Monthly Archives: June 2006

Íslensk kvikmyndagetraun

Kominn tími á nýja getraun. Best að hafa smá þema, þetta eru allt íslensk kvót. Þar sem enginn virðist nokkurntímann vitja vinningana úr þessum getraunum þá skulum við bara hafa gullkórónu og Ferrari í verðlaun.

  1. “Þungur hnífur!”
  2. “Ég bít ekki á ryðgaðan öngul.”
  3. “Þetta er Dodge Dart, fíflið þitt!”
  4. “Eina ástæðan fyrir að fólk býr hérna er að það fæddist hérna!”
  5. “Og þarna var ég ..með Baltasar Kormáki.. og Birgittu Haukdal… í Húð og Kyn…og þá kom Bergsveinn úr Sóldögg sagði: Hvar er Bob Dylan???”

Spurning 1-4 gefa 1 stig hver, en spurning 5 gefur 5 stig. Ég veit ekki sjálfur hvaðan þetta kvót er, en rakst á það á einhverri bloggsíðu um daginn og er viss um að ég hef heyrt það áður einhversstaðar!(Eða kannski er þetta ekki úr neinu og ég er bara að ruglast :))

www.afajcdecaux.is

Stundum sér maður fyrirtækjabíla í umferðinni og þeir eru netslóð fyrirtækisins límda einhversstaðar á bílinn, t.d. www.smidurinn.is eða eitthvað svoleiðis. Tilgangurinn er væntanlega að aðrir bílstjórar sjái þetta og vonandi muni eftir því og kíki kannski á það við tækifæri. Þá er gott að vera með einfalda slóð þannig að það séu meiri líkur á að fólk muni eftir henni. Í morgun sáum við hinsvegar fyrirtækisbíl sem var ekki með neinum auglýsingum öðrum en hinni stórkostlegu slóð www.afajcdecaux.is . Þetta er nú auðvelt að muna! Svo var .is rautt til að leggja áherslu á það, svona ef fólk man www.afajcdecaux en bara getur ekki munað á hverju það endaði. Ég og Karen vorum mikið að pæla hvað afajcdecaux gæti eiginlega verið, en það var nú ekkert spennandi, bara fyrirtæki sem sérhæfir sig í rekstri útiauglýsinga í götugluggum og á strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu. En fyrst þetta er auglýsingafyrirtæki hljóta þeir að vita hvað virkar, þess vegna ætla ég að hætta með einaregilsson.com og fá mér í staðinn xjeincdarwcaux.com

Læknavaktin

[Þessi færsla birtist líka á síðunni hans Daníels, ég set hana líka hérna inn til að hafa eitthað efni hérna ;)]

Daníel er búinn að fara á 2 penicillin kúra útaf eyrnabólgu núna síðustu vikur. Seinni kúrinn var að klárast fyrir 3 dögum en við tókum eftir því í dag að hann var frekar pirraður og var svolítið að toga í eyrun á sér þannig að okkur datt í hug að eyrnabólgan væri komin enn og aftur. Við ákváðum að fara á læknavaktina til að vera viss, enda vill maður að hann fái meðferð sem fyrst ef eitthvað er að. Við höfum farið þarna nokkrum sinnum áður og lent á misgóðum læknum, en sá sem við lentum á í þetta sinn var nú eitthvað alveg nýtt. Hann skoðaði eyrun og sagði okkur að það væri væg eyrnabólga komin í annað eyrað. Hann vildi samt ekki vera að gefa meira penicillin því þetta væri rétt eftir síðasta kúr og þetta færi sennilega bara af sjálfu sér, það væri fínt að gefa honum bara verkjalyf. Síðan sagði hann okkur þessa stórkostlega upplífgandi og hughreystandi sögu:

Þegar strákurinn minn var svona tveggja ára þá var hann einu sinni ferlega pirraður eitthvað. Þetta var í miðju matarboði og ég var bara pirraður á stráknum og fannst hann vera óþekkur [ok, barninu leið illa og þú varst pirraður á því, gott mál]. Síðan að lokum neyddi konan mín mig til að líta á hann og þá sá ég að hann var með bullandi eyrnabólgu. Ég nennti ekki að fara og ná í meðal fyrir hann því þetta var um kvöld og það mátti alveg bíða til morguns þannig að við gáfum honum bara verkjalyf og létum hann fara að sofa. [Nú bjóst ég við að sagan myndi enda á að allt yrði í lagi, þannig að ég yrði rólegri um Daníel. En nei… ]. Síðan um morguninn, þá bara SPRAKK HLJÓÐHIMNAN Á HONUM YFIR ALLAN KODDANN!

Hver var tilgangurinn með því að segja okkur þessa sögu?!? Átti þetta að láta okkur líða betur? Þetta var versta mögulega saga sem hann hefði getað sagt okkur! Í framtíðinni ætlum við a.m.k. bara að fara á barnalæknavaktina í Domus Medica, höfum farið þar einu sinni og þar var mjög fínn læknir sem var ekki að segja neinar hryllingssögur!

Afmæli

Jæja, Daníel er orðinn eins árs. Við héldum afmæli fyrir fjölskylduna á sjálfan afmælisdaginn, síðasta þriðjudag og svo koma vinirnir á morgun. Barnaafmæli eru bestu afmælin því þá fær maður súkkulaðiköku með nammi, sem eru klárlega bestu kökurnar! Ætlum líka að grilla á morgun, vonandi hættir þessi %(#%”#$”@ rigning!

Nóg að gera í vinnunni, er kominn í gagnamál sem þýðir að ég þvælist um allan bæ og vinn hjá bönkunum. Kosturinn er að alla fimmtudaga er ég í Landsbankanum og get borðað með Karen í hádeginu. Ef það eru annars einhverjir HR-ingar eða aðrir tölvunarfræðingar að lesa þetta þá var OMX að auglýsa eftir forriturum og prófurum nýlega, þannig að endilega sækja um!

Gamalmennið Friðrik

Mér finnst ég stundum vera orðinn mjög gamall. Sérstaklega þegar ég sé unglinga og finnst vera 100 ár síðan ég var svona lítill. En þá get ég samt alltaf huggað mig við það að ég er ekki orðinn jafn gamall og Friðrik! Hann er mörgum, mörgum vikum eldri en ég! Friðrik á einmitt afmæli í dag, en þar sem hann er svona gamall þá kann hann ekki á tölvur (eða “helvítis sjónvarpsritvélar” eins og hann kallar þær) og bað mig þessvegna að koma á framfæri óskalistanum sínum:

  • Göngugrind
  • Tannbursti fyrir gervitennur
  • Matlock: The complete DVD collection
  • Nóg af smámynt til að geta borgað með í búðum
  • Hrukkukrem
  • Heyrnartæki
  • Nef og eyrnaháraklippur
  • Köflóttir inniskór

Þannig að allir óska Friðriki til hamingju með afmælið og endilega reyna að kaupa eitthvað af óskalistanum handa honum!

Friðrik þegar við vorum ennþá ungir.

Friðrik þegar við vorum ennþá ungir.

Friðrik eins og hann lítur út í dag.

Friðrik eins og hann lítur út í dag.