Jæja, er ekki komið tími á eitt stórt blogg? Ég var á Íslandi í síðustu viku, þar sem ég var í haustfríi í skólanum. Kom heim á laugardegi og fór á sunnudeginum viku seinna. Mjög gott að komast heim, hitta fjölskylduna og slappa aðeins af. Sé þvílíkar framfarir hjá Daníel, hann er farinn að tala miklu meira, farinn að segja flóknari hluti og það sem er best, hann er farinn að syngja á fullu! Gulur, rauður, grænn og blár, Dansi dansi dúkkan mín, Á leikskóla er gaman og fleiri lög sungin af miklum krafti. Annars tókum við það bara rólega, við urðum reyndar öll veik, samt aðallega Daníel. Það virðist gerast í hvert skipti sem ég kem heim, ég hlýt að vera að koma með einhverja danskar veirur með mér heim. Daníel fór svo í pössun til afa og ömmu á föstudeginum og ég og Karen kíktum í bíó á myndina Stardust, sem var bara nokkuð fín (Alda, þú ættir að sjá hana, mundir eflaust dýrka hana!). Svo tókst mér að gleyma skólabók, peysu, inniskóm og fleiru heima á Íslandi þegar ég fór til baka, sterkur leikur það.
Kom heim til Danmerkur á sunnudagskvöldið. Fór að spjalla við einhvern írskan strák meðan ég var að bíða eftir lestinni á Kastrup. Hann var semsagt chemical engineer (þó hann liti út fyrir að vera svona tvítugur!) og var sendur til Danmerkur af fyrirtækinu sínu til að vinna að einhverju projecti og var búinn að vera þarna í 4 mánuði. Hann hélt að Ísland væri ennþá partur af Danmörku! Fyndið hvað fólk veit lítið um Ísland, ég veit miklu meira um Írland og hin afríkuríkin heldur en hann vissi um Ísland!
Áður en ég fór til Íslands í fríið var búið að kríta á eldhús og baðherbergishurðina “Eldhús” og “Klósett” á sex mismunandi tungumálum. Þegar ég kom heim sá ég að það var líka búið að kríta gælunöfn utan á herbergishurðirnar. “Daddy” stóð utan á minni, hjá Giaullime stóð “Le Chef”, Sebastian var “Le Sous Chef”, Eduarda var “The Grandmother” (2 árum eldri en ég), Bruno var “Pizza Boy” (vinnur hjá Dominos), Xavier var “Mumbler” (talar mjög óskýrt) og Tiberiu var “Ratatouille” (hann eldar mjög skrýtinn mat). Julie var ekki með neitt og ég man ekki hvað Matteus var með. Annars fengum við líka nýjan herbergisfélaga í gær, spænskan strák sem heitir Jorge.
Er svo bara búinn að vera að vinna á fullu í Microsoft í þessari viku til að bæta upp frívikuna. Erum komnir með nýtt verkefni sem er nokkuð spennandi. Á mánudaginn var svo “all hands meeting” þar sem allir starfsmennirnir komu saman og einhver bigshot frá Bandaríkjunum hélt smá fyrirlestur og allir fengu gefins gríðarlega fallega bláa húfu með Microsoft Dynamics merki framan á. Það er alltaf gott að hafa nafnið á því sem maður vinnur við framan á enninu á sér svo maður gleymi því nú örugglega ekki. Einn af hinum student workerunum benti mér svo á annan Íslending sem er að vinna þarna og ég spjallaði aðeins við hann. Það eru víst 3 íslendingar þarna í fullu starfi og þeir hittast alltaf í hádegismat á miðvikudögum þannig að kannski lít ég við hjá þeim við tækifæri.
Er annars að fara að sofa. Aftur orðinn veikur með hressilegt kvef og eins gott að fara ekki of seint í háttinn.