Líkamsræktarátakið er ennþá í fullum gangi og gengur vel. Er farinn að geta hlaupið meira en einn hring kringum Miklatún og er hættur að fá harðsperrur eftir að ég fór að gera nóg af teygjuæfingum fyrir og eftir skokkið (þó ég geri þær að sjálfsögðu ekki upp við ljósastaura, heldur heima hjá mér, með dregið fyrir, inní skáp). Ég er líka búinn að minnka nammiátið niður í tvisvar í viku, þannig að nú borða ég bara nammi á virkum dögum og um helgar. Karen benti mér á að það eina sem mig vantaði núna væru góðar tröppur til að hlaupa upp þegar ég væri að klára skokkið, eins og Rocky gerði alltaf. Þetta finnst mér snilldarhugmynd sem mundi gera skokkið a.m.k. 200% meira töff! Það eru reyndar tröppur hjá húsinu mínu en þær eru u.þ.b. 5 talsins og liggja niður þannig að það er enginn rosalegur hápunktur á skokkinu að hlaupa þær. Karen sagði mér að hlaupa til Akureyrar því þar væru fínar tröppur fyrir mig en þar sem það er víst fulllangt í burtu þá auglýsi ég hér með eftir góðum tröppum hér í Reykjavík til að hlaupa upp. Og já, ef einhver á theme-ið úr Rocky á mp3 þá væri það vel þegið 🙂
Þú getur kannski bara fengið afnot af stigaganginum hjá pabba og mömmu og hlaupið upp og niður tröppurnar þar – þannig myndirðu ekki missa kúlið fyrir neinum nema kannski þessum 6 ára sem hanga alltaf í stigaganginum…
Sama hvað ég reyni þá man ég ekki eftir neinum tröppum í nágrenni við Norðurmýrina góðu… hmmmm… *hugs*
Má ég benda á að það eru engir góðir valmöguleikar í könnuninni þinni þarna… Kýs skokk sem besta versta.
Ef þú finnur engar tröppur, getur þú alltaf fjárfest í heilum lambaskrokk og tuskað hann svolítið til..
Alda: Ég má ekki við því að missa kúlið fyrir framan 6 ára krakka!
Lauga: Nei, þetta er glatað hverfi!
Alda aftur: Ertu að segja að amfetamínsterar séu EKKI góðir??
Ósk: Góð hugmynd, en ég er bara ekki með frystiklefa hérna heima, hræddur um að lyktin yrði fljótt frekar slæm…