Category Archives: Fjölskylda

Læknavaktin

[Þessi færsla birtist líka á síðunni hans Daníels, ég set hana líka hérna inn til að hafa eitthað efni hérna ;)]

Daníel er búinn að fara á 2 penicillin kúra útaf eyrnabólgu núna síðustu vikur. Seinni kúrinn var að klárast fyrir 3 dögum en við tókum eftir því í dag að hann var frekar pirraður og var svolítið að toga í eyrun á sér þannig að okkur datt í hug að eyrnabólgan væri komin enn og aftur. Við ákváðum að fara á læknavaktina til að vera viss, enda vill maður að hann fái meðferð sem fyrst ef eitthvað er að. Við höfum farið þarna nokkrum sinnum áður og lent á misgóðum læknum, en sá sem við lentum á í þetta sinn var nú eitthvað alveg nýtt. Hann skoðaði eyrun og sagði okkur að það væri væg eyrnabólga komin í annað eyrað. Hann vildi samt ekki vera að gefa meira penicillin því þetta væri rétt eftir síðasta kúr og þetta færi sennilega bara af sjálfu sér, það væri fínt að gefa honum bara verkjalyf. Síðan sagði hann okkur þessa stórkostlega upplífgandi og hughreystandi sögu:

Þegar strákurinn minn var svona tveggja ára þá var hann einu sinni ferlega pirraður eitthvað. Þetta var í miðju matarboði og ég var bara pirraður á stráknum og fannst hann vera óþekkur [ok, barninu leið illa og þú varst pirraður á því, gott mál]. Síðan að lokum neyddi konan mín mig til að líta á hann og þá sá ég að hann var með bullandi eyrnabólgu. Ég nennti ekki að fara og ná í meðal fyrir hann því þetta var um kvöld og það mátti alveg bíða til morguns þannig að við gáfum honum bara verkjalyf og létum hann fara að sofa. [Nú bjóst ég við að sagan myndi enda á að allt yrði í lagi, þannig að ég yrði rólegri um Daníel. En nei… ]. Síðan um morguninn, þá bara SPRAKK HLJÓÐHIMNAN Á HONUM YFIR ALLAN KODDANN!

Hver var tilgangurinn með því að segja okkur þessa sögu?!? Átti þetta að láta okkur líða betur? Þetta var versta mögulega saga sem hann hefði getað sagt okkur! Í framtíðinni ætlum við a.m.k. bara að fara á barnalæknavaktina í Domus Medica, höfum farið þar einu sinni og þar var mjög fínn læknir sem var ekki að segja neinar hryllingssögur!

Afmæli

Jæja, Daníel er orðinn eins árs. Við héldum afmæli fyrir fjölskylduna á sjálfan afmælisdaginn, síðasta þriðjudag og svo koma vinirnir á morgun. Barnaafmæli eru bestu afmælin því þá fær maður súkkulaðiköku með nammi, sem eru klárlega bestu kökurnar! Ætlum líka að grilla á morgun, vonandi hættir þessi %(#%”#$”@ rigning!

Nóg að gera í vinnunni, er kominn í gagnamál sem þýðir að ég þvælist um allan bæ og vinn hjá bönkunum. Kosturinn er að alla fimmtudaga er ég í Landsbankanum og get borðað með Karen í hádeginu. Ef það eru annars einhverjir HR-ingar eða aðrir tölvunarfræðingar að lesa þetta þá var OMX að auglýsa eftir forriturum og prófurum nýlega, þannig að endilega sækja um!

Kröfuganga

Arg! Daníel vaknaði kl. 5 í morgun og neitaði að fara aftur að sofa. Þetta þýðir að ég á eftir að drekka svona 10 lítra af kaffi hérna í vinnunni til að halda mér vakandi!

Ég, Karen og Daníel fórum í kröfugönguna í gær. Ég var reyndar ekki með neitt skilti, enda hef ég svosem ekki undan miklu að kvarta. Ég hefði kannski getað gert einhverjar kröfur til vinnuveitandans míns: Meira vinnsluminni! Flatari skjái! Annað foosballborð! En ég er nú bara nokkuð sáttur þannig að ég var ekkert að því. Hinsvegar fannst mér flottasta krafan sem ég sá vera á skilti hjá svona 6 ára strák: Tvo nammidaga í viku! Greinilega baráttumaður þar á ferð!

Einir heima

Karen fór til Danmerkur yfir páskana að hitta Láru vinkonu sína. Ég og Daníel erum hérna heima að passa hvorn annan. Þegar Karen er ekki hérna til að halda aftur af nördinum í mér þá endar það alltaf á því að ég borða allt of mikið af ruslfæði, gosi og nammi, eyði skuggalega miklum tíma í að forrita einhver pet project og vaki fram eftir öllu hangandi í tölvunni eða horfandi á endursýnda þætti á Skjá einum. Einnig er ég hættur að fara í bað og búinn að kaupa mér Svarthöfðahjálm. (Ok, þetta tvennt síðasta er ekki satt, ég fer ennþá í bað. Ennþá…). Það er greinilegt að ég mundi aldrei höndla að búa einn! En Karen kemur aftur á þriðjudaginn og þá fara hlutirnir aftur í eðlilegt horf, það verður fínt!

p.s.

Já, klukkan er í alvörunni 6:51 um morgun þegar ég er að skrifa þetta. Daníel tekur ekkert tillit til þess þótt pabbi hans hafi farið seint að sofa. Við erum nú þegar búnir að borða, fara í bað, og núna er Daníel að æfa sig að labba meðfram hlutum. Morgunstund gefur gull í mund…

Síðustu vikur

Hmmm, ansi langt síðan ég hef skrifað eitthvað hingað inn! Þetta gæti orðið ansi langt blogg þannig að ég hef það í 6 köflum og byrja á kafla 4.

Kafli 4: Nýtt hús

Við erum búin að kaupa okkur íbúð! Við erum búin að liggja yfir fasteignaauglýsinum á hverjum degi í marga mánuði. Á fimmtudaginn í þarsíðustu viku sáum við svo íbúð í Svarthömrum í Grafarvogi sem okkur leist mjög vel á. Hún er á annarri hæð, er ekki langt inní Grafarvogi, er 4ja herbergja (flestar sem við skoðuðum voru 3ja herbergja), er með suðursvalir, sérinngangi og er í fínu ástandi. Ekki spillir svo fyrir að íbúðin er bara tveim húsum frá Völu og Hjalta :). Við skoðuðum hana á sunnudeginum, gerðum tilboð á mánudeginum, eigandinn gerði gagntilboð og við skrifuðum undir endanlegt kauptilboð á þriðjudeginum. Svo fór eitthvað svona íbúðalánasjóðsferli í gang og við skrifuðum undir kaupsamninginn núna á mánudaginn. Við fáum hana sennilega afhenta 1. maí, en í seinasta lagi 7. maí.

Kafli 5: Sýklarnir gera árás

Á laugardaginn síðasta urðum við öll veik, ég, Karen og Daníel. Ég og Karen fengum gubbupest og Daníel fékk hita. Ég hélt ég væri orðinn hress á mánudaginn og fór uppí vinnu í hálftíma á fund en svo þurftum við að fara með Daníel til læknis því hitinn hjá honum var að rjúka svo mikið upp. Á mánudagskvöldið var ég aftur kominn með hita og er búinn að vera með hann + hausverk og beinverki síðan. Daníel er búinn að vera með háan hita en er laus við hann núna (sjúkrasögu Daníels má lesa í smáatriðum á síðunni hans). Þannig að það er bara búið að vera slappleiki, andvökunætur og hor í lítratali síðustu daga.

Kafli 6: Einar snýr aftur til vinnu

Þessi kafli byrjar vonandi á morgun! Er búinn að vera heima í 5 daga (fyrir utan að fara og skrifa undir kaupsamninginn) og er kominn með snert af cabin fever. Það er takmarkað hversu mikið af E! maður getur horft á í sjónvarpinu. Ég veit orðið óeðlilega mikið um einkalíf Jessicu Simpson. Ég horfði meira að segja á Heil og Sæl endursýnt á Skjá einum í morgun! Að komast aftur í vinnuna verður bara eins og að fara í frí!

Stál og hnífur

Ég var að syngja fyrir Daníel um daginn til að svæfa hann þegar Karen benti mér á að það væri nú ekki huggulegasti textinn sem ég væri að syngja fyrir hann. Ég var að syngja Stál og hnífur sem er með línunum “… við höfnina bátur vaggar rótt, í nótt, MUN ÉG DEYJA!”. Skiptir kannski ekki máli núna þegar Daníel er svona lítill en gæti orðið verra þegar hann fer að skilja textann. Önnur lög sem hafa verið tekið út af sönglistanum:

  • Baby did a bad bad thing – Chris Isaac
  • Baby, I’m gonna leave you – Led Zeppelin
  • Burn Baby Burn – Ash

Neibb, héðan í frá verður það bara Bíbí og blaka!

Árið 2005

Jæja, þetta er búið að vera ansi viðburðaríkt ár. Í tímaröð:

  • Útskrifaðist sem tölvunarfræðingur úr Háskólanum í Reykjavík.
  • Eignaðist lítinn strák, Daníel Mána.
  • Ég og Karen giftum okkur og skírðum Daníel í leiðinni.
  • Byrjaði í fyrstu “alvöru” vinnunni minni, hjá Libra sem er deild í TM Software. Seinna á árinu var Libra svo keypt útúr TM software af sænska fyrirtækinu OMX.
  • Fór í árshátíðarferð til Póllands með vinnunni, Karen og Daníel komu með, hittum ættingja Karenar í Póllandi.
  • Seldum íbúðina okkar í Guðrúnargötunni, erum að leita að nýrri íbúð.

Verðu erfitt að toppa síðasta ár en vonandi verður jafnmikið fjör á árinu 2006. Gleðilegt ár! 🙂

Hvað er að gerast?

Alda systir heimtar að ég skrifi eitthvað hérna. Mér dettur reyndar ekkert í hug til að skrifa um þessa dagana þannig að ég bjó til lista yfir það sem hefur verið að gerast síðasta mánuðinn. (Já mér finnst listar góðir. Ég er einhverfur)

  1. Er farinn að leysa Sudoku þrautirnar í Fréttablaðinu, sem by the way eru svipað ávanabindandi og að reykja krakk! Síðan þegar maður var orðinn vanur því þá kom Blaðið allt í einu með Samurai gátu sem er 5 Sudoku þrautir fastar saman. Fimmfalt krakk!
  2. Byrjaður að vinna hjá TM Software. Veit ekki hversu mikið ég má segja um hvað ég er að vinna við hérna en ég held að það sé óhætt að segja að þetta er kerfi sem heitir [ritskoðað]sem gerir manni kleift að [ritskoðað] á miklu einfaldari hátt en [ritskoðað]. Það sem ég er aðallega að vinna við í kerfinu er [ritskoðað] sem er ansi spennandi því það notar tækni sem kallast [ritskoðað] sem hægt er að [ritskoðað] og [ritskoðað].
  3. Erum flutt úr íbúðinni á Guðrúnargötunni (sem var svo lítil að mýsnar voru með kryppu) yfir í íbúðina hjá tengdapabba í Neðstaleiti (sem er svo stór að mýsnar… eh… eru beinar í baki?) Ok, skelfilegur brandari! En já, þetta er a.m.k. miklu betri íbúð og við verðum hérna þar til við finnum okkur nýja íbúð til að kaupa. Erum í því að ganga frá Guðrúnargötunni núna og ætlum að reyna að selja hana sem fyrst. Ef einhvern langar að kaupa íbúð þá bara láta mig vita 🙂
  4. Er hættur að skokka. Skokk er fyrir plebba.
  5. Byrjaður og hættur í nýju líkamsræktarátaki sem gekk útá að hlaupa upp 8 hæðir uppí matsal á hverjum degi. Það entist í tvo daga.
  6. Erum búin að fá okkur nýtt rúm sem mamma og pabbi gáfu okkur í brúðkaupsgjöf. Gamla rúmið okkar var svo mjótt að við urðum að liggja uppá rönd í því en nýja rúmið er aftur á móti álíka stórt að flatarmáli og íbúðin okkar í Guðrúnargötunni (sem var svo lítil að mýsn… hafiði heyrt þennan áður?). Það er a.m.k. mjög stórt, sem veitir ekki af ef ég fer ekki að drífa mig í nýtt líkamsræktarátak!

Svo er náttúrulega fullt að frétta af Daníel en það má lesa um það á síðunni hans.

Pólland

Póllandsferðin var snilld. Nenni ekki að skrifa alla ferðasöguna, Karen ætlar að skella henni inná síðuna hans Daníels en hér eru nokkrir punktar sem taka má fram:

  • Pólverjar selja ferðatölvur með Linux uppsettu.
  • Villisvín er ekki jafngott og það lítur út fyrir að vera í Ástríksbókunum.
  • Sumum Pólverjum finnst fyndið að senda saklausa ferðamenn á gay bar þegar þeir spurja hvert sé best að fara að djamma.
  • Ef maður er á Radisson SAS hóteli og þarf að fara á klóið meðan maður er að horfa á sjónvarpið þá er það allt í lagi því það er hátalari inná baði.
  • 5 stjörnu hótel bjóða m.a. uppá kókópöffs í morgunmat.
  • Hrannar tippar mjög vel þegar hann er drukkinn, allt uppí 1500% tip fyrir góða leigubílstjóra.
  • Flugleiðir ritskoða kvikmyndir sem sýndar eru um borð í flugvélunum.