Category Archives: Tónlist

Meiri líkamsrækt

Rocky með hendur uppí loftLíkamsræktarátakið er ennþá í fullum gangi og gengur vel. Er farinn að geta hlaupið meira en einn hring kringum Miklatún og er hættur að fá harðsperrur eftir að ég fór að gera nóg af teygjuæfingum fyrir og eftir skokkið (þó ég geri þær að sjálfsögðu ekki upp við ljósastaura, heldur heima hjá mér, með dregið fyrir, inní skáp). Ég er líka búinn að minnka nammiátið niður í tvisvar í viku, þannig að nú borða ég bara nammi á virkum dögum og um helgar. Karen benti mér á að það eina sem mig vantaði núna væru góðar tröppur til að hlaupa upp þegar ég væri að klára skokkið, eins og Rocky gerði alltaf. Þetta finnst mér snilldarhugmynd sem mundi gera skokkið a.m.k. 200% meira töff! Það eru reyndar tröppur hjá húsinu mínu en þær eru u.þ.b. 5 talsins og liggja niður þannig að það er enginn rosalegur hápunktur á skokkinu að hlaupa þær. Karen sagði mér að hlaupa til Akureyrar því þar væru fínar tröppur fyrir mig en þar sem það er víst fulllangt í burtu þá auglýsi ég hér með eftir góðum tröppum hér í Reykjavík til að hlaupa upp. Og já, ef einhver á theme-ið úr Rocky á mp3 þá væri það vel þegið 🙂

Queens of the Stone Age

Tónleikarnir voru snilld eins og búist var við. Komum í Egilshöll þegar Mínus var að klára sem var fínt því ég hafði engan sérstakan áhuga á að sjá þá. Síðan voru Queens of the Stone Age sem voru geðveikir! Ef einhver á fyrsta diskinn með þeim þá endilega láta mig vita. Foo Fighters voru svo algjör snilld líka, öll lögin þeirra hljóma helmingi betur á tónleikum heldur en á plötunum. Dave Grohl var náttúrulega mjög töff líka, sérstaklega þegar hann hljóp yfir allan salinn, klifraði uppá Pepsi kæliskáp og spilaði þar á gítar. Talaði líka heilmikið um hvað Ísland væri nú frábært og allt það. Þeir voru svo klappaðir upp og tóku þrjú aukalög, þar á meðal eitt sem trommuleikarinn þeirra söng sem var ferlega slappt og hefði mátt sleppa (enda eru trommarar náttúrulega alltaf ömurlegir söngvarar!). Það eina sem mér fannst lélegt var þessi A og B svæðaskipting í Egilshöll (aðallega af því að ég var á B svæði ;)). Það er ferlega asnalegt að hafa fullt af fólki fyrir framan sviðið, svo risastórt bil, og svo þar fyrir aftan einhverja girðingu meira af fólki. En þetta voru samt frábærir tónleikar og ég er feginn að ég fór :).

Lokaverkefni búið!!!

Snilldardagur í gær. Skiluðum inn lokaverkefninu okkar kl. 3 um daginn. Kl. 6 fórum við svo í surprise partý fyrir Guðrúnu sem Nicolai kærastinn hennar hafði planað. Partýið var haldið hjá pabba hennar og var algjör snilld, matur frá Nings, nóg af bjór og rauðvíni og eitthvað vafasamasta geisladiskasafn sem sést hefur!! Eftir að hafa skoðað þetta rosalega geisladiskasafn (Andrea Boccelli/Josh Groban/Norah Jones o.s.fv) þá gátum við ekki annað en ályktað að pabbi hennar Guðrúnar ynni við að semja playlistann fyrir Létt 96.7. En, einmitt þegar við vorum búin að sætta okkur við að eyða kvöldinu í að hlusta á ‘Michael Bolton – The Anthology’, þá kom 11 ára bróðir hennar Guðrúnar okkur til bjargar með KoRn og Guns’n’Roses. Eftir nokkrar sekúndur af Guns’n’Roses disknum kom reyndar í ljós að þetta var panflautuútgáfan af Welcome to the Jungle (ok, ekki alveg, en næsti bær við, Verslóútgáfan) en það var samt 100 sinnum betra en restin af tónlistinni þarna.

Eftir partýið hjá Guðrúnu var svo farið í annað partý hjá Völu. Því miður fer var Singstar græjan ekki í gangi þannig að ég og Vala gátum ekki tekið Daniel Bedingfield dúett en það verður bara gert í næsta partýi. Á endanum fórum við svo í HR partý á Broadway, var þar í nokkra tíma og rölti síðan heim með viðkomu á nammibarnum í 10-11. Fínt kvöld :).

Tónleikar á Gauknum

Fór með Gísla á tónleika í gær á Gauknum. Ensími, Hoffmann, Bacon, Dimma og ein enn sem ég man ekki hvað hét voru að spila. Þetta var “Jarðarfararrokk, óformleg útför Tækniháskóla Íslands”. Hef ekki farið á tónleika í lengri tíma þannig að þetta var helvíti gaman. Bacon var ágætt, Dimma var mikil metalsnilld, Hoffman var sæmileg og sú sem ég man ekki hvað heitir var frekar slöpp. Ekkert djamm samt, bara 2 bjórar og Hlölli. (Netabátur, enginn steinbítur til. Eftirspurn eftir steinbítshlölla virðist ekki vera jafn mikil og maður hefði haldið…)

5 á Richter

“Þú ert 5 á Richter og ég finn fyrir þér…”

Nýja lagið með Nylon er sennilega með hallærislegasta texta sem saminn hefur verið á Íslandi. Muffins í verðlaun ef einhver getur bent á lélegri íslenskan texta…

Listen without speakers

Useless information dagsins:

Einu sinni fyrir langalöngu, árið 1990, þegar George Michael vildi hætta að vera boyband strákur og vildi fara að láta gagnrýnendur og almenning taka sig alvarlega gaf hann út plötu sem hét Listen Without Prejudice [Hlustið án fordóma]. Þegar plötudómurinn um hana birtist í tónlistartímaritinu NME var hann bara 3 orð: Listen Without Speakers. [Hlustið án hátalara].