Category Archives: Skóli

Bloggleti

Hef ekki verið duglegur að blogga undanfarið. Ástæðan er sú að ég hef verið í prófum og þegar maður er í prófum hefur maður eeeeeekkert að segja! Ég er ekki búinn að hugsa um annað síðustu 10 daga en fallaforritunarmál, ljósútreikninga, diffrun, heildun og núna stöðuvélar og Turing vélar. Ég kem heim eftir 10 tíma í skólanum, Karen spyr “hvað segirðu?” og ég segi “öööh, ég er búinn að læra að finna flatarmál milli tveggja ferla með heildun.” Ég er ekki samræðuhæfur!

En þetta endar allt á morgun, síðasta prófið, Stöðuvélar og Reiknanleiki. Hin prófin hafa öll gengið ágætlega og þetta gerir það vonandi líka. Svo er bara mánudagsdjamm og svo slappa af á þriðjudaginn. Á miðvikudaginn byrjar svo 3 vikna námskeið í vefþjónustum sem verður örugglega fínt 🙂

Er að hugsa um að bæta nokkrum fleiri kvótum við í quotes vinstra megin á síðunni. Ef einhver er með einhverjar góðar hugmyndir um fyndin kvót úr bíómyndum endilega skella því inní kommentakerfið.

Handþurrkubúnaður

Hver kannast ekki við vandamálið sem fylgir því að þurfa að þurrka sér um hendurnar á almenningsklósettum? Enginn? Maður þarf að teygja sig í handþurrkurúlluna, toga niður pappír og rífa hann svo af. Mjög erfitt og þreytandi! En þetta er ekki lengur vandamál í HR, nei, því það eru komin rafdrifin handþurrkustatíf með skynjara! Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var hissa í dag þegar ég teygði mig í átt að handþurrkunum, bjó mig undir erfið átök við að toga niður pappírinn en þá bara bzzzzzzzz, rennur sjálfkrafa út handþurrka í mjög hentugri stærð og það eina sem maður þarf að gera er að rífa hana af! Snilld + heilmikill vinnusparnaður! Ég bíð spenntur eftir sjálfvirkum klósettrúllum!

Á síðasta ári hækkuðu skólagjöldin okkar um 10.000 kr. Þegar rektor var spurður um ástæðu hækkunarinnar gat hún litlu svarað. Nú sé ég hinsvegar að ástæðan hlýtur að vera kaup skólans á þessum geysiöfluga nýja tæknibúnaði. En hvað gerist þegar HR og THÍ sameinast? Getur sameinaður háskóli staðið undir kröfum fyrrverandi HR-inga um öflugan sjálfvirkan handþurrkubúnað? Munu HR-ingarnir fyrrverandi hlaupa útum allan skólann með blautar hendur því þeir kunna ekki lengur á gamaldags og úrelt handþurrkukerfi? Kemur allt í ljós í haust…

Alþingishópurinn

Mynd af hópnum sem var að vinna saman á AlþingiÞetta er mynd af hópnum sem ég var að vinna með á Alþingi í sumar. Við vorum að búa til kerfið Emblu sem sér um skráningu þingmanna, þinga og alls sem viðkemur Alþingi. Kerfið er Client/Server kerfi, skrifað í Java með JBoss server. Á myndinni eru (frá vinstri):

  1. Óþolandi krakkafífl sem tróð sér inná myndina
  2. Ég (hálfsofandi á svipinn eins og á öllum myndum)
  3. Hörður
  4. Heimir*
  5. Dejan
  6. Logi
  7. Stefán

*Heimir er litla tuskudúkkan. Hann var lukkudýr/skammarverðlaun. Maður fékk hann á skrifborðið hjá sér ef maður tékkaði inn kóða sem break-aði build-ið. Hann er einmitt skýrður eftir Heimi sem kennir Dreifð kerfi í HR.

Viðskiptafræðingar með kynningarátak

Viðskiptafræðingarnir voru með eitthvað kynningarátak í gær í skólanum til að kynna sig fyrir mögulegum vinnuveitendum. Voru að gefa allskonar dót, t.d. með vatnsflöskur með áprentuðu CV-inu sínu, nammi og Pepsi Max. Gott framtak hjá þeim en ef ég væri vinnuveitandi myndi ég aldrei ráða neinn í vinnu sem veldi Pepsi Max fram yfir kók, það er augljóst merki um alvarlegan dómgreindarskort! Þeir mættu annars alveg vera með fleiri svona átök, frítt nammi er alltaf jákvætt 🙂

Tölvugrafík verkefni

Skemmtileg vika að byrja, skilaverkefni á mánudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Mikið stuð. Annars er komin inn lýsing fyrir 3. forritunarverkefni í tölvugrafík og ég get ekki ákveðið mig hvað ég á að gera. Möguleikarnir eru:

  1. Fyrstu persónu skotleikur: Gæti þá notað maze-ið en mér finnst svona leikur mjög óspennandi þannig að ætla ekki að gera hann.
  2. 3D bílaleikur: Það gæti reyndar orðið mjög cool, sérstaklega ef maður hefði 2 player og möguleika á að stökkva á stökkpöllum og eitthvað svoleiðis.
  3. 3D Tölvuspil: T.d. 3D útgáfa af breakout, pinball eða einhverjum þessháttar leik, býst ekki við að ég geri þetta.
  4. 3D teiknimynd: Bara smá mynd, ekkert input frá notanda. Væri hægt að gera massaflott með góðum myndavélahreyfingum, sniðugum klippingum o.þ.h, kemur sterklega til greina.

Annars var ég líka að pæla í hvort það væri möguleiki að gera eitthvað tölvugrafík verkefni sem lokaverkefni. Bara spurning hvaða fyrirtæki hefðu áhuga á því. Datt helst í hug bankarnir með krakkaklúbbana sína, t.d. gera Georg og félagar leik, eða Aurapúka leik eða eitthvað svoleiðis. Yrði samt að vera OpenGL, langar ekki að gera einhvern flash leik á netinu! Það sem yrði samt mest cool væri að gera multiplayer leik fyrir alla bankana. Fólk veldi þá karakter úr sínum banka og ætti síðan að berjast við hina bankakarakterana, Georg vs. Aurapúki, hafa nóg af blóði og ofbeldi, Georg gæti t.d. lamið Aurapúkann með sparibauk, massíft!

Val fyrir næstu önn

Er búinn að velja fyrir næstu önn. Verð í Dreifðum kerfum og Nýrri tækni. Tek svo Vefþjónustur (eins og aaaaallir aðrir) um jólin. Nú verða bara einhverjir fleiri að drullast til að skrá sig í Dreifð kerfi svo ég þurfi ekki að finna mér hópfélaga af öðru ári. Allir í Dreifð kerfi!!! Hvernig getur manni ekki langað að fara í áfanga sem kennarinn sjálfur segir að sé leiðinlegur, svínþungur, engar umræður í tímum og að dreifð kerfi séu drasl og maður eigi að forðast að nota þau hvenær sem maður getur? Hljómar frábærlega! Held reyndar að ég verði að finna mér einhvern hópfélaga af öðru ári fyrir Nýja tækni þar sem allir aðrir en ég tóku hana á síðasta ári. Hehe, nú fæ ég að fara í léttan áfanga meðan allir aðrir þurfa að fara í Afköst viðbjóðskerfa eða Ásrún í skólakerfinu eða hvað allir þessir ógeðsáfangar heita 😀 Er mjög feginn núna að hafa tekið Afköst gagnasafnskerfa og Línulega algebru í fyrra!

Jólafjör

Hmmm, völundarhúsið rústar víst ekki öllu hljóði eftir allt saman, bara wave hljóðinu í sound mixernum í windows, auðvelt að laga. Fór annars í Hagkaup í dag og þeir eru komnir með jólaskreytingar og jóladót útum allt. Meira en 2 mánuðir í jól. Þetta finnst mér mjög fínt, nú getur maður verið í jólaskapi 1/6 af árinu…