Þegar ég var í 10. bekk árið 1996 þá var ég í tölvufræðiáfanga. Hópurinn minn var valinn til að taka þátt í CyberCity 2002, samnorrænu verkefni sem gekk út á að spá í hvernig heimurinn yrði í framtíðinni, nánar tiltekið árið 2002 (Rosa langtímaspá! Núna er ég að byrja á öðru framtíðarverkefni þar sem ég spái fyrir um hvernig heimurinn verður eftir helgi). Okkar hópur var tölvuhópurinn, svo voru aðrir skólar sem voru með myndlistarhópa, tónlistarhópa o.fl. Haustið eftir 10. bekk fórum við svo til Danmerkur að hitta krakka frá hinum Norðurlöndunum sem tóku þátt í sama verkefni. Allan 10. bekk vorum við í tölvufræðitímum að vinna í þessu verkefni, þetta var í fyrsta sinn sem ég prófaði internetið. Við lærðum að búa til vefsíður, lærðum HTML og hvernig ætti að skanna inn myndir og vinna með þær í Photoshop. Við unnum í þessu allan veturinn, lærðum heilmikið, strituðum við að gera þetta eins flott og mögulegt var og afraksturinn varð…
…ljótasti vefur í sögu Internetsins!! Hræðilegir bakgrunnar, skelfilegar litasamsetningar, fáránlegar textastærðir o.s.fv. Fannst þetta nú samt ansi flott at the time :).
Ég var löngu búinn að gleyma þessum vef, en ég og Bjarni fórum að tala um þetta um daginn og þá sagði hann mér að vefurinn væri ennþá til. Ég fór að leita að honum en komst að því að hann væri ekki lengur til á sínum rétta stað en þökk sé Internet Archive þá fann ég gamalt afrit af honum. Ég ákvað að bjarga þessum gullmola internetsins fyrir komandi kynslóðir og setja hann upp hérna á síðunni hjá mér. Hér getið þið séð: CyberCity 2002! Mitt framlag var hið rosalega bíó framtíðarinnar, Bjarni gerði framtíðarhverfisskipulagið og herbergi framtíðarinnar og Friðrik gerði geimferðir framtíðarinnar.
Hér má sjá dæmi um geysiöfluga Photoshop vinnslu!