3 hurðir

Smá gáta, í verðlaun fyrir rétt svar er… …ekkert.

Þú ert í gameshow, það eru 3 hurðir, bakvið eina hurðina eru 1.000.000$, bakvið hinar tvær er ekkert. Þú byrjar á því að velja eina hurð en mátt ekki opna hana! Þegar þú ert búinn að því þá opnar stjórnandinn aðra af hinum hurðunum sem þú valdir ekki og sýnir þér að bakvið hana er ekkert. Svo býður hann þér að annaðhvort halda þig við hurðina sem þú valdir upphaflega eða skipta og velja hina hurðina sem hann var ekki búinn að opna. Hvort áttu að halda þig við upphaflegu hurðina þína eða skipta, þ.e. hvort gefur þér betri líkur á að vinna?

Svör verða falin þangað til kl. 16:00 á morgun.

Nöfn

Eins og allir lesendur þessarar síðu (allir 3-4…) væntanlega vita eigum ég og Karen von á barni í sumar :). Næsta mánudag er svo sónar þar sem við fáum að vita kynið. Að vita kynið er gott því þá getur maður strax útilokað helminginn af öllum nöfnum. Reyndar erum við búin að pæla í nokkrum nöfnum og útiloka þau nú þegar:

  • Einar 2.0
  • Svarthöfði
  • Ástþór
  • Línus Gauti
  • Svarthöfði sem seinna nafn
  • Einar++
  • Java
  • Napóleon
  • R2D2

Kemur betur í ljós á mánudaginn, þá getum við útilokað miklu fleiri. Vorum annars í Eymundsson fyrir nokkrum vikum og sáum þar afmælisdagabók. Ákváðum að kíkja á 12. júní (áætlaður fæðingardagur) og lýsingin þar var einhvernveginn svona:

Þú ert mjög jákvæð manneskja. Þú ert svo rosalega jákvæð að stundum fer yfirþyrmandi jákvæðni þín í taugarnar á fólki. Gott starf fyrir þig væri t.d. einkaþjálfari.

Hmmmm. Ég efast stórlega um að mitt barn gæti orðið yfirþyrmandi jákvæður einkaþjálfari!! Sérstaklega þar sem ég er, ehemm, ekki yfirþyrmandi jákvæður og ansi langt frá því að vera einkaþjálfari! Þetta er held ég mesta andstæða við mig sem hægt væri að finna! Kíktum á 13. til öryggis til að sjá hvað gerðist ef þetta drægist aðeins:

Þú ert langt á undan þinni samtíð. Fólk notar oft orð einsog “brjálaður”, “hættulegur” og “sérstakur” til að lýsa þér.

Brjálæðingur eða yfirþyrmandi jákvæður einkaþjálfari? Stefnum definitely á brjálæðing!

Vísindaferð

Kominn heim af djamminu og vill ekki fara að sofa fyrr en það er búið að renna aðeins betur af mér, nenni ekki að vera þunnur á morgun. Ágætis vísindaferð nema byrjaði alltof snemma! Fórum svo í sal á seltjarnarnesi þar sem var Hlölli við hliðina á. Tók svo rútu niðrí bæ með Grími og Alla vini hans. Skiptinemarnir virtust vera að lenda í slagsmálum í rútunni, þeir og einhverjir íslendingar voru að hrinda hver öðrum og einhverjir aðrir að reyna að stoppa það. Nennti ekki að blanda mér í eitthvað svona rugl, fór bara út og rölti svo heim. Hef kók, nammi, internet og sjónvarp, best að hanga aðeins á netinu áður en maður fer að sofa.

SMS skyr???

Ekkert finnst mér fáránlegra en SMS-smáskyr. Af hverju SMS? Hvað kemur það skyri við? Hvað næst, GPS-sulta? XML-sinnep? FTP-jógúrt? Þetta er bara rugl!!

Pretty good solution…

“…so that’s a pretty good solution. Except sometimes it fails. Actually, it fails quite a lot. But that’s ok because it looks good on paper and people spend a lot of money on it.”

Dreifð kerfi. Snilld.

Stallmann

“So what do they mean when they say that people who share software are pirates? They are saying that sharing software is the same thing as attacking a ship.”

Richard StallmannKvót frá GNU töffaranum Richard Stallmann, en ég fór einmitt á fyrirlestur hjá honum um open source og free software í staðinn fyrir að fara í stærðfræðileg reiknirit í dag. Hann var mjög töff hugbúnaðarhippi með gleraugu, sítt hár og skegg, og í mjög litskrúðugri skyrtu þannig að hann er augljóslega góður forritari. Hafði miklar meiningar um að hugbúnaður sem er ekki ókeypis og open source væri af hinu illa og að við ættum bara að nota “free software”. Er greinilega ennþá mjög bitur yfir því að Linus Torvalds fær allt kreditið fyrir Linux, sem Richard Stallmann vill að sé kallað GNU/Linux. Hef aldrei séð jafnmikið af nördum á einum stað, og allt strákar!! Hámark 2 stelpur þarna. Verður víst annar fyrirlestur á morgun um “software patents”, sé til hvort ég nenni á hann.

5 á Richter

“Þú ert 5 á Richter og ég finn fyrir þér…”

Nýja lagið með Nylon er sennilega með hallærislegasta texta sem saminn hefur verið á Íslandi. Muffins í verðlaun ef einhver getur bent á lélegri íslenskan texta…

Tannlæknir

Fór til tannlæknis í dag. Þoli ekki tannlækna og það er ekki af því að það er óþægilegt að láta bora, nei, ég þoli ekki tannlækna af nákvæmlega sömu ástæðu og ég þoli ekki bifvélavirkja: Ég er viss um að þeir eru að svindla á mér! Alltaf þegar ég fer með bíl í viðgerð er ég viss um að þeir séu að laga eitthvað sem þarf ekki að laga og ég get ekki sagt neitt því ég veit ekkert um bíla. “Við löguðum diskana en við skiptum líka um öxulhosu, hún var rifin”. Ehh, ok, ef þú segir það. Svo nota þeir einhver stór orð sem ég skil ekki, einsog “rifin öxulhosa”, “bilaður straummælir í hleðslukerfinu” eða “vantar bæði framdekkin”, svo það sé nú alveg öruggt að ég geti ekki mótmælt. Og þetta er nákvæmlega eins með tannlækna, hann lagaði einhverja “skemmd” hjá mér í dag sem ég hef aldrei fundið fyrir og hefur örugglega aldrei verið þarna, hann hefur bara vantað pening og venjuleg skoðun er ekki nógu dýr. Og hvað getur maður svo sagt þegar tannlæknirinn kemur og segir að það sé brotin fylling og hann þurfi að skipta um viftureim í manni? Ekkert, því maður er með munninn fullan af bómullartöppum, slefi og tannlæknaputtum! Svo ef tannlæknirinn er blankur og langar að gera einhverja virkilega brútal og dýra aðgerð þá deyfir hann mann fyrst svo tungan á manni verður jafnstór og fíll og þá er alls ekki hægt að tala til að segja honum að þetta sé nú bara eitthvað rugl, þessi tönn sé í fínasta lagi! Eitt allsherjar samsæri!!

</biturleiki>

Spilakvöld

Buðum Friðrik, Unni og Gísla hingað í gær að spila. Spiluðum Trivial Pursuit þar sem ég tapaði og svo Friends spilið. Friends spilið er flóknasta og skrýtnasta spil í heimi!! Reglurnar meika engan sens, maður fær spjald með myndum af fullt af hlutum og á að draga hring utan um einn hlut fyrir hvern vin og þarf svo að fara í íbúðina hans og svara spurningu til að geta krossað yfir þann hlut. Hinsvegar má maður velja sér spurningar og þær eru númeraðar frá 1-5 sem skiptir engu máli þar sem það eru engir flokkar þannig að númerin standa í raun ekki fyrir neitt og myndirnar skipta engu máli. Svo er smá svona actionary í þessu, en bara ef þú lendir á mynd af vinunum og ert með kaffibollann, ef þú lendir á mynd af þeim en ert ekki með kaffibollann þá færðu kaffibollann. En þú getur auðvitað líka fengið kaffibollann með því að krossa yfir mynd af myndaramma. Svo ef maður þarf að leika (ég þurfti til dæmis að leika hið ógleymanlega atriði “Phoebe að hjóla…” !?!?) þá eiga hinir að giska og ef þeir giska rétt þá græðir sá sem er að leika á því. Hmmmmmm, ég veit hvað þið eruð að hugsa, af hverju ættu þá hinir einu sinni að reyna að giska rétt ef það er bara að hjálpa þeim sem er að leika?? Nú, auðvitað af því að ef maður giskar rétt þá má maður gera hring utan um eina af regnhlífunum sínum! Svo eru reglurnar fullar af skemmtilegum setningum eins og “…Sá sem á að leika tekur spjald og les af því leikatriðið án þess að hinir leikmennirnir heyri…”. Hmmm, les hann þá ekki bara Í HLJÓÐI? Hljómar eins og hann þurfi að hlaupa í næsta herbergi og lesa upphátt þar svo enginn heyri. En þetta var nú samt mjög gaman, hef ekki horft á þessa þætti í 2-3 ár þannig að var soldið ryðgaður í þessu en gat nú samt svarað nokkrum spurningum.

Þessar reglur minntu mig samt á fóstbræðraatriðið þar sem þau voru að spila heimatilbúið spil sem var flóknasta spil í heimi. “Ég er með laufatíuna, þá fæ ég slag. Nei, ég trompa með 2 fimmum og einum fjarka, þá snýst hringurinn við og þú færð hattinn. Aha, þá nota ég jókerinn og spegla þig, þá skiptum við um sæti og þú dregur 6 spil. Nei, ég er með spaðagosa og hjartaþrist, þá læt ég þig fá 3 verstu spilin mín og þú situr hjá í 2 umferðir…”

Karlmennska

Hmmmm, ég er einn heima og það er ekkert nema Bachelorette í sjónvarpinu. Ekki gott! Nú verð ég að gera eitthvað svakalega karlmannlegt á eftir til að bæta þetta upp, t.d. fá mér bjór, sparka í dekkin á bílnum mínum eða bora í vegg. Eina vandamálið er að ég á ekki bjór, Karen er á bílnum og borvélin er hjá pabba. Kannski ég fari og kýli nágrannann í öxlina eða fari í Húsasmiðjuna og kaupi mér hamar.