Bor! Og fleira…

Síðan ég flutti að heiman fyrir 7 árum hef ég reglulega þurft að fá lánaða borvél hjá pabba til að setja upp hillur o.þ.h. En í gær varð ég að manni: ég keypti mér mína eigin borvél! Fátt er karlmannlegra en að kaupa sér bor! Á karlmennskuskalanum frá 0 – 10 (þar sem 0 er að horfa á America’s Next Top Model og 10 er að veiða skógarbjörn með berum höndum) þá hljóta borvélarkaup að vera a.m.k. svona 8! Ég keypti borinn í gær, þegar ég vaknaði í morgun var ég kominn með 50% meira hár á bringuna! Í gær og í dag er ég svo búinn að hlaupa um alla íbúð og bora allt sem þarf að bora, sem ég er venjulega mjög latur við að gera. En að öllu gríni slepptu þá er tvennt við þessa borvél sem ég er mjög ánægður með:

  1. Hún er soldið eins og byssa
  2. Hún gefur frá sér mikinn og karlmannlegan hávaða

Annars er bara að styttast í að ég fari til Danmerkur. Við förum öll saman til Póllands 17. ágúst og verðum þar á hóteli í Varsjá. Ég fer síðan 24. ágúst til baka til Danmerkur en Karen og Daníel verða í Póllandi til 30 ágúst. Ég er búinn að fá herbergi á campus fyrstu önnina og er á biðlistum eftir stúdentaíbúðum eftir jól. Daníel og Karen koma svo til mín um áramótin. Ég var að klára að velja áfangana fyrir fyrstu önnina í gær og ég verð í fríi á föstudögum og byrja eftir hádegi á mánudögum þannig að það verður auðvelt að skjótast heim um helgar.

Ég er líka kominn með hlutastarf úti með skólanum, verð að vinna hjá Microsoft. Þeir eru víst með 900 manna starfstöð þarna. Fékk póst frá þeim snemma í sumar þar sem þeir báðu mig og nokkra aðra að sækja um, DTU hafði víst bent þeim á nokkra nemendur. Ég sendi þeim CV og letter of presentation og fór svo í mitt fyrsta símaviðtal ever, og á ensku í þokkabót. En það gekk allt vel og ég fékk starfið, verð að vinna þar svona 10-15 tíma á viku með náminu.

Hvað fleira? Fórum í útilegu síðust helgi og vorum næstum eina fólkið í tjaldi á svæðinu, allir í hjólhýsum eða tjaldvögnum á risajeppum. Einhverjir ofdekraðir krakkar komu upp að okkur og spurðu okkur:

“Eruð þið bara í tjaldi??? Er ykkur ekki kalt??? Eruð þið FÁTÆK???”

“Hefur mamma þín aldrei kennt þér að tala ekki við ókunnuga?”

Hefði ég átt að segja. Í staðinn sagði ég “uuhh, hérna, nei”, (jamm, ég er king of the comebacks!). Karen skrifar meira um þetta og fleiri sem komu að dást að tjaldinu okkar þarna.

Og þá held ég að ég sé búinn að segja frá flestu sem er búið að gerast undanfarið. Nema 2 vikna Búlgariuferðinni okkar. Kannski seinna.

Good luck at the bad timing awards

Die Hard 4 um daginn. Hún var ágæt. Besta kvótið í myndinni:

[John McClane er að ná í Matt, Matt þykist vera einhver annar]

Matt’s Friend: Hey Matt, I just downloaded that new copy of Killzone, the one that’s not out yet. You wanna play?
Matt: Nooooo thanks, but good luck at the bad timing awards.

Fer annars bráðum að skrifa meira hérna. Fer til Danmerku eftir 2 vikur og þá verð ég örugglega duglegri að blogga 🙂

Danmörk

Þá er það komið á hreint að ég fer til Danmerkur í haust. Búinn að fá inngöngubréf frá DTU og skólinn byrjar 28. ágúst á einhverju introduction week. Ég keypti dönskunámskeið um daginn og er núna byrjaður að rifja upp dönskuna. Gengur vel að lesa en svo verður örugglega miklu meira mál að tala. Ég er samt búinn að læra nokkrar setningar sem ég mun reyna eftir bestu getu að troða inní öll samtöl svo ég geti sýnt hvað ég sé góður í dönsku.

Hej (Hæ) 

Jeg hedder Einar.  (Ég heiti Einar)

Jeg er meget sulten.  (Ég er mjög svangur)

Din mor kommer med tog. (Mamma þín kemur með lest)

Hvad hedder din mor? (Hvað heitir mamma þín?)

Man kan godt drinke rødvin med æblekage! (Maður getur vel drukkið rauðvín með eplaköku!)

Det er en interessant rejse (Þetta er áhugaverð ferð)

Þetta hlýtur að nægja mér fyrstu vikurnar. Ef ekki þá get ég alltaf raðað þeim saman á nýja vegu og þar með aukið orðaforðann töluvert. t.d.

Man kan godt drinke rødvin i en interessant rejse (Maður getur vel drukkið rauðvín í áhugaverðri ferð)

Jeg er meget sulten, mmmmm, æblekage (Ég er mjög svangur, mmmm, eplakaka)

Hvað hedder din æblekage? (Hvað heitir eplakakan þín)

Din mor er meget sulten, mmmm, æblekage (Mamma þín er mjög svöng, mmmm, eplakaka)

Det er en interessant rødvin, man kan godt drinke den i tog (Þetta er áhugavert rauðvín, maður getur vel drukkið það í lest)

Sjáum hvort nokkur fattar að ég sé ekki innfæddur þarna.

Í nördafréttum er annars helst að frétta að ég sendi í fyrsta skipti inn kóða í open-source verkefni. Þannig að ef einhver er að nota Django framework-ið og vantar textabox fyrir íslenska kennitölu, íslenskt símanúmer eða combobox fyrir póstnúmer þá er það núna innbyggt í Django í pakkanum django.contrib.localflavor.is_.forms .

Amsterdam

Vincent: You know what they put on French fries in Holland instead of ketchup?
Jules: What?
Vincent: Mayonnaise.
Jules: Goddamn.
Vincent: I’ve seen ’em do it, man. They fucking drown ’em in that shit.

Vorum að koma heim frá Amsterdam. Ég og Karen fórum bara tvö, Daníel var hjá mömmu og pabba á meðan. Amsterdam var snilld! Við vorum á litlu hóteli, Hotel Wiechman, sem var rétt hjá miðbænum. Það var frekar ódýrt, hreint og fínt, góður morgunmatur og vinalegt starfsfólk. Þeir voru líka með fallbyssu í lobbýinu sem er alltaf kostur. Við komum til Hollands á fimmtudaginn, fórum með draslið á hótelið og svo beint út að labba um bæinn og skoða okkur um.  Við fórum svo að versla í aðal verslunargötunni og um kvöldið fórum við að leita að einhverjum skemmtilegum pöbb. Fengum okkur bjór á einum en það var nú ekki mjög spennandi staður. Hollendingar eru annars voða fínir. Allir tala ensku, þeir eru voða frjálslyndir, útum allt eru endalausir minjagripir og tól tengd hassi, í minjagripabúðum er allskonar dót tengt klámi og rauðahverfinu. og svo eru þeir með snilldar útiklósett fyrir kalla þar sem maður stendur bara úti og pissar í svona smá skál, snýr bara baki í vegfarendur.

Á föstudeginum kíktum við á markað á Waterlooplein og leigðum okkur svo hjól. Það eru ALLIR á hjóli í Amsterdam. Það er ekkert þarna nema hjól og síki! Hjóluðum í dýragarðinn og vorum þar heillengi, fórum svo aðeins aftur að versla og fengum okkur svo kebab. Fórum svo að djamma aðeins um kvöldið og komumst að því að við höfðum verið á bandvitlausum stað kvöldið áður. Aðalstaðurinn var Leidseplein, þar var allt fullt af klúbbum og fólki. Við enduðum á að fara á comedy show á stað sem hét Boom Chicago. Þetta var svona spunasýning með bandarískum leikurum. Þeir báðu áhorfendur um orð og frasa sem þeir notuð síðan í atriðum og lögum og maður fékk frían bjór ef þeim leist vel á tillöguna. Karen fékk einn frían bjór fyrir orðið ‘waterbed’.

Á laugardaginn fórum við svo til Antwerpen að heimsækja Öldu og Wannes. Þau sýndu okkur Antwerpen og við borðuðum kvöldmat hjá þeim. Vorum svo bara heima hjá þeim um kvöldið í góðum fíling með þeim og vinum þeirra sem ég hef ekki glóru um hvernig á að skrifa nöfnin á. Tókum síðan góðan páskamorgunmat í morgun, svo bara lest, flugvél, rúta, bíll og komin heim. Snilldarferð í alla staði!

48 klst DVD

Við erum búin að vera að prófa þetta 48 tíma DVD sem maður getur keypt útum allt núna. Fyrir þá sem ekki vita þá er þetta DVD diskar sem maður kaupir á 500 kall, og þeir eiga að eyðileggjast u.þ.b. 48 klst eftir fyrstu spilun. Það er semsagt eitthvað efni í þeim sem dreifist um diskinn við snúninginn og það eyðileggur diskinn. Við tókum tvær myndir síðustu helgi, Rauðhettu og Bandidas og horfðum á þær á sunnudagskvöldið. Svo var Bandidas í gangi í spilaranum í nokkra daga því við gleymdum að slökkva á honum. Núna, 7 dögum seinna, virka báðar myndirnar ennþá fullkomlega. Ég og Daníel erum einmitt að horfa á Rauðhettu núna. Nú verð ég að prófa þetta á hverjum degi til að sjá hvenær eða hvort þetta eyðileggst! Ég reyndi líka að taka aðra mynd, Lucky Number Slevin en þá var vitlaus mynd í pakkanum!

Nýtt blogg

Jæja, eins og glöggir lesendur taka eftir þá er komið nýtt útlit á síðuna. Ekki bara nýtt útlit heldur nýtt bloggkerfi. Ég ákvað loksins að hætta með heimasmíðaða bloggkerfið mitt og fara að nota WordPress. Ég byrjaði á að skipta um kerfi á síðunni hjá Daníels og leist svo vel á það að ég ákvað að nota það hjá mér líka. Forritarar sem blogga virðast allir fá sömu hugmyndina: “Hey, bloggkerfi er einfalt. Ég ætla að búa til mitt eigið bloggkerfi!!!”. Það sem gerist er hinsvegar að þeir enda allir með einhver hálfkláruð krapp heimasmíðuð kerfi sem eru ekki næstum því jafn góð og alvöru bloggkerfi sem einhver hefur lagt virkilega vinnu í (og þetta er nákvæmlega það sem gerðist hjá mér 🙂 ). Í WordPress er t.d. innbyggt kerfi til að vinna gegn commentaspami sem ég var búinn að vera í vandræðum með á hinni síðunni, mörg þúsund þemu sem maður getur valið um og endalaus plugin til að gera allt undir sólinni.

Þetta er ennþá ekki komið almennilega í gang, ég er búinn að importa gömlu bloggfærslunum mínum með Python scripti en á eftir að finna eitthvað annað þema, laga linka og myndir í gömlum færslum og laga þetta eitthvað meira til. Það kemur allt á næstunni. Kannski ég reyni jafnvel að skrifa hérna inn öðru hvoru 🙂

Eurovision og skvass

Var að horfa á Idol stjörnuleit Eurovision. Það virðast bara vera fyrrverandi Idol keppendur þarna og síðan semur Kristján Hreinsson meira og minna alla textana. Get ekki sagt að neitt lag þarna hafi verið að heilla mig. Kynnirin, Ragnheiður eitthvað, var með Princess Leiu hárgreiðslu sem var svalt. Síðan af einhverjum óskiljanlegum ástæðum mætti Bubbi allt í einu í þáttinn. Hann hefur kannski haldið að hann ætti að fara að rakka niður Idol keppendurna eins og í gamla daga. En hann fékk það ekki, í staðinn var tekið 20 sekúndna viðtal við hann þar sem hann var mjög kúl og sagði að Eurovision væri ömurlegt því hann “trúir ekki á keppnir í tónlist!”. Halló? Vann hann ekki sem dómari í tónlistarkeppni í fyrra? (Ok, má kannski segja að Idol sé söngkeppni en Eurovision tónlistarkeppni. Potato, potato. (hmmm, þetta virkar ekki jafn vel á prenti…)).

Hvað fleira er að frétta? Jú, ég fékk nýja skvass spaðann minn í fyrradag. Ég er semsagt byrjaður í skvassi með vinnufélögunum. Sannfærður um að tvær klukkustundir af skvassi á viku dugi til að vinna upp á móti 40 klukkustundum af kyrrsetu og lélegu mataræði og koma mér í gott form. Þvottabrettismagavöðvar eru á næsta leiti. En já, kominn með einhvern súperflottan Wilson spaða sem er súperléttur og fínn. Er búinn að vera með einhvern hlunk spaða frá Finni síðan ég byrjaði í skvassinu. Á vigtinni með hlunkspaðann vorum við saman 90 kg þannig að samkvæmt því hlýtur spaðinn að vera u.þ.b. 12 kg samkvæmt mínum útreikningum. Nú get ég allavega tapað leikjunum með talsvert léttari og betri spaða.

Meira spam

Jæja, commentaspamið heldur áfram. Virðist allt lenda á þessum pósti sem er frekar skrýtið þar sem ég er nokkuð viss um að enginn hefur linkað á hann. Nú eru komin 76 komment. Sjáum hvað þau fara hátt.

Spam

Hmmm, ég er byrjaður að fá comment spam. Virðist aðallega vera frá einhverjum brjáluðum hundasölumönnum:

“guard dogs for sale”

“yorkshire terrier dogs for sale”

Og svo eru að sjálfsögðu nokkrar auglýsingar um ódýrt Viagra og eitthvað fleira gott stöff.