Monthly Archives: April 2005

Cybercity 2002

Þegar ég var í 10. bekk árið 1996 þá var ég í tölvufræðiáfanga. Hópurinn minn var valinn til að taka þátt í CyberCity 2002, samnorrænu verkefni sem gekk út á að spá í hvernig heimurinn yrði í framtíðinni, nánar tiltekið árið 2002 (Rosa langtímaspá! Núna er ég að byrja á öðru framtíðarverkefni þar sem ég spái fyrir um hvernig heimurinn verður eftir helgi). Okkar hópur var tölvuhópurinn, svo voru aðrir skólar sem voru með myndlistarhópa, tónlistarhópa o.fl. Haustið eftir 10. bekk fórum við svo til Danmerkur að hitta krakka frá hinum Norðurlöndunum sem tóku þátt í sama verkefni. Allan 10. bekk vorum við í tölvufræðitímum að vinna í þessu verkefni, þetta var í fyrsta sinn sem ég prófaði internetið. Við lærðum að búa til vefsíður, lærðum HTML og hvernig ætti að skanna inn myndir og vinna með þær í Photoshop. Við unnum í þessu allan veturinn, lærðum heilmikið, strituðum við að gera þetta eins flott og mögulegt var og afraksturinn varð…

…ljótasti vefur í sögu Internetsins!! Hræðilegir bakgrunnar, skelfilegar litasamsetningar, fáránlegar textastærðir o.s.fv. Fannst þetta nú samt ansi flott at the time :).

Ég var löngu búinn að gleyma þessum vef, en ég og Bjarni fórum að tala um þetta um daginn og þá sagði hann mér að vefurinn væri ennþá til. Ég fór að leita að honum en komst að því að hann væri ekki lengur til á sínum rétta stað en þökk sé Internet Archive þá fann ég gamalt afrit af honum. Ég ákvað að bjarga þessum gullmola internetsins fyrir komandi kynslóðir og setja hann upp hérna á síðunni hjá mér. Hér getið þið séð: CyberCity 2002! Mitt framlag var hið rosalega bíó framtíðarinnar, Bjarni gerði framtíðarhverfisskipulagið og herbergi framtíðarinnar og Friðrik gerði geimferðir framtíðarinnar.

Hér má sjá dæmi um geysiöfluga Photoshop vinnslu!

Hér má sjá verstu kredit síðu ever.

Hér má sjá bíla sem eru orðnir 3 ára í dag.

Vandræðagangur

Snilldar þýðing hjá Finni á orðinu ‘Troubleshooting’ fyrir rekstrarhandbókina okkar: Vandræðagangur. Kaflarnir í rekstrarhandbókinni eru þá: Forkröfur, Uppsetning, Daglegur rekstur, Vandræðagangur 🙂

Forrita með hjálm

Forritandi án hjálms.

Forritandi án hjálms. Ekki töff!

Forritandi með hjálm.

Forritandi með hjálm. Töff!

Forritandi með svarthöfðahjálm.

Forritandi með svarthöfðahjálm. Mest töff!!

Snilldarhelgi. Fórum í vísindaferð á föstudaginn í Landsteina-Streng. Síðast þegar við fórum þangað fyrir 2 árum sögðu þeir okkur frá því að þeir væru með forritara út um allan heim, meðal annars á einhverju átakasvæði í Kúveit þar sem þeir væru forritandi með hjálma. Ég og Bjarni erum búnir að tala oft síðan þá um hversu svalt það væri að fá að forrita með hjálm en því miður sögðu þeir okkur núna að það væru engir forritarar hjá þeim í Kúveit lengur. Finnur sagði samt að Libra væri alveg opið fyrir því að leyfa okkur að forrita með hjálma þannig að ekki er öll von úti enn.

Eftir vísó var svo partý í einhverjum sal í skeifunni þar sem var brjáluð kelling sem átti salinn, var skúrandi dansgólfið meðan fólk var að dansa og reif af manni glös og bjórdósir um leið og maður setti það niður eftir síðasta sopann.

Á laugardaginn var svo afmælispartý hjá Bjarna sem var mjög fínt, hitti meðal annars Eggert, gamlan skólafélaga sem er orðinn yfirkokkur á fínum veitingastað og er búinn að vinna sem kokkur í London og New York. Fórum síðan í bæinn, fór með Bjarna, Grím og Vigga á 11, Kaffibarinn og Sirkus (“What a shitty circus, there’s no animals or clowns!”, hver þekkir kvótið? ). Endaði svo á að fá mér Kebab með Hrannari áður en ég fór heim.

Eyddi síðan gærdeginum í leti. Svo var Skjár 1 að sýna Dirty Harry um kvöldið þannig að það var snilld. Vantaði einhverjar góðar sunnudagsmyndir síðan Rocky hætti, Bleiki pardusinn var ekki alveg að gera sig. Clint Eastwood er náttúrulega mesti töffari á jörðunni, jafnvel þó hann hafi verið í köflóttum jakka. Snilld!

Ofanleitisútibú

Samkvæmt einhverjum af þessum endalausu póstum sem ég fæ frá skólanum á hverjum degi er þessi blessaði skóli núna Ofanleitisútibú Háskólans í Reykjavík. Tækniháskólinn er hinsvegar Höfðaútibú. Get ekki sagt að mér finnist Ofanleitisútibú hljóma vel, hljómar eins og banki frekar en háskóli. Mér finnst núna eins og ég sé að fara að fá tölvunarfræðigráðuna mína frá Sparisjóði vélstjóra eða eitthvað. “Stofnaðu sparireikning og fáðu B.Sc. í tölvunarfræði í kaupbæti”.

Er annars bara að skrifa hérna til að komast hjá próflestri. Síðasta prófið sem ég tek í þessum skóla er á morgun, Ný tækni. Hélt þetta yrði mjög skemmtilegur áfangi en var svo bara svona sæmilegur.

Ætli maður verði ekki að fara að huga að nýjum stað til að geyma þessa síðu fyrst skólinn er að klárast. Einhver sem getur bent mér á einhvern stað sem getur host-að asp síður og er á góðu verði (<= 0 kr.) ? Eða einhver sem veit hvort maður fær að eiga plássið sitt hérna áfram?

Dreifð kerfi og svindl

Jæja, prófið í Dreifðum kerfum búið. Þetta var gagnapróf þannig að maður mátti vera með hvað sem er með sér. Greinilega hefur eitthvað borið á svindli á síðustu önn því það er búið að vera senda á okkur einhverjar nýjar reglur um hvernig prófin eiga að fara fram. Ein af þessum reglum er að það má alls ekki vera með pennaveski uppá borðum. Það er eitthvað skrýtið við að láta ellilífeyrisþega skipa sér að setja niður pennaveskið þegar maður er með námsbókina, 2 gömul próf með svörum og 300 blaðsíður af glósum uppá borði. Sé bara ekki hvað ég gæti verið að fela í pennaveskinu sem gæti hjálpað mér meira en það.
Önnur ný regla er að það er stranglega bannað að fara með yfirhafnir með sér inní próf. Þetta olli mér miklum vonbrigðum þar sem ég var búinn að eyða öllu kvöldinu fyrir prófið í að skipuleggja geysiöflugt svindl þar sem úlpan mín spilaði algjört lykilhlutverk! Þrátt fyrir úlpuleysið held ég að þetta blessaða próf hafi nú gengið nokkuð vel bara, þarf a.m.k. ekki að fara í endurtekt 🙂

IE samsæri

[Bara fyrir nörda]

Breytti í gær upphafssíðunni í Internet Explorer í vinnunni. Hún var stillt á msn.com sem er default-ið fyrir Explorer en ég breytti henni í síðu verkbeiðnakerfisins í vinnunni því það er eina síðan sem ég skoða í Explorer. Þegar ég kem svo í vinnuna í morgun þá er nýja Microsoft AntiSpyware forritið búið að keyra um nóttina og tilkynnir mér að það hafi fundið merki um stórhættulegt spyware á vélinni minni:

Possible Browser Hijack

Threat level: High

Description: Possible Browser Hijack redirects Internet Explorer.

Advice: This is a very high risk threat and should be removed immediately as to prevent harm to your computer or your privacy.

Ég fylgdi að sjálfsögðu ráðum þessa geysiöfluga forrits og remove-aði þetta high risk threat og þá stillti forritið upphafssíðuna mína aftur á msn.com. Snilldarforrit!

MSN Bot samtal

Ákvað að breyta nafninu á bottinum í eitthvað venjulegt nafn til að það yrði raunverulegra að tala við hann. Breytti nafninu hans í Siggi en fattaði ekki að það eru sennilega ansi margir með einhverja aðra Sigga á msn hjá sér. Þetta er samtal síðan í dag þegar einhver var að ruglast:
(Nöfnum hefur verið breytt)


Kalli: ertu heima hjá þér?

Siggi: Halló Kalli

Kalli: hæ, ertu heima hjá þér?

Siggi: Af hverju heldurðu að ég sé heima hjá þér?
Kalli: ertuppí skóla eða ertu HEIMA HJÁ ÞÉR???

Siggi: Hmm, það er góð spurning, ég er ekki viss um að ég geti svarað henni.

Kalli: fokk

Siggi: Ég er ekki kynlífsbot, þú verður að fara eitthvert annað til að fá svoleiðis þjónustu.

Kalli: þú ert bot

Siggi: Já, þú þykist vita hvernig ég er, á ég að segja þér hvernig þú ert?

Kalli: djöfullinn

0-2


“…svo tók ég einn skiptinema í munnlegt próf gegnum síma. Ég hafði þrjá efnisflokka til að prófa hann úr þannig að ég gaf þeim númer frá 0 uppí 2 og leyfði honum svo að velja númer af handahófi…”

Heimir í dreifðum kerfum að segja okkur frá prófinu í fyrra. Enginn nema tölvunarfræðingur mundi vera með lista með 3 hlutum og gefa þeim númer frá 0-2…