Ég fór með strætó kl. 5 í morgun úta flugvöllinn í Varsjá. Hélt ég væri nú bara mjög tímanlega og það leit út fyrir það fyrst. En ég reiknaði ekki með því að öryggishliðið er rétt áður en maður fer útí vél og þar lenti ég í svakalegri röð, löngu komið final call á flugið mitt og endaði á því að ég og svona 10 aðrir farþegar vorum einir í rútunni sem fór í vélina, allir hinir voru löngu komnir. Þegar ég lenti svo í Danmörku tók ég lestina á Central stöðina og keypti mér þar vikupassa í allar lestar og strætóa á þeim zone-um sem ég verð mest á. Síðan fann ég rétta lest til Lyngby station og tók strætó þaðan uppí DTU. Mjög gott að komast lokins inná herbergi um hádegisbil og slappa aðeins af.
Þegar ég var búinn að taka uppúr töskunum og svona fór ég í administration bygginguna þar sem ég ætlaði að fá staðfestingu á námi sem ég þarf að skila inn til leikskólans hans Daníels. Þeir eru með sérstaka vél þarna sem prentar út svona staðfestingar og nokkur önnur algeng skjöl en maður þarf að vera búinn að fá stúdentakort til að nota hana og ég fæ það víst í næstu viku. Þannig að ég dreif mig bara niður í bæ í Lyngby og fór að versla. Ég hafði nú haldið fyrirfram að maður væri bara hérna í skólanum en færi svo í miðborg Kaupmannahafnar ef maður vildi fara eitthvert út, en þetta er alveg alvöru bær hérna, fullt af verslunum og öllu svona.
Ég þurfti að kaupa ýmislegt, byrjaði á að kaupa handklæði, fór svo í City Hall þar sem mér hafði verið sagt að ég gæti skráð mig sem íbúa, en þar bentu þeir bara á að fara annað, í eitthvað Commune þar sem maður skráir sig víst. Fór þangað, skráði mig inní landið og fékk CPR númer sem maður þarf víst til að geta gert eitthvað hérna. Það er bara íslenska kennitalan mín, nema einn stafur var öðruvísi, sennilega bara mistök hjá konunni sem skráði þetta. Hún lét mig líka merkja við hvaða lækni ég vildi hafa og svo að lokum sagðist hún vera með smá pakka til mín frá bæjarstjóranum. Hvernig vissi hann að ég væri að koma??? Það var a.m.k. einhver bæklingur um Lyngby, tveir frímiðar í sund og eitthvað fleira sniðugt.
Síðan fór ég að opna bankareikning, þar sem ég var kominn með CPR númerið mitt. Þar lenti ég á einhverri konu sem vildi endilega tala dönsku við mig. Hún sagði eitthvað á dönsku, sem ég skildi svona að mestu leyti, ég svaraði á ensku og svo hélt hún áfram á dönsku. Þegar við vorum komin lengra inní þetta þurfti ég að segja ‘ha’ við öllu þannig að hún var farin að segja allt fyrst á dönsku og svo á ensku (sem hún talaði bara mjög vel). Ég var alvarlega farinn að íhuga að segja henni bara Det er en interessant rødvin, man kan godt drinke den i tog svo hún mundi nú endanlega fatta að ég væri vonlaust keis og skipta bara yfir í enskuna. En ég gerði það ekki, við töluðum bara mjög hægt saman og gengum frá þessu á endanum. Ég á víst von á einhverjum massa pósti frá þeim og þá fyrst get ég sótt um sjálft debetkortið.
Síðan ætlaði ég að ná í skattkortið mitt en það lokar víst kl. 13:30 á föstudögum, Commune dótið lokaði líka kl. 14:00, þessir Danir nenna greinilega ekkert að vinna! 😉 Þannig að ég fór bara að versla meira, fór og keypti mér danskt símakort (21532836) sem ég á eftir að prófa, ég gæti þurft að hringja í Vodafone heima og grátbiðja þá um að aflæsa símanum mínum áður en það virkar. Splæsti líka í USB sjónvarpskort fyrir tölvuna mína, þannig að ég get horft á sjónvarpið hérna inní herbergi. Fór svo í Nettó að kaupa í matinn, það virðist vera svona Bónus hjá Dönum, nema ennþá hrárri uppstillingar. Í hillunum með snyrtivörunum var þeim eiginlega ekki raðað upp, það voru bara hrúgur af drasli í hillunni og öllu hálfblandað saman. En ég keypti svona þetta helsta, tannkrem og tannbursta, mjólk, djús, morgunkorn og svona, þannig að nú er ég nokkuð góður, hillan mín í ísskápnum er a.m.k. vel full. Það virðist enginn annar vera fluttur inní skúrinn minn, hef a.m.k. ekki rekist á neinn ennþá.
Seinni partinn klúðraði ég svo strætóferðinni úr bænum og fór einhvern massífan hring um allt nágrennið í svona klukkutíma. Komst svo loksins heim, fékk mér að borða og fór að lesa í dönskubókinni minni og reyna að koma netinu í gang sem var eitthvað bras, ég var búinn að gleyma einhverju passwordi og eitthvað krapp, var loksins að detta inn fyrir svona 2 tímum.
Er að fara að sofa, skrýtið að sofa einn, sakna Karenar og Daníels. Stefni á að finna þvottavélar og panta hótel fyrir Karen og Daníel á morgun, og svo kannski kíkja í bæinn. Þið megið örugglega eiga von á nokkrum maraþonbloggum í viðbót næstu daga 🙂