Category Archives: Almennt

Árið 2005

Jæja, þetta er búið að vera ansi viðburðaríkt ár. Í tímaröð:

  • Útskrifaðist sem tölvunarfræðingur úr Háskólanum í Reykjavík.
  • Eignaðist lítinn strák, Daníel Mána.
  • Ég og Karen giftum okkur og skírðum Daníel í leiðinni.
  • Byrjaði í fyrstu “alvöru” vinnunni minni, hjá Libra sem er deild í TM Software. Seinna á árinu var Libra svo keypt útúr TM software af sænska fyrirtækinu OMX.
  • Fór í árshátíðarferð til Póllands með vinnunni, Karen og Daníel komu með, hittum ættingja Karenar í Póllandi.
  • Seldum íbúðina okkar í Guðrúnargötunni, erum að leita að nýrri íbúð.

Verðu erfitt að toppa síðasta ár en vonandi verður jafnmikið fjör á árinu 2006. Gleðilegt ár! 🙂

Fjöldamorðingi

Var að horfa á auglýsingar í sjónvarpinu áðan. Þá kom auglýsing um nýja íslenska spennusögu:

“Afturelding”

“Fjöldamorðingi er laus. Fórnarlömb hans eru…

…GÆSAVEIÐIMENN!”

Ég er ekki viss af hverju mér finnst svona fyndið að fjöldamorðingi sé að eltast við gæsaveiðimenn, en mér finnst það a.m.k. mjög fyndið. Svo kom mynd af einhverjum svona gæsaveiðitöffara í lopapeysu með derhúfu að góna útí loftið og svo var hann skotinn. Örugglega snilldar bók!

Ariston ísskápur

Í þessu bloggi talaði ég um að a.m.k. 3 hefðu komið inná síðuna mína frá google þar sem þeir hefðu verið að leita að orðinu ísskápur og ég var að pæla í hvort ég gæti fengið fleiri ef ég skrifaði ísskápur oftar. Nú prófaði ég að slá inn Ariston ísskápur inní Google og ég er fyrsta niðurstaðan! Og ekki bara fyrsta, heldur líka númer 6 og 7! Nú sé ég framá að geta bara fengið Ariston til að sponsora mig, sett risastóran auglýsingalink til Ariston á síðuna mína, grætt fullt af auglýsingapeningum og hætt að vinna. Spurning hvort maður ætti að skrifa inn fleiri orð til að lokka fólk hérna inn?

Í öðrum ótengdum fréttum má geta þess að ég og Karen vorum að kaupa okkur nýja Electrolux eldavél. Þessi Electrolux eldavél er mjög fín, með keramikhelluborði og öllu. Electrolux eldavélin er búin að reynast vel fyrstu dagana og við treystum á að Electrolux eldavélin haldi áfram að reynast vel!

Jólahlaðborð

Við fórum á jólahlaðborð Libra í gær. Fyrst var fordrykkur heima hjá Þórði og svo var farið á Thorvaldssen þar sem við vorum í sér sal og fengum önd, lambakjöt og einhvern íseftirrétt. Fínn matur og mikið fjör.

Það sem var svo mesta snilldin var jólapakkaleikurinn ógurlegi, Yankee swap. Þetta er leikur sem gengur útá að allir koma með ómerktan pakka, eitthvað sem kostar svona 2000-2500 kr. Svo eru númer frá 1 – n og allir draga númer. Sá sem fær númerið 1 fær fyrstur að velja sér pakka og opnar hann fyrir framan alla hina. Svo kemur sá sem fékk númerið 2 en hann má annaðhvort velja sér pakka eða stela gjöfinni af númer 1. Ef hann stelur þá verður nr. 1 að velja aðra gjöf úr hrúgunni. Svo gengur þetta svona koll af kolli og þegar komið er að þeim síðasta getur hann valið síðasta pakkann eða stolið af hverjum sem er. Þetta var mikið stuð, fyrstu nokkrir völdu pakka, svo kom að okkur og þá stal ég kassa með 2 bjórum og Mugison disk frá Þóri en seinna stal Óli því aftur af okkur. Enduðum uppi með kaffisett, sem var með 2 bollum, undirskálum og kaffipakka, mjög fínt bara. Hrannar fékk viðbjóðslega ljótan fiskiplatta sem gekk víst í 5 ár milli manna í vinnunni hjá Jared sem kynnti okkur fyrir þessum leik, Finnur stal startköplum af framkvæmdastjóranum og bjórarnir sem Óli stal af mér voru teknir af honum því það mátti ekki opna þá inná Thorvaldssen, hah!

Vatn

Tip: Ef þið eruð einhverntímann með krana inní eldhúsi og stúturinn (eða hálsinn eða hvað þetta heitir, stóra bogalagaða rörið ) dettur af meðan vatnið er á fullu, þá er sniðugt að skrúfa bara strax fyrir vatnið þannig að það haldi ekki áfram að sprautast út. Það sem er ekki jafn sniðugt er að reyna að troða stútnum aftur á meðan vatnið er ennþá að sprautast uppí loftið. Það getur orðið til þess að vatnið fari að sprautast til hliðar og útum allt eldhús…

Godfather með hálsbólgu

Það eina sem er gott við hálsbólgu er að núna tala ég eins og the Godfather! Það er að sjálfsögðu ekkert nema svalt! Nú þarf ég að fara að gera fólki tilboð sem það getur ekki hafnað 🙂

(Karen reyndar heldur því fram að ég hljómi eins og ég sé í mútum. Það er náttúrulega bara rugl!)

Hálsbólga

Er með hálsbólgu. Fékk mér heitt te fyrir hálsinn. Það lítur út eins og hland! Nákvæmlega eins og hland! Það er eins og ég sé með þvagprufu í bolla hérna á borðinu mínu!

Hálsbólga er líka krapp veikindi! Ef maður er með magapínu getur maður a.m.k. nýtt það sem afsökun til að drekka fullt af kóki, því það var upprunalega ætlað sem magameðal. Ef maður er með hálsbólgu þá getur maður bara fengið Strepsils, sem eru ógeðslega vondir brjóstsykrar. Ég vildi að það væri eitthvað gott nammi eða gos sem hefði upprunalega verið ætlað sem hálsbólgumeðal!

Hvað er að gerast?

Alda systir heimtar að ég skrifi eitthvað hérna. Mér dettur reyndar ekkert í hug til að skrifa um þessa dagana þannig að ég bjó til lista yfir það sem hefur verið að gerast síðasta mánuðinn. (Já mér finnst listar góðir. Ég er einhverfur)

  1. Er farinn að leysa Sudoku þrautirnar í Fréttablaðinu, sem by the way eru svipað ávanabindandi og að reykja krakk! Síðan þegar maður var orðinn vanur því þá kom Blaðið allt í einu með Samurai gátu sem er 5 Sudoku þrautir fastar saman. Fimmfalt krakk!
  2. Byrjaður að vinna hjá TM Software. Veit ekki hversu mikið ég má segja um hvað ég er að vinna við hérna en ég held að það sé óhætt að segja að þetta er kerfi sem heitir [ritskoðað]sem gerir manni kleift að [ritskoðað] á miklu einfaldari hátt en [ritskoðað]. Það sem ég er aðallega að vinna við í kerfinu er [ritskoðað] sem er ansi spennandi því það notar tækni sem kallast [ritskoðað] sem hægt er að [ritskoðað] og [ritskoðað].
  3. Erum flutt úr íbúðinni á Guðrúnargötunni (sem var svo lítil að mýsnar voru með kryppu) yfir í íbúðina hjá tengdapabba í Neðstaleiti (sem er svo stór að mýsnar… eh… eru beinar í baki?) Ok, skelfilegur brandari! En já, þetta er a.m.k. miklu betri íbúð og við verðum hérna þar til við finnum okkur nýja íbúð til að kaupa. Erum í því að ganga frá Guðrúnargötunni núna og ætlum að reyna að selja hana sem fyrst. Ef einhvern langar að kaupa íbúð þá bara láta mig vita 🙂
  4. Er hættur að skokka. Skokk er fyrir plebba.
  5. Byrjaður og hættur í nýju líkamsræktarátaki sem gekk útá að hlaupa upp 8 hæðir uppí matsal á hverjum degi. Það entist í tvo daga.
  6. Erum búin að fá okkur nýtt rúm sem mamma og pabbi gáfu okkur í brúðkaupsgjöf. Gamla rúmið okkar var svo mjótt að við urðum að liggja uppá rönd í því en nýja rúmið er aftur á móti álíka stórt að flatarmáli og íbúðin okkar í Guðrúnargötunni (sem var svo lítil að mýsn… hafiði heyrt þennan áður?). Það er a.m.k. mjög stórt, sem veitir ekki af ef ég fer ekki að drífa mig í nýtt líkamsræktarátak!

Svo er náttúrulega fullt að frétta af Daníel en það má lesa um það á síðunni hans.

Menningarnótt

Menningarnótt í gær. Við fórum í bæinn um kvöldið með Daníel í vagninum sínum. Ætluðum að sjá Bítl sem var fyrir framan Landsbankann en komumst að því að það er meira en að segja það að reyna að komast gegnum mannþröng með barnavagn. Í Austurstrætinu var mesti troðningurinn af öllum, við reyndum að troðast þarna inn á milli, keyrðum yfir nokkrar gamlar konur og börn áður en við urðum að játa okkur sigruð þegar við vorum orðin pikkföst þarna og gátum hvorki hreyft okkur afturábak né áfram. Eftir það reyndum við að halda okkur á svæðum þar sem var ekki alveg svona mikið af fólki. Fórum í kolaportið að heilsa uppá Láru og fá okkur kaffi og svona. Hittum eitthvað fólk sem Karen þekkti og hún kynnti mig sem “manninn sinn” sem var mjög skrýtið!

Kíktum svo á stóra sviðið hjá höfninni og komum þar í mitt show-ið hjá Í svörtum fötum. Jónsi tók þá gáfulegu ákvörðun að sleppa því bara að syngja og reyna að láta áhorfendurna syngja sem mest en hann ofmat aðeins hversu vel fólk kann textana hans. Lokalagið hjá þeim var lagið “Nakinn”. Svona er textinn í viðlaginu:

Þú

Ég vil vera eins og þú

Því ég

Ég er nakinn eins og þú

Svona er það sem við fengum að heyra í gær:

Þú ALLIR SYNGJA!! [algjör þögn]

ÉG vil KOMA SVO!! [algjör þögn]

Því ALLIR SAMAN!! [einn maður að hósta, annars algjör þögn]

Ég er SYNGJA MEÐ!! [algjör þögn]

Svo reif hann sig úr bolnum í miðju lagi og var ber að ofan. Ég þori að veðja að hann hefur samið þennan texta sérstaklega til að fá tækifæri til að strippa soldið í hverjum tónleikum.

Eftir þetta voru KK og Maggi Eiríks sem voru fínir og svo Todmobile sem var líka fínt. Endaði svo á flugeldasýningu Orkuveitunnar sem var mjög flott og hefur sennilega hækkað rafmagnsreikninginn okkar um svona 500 kall. Svo kom brjáluð rigning á leiðinni heim, en fyrir utan það var þetta fínasta menningarnótt :).