Category Archives: Vinna

Danmörk – Dagur 21

Og þá er önnur skólavikan búin. Aðeins búinn að kynnast betur áföngunum og svona. Program Analysis sem virkaði hræðilegt fyrst finnst mér núna mjög áhugavert, erum að gera massaverkefni í því og er kominn í hóp með breta og dana. Hinir áfangarnir virka allir ágætir þó Web Services sé frekar dull svona enn sem komið er. Er líka búinn að fara nokkrum sinnum í Microsoft að vinna og það er bara mjög fínt. Er reyndar búinn að gera lítið annað en að setja upp hugbúnað og svona, en ég og Giedrus sem er hinn student workerinn erum líka aðeins farnir að testa kerfið. Bara manual testing fyrst til að kynnast þessu en síðan förum við fljótlega að skrifa einhvern kóða. Mesta snilldin er samt ennþá maturinn. Það er borinn fram morgunverður á hverjum morgni sem er bara eins og fínasti hótelmatur, 4 tegundir af morgunkorni, allskonar brauð, sultur, ávextir, kaffi te og fleira. Svo er heitur matur í hádeginu og eftir hádegi getur maður alltaf skroppið í eldhúsið þar sem er afgangurinn af morgunmatnum og fengið sér brauð með osti og allskonar ávaxtasafa og gosdrykki. Ég vildi eiginlega að ég væri oftar í skólanum eftir hádegi, þá tæki ég bara daginn snemma og fengi mér morgun og hádegismat hjá Microsoft og færi svo í skólann.

En allavega, þetta er síðasti dagurinn í Danmörku í bili, er á leiðinni heim til Íslands í kvöld og verð fram á mánudagsmorgun. Það verður algjör snilld, hitta Karen og Daníel, geta talað íslensku og síðast en ekki síst búa í alvöru húsi en ekki gámi. Tek með mér tóma ferðatösku héðan og kem með hana fulla til baka, þarf að taka með mér vetrarföt og svona. Ætla líka að taka gítarinn með út og kannski myndavélina líka. Þannig að í næstu viku detta kannski einhverjar myndir hérna inn. Jæja, nóg af þessu, ég er farinn til Íslands!

Danmörk – Dagur 11

Ósköp rólegur dagur í gær. Fór með Julie, Tiberiu, Bruno, Matteus og Eduarda í IKEA, sem er rétt fyrir utan Lyngby, svona 40 mínútur gangandi. IKEA er að sjálfsögðu allsstaðar eins, fékk mér sænskar kjötbollur í hádegismat og keypti svo nokkra hluti, sængurver, vekjaraklukku, ljósaperur, lampa og eitthvað fleira smádót. Var svo bara hérna heima í skúrnum í gærkvöldi að spila vist við krakkana hérna og síðan einhverja Skype leiki við Karen í tölvunni.

Í dag byrjaði svo alvara lífsins. Bæði var fyrsti dagurinn hjá Microsoft og fyrsti skóladagurinn. Ég svaf aðeins of lengi þannig að ég rauk út til að ná strætó til Microsoft og fékk mér engan morgunmat. Hitti strák frá Litháen, Giedrius, á strætóstöðinni sem var líka að byrja hjá Microsoft. Við byrjuðum á að hitta Tim sem er yfir team-inu okkar. Það var allt í kaos því það var verið að flytja milli skrifstofa og fyrsta sem við gerðum var að reyna að koma fyrir 5 skrifborðum í herbergi þar sem augljóslega áttu ekki að vera fleiri en 4. Við vorum að djóka með að þetta væri örugglega lokaprófið fyrir starfið, ef við næðum ekki að raða þessu eðlilega þarna inn yrðum við reknir á staðnum. En það tókst á endanum og við fengum tölvur og fórum að setja þær upp. Á meðan fór Tim á fund og við héngum inná þessari skrifstofu í 2 og hálfan tíma að gera meira og minna ekki neitt. Danskur strákur sem heitir Sven sýndi okkur aðeins svæðið. Þetta er ekki bara ein bygging, þetta er svona eins og mini-campus með nokkrum byggingum og stórum garði allt í kring, mjög nice. Maður þarf ekki að borga fyrir hádegismatinn og það besta af öllu: ÓTAKMARKAÐ ÓKEYPIS KÓK! (já, ég veit að það er bara eins og að fá 200 kall auka á dag eða eitthvað, en ég kann að meta kók 🙂 ). Við fórum í mat með Tim og hann sagði okkur aðeins betur frá þessu en síðan þurfti ég að rjúka því ég átti að vera í tíma eftir hádegi og var þegar orðinn of seinn.

Ég mætti loksins í tímann kl. 3 og var búinn að missa af fyrstu 2 klukkutímunum. Það var ansi slæmt því kennslan hafði byrjað á fullu og ég var alveg úti að aka. Kúrsinn heitir Program Analysis og eftir því sem ég best sé er hann hrikalega erfiður, sérstaklega fyrir mig sem er ekki með neitt sérstaklega mikinn stærðfræðibakgrunn. Ég keypti bókina eftir tímann og var að lesa í henni núna áðan og já, þetta verður brútal :S . Nú er bara að vera duglegur að læra! Á morgun er það svo Computationally Hard Problems, annar erfiður kúrs og svo eitthvað að útrétta í bænum eftir það.

Danmörk – Dagur 4

Gerði ekki mikið í gær. Fór uppúr hádegi að finna Microsoft bygginguna, vildi vita hvar hún væri og hvernig ég ætti að komast þarna áður en ég á að mæta á mánudaginn í næstu viku. Ég tek tvo strætóa þangað og labba svo smáspöl, þetta er lengra frá Kaupmannahöfn en Lyngby. Sendi líka póst á konuna í starfsmannahaldinu hjá þeim og spurði hvort það væri eitthvað formal dress code hjá þeim. Hún sagði að það væri ekki og tók fram að “in fact we’re very informal”. Svo væntanlega get ég bara mætt í baðslopp og inniskóm og allir verða rosa ligeglad og finnst það bara fínt. Skellti mér svo á bíó í Lyngby og sá The Bourne Ultimatum sem var bara mjög góð. Fór svo og þvoði öll fötin mín í S-skúrnum sem er þvottaskúrinn, en þurfti að fara í annan skúr til að nota þurrkara þar sem þurrkararnir í S-skúrnum voru báðir bilaðir.

Í dag fór ég svo og fékk skattkort. Þurfti reyndar að fara tvisvar þar sem ég gleymdi Microsoft samningnum mínum í fyrra skiptið og konan hjá skattinum þurfti eitthvað að skoða hann. Hitti svo loksins einhvern sem býr í mínum skúr. Belgískur strákur sem heitir Xavier og er að læra “Material Science” var að flytja inn. Þvældist aðeins um með honum, fórum að finna búðina sem er hérna á campusnum. Mjög mikil háskólabúð, helstu vöruflokkarnir eru áfengi, snakk og skyndimatur. Nú er bara planið að slappa aðeins af og á morgun byrjar svo Introduction Week.

Mér líst annars bara mjög vel á þetta allt saman. Gaman að kynnast fólki frá öllum löndum og umhverfið er mjög fínt. Nú verður maður bara að vona að námið verði það líka…

Bor! Og fleira…

Síðan ég flutti að heiman fyrir 7 árum hef ég reglulega þurft að fá lánaða borvél hjá pabba til að setja upp hillur o.þ.h. En í gær varð ég að manni: ég keypti mér mína eigin borvél! Fátt er karlmannlegra en að kaupa sér bor! Á karlmennskuskalanum frá 0 – 10 (þar sem 0 er að horfa á America’s Next Top Model og 10 er að veiða skógarbjörn með berum höndum) þá hljóta borvélarkaup að vera a.m.k. svona 8! Ég keypti borinn í gær, þegar ég vaknaði í morgun var ég kominn með 50% meira hár á bringuna! Í gær og í dag er ég svo búinn að hlaupa um alla íbúð og bora allt sem þarf að bora, sem ég er venjulega mjög latur við að gera. En að öllu gríni slepptu þá er tvennt við þessa borvél sem ég er mjög ánægður með:

  1. Hún er soldið eins og byssa
  2. Hún gefur frá sér mikinn og karlmannlegan hávaða

Annars er bara að styttast í að ég fari til Danmerkur. Við förum öll saman til Póllands 17. ágúst og verðum þar á hóteli í Varsjá. Ég fer síðan 24. ágúst til baka til Danmerkur en Karen og Daníel verða í Póllandi til 30 ágúst. Ég er búinn að fá herbergi á campus fyrstu önnina og er á biðlistum eftir stúdentaíbúðum eftir jól. Daníel og Karen koma svo til mín um áramótin. Ég var að klára að velja áfangana fyrir fyrstu önnina í gær og ég verð í fríi á föstudögum og byrja eftir hádegi á mánudögum þannig að það verður auðvelt að skjótast heim um helgar.

Ég er líka kominn með hlutastarf úti með skólanum, verð að vinna hjá Microsoft. Þeir eru víst með 900 manna starfstöð þarna. Fékk póst frá þeim snemma í sumar þar sem þeir báðu mig og nokkra aðra að sækja um, DTU hafði víst bent þeim á nokkra nemendur. Ég sendi þeim CV og letter of presentation og fór svo í mitt fyrsta símaviðtal ever, og á ensku í þokkabót. En það gekk allt vel og ég fékk starfið, verð að vinna þar svona 10-15 tíma á viku með náminu.

Hvað fleira? Fórum í útilegu síðust helgi og vorum næstum eina fólkið í tjaldi á svæðinu, allir í hjólhýsum eða tjaldvögnum á risajeppum. Einhverjir ofdekraðir krakkar komu upp að okkur og spurðu okkur:

“Eruð þið bara í tjaldi??? Er ykkur ekki kalt??? Eruð þið FÁTÆK???”

“Hefur mamma þín aldrei kennt þér að tala ekki við ókunnuga?”

Hefði ég átt að segja. Í staðinn sagði ég “uuhh, hérna, nei”, (jamm, ég er king of the comebacks!). Karen skrifar meira um þetta og fleiri sem komu að dást að tjaldinu okkar þarna.

Og þá held ég að ég sé búinn að segja frá flestu sem er búið að gerast undanfarið. Nema 2 vikna Búlgariuferðinni okkar. Kannski seinna.

Árið 2006

Jæja, best að skella inn smá áramótayfirliti, eins og ég gerði í fyrra. Hvað gerðist á árinu 2006?

  • Hætti að vinna hjá TM Software og byrjaði að vinna hjá OMX. Þetta hafði nákvæmlega engin áhrif á daglega starfið hjá mér, OMX keypti bara deildina mína. Ef maður lítur á tímalínuna varðandi þessa yfirtöku þá er hún nokkurnveginn svona:
    1. Libra starfar í rólegheitum á Íslandi
    2. Ég hef störf hjá fyrirtækinu
    3. Risastórt erlent fyrirtæki sýnir Libra mikinn áhuga og endar á að kaupa það

    Tilviljun? Læt aðra um að dæma um það.

  • Daníel byrjaði hjá dagmömmu snemma á árinu. Dagmamman er mjög fín og það gengur vel
  • Við keyptum nýja íbúð í Svarthömrum í Grafarvogi. Tvöfalt stærri en Guðrúnargatan, víðáttubrjálæði, mjög fínt.
  • Daníel varð eins árs í júní
  • Eins árs brúðkaupsafmæli í ágúst.
  • Fór til Svíþjóðar að hitta sænsku samstarfsfélagana í byrjun september
  • Karen í lokaverkefni í allt haust, brjálað að gera en stóð sig mjög vel. Var samt mjög feginn þegar það varð búið
  • Önnur jólin hans Daníels, fékk u.þ.b. 65535 pakka. Ekki mjög spenntur fyrir að opna þá, vildi helst bara fara að leika sér í friði eftir fyrsta pakkann

Jamm, þetta er svona það helsta. Er svona að pæla í hvað ég ætla að gera við þessa síðu, hvort ég eigi bara að loka henni, eða hafa hana bara með einhverjum forritunarverkefnum og CV eða hvað. Ætli ég leyfi henni bara ekki að hanga uppi og skrifi inná hana svona 2svar á ári. Er bara að skrifa núna því ég nenni ekki að gera neitt sérstakt, var að enda við að horfa á The Bachelor, öhh, mjög töff ofbeldismynd í sjónvarpinu og nenni ekki að horfa meira á það. Fór að skoða áramótapistilinn síðan í fyrra og datt í hug að það væri gaman að skrifa einn fyrir 2006 líka. Þannig að, búist við næsta bloggi í byrjun janúar 2008 og gleðilegt ár!

Afmæli

Jæja, Daníel er orðinn eins árs. Við héldum afmæli fyrir fjölskylduna á sjálfan afmælisdaginn, síðasta þriðjudag og svo koma vinirnir á morgun. Barnaafmæli eru bestu afmælin því þá fær maður súkkulaðiköku með nammi, sem eru klárlega bestu kökurnar! Ætlum líka að grilla á morgun, vonandi hættir þessi %(#%”#$”@ rigning!

Nóg að gera í vinnunni, er kominn í gagnamál sem þýðir að ég þvælist um allan bæ og vinn hjá bönkunum. Kosturinn er að alla fimmtudaga er ég í Landsbankanum og get borðað með Karen í hádeginu. Ef það eru annars einhverjir HR-ingar eða aðrir tölvunarfræðingar að lesa þetta þá var OMX að auglýsa eftir forriturum og prófurum nýlega, þannig að endilega sækja um!

Kröfuganga

Arg! Daníel vaknaði kl. 5 í morgun og neitaði að fara aftur að sofa. Þetta þýðir að ég á eftir að drekka svona 10 lítra af kaffi hérna í vinnunni til að halda mér vakandi!

Ég, Karen og Daníel fórum í kröfugönguna í gær. Ég var reyndar ekki með neitt skilti, enda hef ég svosem ekki undan miklu að kvarta. Ég hefði kannski getað gert einhverjar kröfur til vinnuveitandans míns: Meira vinnsluminni! Flatari skjái! Annað foosballborð! En ég er nú bara nokkuð sáttur þannig að ég var ekkert að því. Hinsvegar fannst mér flottasta krafan sem ég sá vera á skilti hjá svona 6 ára strák: Tvo nammidaga í viku! Greinilega baráttumaður þar á ferð!

Páskaegg

Þegar ég var lítill þá voru bara tvær gerðir af páskaeggjum, frá Nóa Siríus og Mónu. Nói Siríus var samt alltaf aðal, Mónuegg voru alltaf í öðru sæti, þó það mætti notast við þau í neyð. Núna hinsvegar eru komin páskaegg frá fullt af framleiðendum í allskonar stærðum og gerðum, t.d strumpaegg, púkaegg og Harry Potter egg. Mér finnst þetta farið ansi langt frá því sem páskarnir snúast um! Ég man a.m.k. ekki eftir neinum strumpum í Biblíunni (reyndar hef ég ekki lesið hana, en ég er nokkuð viss um að það eru engir strumpar þar, það kæmi mér mjög á óvart). Annað sem er asnalegt eru stærðirnar á páskaeggjunum í dag. Allir framleiðendur ættu auðvitað að fylgja metrakerfinu eins og Nói Siríus, en nei, sumir framleiðendur eru allt í einu bara með páskaegg nr. 9 sem er minna en páskaegg nr. 6 frá Nóa Siríus! Hvernig á maður eiginlega að bera svona saman til að ákveða hvað maður á að kaupa? Þetta er bara rugl! En sem betur fer þarf ég ekki að pæla í þessu þar sem ég fékk gefins ekta páskaegg frá vinnunni, Nóa Siríus egg nr. 4 með unga ofaná :).

Síðustu vikur

Hmmm, ansi langt síðan ég hef skrifað eitthvað hingað inn! Þetta gæti orðið ansi langt blogg þannig að ég hef það í 6 köflum og byrja á kafla 4.

Kafli 4: Nýtt hús

Við erum búin að kaupa okkur íbúð! Við erum búin að liggja yfir fasteignaauglýsinum á hverjum degi í marga mánuði. Á fimmtudaginn í þarsíðustu viku sáum við svo íbúð í Svarthömrum í Grafarvogi sem okkur leist mjög vel á. Hún er á annarri hæð, er ekki langt inní Grafarvogi, er 4ja herbergja (flestar sem við skoðuðum voru 3ja herbergja), er með suðursvalir, sérinngangi og er í fínu ástandi. Ekki spillir svo fyrir að íbúðin er bara tveim húsum frá Völu og Hjalta :). Við skoðuðum hana á sunnudeginum, gerðum tilboð á mánudeginum, eigandinn gerði gagntilboð og við skrifuðum undir endanlegt kauptilboð á þriðjudeginum. Svo fór eitthvað svona íbúðalánasjóðsferli í gang og við skrifuðum undir kaupsamninginn núna á mánudaginn. Við fáum hana sennilega afhenta 1. maí, en í seinasta lagi 7. maí.

Kafli 5: Sýklarnir gera árás

Á laugardaginn síðasta urðum við öll veik, ég, Karen og Daníel. Ég og Karen fengum gubbupest og Daníel fékk hita. Ég hélt ég væri orðinn hress á mánudaginn og fór uppí vinnu í hálftíma á fund en svo þurftum við að fara með Daníel til læknis því hitinn hjá honum var að rjúka svo mikið upp. Á mánudagskvöldið var ég aftur kominn með hita og er búinn að vera með hann + hausverk og beinverki síðan. Daníel er búinn að vera með háan hita en er laus við hann núna (sjúkrasögu Daníels má lesa í smáatriðum á síðunni hans). Þannig að það er bara búið að vera slappleiki, andvökunætur og hor í lítratali síðustu daga.

Kafli 6: Einar snýr aftur til vinnu

Þessi kafli byrjar vonandi á morgun! Er búinn að vera heima í 5 daga (fyrir utan að fara og skrifa undir kaupsamninginn) og er kominn með snert af cabin fever. Það er takmarkað hversu mikið af E! maður getur horft á í sjónvarpinu. Ég veit orðið óeðlilega mikið um einkalíf Jessicu Simpson. Ég horfði meira að segja á Heil og Sæl endursýnt á Skjá einum í morgun! Að komast aftur í vinnuna verður bara eins og að fara í frí!

Árið 2005

Jæja, þetta er búið að vera ansi viðburðaríkt ár. Í tímaröð:

  • Útskrifaðist sem tölvunarfræðingur úr Háskólanum í Reykjavík.
  • Eignaðist lítinn strák, Daníel Mána.
  • Ég og Karen giftum okkur og skírðum Daníel í leiðinni.
  • Byrjaði í fyrstu “alvöru” vinnunni minni, hjá Libra sem er deild í TM Software. Seinna á árinu var Libra svo keypt útúr TM software af sænska fyrirtækinu OMX.
  • Fór í árshátíðarferð til Póllands með vinnunni, Karen og Daníel komu með, hittum ættingja Karenar í Póllandi.
  • Seldum íbúðina okkar í Guðrúnargötunni, erum að leita að nýrri íbúð.

Verðu erfitt að toppa síðasta ár en vonandi verður jafnmikið fjör á árinu 2006. Gleðilegt ár! 🙂