Category Archives: Skóli

Bor! Og fleira…

Síðan ég flutti að heiman fyrir 7 árum hef ég reglulega þurft að fá lánaða borvél hjá pabba til að setja upp hillur o.þ.h. En í gær varð ég að manni: ég keypti mér mína eigin borvél! Fátt er karlmannlegra en að kaupa sér bor! Á karlmennskuskalanum frá 0 – 10 (þar sem 0 er að horfa á America’s Next Top Model og 10 er að veiða skógarbjörn með berum höndum) þá hljóta borvélarkaup að vera a.m.k. svona 8! Ég keypti borinn í gær, þegar ég vaknaði í morgun var ég kominn með 50% meira hár á bringuna! Í gær og í dag er ég svo búinn að hlaupa um alla íbúð og bora allt sem þarf að bora, sem ég er venjulega mjög latur við að gera. En að öllu gríni slepptu þá er tvennt við þessa borvél sem ég er mjög ánægður með:

  1. Hún er soldið eins og byssa
  2. Hún gefur frá sér mikinn og karlmannlegan hávaða

Annars er bara að styttast í að ég fari til Danmerkur. Við förum öll saman til Póllands 17. ágúst og verðum þar á hóteli í Varsjá. Ég fer síðan 24. ágúst til baka til Danmerkur en Karen og Daníel verða í Póllandi til 30 ágúst. Ég er búinn að fá herbergi á campus fyrstu önnina og er á biðlistum eftir stúdentaíbúðum eftir jól. Daníel og Karen koma svo til mín um áramótin. Ég var að klára að velja áfangana fyrir fyrstu önnina í gær og ég verð í fríi á föstudögum og byrja eftir hádegi á mánudögum þannig að það verður auðvelt að skjótast heim um helgar.

Ég er líka kominn með hlutastarf úti með skólanum, verð að vinna hjá Microsoft. Þeir eru víst með 900 manna starfstöð þarna. Fékk póst frá þeim snemma í sumar þar sem þeir báðu mig og nokkra aðra að sækja um, DTU hafði víst bent þeim á nokkra nemendur. Ég sendi þeim CV og letter of presentation og fór svo í mitt fyrsta símaviðtal ever, og á ensku í þokkabót. En það gekk allt vel og ég fékk starfið, verð að vinna þar svona 10-15 tíma á viku með náminu.

Hvað fleira? Fórum í útilegu síðust helgi og vorum næstum eina fólkið í tjaldi á svæðinu, allir í hjólhýsum eða tjaldvögnum á risajeppum. Einhverjir ofdekraðir krakkar komu upp að okkur og spurðu okkur:

“Eruð þið bara í tjaldi??? Er ykkur ekki kalt??? Eruð þið FÁTÆK???”

“Hefur mamma þín aldrei kennt þér að tala ekki við ókunnuga?”

Hefði ég átt að segja. Í staðinn sagði ég “uuhh, hérna, nei”, (jamm, ég er king of the comebacks!). Karen skrifar meira um þetta og fleiri sem komu að dást að tjaldinu okkar þarna.

Og þá held ég að ég sé búinn að segja frá flestu sem er búið að gerast undanfarið. Nema 2 vikna Búlgariuferðinni okkar. Kannski seinna.

Danmörk

Þá er það komið á hreint að ég fer til Danmerkur í haust. Búinn að fá inngöngubréf frá DTU og skólinn byrjar 28. ágúst á einhverju introduction week. Ég keypti dönskunámskeið um daginn og er núna byrjaður að rifja upp dönskuna. Gengur vel að lesa en svo verður örugglega miklu meira mál að tala. Ég er samt búinn að læra nokkrar setningar sem ég mun reyna eftir bestu getu að troða inní öll samtöl svo ég geti sýnt hvað ég sé góður í dönsku.

Hej (Hæ) 

Jeg hedder Einar.  (Ég heiti Einar)

Jeg er meget sulten.  (Ég er mjög svangur)

Din mor kommer med tog. (Mamma þín kemur með lest)

Hvad hedder din mor? (Hvað heitir mamma þín?)

Man kan godt drinke rødvin med æblekage! (Maður getur vel drukkið rauðvín með eplaköku!)

Det er en interessant rejse (Þetta er áhugaverð ferð)

Þetta hlýtur að nægja mér fyrstu vikurnar. Ef ekki þá get ég alltaf raðað þeim saman á nýja vegu og þar með aukið orðaforðann töluvert. t.d.

Man kan godt drinke rødvin i en interessant rejse (Maður getur vel drukkið rauðvín í áhugaverðri ferð)

Jeg er meget sulten, mmmmm, æblekage (Ég er mjög svangur, mmmm, eplakaka)

Hvað hedder din æblekage? (Hvað heitir eplakakan þín)

Din mor er meget sulten, mmmm, æblekage (Mamma þín er mjög svöng, mmmm, eplakaka)

Det er en interessant rødvin, man kan godt drinke den i tog (Þetta er áhugavert rauðvín, maður getur vel drukkið það í lest)

Sjáum hvort nokkur fattar að ég sé ekki innfæddur þarna.

Í nördafréttum er annars helst að frétta að ég sendi í fyrsta skipti inn kóða í open-source verkefni. Þannig að ef einhver er að nota Django framework-ið og vantar textabox fyrir íslenska kennitölu, íslenskt símanúmer eða combobox fyrir póstnúmer þá er það núna innbyggt í Django í pakkanum django.contrib.localflavor.is_.forms .

Árið 2005

Jæja, þetta er búið að vera ansi viðburðaríkt ár. Í tímaröð:

  • Útskrifaðist sem tölvunarfræðingur úr Háskólanum í Reykjavík.
  • Eignaðist lítinn strák, Daníel Mána.
  • Ég og Karen giftum okkur og skírðum Daníel í leiðinni.
  • Byrjaði í fyrstu “alvöru” vinnunni minni, hjá Libra sem er deild í TM Software. Seinna á árinu var Libra svo keypt útúr TM software af sænska fyrirtækinu OMX.
  • Fór í árshátíðarferð til Póllands með vinnunni, Karen og Daníel komu með, hittum ættingja Karenar í Póllandi.
  • Seldum íbúðina okkar í Guðrúnargötunni, erum að leita að nýrri íbúð.

Verðu erfitt að toppa síðasta ár en vonandi verður jafnmikið fjör á árinu 2006. Gleðilegt ár! 🙂

BBS

Hah! Ég er búinn að finna leið til að skoða BBSið hérna heima þó það eigi ekki að vera hægt utan skólans! Verst að það er frekar gagnslaust þar sem það er búið að loka á lykilkortið mitt :(.

Takk fyrir okkur

Þið skólafélagar, takk kærlega fyrir allar fínu gjafirnar :). Þær munu pottþétt nýtast vel! Hlakka til að sjá ykkur einhverntímann í sumar 🙂

Útskrift

Jæja, þá er þetta búið. Mættum uppí skóla í myndatöku kl. 11 þar sem við fengum diss dauðans frá ljósmyndaranum…

[Myndatakan með öllum hópnum, okkur, viðskiptafræðingum og lögfræðingum]

“Glæsilegur hópur, stórglæsilegur!!”

[Seinni myndatakan með bara tölvunarfræðinni]

“Þetta er nú bara nokkuð frambærilegur hópur…”

Fórum síðan yfir hvernig þetta færi allt saman fram og svo var útskriftin. Fékk verðlaun og alles þannig að það var fínt :). Guðfinna hélt svo fína ræðu í lokin þar sem frasar eins og “draumar að rætast”, “standandi á öxlum risa”, “frumkvöðlar”, “stofna eigin fyrirtæki” og “Harvard” komu fyrir 😉

Síðan voru mamma og pabbi svo góð að halda veislu fyrir mig þannig að ég var þar restina af deginum og kvöldinu. Fékk fullt af fínum gjöfum, t.d. iPod Shuffle sem ég er að hlusta á núna og margt fleira. Skellti mér síðan heim rúmlega 11 og var að pæla að kíkja svo í bæinn en er ekki að nenna því þar sem ég er drulluþreyttur og strákurinn okkar gæti komið á hverri stundu 🙂

Einar Þór Egilsson, tölvunarfræðingur.

Kröfur til umsækjenda

Haha, nýr póstur frá dr. Kristni gervigreindartöffara að auglýsa sumarstarf. Hér eru kröfurnar til umsækjenda:

“Nauðsynlegt er að hafa reynslu í Java forritun. C++ forritunarreynsla er æskileg. Góð er tök á íslenskar tungumál einnig góð góð.”

Snilldarfyndinn gaur 😀

Kyngimagnað sniðmengi

Vorum að fá póst frá dr. Kristni gervigreindartöffara. Þar auglýsir hann eftir “mannsheila” til að vinna “beint í kyngimögnuðu sniðmengi gervigreindar og tölvugrafíkur”. Greinilegt að ef maður vill hljóma gáfaður þá á maður að nota stór orð. Kannski ég reyni að finna einhver svona fín orð til að nota í sumar, á meðan heilinn á mér verður í kyngimögnuðu sniðmengi svefnleysis og bleyjuskipta :).

Lokaverkefni búið!!!

Snilldardagur í gær. Skiluðum inn lokaverkefninu okkar kl. 3 um daginn. Kl. 6 fórum við svo í surprise partý fyrir Guðrúnu sem Nicolai kærastinn hennar hafði planað. Partýið var haldið hjá pabba hennar og var algjör snilld, matur frá Nings, nóg af bjór og rauðvíni og eitthvað vafasamasta geisladiskasafn sem sést hefur!! Eftir að hafa skoðað þetta rosalega geisladiskasafn (Andrea Boccelli/Josh Groban/Norah Jones o.s.fv) þá gátum við ekki annað en ályktað að pabbi hennar Guðrúnar ynni við að semja playlistann fyrir Létt 96.7. En, einmitt þegar við vorum búin að sætta okkur við að eyða kvöldinu í að hlusta á ‘Michael Bolton – The Anthology’, þá kom 11 ára bróðir hennar Guðrúnar okkur til bjargar með KoRn og Guns’n’Roses. Eftir nokkrar sekúndur af Guns’n’Roses disknum kom reyndar í ljós að þetta var panflautuútgáfan af Welcome to the Jungle (ok, ekki alveg, en næsti bær við, Verslóútgáfan) en það var samt 100 sinnum betra en restin af tónlistinni þarna.

Eftir partýið hjá Guðrúnu var svo farið í annað partý hjá Völu. Því miður fer var Singstar græjan ekki í gangi þannig að ég og Vala gátum ekki tekið Daniel Bedingfield dúett en það verður bara gert í næsta partýi. Á endanum fórum við svo í HR partý á Broadway, var þar í nokkra tíma og rölti síðan heim með viðkomu á nammibarnum í 10-11. Fínt kvöld :).