Eldri en Jimi Hendrix, Kurt Cobain, Jim Morrison og Janis Joplin urðu 🙂 .  Karen fann til fínan morgunverð fyrir okkur í morgun, síðan skruppum við í Fields að kaupa nokkra hluti, m.a. afmælisköku og lentum svo í brjálaðri rigningu á leiðinni til baka, komum inn öll hundblaut. Vorum svo bara þrjú saman með afmæliskaffi en fáum nokkra gesti í kvöld, Öglu og Ragga, Ebbu og Hilmar, og Hildi og Gúnda. Maður má víst samt ekki vera of lengi að í kvöld því maður verður að vakna til að sjá handboltann á morgun þar sem við munum að sjálfsögðu vinna gullið!!!

Blogg sumarfrí búið

Jæja, þá eru komnir 2 mánuðir síðan ég setti eitthvað síðast inná þessa síðu. Hef verið að spá í hvort ég ætti að loka henni þar sem ég nenni næstum aldrei að skrifa neitt, en ákvað að halda þessu áfram og reyna að skrifa aðeins oftar, svona einu sinni í viku. Mér finnst gaman að lesa þetta sjálfum eftir nokkur ár.

Hvað gerðist svo í sumarfríinu? Daníel byrjaði á leikskóla 1. júlí þannig að við slepptum plönum um að ferðast mikið í júlí, leyfðum honum frekar bara að aðlagast leikskólanum í rólegheitunum. Leikskólinn heitir Grøftekanten, við köllum hann grafarkantinn, og hann er bara hinum megin við götuna. Daníel er hæstánægður þarna þó hann geti ekkert talað við hina krakkana og er rosa duglegur að leika sér allan daginn með þeim. Ég og Karen höfum bara talað dönsku við fóstrurnar sem er ágætis æfing fyrir okkur, sérstaklega þar sem við þekkjum eiginlega enga Dani hérna! Meðan Daníel var í aðlögun vorum ég og Karen bara að njóta frísins, ég var ekkert að vinna í sumarfríinu. Vorum bara barnlaus í stórborginni, erum búin að vera mikið niðrí bæ, borða úti, fara á bíó kl. 11 um morgun o.fl. Mikið stuð.

Svo var það Íslandsferðin. Við fórum í 2 vikur til Íslands í enda júlí. Það var fínt en soldið skrýtið. Í fyrsta lagi finnst manni allt í einu íslenska landslagið soldið spes. Þessi endalausa auðn og engin tré og svona, eitthvað sem ég hef aldrei pælt í fyrr, fannst mér allt í einu voða flott þegar við komum til baka. Við bjuggum hjá Tomma og Siggu í 3 nætur eftir að við komum, svo fórum við með mömmu og pabba í brekkuskóg í nokkra daga og svo bjuggum við seinustu vikuna aftur hjá Tomma og Siggu. Okkur tókst að hitta held ég alla sem við ætluðum að hitta og skemmtum okkur bara vel. Samt fannst mér líka mjög fínt að koma aftur hingað til Danmerkur eftir ferðina 🙂

Eina leiðinlega við Íslandsferðina var að við þurftum að eyða allt of miklu af henni í stúss í sambandi við íbúðina okkar. Í júlí kom það nefnilega upp að það var myglusveppur á baðherberginu hjá okkur. Leigjendurnir okkar voru ósátt við það og sögðu upp og fluttu út. Við fengum svo iðnaðarmenn til að koma, rífa niður flísar af baðinu, taka mygluna og flísaleggja aftur. Þarna hefði þetta átt að vera búið. En nei, píparinn sem gerði þetta klúðraði þessu einhvernveginn þannig að það fór að leka bakvið trévegginn sem flísarnar voru á, og lak gegnum gólfið niður til nágranna okkar. Þannig að við vorum í sambandi við tryggingarnar, smiði og pípara meðan við vorum heima, veggurinn var rifið í sundur og klósettið, vaskurinn og baðkarið rifið út. Augljóslega gátum við ekki leigt íbúðina aftur út í þessu ástandi þannig að við fengum leigumiðlun til að gera það fyrir okkur. Ef einhvern vantar 4 herbergja íbúð í grafarvogi endilega hafið samband! Anyway, þetta tók endalausan tíma af því sem átti að vera fríið okkar sem var frekar pirrandi.

Þetta er að verða ágætt held ég. Nóg skrif fyrir næstu tvo mánuði. Eitt enn. Fyrir þá sem ekki vita þá eigum við von á öðru barni í desember. Við fórum í fyrsta sinn í sónar síðasta föstudag hérna í Danmörku og fengum nokkrar myndir, m.a. þessa glæsilegu þrívíddarsónar mynd sem er hér fyrir neðan: