Category Archives: Microsoft

Danmörk – Dagur 365…

Í dag er dagur 365 hér í Danmörku. Ég kom hingað 24. ágúst í fyrra og flutti inn í gáminn góða. Margt búið að gerast á síðastliðnu ári. Var fyrst einn hérna í 4 mánuði í gámnum með fólki úr öllum heimshornum. Það var að mörgu leyti mjög skemmtilegt en líka erfitt að vera í burtu frá Karen og Daníel. Búinn að prófa að vinna hjá Microsoft sem var áhugavert að öllu öðru leyti en því að það sem ég var actually að gera var frekar óspennandi. En það var fróðlegt að vinna í svona stóru fyrirtæki, kynnast fólkinu og sjá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þarna. Búinn að vinna sjálfstætt rannsóknarverkefni með öðrum nemanda undir leiðsögn tveggja prófessora, við sendum inn pappír til birtingar í ráðstefnu sem verður í haust, NordSec ’08, og fáum að vita á næstu dögum hvort hann verður birtur þar. Búinn að vinna í skólanum með Dönum, Bretum, Hollendingum, Litháum, Lettum og Pólverjum að allskonar spennandi og óspennandi verkefnum. Ég og Karen erum búin að koma Daníel inná leikskóla, fara til Legolands, þvælast um alla garða og legaplads í Kaupmannahöfn, læra talsvert meira í dönsku og búa til eitt stykki nýtt barn. Í heildina er ég bara mjög ánægður með þetta allt saman, þó að það sé erfitt að mörgu leyti að flytja milli landa þá er það líka áhugavert og gaman að prófa að búa í nýju umhverfi.

Í dag er líka afmælisdagurinn minn, ég er orðinn 28 ára. Eldri en Jimi Hendrix, Kurt Cobain, Jim Morrison og Janis Joplin urðu 🙂 .  Karen fann til fínan morgunverð fyrir okkur í morgun, síðan skruppum við í Fields að kaupa nokkra hluti, m.a. afmælisköku og lentum svo í brjálaðri rigningu á leiðinni til baka, komum inn öll hundblaut. Vorum svo bara þrjú saman með afmæliskaffi en fáum nokkra gesti í kvöld, Öglu og Ragga, Ebbu og Hilmar, og Hildi og Gúnda. Maður má víst samt ekki vera of lengi að í kvöld því maður verður að vakna til að sjá handboltann á morgun þar sem við munum að sjálfsögðu vinna gullið!!!

Ný vinna, þorrablót og dönsk tækni

Jæja, þá er ég búinn að skipta um vinnu. Ég var búinn að pæla í því í smá tíma að hætta hjá Microsoft, 15 tímar á viku (+ 4 í samgöngur) var of mikið en ég vildi ekki hætta alveg og vera ekki með nein laun lengur. En svo benti Luke (sem er með mér í skólanum) mér á að það var verið að óska eftir masters nemum í DTU til að vinna ákveðið verkefni í skólanum, 1 dagur í viku og ágætis laun þannig að ég ákvað að sækja um það með Luke. Ég sagði upp hjá Microsoft og fékk að hætta undireins, yfirmaðurinn var mjög fínn, reyndi að fá mig til að vera áfram en sagði mér svo bara að láta sig fá uppsagnarbréf þar sem ég segðist mundu vinna næstu 2 vikur, því ef ég hætti samstundis gæti það haft áhrif ef ég vildi einhverntímann sækja um aftur. Þó ég segðist ætla að vinna 2 vikur í viðbót þurfti ég ekkert að mæta og gat þess vegna byrjað strax í nýju vinnunni. Nýja verkefnið er partur af stærra rannsóknarverkefni, okkar partur gengur útá að skoða hvernig sé hægt að nota Aspect oriented programming og static analysis til að bæta öryggi í existing kerfum. Við fáum skrifstofu með 2 öðrum mastersnemum sem er algjör snilld þar sem maður getur líka notað hana til að læra fyrir önnur fög og hefur stað til að geyma dótið sitt og svona. Ég vinn í þessu 1 dag í viku framí júní og þá sjáum við til með framhaldið.

Annars er allt fínt að frétta bara. Síðasta föstudag buðum við Luke, Giedrius og Rimanda í mat til okkar. Giedrius er strákur frá Litháen sem er með mér í skólanum og var að vinna hjá Microsoft, Rimanda er kærastan hans. Á laugardaginn fengum við svo Öglu til að passa fyrir okkur og fórum með Ebbu, Hilmari, Rakel og einhverjum vinum Ebbu og Hilmars á þorrablót hjá Íslendingafélaginu. Það var ágætt, skrýtið að vera allt í einu með eintómum íslendingum aftur. Hljómsveitin hefði samt mátt vera betri til að fá betri stemmningu. En það var gott að komast út, þetta var í fyrsta skipti sem við höfum farið eitthvert saman út síðan við komum til Danmerkur.

Ég ætla að bæta við nýjum föstum lið á þessa síðu. Þetta er nýr dálkur sem heitir Dönsk tækni dagsins þar sem ég mun segja frá æsispennandi dönskum tækninýjungum eins og peningafæriböndum, skiptimyntarvélum og fleiru sniðugu.

Dönsk tækni dagsins:

Við fengum okkur að borða í Fields á svona skyndibitastað. Í staðinn fyrir að fá númer og vera kölluð upp þegar maturinn er tilbúin fengum við svona smá flögu einhverja til að taka með okkur. Þegar maturinn okkar var tilbúinn þá pípti flagan og blikkaði ljós á henni. Snilld!

Jólabjór

Sit í vinnunni með bjór í annarri hendi og snakk í hinni. Var að koma úr kaffiteríunni þar sem stelpur í jólasveinabúningum löbbuðu um og gáfu fólki Tuborg julebryg. Í dag eða gær er semsagt dagurinn þegar jólabjórinn kemur í búðir og af því tilefni fáum við þetta í dag. Stuð 🙂

Danmörk – Dagur 70

Lífið gengur sinn vanagang hérna í Danmörku. Íbúðarleitin er í fullum gangi, er skráður á tveim vefsíðum og er sífellt að senda út pósta útaf íbúðum. Búinn að skoða eina sem var fín en of langt í burtu og fer að skoða 2 vænlegar á sunnudaginn. Fór í dag í einhverja reception fyrir þau fyrirtæki sem eru að sponsora stúdenta frá DTU, það voru kennarar, stúdentar og fulltrúar fyrirtækjanna þarna. Komst að því að þetta er mjög misjafnt milli fyrirtækja, hjá Microsoft er þetta hlutavinna en hjá sumum öðrum, t.d. hjá einhverju heyrnartækjafyrirtæki er þetta bara styrkur. Þekki þýskan strák hérna sem er sponsoraður af þeim, fær bara pening, þarf ekkert að vinna. Hljómar vel :). Móttakan var annars fín, fékk snittur og bjór og spjallaði heilmikið við einhverja konu frá Microsoft og yfirmann tölvunarfræðideildarinnar hérna í DTU.

Er annars búinn að vera að vinna frekar mikið undanfarið. Fór í hádegismat í Microsoft á miðvikudaginn með 3 öðrum íslendingum sem vinna þar. Þeir hittast alltaf hálfsmánaðarlega í mat og buðu mér með í þetta sinn. Sögðust vera fegnir að fá annan íslending, þeim er búið að fækka undanfarið, voru víst 5 eða 6 þarna þegar mest var. Svo var einhver SQL Server gaur frá bandaríkjunum í heimsókn þarna og hélt 2 tíma fyrirlestur um SQL Server 2008 í matsalnum eftir hádegi þannig að ég fór á það, mjög fínt bara. Allt fullt af Halloween skreytingum í matsalnum, kóngulóarvefir og grasker útum allt.

Svo er allt á fullu núna í öllum áföngum, verkefnin hrúgast upp, flest hópverkefni. Sem betur fer er ég í fínum hópum í öllum áföngum. Dæmatímakennarinn kom með kökur handa okkur í Computational Hard Problems á þriðjudaginn. Hann hafði lofað í vikunni áður að ef einhver gæti leyst ákveðið vandamál með því að breyta því í Sudoku þá myndi hann koma með kökur handa okkur, og einhver snillingurinn gerði það þannig að kennarinn þurfti að standa við loforðið. Svo í framhaldi af verkefni sem var í sama áfanga var ákveðið að hafa smá keppni, þar sem forritin okkar keppa og fá stig fyrir hraða + góðar lausnir, og það verða víst verðlaun fyrir 3 efstu sætin. Verður gaman að sjá hvað kemur útúr því.

Næsta Íslandsferð er svo 15 – 19 nóv og kem svo heim í jólafrí kringum 17. des.

Danmörk – Dagur 62

Jæja, er ekki komið tími á eitt stórt blogg? Ég var á Íslandi í síðustu viku, þar sem ég var í haustfríi í skólanum. Kom heim á laugardegi og fór á sunnudeginum viku seinna. Mjög gott að komast heim, hitta fjölskylduna og slappa aðeins af. Sé þvílíkar framfarir hjá Daníel, hann er farinn að tala miklu meira, farinn að segja flóknari hluti og það sem er best, hann er farinn að syngja á fullu! Gulur, rauður, grænn og blár, Dansi dansi dúkkan mín, Á leikskóla er gaman og fleiri lög sungin af miklum krafti. Annars tókum við það bara rólega, við urðum reyndar öll veik, samt aðallega Daníel. Það virðist gerast í hvert skipti sem ég kem heim, ég hlýt að vera að koma með einhverja danskar veirur með mér heim. Daníel fór svo í pössun til afa og ömmu á föstudeginum og ég og Karen kíktum í bíó á myndina Stardust, sem var bara nokkuð fín (Alda, þú ættir að sjá hana, mundir eflaust dýrka hana!). Svo tókst mér að gleyma skólabók, peysu, inniskóm og fleiru heima á Íslandi þegar ég fór til baka, sterkur leikur það.

Kom heim til Danmerkur á sunnudagskvöldið. Fór að spjalla við einhvern írskan strák meðan ég var að bíða eftir lestinni á Kastrup. Hann var semsagt chemical engineer (þó hann liti út fyrir að vera svona tvítugur!) og var sendur til Danmerkur af fyrirtækinu sínu til að vinna að einhverju projecti og var búinn að vera þarna í 4 mánuði. Hann hélt að Ísland væri ennþá partur af Danmörku! Fyndið hvað fólk veit lítið um Ísland, ég veit miklu meira um Írland og hin afríkuríkin heldur en hann vissi um Ísland!

Áður en ég fór til Íslands í fríið var búið að kríta á eldhús og baðherbergishurðina “Eldhús” og “Klósett” á sex mismunandi tungumálum. Þegar ég kom heim sá ég að það var líka búið að kríta gælunöfn utan á herbergishurðirnar. “Daddy” stóð utan á minni, hjá Giaullime stóð “Le Chef”, Sebastian var “Le Sous Chef”, Eduarda var “The Grandmother” (2 árum eldri en ég), Bruno var “Pizza Boy” (vinnur hjá Dominos), Xavier var “Mumbler” (talar mjög óskýrt) og Tiberiu var “Ratatouille” (hann eldar mjög skrýtinn mat). Julie var ekki með neitt og ég man ekki hvað Matteus var með. Annars fengum við líka nýjan herbergisfélaga í gær, spænskan strák sem heitir Jorge.

Er svo bara búinn að vera að vinna á fullu í Microsoft í þessari viku til að bæta upp frívikuna. Erum komnir með nýtt verkefni sem er nokkuð spennandi. Á mánudaginn var svo “all hands meeting” þar sem allir starfsmennirnir komu saman og einhver bigshot frá Bandaríkjunum hélt smá fyrirlestur og allir fengu gefins gríðarlega fallega bláa húfu með Microsoft Dynamics merki framan á. Það er alltaf gott að hafa nafnið á því sem maður vinnur við framan á enninu á sér svo maður gleymi því nú örugglega ekki. Einn af hinum student workerunum benti mér svo á annan Íslending sem er að vinna þarna og ég spjallaði aðeins við hann. Það eru víst 3 íslendingar þarna í fullu starfi og þeir hittast alltaf í hádegismat á miðvikudögum þannig að kannski lít ég við hjá þeim við tækifæri.

Er annars að fara að sofa. Aftur orðinn veikur með hressilegt kvef og eins gott að fara ekki of seint í háttinn.

Danmörk – Dagur 39

Punktablogg í þetta skiptið.

  • Prófaði DTU special pizzu á pizzastaðnum sem er á campusnum. Hún átti að vera með kebab skv. lýsingunni. Það þýddi ekki bara kjötið, heldur var eins og einhver hefði hellt úr heilli salatskál yfir alla pizzuna. Mæli ekki með því.
  • Fór í mat til Ebbu og Hilmars á föstudaginn. Þar voru líka Lára og Ómar og svo kom annað íslenskt par sem býr í húsinu líka. Fórum að djamma á einhverjum klúbb sem ég man ekki hvað heitir. Það var stuð. Skrýtið samt að djamma með Láru og Ebbu án þess að Karen væri með.
  • Var uppí Microsoft í morgun, skoðandi villu sem hafði komið upp og skrifandi test til að kalla hana fram. Þá krassaði Visual Studio hjá mér og spurði mig “Do you want to send an error report to Microsoft?”. Ég smellti á No.
  • Fer á kynningardag fyrir nýja starfsmenn á miðvikudaginn, það er eitthvað heilsdagsprógram. Þá er akkúrat mánuður síðan ég byrjaði að vinna.
  • Extra bladet er með slagorðið “Tør, hvor andre tiger”. Alveg eins og DV var áður með, “þorir þegar aðrir þegja”. Væntanlega hafa DV tekið það héðan.
  • Annað borðið úr eldhúsinu í gámnum okkar er horfið. Grunur leikur á að aðrir gámabúar hafi tekið það til að nota í gámapartýi.
  • Ég hef fengið það starf að vera þýðandi í gámnum mínum. Er sífellt að þýða matarumbúðir, bréf og fleira yfir á ensku fyrir hina íbúana. Sebastian sagðist um daginn vilja skoða danska klámsíðu, spurði hvort ég gæti hjálpað honum. Ég sagði honum að hjálpa sér sjálfur.
  • Eftir að tala við Hilmar komst ég að því að það er ekki mistök að danska CPR númerið mitt er ekki sama og íslenska kennitalan mín. Hélt að það væru mistök því bara næstsíðasta talan er öðruvísi, en þá eru þeir bara með eins kerfi, og bara tilviljun að stafir 7 og 8 eru þeir sömu og í íslensku kennitölunni minni. Getur samt ekki verið alveg eins kerfi því vartalan er öðruvísi. [Er búinn að forrita vartölutékk a.m.k. 5 sinnum, ég pæli í þessum hlutum… 🙂 ]

Danmörk – Dagur 21

Og þá er önnur skólavikan búin. Aðeins búinn að kynnast betur áföngunum og svona. Program Analysis sem virkaði hræðilegt fyrst finnst mér núna mjög áhugavert, erum að gera massaverkefni í því og er kominn í hóp með breta og dana. Hinir áfangarnir virka allir ágætir þó Web Services sé frekar dull svona enn sem komið er. Er líka búinn að fara nokkrum sinnum í Microsoft að vinna og það er bara mjög fínt. Er reyndar búinn að gera lítið annað en að setja upp hugbúnað og svona, en ég og Giedrus sem er hinn student workerinn erum líka aðeins farnir að testa kerfið. Bara manual testing fyrst til að kynnast þessu en síðan förum við fljótlega að skrifa einhvern kóða. Mesta snilldin er samt ennþá maturinn. Það er borinn fram morgunverður á hverjum morgni sem er bara eins og fínasti hótelmatur, 4 tegundir af morgunkorni, allskonar brauð, sultur, ávextir, kaffi te og fleira. Svo er heitur matur í hádeginu og eftir hádegi getur maður alltaf skroppið í eldhúsið þar sem er afgangurinn af morgunmatnum og fengið sér brauð með osti og allskonar ávaxtasafa og gosdrykki. Ég vildi eiginlega að ég væri oftar í skólanum eftir hádegi, þá tæki ég bara daginn snemma og fengi mér morgun og hádegismat hjá Microsoft og færi svo í skólann.

En allavega, þetta er síðasti dagurinn í Danmörku í bili, er á leiðinni heim til Íslands í kvöld og verð fram á mánudagsmorgun. Það verður algjör snilld, hitta Karen og Daníel, geta talað íslensku og síðast en ekki síst búa í alvöru húsi en ekki gámi. Tek með mér tóma ferðatösku héðan og kem með hana fulla til baka, þarf að taka með mér vetrarföt og svona. Ætla líka að taka gítarinn með út og kannski myndavélina líka. Þannig að í næstu viku detta kannski einhverjar myndir hérna inn. Jæja, nóg af þessu, ég er farinn til Íslands!

Danmörk – Dagur 11

Ósköp rólegur dagur í gær. Fór með Julie, Tiberiu, Bruno, Matteus og Eduarda í IKEA, sem er rétt fyrir utan Lyngby, svona 40 mínútur gangandi. IKEA er að sjálfsögðu allsstaðar eins, fékk mér sænskar kjötbollur í hádegismat og keypti svo nokkra hluti, sængurver, vekjaraklukku, ljósaperur, lampa og eitthvað fleira smádót. Var svo bara hérna heima í skúrnum í gærkvöldi að spila vist við krakkana hérna og síðan einhverja Skype leiki við Karen í tölvunni.

Í dag byrjaði svo alvara lífsins. Bæði var fyrsti dagurinn hjá Microsoft og fyrsti skóladagurinn. Ég svaf aðeins of lengi þannig að ég rauk út til að ná strætó til Microsoft og fékk mér engan morgunmat. Hitti strák frá Litháen, Giedrius, á strætóstöðinni sem var líka að byrja hjá Microsoft. Við byrjuðum á að hitta Tim sem er yfir team-inu okkar. Það var allt í kaos því það var verið að flytja milli skrifstofa og fyrsta sem við gerðum var að reyna að koma fyrir 5 skrifborðum í herbergi þar sem augljóslega áttu ekki að vera fleiri en 4. Við vorum að djóka með að þetta væri örugglega lokaprófið fyrir starfið, ef við næðum ekki að raða þessu eðlilega þarna inn yrðum við reknir á staðnum. En það tókst á endanum og við fengum tölvur og fórum að setja þær upp. Á meðan fór Tim á fund og við héngum inná þessari skrifstofu í 2 og hálfan tíma að gera meira og minna ekki neitt. Danskur strákur sem heitir Sven sýndi okkur aðeins svæðið. Þetta er ekki bara ein bygging, þetta er svona eins og mini-campus með nokkrum byggingum og stórum garði allt í kring, mjög nice. Maður þarf ekki að borga fyrir hádegismatinn og það besta af öllu: ÓTAKMARKAÐ ÓKEYPIS KÓK! (já, ég veit að það er bara eins og að fá 200 kall auka á dag eða eitthvað, en ég kann að meta kók 🙂 ). Við fórum í mat með Tim og hann sagði okkur aðeins betur frá þessu en síðan þurfti ég að rjúka því ég átti að vera í tíma eftir hádegi og var þegar orðinn of seinn.

Ég mætti loksins í tímann kl. 3 og var búinn að missa af fyrstu 2 klukkutímunum. Það var ansi slæmt því kennslan hafði byrjað á fullu og ég var alveg úti að aka. Kúrsinn heitir Program Analysis og eftir því sem ég best sé er hann hrikalega erfiður, sérstaklega fyrir mig sem er ekki með neitt sérstaklega mikinn stærðfræðibakgrunn. Ég keypti bókina eftir tímann og var að lesa í henni núna áðan og já, þetta verður brútal :S . Nú er bara að vera duglegur að læra! Á morgun er það svo Computationally Hard Problems, annar erfiður kúrs og svo eitthvað að útrétta í bænum eftir það.

Danmörk – Dagur 4

Gerði ekki mikið í gær. Fór uppúr hádegi að finna Microsoft bygginguna, vildi vita hvar hún væri og hvernig ég ætti að komast þarna áður en ég á að mæta á mánudaginn í næstu viku. Ég tek tvo strætóa þangað og labba svo smáspöl, þetta er lengra frá Kaupmannahöfn en Lyngby. Sendi líka póst á konuna í starfsmannahaldinu hjá þeim og spurði hvort það væri eitthvað formal dress code hjá þeim. Hún sagði að það væri ekki og tók fram að “in fact we’re very informal”. Svo væntanlega get ég bara mætt í baðslopp og inniskóm og allir verða rosa ligeglad og finnst það bara fínt. Skellti mér svo á bíó í Lyngby og sá The Bourne Ultimatum sem var bara mjög góð. Fór svo og þvoði öll fötin mín í S-skúrnum sem er þvottaskúrinn, en þurfti að fara í annan skúr til að nota þurrkara þar sem þurrkararnir í S-skúrnum voru báðir bilaðir.

Í dag fór ég svo og fékk skattkort. Þurfti reyndar að fara tvisvar þar sem ég gleymdi Microsoft samningnum mínum í fyrra skiptið og konan hjá skattinum þurfti eitthvað að skoða hann. Hitti svo loksins einhvern sem býr í mínum skúr. Belgískur strákur sem heitir Xavier og er að læra “Material Science” var að flytja inn. Þvældist aðeins um með honum, fórum að finna búðina sem er hérna á campusnum. Mjög mikil háskólabúð, helstu vöruflokkarnir eru áfengi, snakk og skyndimatur. Nú er bara planið að slappa aðeins af og á morgun byrjar svo Introduction Week.

Mér líst annars bara mjög vel á þetta allt saman. Gaman að kynnast fólki frá öllum löndum og umhverfið er mjög fínt. Nú verður maður bara að vona að námið verði það líka…