Category Archives: Dönsk tækni

Ný vinna, þorrablót og dönsk tækni

Jæja, þá er ég búinn að skipta um vinnu. Ég var búinn að pæla í því í smá tíma að hætta hjá Microsoft, 15 tímar á viku (+ 4 í samgöngur) var of mikið en ég vildi ekki hætta alveg og vera ekki með nein laun lengur. En svo benti Luke (sem er með mér í skólanum) mér á að það var verið að óska eftir masters nemum í DTU til að vinna ákveðið verkefni í skólanum, 1 dagur í viku og ágætis laun þannig að ég ákvað að sækja um það með Luke. Ég sagði upp hjá Microsoft og fékk að hætta undireins, yfirmaðurinn var mjög fínn, reyndi að fá mig til að vera áfram en sagði mér svo bara að láta sig fá uppsagnarbréf þar sem ég segðist mundu vinna næstu 2 vikur, því ef ég hætti samstundis gæti það haft áhrif ef ég vildi einhverntímann sækja um aftur. Þó ég segðist ætla að vinna 2 vikur í viðbót þurfti ég ekkert að mæta og gat þess vegna byrjað strax í nýju vinnunni. Nýja verkefnið er partur af stærra rannsóknarverkefni, okkar partur gengur útá að skoða hvernig sé hægt að nota Aspect oriented programming og static analysis til að bæta öryggi í existing kerfum. Við fáum skrifstofu með 2 öðrum mastersnemum sem er algjör snilld þar sem maður getur líka notað hana til að læra fyrir önnur fög og hefur stað til að geyma dótið sitt og svona. Ég vinn í þessu 1 dag í viku framí júní og þá sjáum við til með framhaldið.

Annars er allt fínt að frétta bara. Síðasta föstudag buðum við Luke, Giedrius og Rimanda í mat til okkar. Giedrius er strákur frá Litháen sem er með mér í skólanum og var að vinna hjá Microsoft, Rimanda er kærastan hans. Á laugardaginn fengum við svo Öglu til að passa fyrir okkur og fórum með Ebbu, Hilmari, Rakel og einhverjum vinum Ebbu og Hilmars á þorrablót hjá Íslendingafélaginu. Það var ágætt, skrýtið að vera allt í einu með eintómum íslendingum aftur. Hljómsveitin hefði samt mátt vera betri til að fá betri stemmningu. En það var gott að komast út, þetta var í fyrsta skipti sem við höfum farið eitthvert saman út síðan við komum til Danmerkur.

Ég ætla að bæta við nýjum föstum lið á þessa síðu. Þetta er nýr dálkur sem heitir Dönsk tækni dagsins þar sem ég mun segja frá æsispennandi dönskum tækninýjungum eins og peningafæriböndum, skiptimyntarvélum og fleiru sniðugu.

Dönsk tækni dagsins:

Við fengum okkur að borða í Fields á svona skyndibitastað. Í staðinn fyrir að fá númer og vera kölluð upp þegar maturinn er tilbúin fengum við svona smá flögu einhverja til að taka með okkur. Þegar maturinn okkar var tilbúinn þá pípti flagan og blikkaði ljós á henni. Snilld!

Danmörk – Dagur x

Er ekki kominn tími á að hætta að telja dagana? Það er bara svo hentugt þar sem mér dettur aldrei í hug neinir titlar á þessar færslur. Karen og Daníel eru komin hingað út núna og við erum flutt inní íbúðina í Birketinget. Fyrstu dagarnar voru ansi tómlegir þar sem við vorum bara með einn svefnsófa og ekkert annað í íbúðinni. En síðustu helgi fengum við svo Öglu til að passa fyrir okkur og fórum í massífa verslunarferð í IKEA þar sem við keyptum rúm, borðstofuborð, sófaborð, sjónvarpsborð, kommóðu og heilan helling af smádóti. Fórum svo og keyptum okkur fínt sjónvarp á mánudaginn og fengum internettengingu og á þriðjudaginn kom allt dótið okkar frá Íslandi. Þannig að núna er þetta bara orðið mjög heimilislegt og fínt. Ansi mikið skemmtilegra að búa hérna í alvöru íbúð með fjölskyldunni heldur en að búa einn í hálfum gámi, þó það hafi nú verið ágætis lífsreynsla í nokkra mánuði. Var að klára 3 vikna janúarnámskeiðið í gær og er kominn í frí í skólanum í 10 daga sem er mjög fínt.

Að öðru: tæknimálum! Það kemur sífellt út nýrri og flottari tækni: iphone, hdtv, blue ray o.s.fv. Ekkert af þessu vekur samt jafnmikinn áhuga hjá mér og öll tæknin sem er í matvörubúðum í Danmörku! Það er rosalegt! T.d. í Kvickly sem er local búðin okkar, þar er súpercool peningafæriband! Á öllum svona búðarkössum er svona, öhh, spýta sem skiptir kassanum í tvennt svo það sé hægt að aðskilja það sem þú og sá næsti á eftir þér eruð að kaupa. Í Kvickly kemur uppúr þessari spýtu smá pinni og ofan á honum er smá járn skál. Þegar þú stendur við endann á kassanum, og ert að setja í poka þá geturðu bara sett peninginn þinn í skálina, afgreiðslumanneskjan ýtir á takka og swooooosh, skálin með peningunum þínum skýst til afgreiðslumanneskjunnar. Hún setur svo afganginn þinn og kvittunina aftur í skálina og swooooosh, það skýst til baka til þín. Maður verður eiginlega að sjá þetta til að fatta hvað þetta er stórfenglegt! Í Fakta eru þeir svo búnir að þróa afgreiðslukerfið svakalega! Ef maður borgar með seðli þá lætur afgreiðslumanneskjan hann inní einhvern töfrakassa, svo er annar töfrakassi fyrir framan þig sem gefur þér sjálfkrafa klink til baka. Þegar ég vann í 10-11 þurfti maður a.m.k. að slá inn rétta upphæð og geta talið smápeninga til að geta gefið til baka, núna þarf afgreiðslufólkið basically bara að hafa púls og þá getur það unnið þarna. Ísland er mörgum árum á eftir Danmörku í búðarkassatækni!