Category Archives: Fjölskylda

Stúlka Einarsdóttir

20. Desember kl. 17:02 kom Stúlka Einarsdóttir í heiminn.  Fæðingin gekk eins og í sögu og hún var komin í heiminn tveim tímum eftir að við komum á spítalann. Hún var 3930 g og 53 cm við fæðingu. Nú eru mæðgurnar komnar heim og við erum bara að hafa það gott saman. Ég skelli svo inn myndum fljótlega, hérna er ein til að byrja með.

Kaupmannahöfn – Borg óttans

Síðustu vikur hafa verið skotárásir hérna á svona 2-3 daga fresti í Kaupmannahöfn. Það er semsagt gengjastríð í gangi milli “rokkara” (sem eru semsagt Hells Angels) og innflytjenda (eða “manna með innflytjendabakgrunn” eins og þeir kalla það hérna). Miðað við hvar við búum ættum við nú kannski að standa með innflytjendunum þar sem hverfið okkar er örugglega svona 60-70% innflytjendur. Sala á skotheldum vestum er líka búin að aukast um 800%, kannski maður ætti að splæsa í svoleiðis?

Við flytjum inní nýju íbúðina á næstu dögum, nú er bara spurning um hvenær við getum fengið lyklana. Ég var rétt í þessu að hringja í húsvörðinn og skilja eftir skilaboð á símsvaranum. Mér finnst mjög fínt að tala dönsku við símsvara, miklu betra en að tala við alvöru fólk. Ef ég ég fengi að ráða mundi ég aldrei tala við fólk, bara skiptast á símsvaraskilaboðum. Það eru allir búnir að bjóðast til að hjálpa okkur við flutningana þannig að þetta ætti nú að ganga fljótt og vel. Við ætlum að leigja sendiferðabíl þannig að við getum gert þetta sjálf í rólegheitum, þá fæ ég líka að prófa að keyra hérna sem verður áhugavert.

Annars er danskan öll að koma til hjá bæði mér og Karen. Við vorum hjá ljósmóður í dag, sú íslenska sem við höfðum var veik svo það voru 2 danskar í staðinn. Karen talaði við þær um allt á dönsku eins og ekkert væri. Ég fór líka í fyrsta sinn að tala við prófessorana mína í skólanum á dönsku um daginn og það gekk bara vel. Einu skiptin sem við tölum orðið ensku við dani núna er ef það er eitthvað mjög mjög mikilvægt sem við viljum ekki misskilja eða kunnum alls ekki að segja á dönsku. Ég les líka dönsk dagblöð á hverjum degi og hef verið að hlusta á danskt útvarp í lestinni, sérstaklega eina stöð þar sem er bara tal. Þetta er reyndar hundleiðinlegt stöð en þeir tala frekar skýrt, nú veit ég allt of mikið um einhverja Lene Espersen sem er að taka við sem formaður hjá konservatíva flokknum og hvernig hún mun standa sig í samanburði við Bendt Bensen. Þegar ég kem heim ætla ég svo að verða svona óþolandi dana íslendingur sem segir altså, faktískt og interessant í öðru hvoru orði. Ég er meira að segja sjálfviljugur að downloada plötu með Kim Larsen (eða best-of Gasolin, gömlu hljómsveitinni hans). Ef einhver hefði sagt mér það fyrir 10 árum hefði ég sagt að þeir væru eitthvað klikkaðir. Er einmitt að hlusta á plötuna núna, nánar tiltekið þetta lag:

Húsnæði, Íslandsferð og fleira

Húsnæðismálin eru búin að reddast hjá okkur, a.m.k. hérna í Danmörku. Við enduðum á því að hafa samband við Sigrúnu Þormar, sem vinnur við það hérna í Danmörku að hjálpa Íslendingum að finna húsnæði, gera skattaskýrslu, sækja um bætur og bara hvað sem er. Við báðum hana sérstaklega að athuga hvort það væri laus íbúð í húsi í Frederiksberg þar sem vinir okkar búa. Hún fann íbúðina fyrir þau, og þau höfðu sagt okkur að það væru lausar íbúðir þannig að hún reddaði þessu og við getum flutt inn 1. október. Íbúðin er frábær, tvö svefnherbergi, þvottavél+þurrkari inní íbúðinni, uppþvottavél í eldhúsinu og allt mjög snyrtilegt og fínt. Svo er lokaður garður þar sem maður getur farið út með Daníel, það búa líka nokkrar aðrar íslenskar fjölskyldur þarna þannig að kannski eru einhverjir krakkar sem hann getur talað við. Húsnæðismálin á Íslandi eru hinsvegar ekki nógu góð, við erum ennþá ekki búin að leigja aftur út okkar íbúð. Ef einhver veit um einhvern sem er að leita að 4 herb íbúð í tæpt ár, þá endilega hafa samband.

Talandi um Ísland, ég og Daníel komum í stutta Íslandsferð 11.-15. október. Þá er ég í haustfríi og við ákváðum að nýta tækifærið og kíkja í heimsókn. Karen kemur ekki með þar sem konur sem eru komnar svona langt eiga ekki að fljúga. Við nýtum örugglega ferðina líka til að byrgja okkur upp af íslensku nammi og svona. Þannig að, sjáumst í október 🙂

Skólinn að byrja aftur

Þá er skólinn að byrja aftur. Reyndar fór ég á tvo fyrirlestra í þessari viku, gaur frá háskóla í bandaríkjunum sem hefur verið að vinna að nýrri compiler tækni fyrir forritunarmál kom hérna og hélt tvo mjög áhugaverða fyrirlestra. Hann + tveir stúdentar hjá honum eru á bakvið nýja tækni sem er komin í Firefox 3.1 og er að hraða javascript í honum um nokkur hundruð prósent. Mjög cool. Svo byrjar alvöru skólinn á þriðjudaginn. Ég er bara í þremur áföngum þessa önn og ekki að vinna svo þetta ætti nú ekki að verða neitt of massíft. Áfangarnir sem ég tek eru:

  • Process modelling and validation – Erfiður fræðilegur kúrs sem á kannski eftir að hjálpa við masters verkefnið mitt.
  • Technology, economics, management and organisation – 10 eininga (!!!) management áfangi. Ég tók ekki einn einasta viðskiptafræði áfanga í B.Sc. náminu á íslandi þannig að ég ákvað að kannski væri kominn tími á að prófa eitthvað nýtt. Svo er Luke félagi minn líka að kenna í honum sem verður fyndið.
  • Introduction to Computer Game Prototyping – Búa til litla tölvuleiki í Python. Þetta verður örugglega snilldar áfangi sem ég ákvað að taka þó það þýddi að ég lenti í árekstri við Process modelling áfangann. Ég skelli örugglega inn einhverjum leikjum hérna þegar líður á önnina.

Það besta er samt að ég er bara 3 daga í viku í skólanum sem er ansi þægilegt. Er í fríi frá hádegi á föstudegi til hádegis á þriðjudegi og fimmtudagur er frí líka.

Annars erum við núna á fullu að leita að íbúð. Vantar 3 herbergja íbúð áður en barnið kemur, erum búin að segja okkar íbúð upp og verðum að vera komin út 1. október. Ætlum líka að reyna að komast nær skólanum, síðasta vetur tók klukkutíma að komast í skólann með hjóli+metro+lest+strætó þannig að 2 tímar á dag fóru bara í samgöngur. Erum að fara að skoða a.m.k. tvær íbúðir um helgina, vonandi kemur eitthvað útúr því.

Danmörk – Dagur 365…

Í dag er dagur 365 hér í Danmörku. Ég kom hingað 24. ágúst í fyrra og flutti inn í gáminn góða. Margt búið að gerast á síðastliðnu ári. Var fyrst einn hérna í 4 mánuði í gámnum með fólki úr öllum heimshornum. Það var að mörgu leyti mjög skemmtilegt en líka erfitt að vera í burtu frá Karen og Daníel. Búinn að prófa að vinna hjá Microsoft sem var áhugavert að öllu öðru leyti en því að það sem ég var actually að gera var frekar óspennandi. En það var fróðlegt að vinna í svona stóru fyrirtæki, kynnast fólkinu og sjá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þarna. Búinn að vinna sjálfstætt rannsóknarverkefni með öðrum nemanda undir leiðsögn tveggja prófessora, við sendum inn pappír til birtingar í ráðstefnu sem verður í haust, NordSec ’08, og fáum að vita á næstu dögum hvort hann verður birtur þar. Búinn að vinna í skólanum með Dönum, Bretum, Hollendingum, Litháum, Lettum og Pólverjum að allskonar spennandi og óspennandi verkefnum. Ég og Karen erum búin að koma Daníel inná leikskóla, fara til Legolands, þvælast um alla garða og legaplads í Kaupmannahöfn, læra talsvert meira í dönsku og búa til eitt stykki nýtt barn. Í heildina er ég bara mjög ánægður með þetta allt saman, þó að það sé erfitt að mörgu leyti að flytja milli landa þá er það líka áhugavert og gaman að prófa að búa í nýju umhverfi.

Í dag er líka afmælisdagurinn minn, ég er orðinn 28 ára. Eldri en Jimi Hendrix, Kurt Cobain, Jim Morrison og Janis Joplin urðu 🙂 .  Karen fann til fínan morgunverð fyrir okkur í morgun, síðan skruppum við í Fields að kaupa nokkra hluti, m.a. afmælisköku og lentum svo í brjálaðri rigningu á leiðinni til baka, komum inn öll hundblaut. Vorum svo bara þrjú saman með afmæliskaffi en fáum nokkra gesti í kvöld, Öglu og Ragga, Ebbu og Hilmar, og Hildi og Gúnda. Maður má víst samt ekki vera of lengi að í kvöld því maður verður að vakna til að sjá handboltann á morgun þar sem við munum að sjálfsögðu vinna gullið!!!

Blogg sumarfrí búið

Jæja, þá eru komnir 2 mánuðir síðan ég setti eitthvað síðast inná þessa síðu. Hef verið að spá í hvort ég ætti að loka henni þar sem ég nenni næstum aldrei að skrifa neitt, en ákvað að halda þessu áfram og reyna að skrifa aðeins oftar, svona einu sinni í viku. Mér finnst gaman að lesa þetta sjálfum eftir nokkur ár.

Hvað gerðist svo í sumarfríinu? Daníel byrjaði á leikskóla 1. júlí þannig að við slepptum plönum um að ferðast mikið í júlí, leyfðum honum frekar bara að aðlagast leikskólanum í rólegheitunum. Leikskólinn heitir Grøftekanten, við köllum hann grafarkantinn, og hann er bara hinum megin við götuna. Daníel er hæstánægður þarna þó hann geti ekkert talað við hina krakkana og er rosa duglegur að leika sér allan daginn með þeim. Ég og Karen höfum bara talað dönsku við fóstrurnar sem er ágætis æfing fyrir okkur, sérstaklega þar sem við þekkjum eiginlega enga Dani hérna! Meðan Daníel var í aðlögun vorum ég og Karen bara að njóta frísins, ég var ekkert að vinna í sumarfríinu. Vorum bara barnlaus í stórborginni, erum búin að vera mikið niðrí bæ, borða úti, fara á bíó kl. 11 um morgun o.fl. Mikið stuð.

Svo var það Íslandsferðin. Við fórum í 2 vikur til Íslands í enda júlí. Það var fínt en soldið skrýtið. Í fyrsta lagi finnst manni allt í einu íslenska landslagið soldið spes. Þessi endalausa auðn og engin tré og svona, eitthvað sem ég hef aldrei pælt í fyrr, fannst mér allt í einu voða flott þegar við komum til baka. Við bjuggum hjá Tomma og Siggu í 3 nætur eftir að við komum, svo fórum við með mömmu og pabba í brekkuskóg í nokkra daga og svo bjuggum við seinustu vikuna aftur hjá Tomma og Siggu. Okkur tókst að hitta held ég alla sem við ætluðum að hitta og skemmtum okkur bara vel. Samt fannst mér líka mjög fínt að koma aftur hingað til Danmerkur eftir ferðina 🙂

Eina leiðinlega við Íslandsferðina var að við þurftum að eyða allt of miklu af henni í stúss í sambandi við íbúðina okkar. Í júlí kom það nefnilega upp að það var myglusveppur á baðherberginu hjá okkur. Leigjendurnir okkar voru ósátt við það og sögðu upp og fluttu út. Við fengum svo iðnaðarmenn til að koma, rífa niður flísar af baðinu, taka mygluna og flísaleggja aftur. Þarna hefði þetta átt að vera búið. En nei, píparinn sem gerði þetta klúðraði þessu einhvernveginn þannig að það fór að leka bakvið trévegginn sem flísarnar voru á, og lak gegnum gólfið niður til nágranna okkar. Þannig að við vorum í sambandi við tryggingarnar, smiði og pípara meðan við vorum heima, veggurinn var rifið í sundur og klósettið, vaskurinn og baðkarið rifið út. Augljóslega gátum við ekki leigt íbúðina aftur út í þessu ástandi þannig að við fengum leigumiðlun til að gera það fyrir okkur. Ef einhvern vantar 4 herbergja íbúð í grafarvogi endilega hafið samband! Anyway, þetta tók endalausan tíma af því sem átti að vera fríið okkar sem var frekar pirrandi.

Þetta er að verða ágætt held ég. Nóg skrif fyrir næstu tvo mánuði. Eitt enn. Fyrir þá sem ekki vita þá eigum við von á öðru barni í desember. Við fórum í fyrsta sinn í sónar síðasta föstudag hérna í Danmörku og fengum nokkrar myndir, m.a. þessa glæsilegu þrívíddarsónar mynd sem er hér fyrir neðan:

Danmörk – Dagur x

Er ekki kominn tími á að hætta að telja dagana? Það er bara svo hentugt þar sem mér dettur aldrei í hug neinir titlar á þessar færslur. Karen og Daníel eru komin hingað út núna og við erum flutt inní íbúðina í Birketinget. Fyrstu dagarnar voru ansi tómlegir þar sem við vorum bara með einn svefnsófa og ekkert annað í íbúðinni. En síðustu helgi fengum við svo Öglu til að passa fyrir okkur og fórum í massífa verslunarferð í IKEA þar sem við keyptum rúm, borðstofuborð, sófaborð, sjónvarpsborð, kommóðu og heilan helling af smádóti. Fórum svo og keyptum okkur fínt sjónvarp á mánudaginn og fengum internettengingu og á þriðjudaginn kom allt dótið okkar frá Íslandi. Þannig að núna er þetta bara orðið mjög heimilislegt og fínt. Ansi mikið skemmtilegra að búa hérna í alvöru íbúð með fjölskyldunni heldur en að búa einn í hálfum gámi, þó það hafi nú verið ágætis lífsreynsla í nokkra mánuði. Var að klára 3 vikna janúarnámskeiðið í gær og er kominn í frí í skólanum í 10 daga sem er mjög fínt.

Að öðru: tæknimálum! Það kemur sífellt út nýrri og flottari tækni: iphone, hdtv, blue ray o.s.fv. Ekkert af þessu vekur samt jafnmikinn áhuga hjá mér og öll tæknin sem er í matvörubúðum í Danmörku! Það er rosalegt! T.d. í Kvickly sem er local búðin okkar, þar er súpercool peningafæriband! Á öllum svona búðarkössum er svona, öhh, spýta sem skiptir kassanum í tvennt svo það sé hægt að aðskilja það sem þú og sá næsti á eftir þér eruð að kaupa. Í Kvickly kemur uppúr þessari spýtu smá pinni og ofan á honum er smá járn skál. Þegar þú stendur við endann á kassanum, og ert að setja í poka þá geturðu bara sett peninginn þinn í skálina, afgreiðslumanneskjan ýtir á takka og swooooosh, skálin með peningunum þínum skýst til afgreiðslumanneskjunnar. Hún setur svo afganginn þinn og kvittunina aftur í skálina og swooooosh, það skýst til baka til þín. Maður verður eiginlega að sjá þetta til að fatta hvað þetta er stórfenglegt! Í Fakta eru þeir svo búnir að þróa afgreiðslukerfið svakalega! Ef maður borgar með seðli þá lætur afgreiðslumanneskjan hann inní einhvern töfrakassa, svo er annar töfrakassi fyrir framan þig sem gefur þér sjálfkrafa klink til baka. Þegar ég vann í 10-11 þurfti maður a.m.k. að slá inn rétta upphæð og geta talið smápeninga til að geta gefið til baka, núna þarf afgreiðslufólkið basically bara að hafa púls og þá getur það unnið þarna. Ísland er mörgum árum á eftir Danmörku í búðarkassatækni!

Kominn aftur til Danmerkur

Þá er fyrsta önnin í DTU búin. Ég var í fjórum áföngum, í Robust Programming þurfti ég að skila inn verkefni og skýrslu, í Program Analysis fór ég í munnlegt próf, í Computationally Hard Problems fór ég í hefðbundið skriflegt próf og í Web Services var hópurinn minn með kynningu. Þetta gekk allt saman ágætlega, þó ég sé ekki búinn að fá neinar einkunnir ennþá. Kennarinn okkar í Web Services var reyndar mjög pirraður í byrjun því við höfðum skráð eitthvað vitlaust hver bar ábyrgð á hverju, röflaði um það í 5 mínútur í byrjun kynningarinnar. Spurði svo mjög skrýtinna spurninga og spurði einn okkar engra spurninga sem var frekar skrýtið. Einkunnirnar ættu síðan að koma fljótlega eftir jól. Ekki að þær segi manni mikið þar sem DTU er með einhvern þroskaheftan sérstakan einkunnaskala sem er einhvernveginn -3 0 4 X ϖ 8 12. Kannski ekki nákvæmlega svona en er allavega frá -3 uppí 12 með bilum á hinum ýmsu stöðum.

Ég fann svo loksins íbúð í Danmörku viku áður en ég kom heim til Íslands. 85 fm, með alvöru baðherbergi með baðkari, fínni stofu og hægt að labba útí garð úr stofunni. Er á Amager, nálægt Íslandsbryggju. Tekur mig reyndar næstum klukkutíma að komast í skólann en ég verð bara að nýta tímann í lestinni vel. Myndir af íbúðinni má sjá á http://einaregilsson.com/birketinget.

Ég fór til Íslands 17. des og var þar yfir jólin og áramótin. Mjög fínt að komast aðeins heim. Þó það sé fínt að vera hérna úti þá finnur maður hvað það er allt eitthvað auðvelt og þægilegt þegar maður kemur aftur heim. Maður skilur allt og allir skilja mann, maður veit hvernig allt virkar og svona. Jólin voru fín, vorum hjá mömmu og pabba á aðfangadag og fengum svo Tómas og strákana til okkar á jóladag. Þetta voru fyrstu jólin þar sem Daníel skilur eitthvað hvað þetta gengur útá. Hann fékk í skóinn og var spenntur fyrir því og svo var hann mjög spenntur að opna pakkana á aðfangadag. Við reyndar létum hann opna suma þeirra á jóladag þar sem hann var orðinn pakkaóður á aðfangadag og leit varla á hvað var í pökkunum, vildi bara komast í næsta pakka sem fyrst. Svo vorum ég og Karen að ganga frá íbúðinni og svona, flytja allt í búslóðageymslu og ganga frá. Sendum dótið okkar út með Samskipum, þar sem við tökum engin húsgögn með þá var þetta voða lítið, bara 1,66 rúmmetrar, þó okkur hafi reyndar þótt það vera fullt þegar við vorum að pakka. Ég kom hingað til Danmerkur í dag en Karen og Daníel koma svo 15. jan og þá þarf ég að vera búinn að kaupa rúm og svona, búslóðin kemur svo 21. eða 22. jan.

Ég byrja svo í janúar áfanga á morgun kl. 9 og fer beint að vinna eftir það þannig að það er nóg að gera. Nú er hinsvegar bara planið að slappa aðeins af í kvöld, horfa kannski á Næturvaktina og fara svo að sofa snemma. Maður verður líka að jafna sig á tímamuninum, það getur nú tekið nokkra daga…

Er það afþví að ég er Íslendingur?

Ég er á fullu að leita að íbúðum hérna í Danmörku þar sem planið er að Karen og Daníel flytji hingað í janúar og það er talsvert erfitt ef við höfum enga íbúð til að flytja í. Eins gaman og það er að búa í hálfum gámi þá getur heil fjölskylda ekki búið þar 🙂 . En já, ég er búinn að senda fullt af emailum, hringja útum allan bæ og skoða nokkrar íbúðir. Í upphafi vorum við með kröfur um að íbúðin væri nú ekki of langt frá DTU og ekki of dýr. Núna hinsvegar viljum við bara finna einhverja íbúð sem er  ekki lengra  en klukkutíma í burtu.  Þegar maður skoðar litlar íbúðir í Danmörku sér maður oft mjööög lítil baðherbergi. Þegar ég fór til Ebbu og Hilmars voru þau t.d. með baðherbergi þar sem vaskurinn var inní sturtunni, maður dró bara sturtuhengi kringum svæðið og það var sturtan. En í fyrradag sá ég ennþá minna baðherbergi, og það í íbúð sem er leigð út á 7900 danskar, u.þ.b. 100.000 isk. Baðherbergið var 1 fermetri, það var klósett, vaskur alveg við klósettið og sturtuhaus á veggnum. Ef maður vildi fara í sturtu þyrfti maður grínlaust að sitja á klósettinu meðan maður væri að sprauta yfir sig. Jafnvel þó ég geti séð hvernig það gæti verið tímasparandi í vissum tilfellum þá er það frekar óspennandi. Sérstaklega með Daníel, ég sé mig fyrir mér sitjandi á klósetti, haldandi á Daníel og sprautandi vatni yfir okkur.

En já, svo hringdi ég í dag að tékka á einni íbúð sem ég sá á netinu. Tala aðeins við manninn (á ensku, já, danskan mín er ekki frábær, danir yfirleitt segja bara ha þegar ég reyni að tala dönsku) og hann spyr mig hvaðan ég sé. Ég segi að ég sé frá Íslandi og þá segir hann mér að hann vilji ekki leigja neinum útlendingum! Nei, vegna þess að ef það yrði nú eitthvað vesen þá yrði nú erfitt að ná í mig á Íslandi. Ég reyndi að segja honum að ég byggi í Danmörku, væri í skóla og svona, en nei, ekki séns. Hann var samt voða vingjarnlegur meðan hann sagði mér að hann vildi ekki leigja mér, var svona hálf afsakandi, en stóð alveg fastur á þessu. Í Danmörku er samt standard að borga 3 mánuði í deposit + 3 mánuði í fyrirframgreidda leigu þannig að hann væri með 6 * 7000 dkr, u.þ.b. hálfa milljón íslenskar frá mér áður en ég flytti einu sinni inn. En já, svona er þetta. Ég held áfram að leita og finn vonandi eitthvað fyrir 17. des

Danmörk – Dagur 77

Hvað er að gerast í Danmörku? Síðasta sunnudag elduðu Bruno, Matteus og Francielle brasilískan mat fyrir alla í gámnum. Þetta er víst einhver réttur sem er yfirleitt borðaður á mánudögum í Brasilíu. Það var stór diskur af kartöflumús með smá kjöthakki ofaná, svo var fullt af hrísgrjónum og svo var einhver baunaréttur úr svörtum baunum og einhverju fleiru. Þetta var ágætt, gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég splæsti í kók og bjór svona til að leggja eitthvað af mörkum.

Ég var áður búinn að tala um að það ætti að vera keppni milli forritana sem við gerðum í Computational Hard Problems. Við fengum að vita úrslitin síðasta þriðjudag og minn hópur var í 3. sæti. Maður fékk stig fyrir hraða og hversu góð lausnin var sem forritið fann og svo fékk maður bónusstig ef bæði hraðinn og lausnin var góð, svo maður gerði nú ekki bara hraða lausn sem væri krapp. Allavegana, við fengum flösku af rauðvíni í verðlaun, 2005 árgerð af Valpolicella Ripasso, hvað sem það nú er. Ég drekk ekki rauðvín en það er alltaf gaman að vinna :). [Extra nördaupplýsingar: Við hefðum ekki lent í 3ja sæti nema af því að við endurskrifuðum forritið í C++ fyrir keppnina, upphaflega útgáfan í C# tók 12 sekúndur, C++ útgáfan tók 6 sekúndur.]

Núna er ég hinsvegar að horfa á kennsluefni í LEGO Mindstorms, þar sem að á morgun er ég, Eduarda, Tiberiu og Nuno að taka þátt í keppni þar sem maður byggir róbóta. LEGO Mindstorm NXT er eitthvað svona system þar sem maður hefur fullt af kubbum, nokkra skynjara og mótora og svo getur maður smíðað vélmenni og forritað það til að leysa allskonar verkefni. Ég hef aldrei snert á þessu áður, og enginn annar úr hópnum mínum heldur þannig að þetta verður áhugavert. Þetta er í 7 klukkutíma, frá 1-8 á morgun og verður örugglega stuð. Ég hef smá áhyggjur af því að róbótinn gæti orðið self-aware og gert uppreisn gegn sköpurum sínum en að öðru leyti líst mér vel á þetta.

Annað kvöld kemur svo Alda til Danmerkur þannig að ég, hún og Agla verðum örugglega að gera eitthvað skemmtilegt um helgina. Við höfum aldrei áður verið öll 3 systkinin saman í útlöndum. Og, já, þetta er það helsta sem er að frétta af mér.