Í dag er dagur 365 hér í Danmörku. Ég kom hingað 24. ágúst í fyrra og flutti inn í gáminn góða. Margt búið að gerast á síðastliðnu ári. Var fyrst einn hérna í 4 mánuði í gámnum með fólki úr öllum heimshornum. Það var að mörgu leyti mjög skemmtilegt en líka erfitt að vera í burtu frá Karen og Daníel. Búinn að prófa að vinna hjá Microsoft sem var áhugavert að öllu öðru leyti en því að það sem ég var actually að gera var frekar óspennandi. En það var fróðlegt að vinna í svona stóru fyrirtæki, kynnast fólkinu og sjá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þarna. Búinn að vinna sjálfstætt rannsóknarverkefni með öðrum nemanda undir leiðsögn tveggja prófessora, við sendum inn pappír til birtingar í ráðstefnu sem verður í haust, NordSec ’08, og fáum að vita á næstu dögum hvort hann verður birtur þar. Búinn að vinna í skólanum með Dönum, Bretum, Hollendingum, Litháum, Lettum og Pólverjum að allskonar spennandi og óspennandi verkefnum. Ég og Karen erum búin að koma Daníel inná leikskóla, fara til Legolands, þvælast um alla garða og legaplads í Kaupmannahöfn, læra talsvert meira í dönsku og búa til eitt stykki nýtt barn. Í heildina er ég bara mjög ánægður með þetta allt saman, þó að það sé erfitt að mörgu leyti að flytja milli landa þá er það líka áhugavert og gaman að prófa að búa í nýju umhverfi.
Í dag er líka afmælisdagurinn minn, ég er orðinn 28 ára. Eldri en Jimi Hendrix, Kurt Cobain, Jim Morrison og Janis Joplin urðu 🙂 . Karen fann til fínan morgunverð fyrir okkur í morgun, síðan skruppum við í Fields að kaupa nokkra hluti, m.a. afmælisköku og lentum svo í brjálaðri rigningu á leiðinni til baka, komum inn öll hundblaut. Vorum svo bara þrjú saman með afmæliskaffi en fáum nokkra gesti í kvöld, Öglu og Ragga, Ebbu og Hilmar, og Hildi og Gúnda. Maður má víst samt ekki vera of lengi að í kvöld því maður verður að vakna til að sjá handboltann á morgun þar sem við munum að sjálfsögðu vinna gullið!!!
Til hamingju með afmælið elsku bróðir! Vildi óska að ég gæti verið með ykkur í kvöld… og líka í fyrramálið yfir leiknum…
Knús
alda
Til hamingju með afmælið og innilega til hamingju með barnið 😉
Maður verður að fara að kíkja í heimsókn til ykkar í danaveldi 🙂 er ekki örugglega alltaf heitt á könnunni.
ps. það var gaman að fá sms-ið frá þér um daginn þó það væri tölvutengt 🙂
Kv,
Hrannar Örn
Takk fyrir
Það er að sjálfsögðu alltaf heitt á könnunni hjá okkur, endilega kíktu til danaveldis. Gætum jafnvel átt kleinur með kaffinu. 🙂