Category Archives: Skóli

Kominn aftur til Danmerkur

Þá er fyrsta önnin í DTU búin. Ég var í fjórum áföngum, í Robust Programming þurfti ég að skila inn verkefni og skýrslu, í Program Analysis fór ég í munnlegt próf, í Computationally Hard Problems fór ég í hefðbundið skriflegt próf og í Web Services var hópurinn minn með kynningu. Þetta gekk allt saman ágætlega, þó ég sé ekki búinn að fá neinar einkunnir ennþá. Kennarinn okkar í Web Services var reyndar mjög pirraður í byrjun því við höfðum skráð eitthvað vitlaust hver bar ábyrgð á hverju, röflaði um það í 5 mínútur í byrjun kynningarinnar. Spurði svo mjög skrýtinna spurninga og spurði einn okkar engra spurninga sem var frekar skrýtið. Einkunnirnar ættu síðan að koma fljótlega eftir jól. Ekki að þær segi manni mikið þar sem DTU er með einhvern þroskaheftan sérstakan einkunnaskala sem er einhvernveginn -3 0 4 X ϖ 8 12. Kannski ekki nákvæmlega svona en er allavega frá -3 uppí 12 með bilum á hinum ýmsu stöðum.

Ég fann svo loksins íbúð í Danmörku viku áður en ég kom heim til Íslands. 85 fm, með alvöru baðherbergi með baðkari, fínni stofu og hægt að labba útí garð úr stofunni. Er á Amager, nálægt Íslandsbryggju. Tekur mig reyndar næstum klukkutíma að komast í skólann en ég verð bara að nýta tímann í lestinni vel. Myndir af íbúðinni má sjá á http://einaregilsson.com/birketinget.

Ég fór til Íslands 17. des og var þar yfir jólin og áramótin. Mjög fínt að komast aðeins heim. Þó það sé fínt að vera hérna úti þá finnur maður hvað það er allt eitthvað auðvelt og þægilegt þegar maður kemur aftur heim. Maður skilur allt og allir skilja mann, maður veit hvernig allt virkar og svona. Jólin voru fín, vorum hjá mömmu og pabba á aðfangadag og fengum svo Tómas og strákana til okkar á jóladag. Þetta voru fyrstu jólin þar sem Daníel skilur eitthvað hvað þetta gengur útá. Hann fékk í skóinn og var spenntur fyrir því og svo var hann mjög spenntur að opna pakkana á aðfangadag. Við reyndar létum hann opna suma þeirra á jóladag þar sem hann var orðinn pakkaóður á aðfangadag og leit varla á hvað var í pökkunum, vildi bara komast í næsta pakka sem fyrst. Svo vorum ég og Karen að ganga frá íbúðinni og svona, flytja allt í búslóðageymslu og ganga frá. Sendum dótið okkar út með Samskipum, þar sem við tökum engin húsgögn með þá var þetta voða lítið, bara 1,66 rúmmetrar, þó okkur hafi reyndar þótt það vera fullt þegar við vorum að pakka. Ég kom hingað til Danmerkur í dag en Karen og Daníel koma svo 15. jan og þá þarf ég að vera búinn að kaupa rúm og svona, búslóðin kemur svo 21. eða 22. jan.

Ég byrja svo í janúar áfanga á morgun kl. 9 og fer beint að vinna eftir það þannig að það er nóg að gera. Nú er hinsvegar bara planið að slappa aðeins af í kvöld, horfa kannski á Næturvaktina og fara svo að sofa snemma. Maður verður líka að jafna sig á tímamuninum, það getur nú tekið nokkra daga…

Danmörk – Dagur 99

Jim: Is it me or does it smell like updog in here?
Michael: What’s updog?
Jim: Nothin’ much, what’s up with you?

—-

Dwight Schrute: Second Life is not a game. It is a multi-user, virtual environment. It doesn’t have points, or scores, it doesn’t have winners or losers.
Jim Halpert: Oh it has losers.

—-

Nýjasti uppáhaldsþátturinn minn er The Office. Er búinn að horfa á alla þættina á síðustu vikum og þeir eru endalaus snilld. Þegar Alda kom í heimsókn fyrir nokkrum vikum þá skrifaði ég alla þættina fyrir hana og nú er hún líka búin að horfa á þá alla. Því miður er núna eitthvað verkfall hjá handritshöfundum í Hollywood þannig að það koma engir fleiri þættir í einhverjar vikur.
Annars er orðið ansi langt síðan ég hef skrifað hérna. Hvað hefur verið að gerast? Alda kom í heimsókn, það var stuð. Ég, Alda og Agla borðuðum öll saman heima hjá Öglu og kíktum síðan á McClutes, hverfisbarinn hjá henni. Fórum síðan á Laundromat Café daginn eftir að fá okkur brunch. Gaman að gera eitthvað öll saman systkinin, höfum aldrei áður verið öll saman í útlöndum.
Róbotakeppnin sem ég talaði um síðast var skemmtileg. Fyrsta þrautin var að gera bíl og taka smá kappakstur við hin liðin. Okkar bíll var mjög óstöðugur og keyrði gífurlega hægt þannig að við fengum engin stig þar. Næsta þraut var að keyra upp að 6 flöskum sem stóðu hlið við hlið og fella eina þeirra. Sú sem átti að fella var plastflaska, en hinar voru bjórflöskur. Maður gat notað skynjara til að skynja ljósið sem barst frá þeim, fatta hver var ljósust og fella hana. Það hinsvegar virkaði enganveginn hjá okkur, en fyrir tilviljun keyrði róbotinn okkar mjög skakkt og felldi plastflöskuna óvart og svo eina bjórflösku í leiðinni. En við fengum nokkur stig fyrir það þannig að við urðum ekki í síðasta sæti. Lokaþrautin var svo að rata gegnum völundarhús, sem okkur tókst ekki. Þannig að á endanum urðum við í 9. sæti af 12.
Síðan er þetta bara búið að vera sama rútínan hérna, læra, vinna, tala við Karen og Daníel á Skype. Fór reyndar heim eina helgi líka sem var gott. Öll verkefnin eru á fullu núna þannig að það er brjálað að gera.
Er ennþá að leita að íbúðum á fullu. Er að fara að skoða 3 á næstu dögum, eina rándýra sem er tiltölulega nálægt DTU og svo 2 ódýrar sem eru klukkutíma í burtu. Síðan er ég líka á einhverjum kollegie biðlistum þannig að spurning hvernig fer með það. Mesta hreyfingin á þeim er nú samt sennilega milli anna og kannski vafasamt að bíða það lengi. Við sjáumt til hvað gerist. Svo kem ég heim 17. des og verð framyfir jól.

Danmörk – Dagur 77

Hvað er að gerast í Danmörku? Síðasta sunnudag elduðu Bruno, Matteus og Francielle brasilískan mat fyrir alla í gámnum. Þetta er víst einhver réttur sem er yfirleitt borðaður á mánudögum í Brasilíu. Það var stór diskur af kartöflumús með smá kjöthakki ofaná, svo var fullt af hrísgrjónum og svo var einhver baunaréttur úr svörtum baunum og einhverju fleiru. Þetta var ágætt, gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég splæsti í kók og bjór svona til að leggja eitthvað af mörkum.

Ég var áður búinn að tala um að það ætti að vera keppni milli forritana sem við gerðum í Computational Hard Problems. Við fengum að vita úrslitin síðasta þriðjudag og minn hópur var í 3. sæti. Maður fékk stig fyrir hraða og hversu góð lausnin var sem forritið fann og svo fékk maður bónusstig ef bæði hraðinn og lausnin var góð, svo maður gerði nú ekki bara hraða lausn sem væri krapp. Allavegana, við fengum flösku af rauðvíni í verðlaun, 2005 árgerð af Valpolicella Ripasso, hvað sem það nú er. Ég drekk ekki rauðvín en það er alltaf gaman að vinna :). [Extra nördaupplýsingar: Við hefðum ekki lent í 3ja sæti nema af því að við endurskrifuðum forritið í C++ fyrir keppnina, upphaflega útgáfan í C# tók 12 sekúndur, C++ útgáfan tók 6 sekúndur.]

Núna er ég hinsvegar að horfa á kennsluefni í LEGO Mindstorms, þar sem að á morgun er ég, Eduarda, Tiberiu og Nuno að taka þátt í keppni þar sem maður byggir róbóta. LEGO Mindstorm NXT er eitthvað svona system þar sem maður hefur fullt af kubbum, nokkra skynjara og mótora og svo getur maður smíðað vélmenni og forritað það til að leysa allskonar verkefni. Ég hef aldrei snert á þessu áður, og enginn annar úr hópnum mínum heldur þannig að þetta verður áhugavert. Þetta er í 7 klukkutíma, frá 1-8 á morgun og verður örugglega stuð. Ég hef smá áhyggjur af því að róbótinn gæti orðið self-aware og gert uppreisn gegn sköpurum sínum en að öðru leyti líst mér vel á þetta.

Annað kvöld kemur svo Alda til Danmerkur þannig að ég, hún og Agla verðum örugglega að gera eitthvað skemmtilegt um helgina. Við höfum aldrei áður verið öll 3 systkinin saman í útlöndum. Og, já, þetta er það helsta sem er að frétta af mér.

Danmörk – Dagur 70

Lífið gengur sinn vanagang hérna í Danmörku. Íbúðarleitin er í fullum gangi, er skráður á tveim vefsíðum og er sífellt að senda út pósta útaf íbúðum. Búinn að skoða eina sem var fín en of langt í burtu og fer að skoða 2 vænlegar á sunnudaginn. Fór í dag í einhverja reception fyrir þau fyrirtæki sem eru að sponsora stúdenta frá DTU, það voru kennarar, stúdentar og fulltrúar fyrirtækjanna þarna. Komst að því að þetta er mjög misjafnt milli fyrirtækja, hjá Microsoft er þetta hlutavinna en hjá sumum öðrum, t.d. hjá einhverju heyrnartækjafyrirtæki er þetta bara styrkur. Þekki þýskan strák hérna sem er sponsoraður af þeim, fær bara pening, þarf ekkert að vinna. Hljómar vel :). Móttakan var annars fín, fékk snittur og bjór og spjallaði heilmikið við einhverja konu frá Microsoft og yfirmann tölvunarfræðideildarinnar hérna í DTU.

Er annars búinn að vera að vinna frekar mikið undanfarið. Fór í hádegismat í Microsoft á miðvikudaginn með 3 öðrum íslendingum sem vinna þar. Þeir hittast alltaf hálfsmánaðarlega í mat og buðu mér með í þetta sinn. Sögðust vera fegnir að fá annan íslending, þeim er búið að fækka undanfarið, voru víst 5 eða 6 þarna þegar mest var. Svo var einhver SQL Server gaur frá bandaríkjunum í heimsókn þarna og hélt 2 tíma fyrirlestur um SQL Server 2008 í matsalnum eftir hádegi þannig að ég fór á það, mjög fínt bara. Allt fullt af Halloween skreytingum í matsalnum, kóngulóarvefir og grasker útum allt.

Svo er allt á fullu núna í öllum áföngum, verkefnin hrúgast upp, flest hópverkefni. Sem betur fer er ég í fínum hópum í öllum áföngum. Dæmatímakennarinn kom með kökur handa okkur í Computational Hard Problems á þriðjudaginn. Hann hafði lofað í vikunni áður að ef einhver gæti leyst ákveðið vandamál með því að breyta því í Sudoku þá myndi hann koma með kökur handa okkur, og einhver snillingurinn gerði það þannig að kennarinn þurfti að standa við loforðið. Svo í framhaldi af verkefni sem var í sama áfanga var ákveðið að hafa smá keppni, þar sem forritin okkar keppa og fá stig fyrir hraða + góðar lausnir, og það verða víst verðlaun fyrir 3 efstu sætin. Verður gaman að sjá hvað kemur útúr því.

Næsta Íslandsferð er svo 15 – 19 nóv og kem svo heim í jólafrí kringum 17. des.

Danmörk – Dagur 39

Punktablogg í þetta skiptið.

  • Prófaði DTU special pizzu á pizzastaðnum sem er á campusnum. Hún átti að vera með kebab skv. lýsingunni. Það þýddi ekki bara kjötið, heldur var eins og einhver hefði hellt úr heilli salatskál yfir alla pizzuna. Mæli ekki með því.
  • Fór í mat til Ebbu og Hilmars á föstudaginn. Þar voru líka Lára og Ómar og svo kom annað íslenskt par sem býr í húsinu líka. Fórum að djamma á einhverjum klúbb sem ég man ekki hvað heitir. Það var stuð. Skrýtið samt að djamma með Láru og Ebbu án þess að Karen væri með.
  • Var uppí Microsoft í morgun, skoðandi villu sem hafði komið upp og skrifandi test til að kalla hana fram. Þá krassaði Visual Studio hjá mér og spurði mig “Do you want to send an error report to Microsoft?”. Ég smellti á No.
  • Fer á kynningardag fyrir nýja starfsmenn á miðvikudaginn, það er eitthvað heilsdagsprógram. Þá er akkúrat mánuður síðan ég byrjaði að vinna.
  • Extra bladet er með slagorðið “Tør, hvor andre tiger”. Alveg eins og DV var áður með, “þorir þegar aðrir þegja”. Væntanlega hafa DV tekið það héðan.
  • Annað borðið úr eldhúsinu í gámnum okkar er horfið. Grunur leikur á að aðrir gámabúar hafi tekið það til að nota í gámapartýi.
  • Ég hef fengið það starf að vera þýðandi í gámnum mínum. Er sífellt að þýða matarumbúðir, bréf og fleira yfir á ensku fyrir hina íbúana. Sebastian sagðist um daginn vilja skoða danska klámsíðu, spurði hvort ég gæti hjálpað honum. Ég sagði honum að hjálpa sér sjálfur.
  • Eftir að tala við Hilmar komst ég að því að það er ekki mistök að danska CPR númerið mitt er ekki sama og íslenska kennitalan mín. Hélt að það væru mistök því bara næstsíðasta talan er öðruvísi, en þá eru þeir bara með eins kerfi, og bara tilviljun að stafir 7 og 8 eru þeir sömu og í íslensku kennitölunni minni. Getur samt ekki verið alveg eins kerfi því vartalan er öðruvísi. [Er búinn að forrita vartölutékk a.m.k. 5 sinnum, ég pæli í þessum hlutum… 🙂 ]

Danmörk – Dagur 21

Og þá er önnur skólavikan búin. Aðeins búinn að kynnast betur áföngunum og svona. Program Analysis sem virkaði hræðilegt fyrst finnst mér núna mjög áhugavert, erum að gera massaverkefni í því og er kominn í hóp með breta og dana. Hinir áfangarnir virka allir ágætir þó Web Services sé frekar dull svona enn sem komið er. Er líka búinn að fara nokkrum sinnum í Microsoft að vinna og það er bara mjög fínt. Er reyndar búinn að gera lítið annað en að setja upp hugbúnað og svona, en ég og Giedrus sem er hinn student workerinn erum líka aðeins farnir að testa kerfið. Bara manual testing fyrst til að kynnast þessu en síðan förum við fljótlega að skrifa einhvern kóða. Mesta snilldin er samt ennþá maturinn. Það er borinn fram morgunverður á hverjum morgni sem er bara eins og fínasti hótelmatur, 4 tegundir af morgunkorni, allskonar brauð, sultur, ávextir, kaffi te og fleira. Svo er heitur matur í hádeginu og eftir hádegi getur maður alltaf skroppið í eldhúsið þar sem er afgangurinn af morgunmatnum og fengið sér brauð með osti og allskonar ávaxtasafa og gosdrykki. Ég vildi eiginlega að ég væri oftar í skólanum eftir hádegi, þá tæki ég bara daginn snemma og fengi mér morgun og hádegismat hjá Microsoft og færi svo í skólann.

En allavega, þetta er síðasti dagurinn í Danmörku í bili, er á leiðinni heim til Íslands í kvöld og verð fram á mánudagsmorgun. Það verður algjör snilld, hitta Karen og Daníel, geta talað íslensku og síðast en ekki síst búa í alvöru húsi en ekki gámi. Tek með mér tóma ferðatösku héðan og kem með hana fulla til baka, þarf að taka með mér vetrarföt og svona. Ætla líka að taka gítarinn með út og kannski myndavélina líka. Þannig að í næstu viku detta kannski einhverjar myndir hérna inn. Jæja, nóg af þessu, ég er farinn til Íslands!

Danmörk – Dagur 14

Jæja, þá er fyrsta skólavikan búin. Á morgun er ég í fríi frá skólanum og verð allan daginn í vinnunni. Tímarnir eru flestir búnir að vera ágætir. Program Analysis virkar hrikalega erfitt, Computationally Hard Problems er ágætt, enda tók ég Stöðuvélar og reiknanleika í HR, Robust Programming í .NET lítur út fyrir að verða áhugavert og Web Services er fínt. Það er samt lítið að gera enn sem komið er. Ég var orðinn frekar leiður á litla herberginu mínu í dag þannig að fór í staðinn á bókasafnið að læra, þurfti að gera smá verkefni fyrir Comp. Hard Problems. Fínt að vera á bókasafninu, það er svona risatafl á gólfinu með köllum sem eru svona 80 cm á hæð, og það er flugvél hangandi úr loftinu. Fór síðan í smá hjólatúr niðrí Lyngby, bara svona til að gera eitthvað. Nýja hjólið er að gera góða hluti.

Í gær tóku Frakkarnir sig til og bjuggu til crepes fyrir alla í kvöldmat. Crepes eru semsagt svona pönnukökur sem maður borðar fyrst með skinku og eggi, síðan með sultu eða súkkulaði. Semsagt bæði aðalréttur og eftirréttur. Við vorum öll hérna úr skúrnum + 3 ítalir úr næsta skúr. Eyddum svo restinu af kvöldinu hangandi inní eldhúsi að spjalla og spila æsispennandi drykkjuleik sem gengur útá að kasta smápeningi ofan í glas, með því að kasta honum fyrst í borðið og láta hann svo skoppa oní glasið. Yfirleitt eldar hver fyrir sig en þarna elduðu Frakkarnir, ég fékk líka pylsur og hrísgrjón hjá Brasilísku strákunum um daginn og ég gaf Belganum burritos með mér í hádeginu í dag. Það er ágætt, enda er hundleiðinlegt að elda fyrir einn.

Annars er ég bara svona að byrja að fatta að þetta er ekki frí, ég bý hérna í alvörunni. Orðinn fullgildur, kominn með CPR númer, símanúmer og var að fá í pósti sjúkraskírteini frá danska ríkinu. Nú þarf ég bara að verða betri í málinu og þá er þetta komið. Sagði “kan jeg have en pose?” í dag hjá kaupmanninum og hann skildi mig. Allt að koma 🙂

Danmörk – Dagur 11

Ósköp rólegur dagur í gær. Fór með Julie, Tiberiu, Bruno, Matteus og Eduarda í IKEA, sem er rétt fyrir utan Lyngby, svona 40 mínútur gangandi. IKEA er að sjálfsögðu allsstaðar eins, fékk mér sænskar kjötbollur í hádegismat og keypti svo nokkra hluti, sængurver, vekjaraklukku, ljósaperur, lampa og eitthvað fleira smádót. Var svo bara hérna heima í skúrnum í gærkvöldi að spila vist við krakkana hérna og síðan einhverja Skype leiki við Karen í tölvunni.

Í dag byrjaði svo alvara lífsins. Bæði var fyrsti dagurinn hjá Microsoft og fyrsti skóladagurinn. Ég svaf aðeins of lengi þannig að ég rauk út til að ná strætó til Microsoft og fékk mér engan morgunmat. Hitti strák frá Litháen, Giedrius, á strætóstöðinni sem var líka að byrja hjá Microsoft. Við byrjuðum á að hitta Tim sem er yfir team-inu okkar. Það var allt í kaos því það var verið að flytja milli skrifstofa og fyrsta sem við gerðum var að reyna að koma fyrir 5 skrifborðum í herbergi þar sem augljóslega áttu ekki að vera fleiri en 4. Við vorum að djóka með að þetta væri örugglega lokaprófið fyrir starfið, ef við næðum ekki að raða þessu eðlilega þarna inn yrðum við reknir á staðnum. En það tókst á endanum og við fengum tölvur og fórum að setja þær upp. Á meðan fór Tim á fund og við héngum inná þessari skrifstofu í 2 og hálfan tíma að gera meira og minna ekki neitt. Danskur strákur sem heitir Sven sýndi okkur aðeins svæðið. Þetta er ekki bara ein bygging, þetta er svona eins og mini-campus með nokkrum byggingum og stórum garði allt í kring, mjög nice. Maður þarf ekki að borga fyrir hádegismatinn og það besta af öllu: ÓTAKMARKAÐ ÓKEYPIS KÓK! (já, ég veit að það er bara eins og að fá 200 kall auka á dag eða eitthvað, en ég kann að meta kók 🙂 ). Við fórum í mat með Tim og hann sagði okkur aðeins betur frá þessu en síðan þurfti ég að rjúka því ég átti að vera í tíma eftir hádegi og var þegar orðinn of seinn.

Ég mætti loksins í tímann kl. 3 og var búinn að missa af fyrstu 2 klukkutímunum. Það var ansi slæmt því kennslan hafði byrjað á fullu og ég var alveg úti að aka. Kúrsinn heitir Program Analysis og eftir því sem ég best sé er hann hrikalega erfiður, sérstaklega fyrir mig sem er ekki með neitt sérstaklega mikinn stærðfræðibakgrunn. Ég keypti bókina eftir tímann og var að lesa í henni núna áðan og já, þetta verður brútal :S . Nú er bara að vera duglegur að læra! Á morgun er það svo Computationally Hard Problems, annar erfiður kúrs og svo eitthvað að útrétta í bænum eftir það.

Danmörk – Dagur 6

Jæja, ég er ekki lengur einn í skúrnum mínum. 8 manns fluttu inn í fyrradag, eitt herbergi er ennþá laust. Þeir sem ég bý með eru:

  • Frakkland: Gium, Julie, Sebastian
  • Belgía: Xavier
  • Portúgal: Maria Eduarda
  • Brasilía: Bruno og Matteus
  • Rúmenia: Tiberiu

Þau eru öll fín og okkur kemur bara vel saman. Ennþá hefur ekki verið nein barátta um sturtuna eða klósettið 🙂 . Í gær byrjaði svo Introduction Week. Ég var í hóp C og var þar með Búlgara, franskri stelpu og frönskum strák, stelpu frá Lettlandi, tveim strákum frá Póllandi, einum frá Rússlandi, einum frá Ítalíu og einum frá Grikklandi. Við byrjuðum bara á að borða morgunmat og tala saman, svo fórum við í smá túr um Campusinn og síðan var hádegismatur. Eftir það var fyrirlestur um Danmörku og “Cultural Differences”. Þar var Ítölunum meðal annars bent á að þó að þeim fyndist Danirnir vera “cold and distant” þá þýddi það ekki að þeir væru að reyna að vera óvingjarnlegir, þeir væru bara svona. Og að það væri meira “personal space” hérna en þeir eru vanir. Það var líka talað um stundvísi, Frakkarnir sem búa með mér höfðu einmitt sagt áður en við lögðum af stað “Oh, we better leave early, the danish people don’t like it when you’re late”. Þeir sögðu að í Frakklandi væru allir alltaf seinir, og fannst mjög skrýtið að ef einhver segði þeim að mæta kl. 9 ættu þeir að, öh, mæta kl. 9!

Eftir fyrirlesturinn var smá leikur þar sem hópurinn þurfti að fara um Campus og svara ýmsum spurningum, svona til að sýna okkur aðeins hvar hlutirnir væru. Svo var kvöldmatur og eftir það var farið á Cellar bar sem er í aðal DTU byggingunni. Ég var ekki mjög lengi þar, því að það var alltof mikið af fólki, en fór með nokkrum krökkum úr Campus Village heim og við vorum með smá eldhúspartý.

Í dag fórum við svo í túr til Kaupmannahafnar. Byrjuðum á að fara í ferju um árnar þarna og það var guide sem sagði okkur frá borginni. Það var fínt, en það var soldið skrýtið að hún var sífellt að segja eitthvað eins og:

  • “This used to be old warehouses but they have now been turned into very expensive apartments!”
  • “The old ferrys have now been turned into very expensive apartments!”
  • “The danish government wants to clear out Christiania and build very expensive apartments!”

Og það var a.m.k. tvennt eða þrennt í viðbót. Fólkið á bátnum var farið að djóka með að Danirnir breyttu öllu á endanum í “very expensive apartments!”. Alltaf þegar hún benti á eitthvað nýtt var fólk að hvísla “…but it has been turned into very expensive apartments!”. “On your left you see the little mermaid…” hvísl(“next week she will be turned into very expensive apartments!”)

Fórum síðan og borðuðum á grænmetis veitingastað og fórum á Student huset sem er stúdenta bar. Ég vildi ekki vera lengi þannig að ég fór um 10 og tók strætó heim með Eduarda og Matteus sem búa með mér. Á morgun koma svo Karen og Daníel og verða eina nótt og ég hlakka ekkert smá til!!!!

Danmörk – Dagur 1

Ég fór með strætó kl. 5 í morgun úta flugvöllinn í Varsjá. Hélt ég væri nú bara mjög tímanlega og það leit út fyrir það fyrst. En ég reiknaði ekki með því að öryggishliðið er rétt áður en maður fer útí vél og þar lenti ég í svakalegri röð, löngu komið final call á flugið mitt og endaði á því að ég og svona 10 aðrir farþegar vorum einir í rútunni sem fór í vélina, allir hinir voru löngu komnir. Þegar ég lenti svo í Danmörku tók ég lestina á Central stöðina og keypti mér þar vikupassa í allar lestar og strætóa á þeim zone-um sem ég verð mest á. Síðan fann ég rétta lest til Lyngby station og tók strætó þaðan uppí DTU. Mjög gott að komast lokins inná herbergi um hádegisbil og slappa aðeins af.

Þegar ég var búinn að taka uppúr töskunum og svona fór ég í administration bygginguna þar sem ég ætlaði að fá staðfestingu á námi sem ég þarf að skila inn til leikskólans hans Daníels. Þeir eru með sérstaka vél þarna sem prentar út svona staðfestingar og nokkur önnur algeng skjöl en maður þarf að vera búinn að fá stúdentakort til að nota hana og ég fæ það víst í næstu viku. Þannig að ég dreif mig bara niður í bæ í Lyngby og fór að versla. Ég hafði nú haldið fyrirfram að maður væri bara hérna í skólanum en færi svo í miðborg Kaupmannahafnar ef maður vildi fara eitthvert út, en þetta er alveg alvöru bær hérna, fullt af verslunum og öllu svona.

Ég þurfti að kaupa ýmislegt, byrjaði á að kaupa handklæði, fór svo í City Hall þar sem mér hafði verið sagt að ég gæti skráð mig sem íbúa, en þar bentu þeir bara á að fara annað, í eitthvað Commune þar sem maður skráir sig víst. Fór þangað, skráði mig inní landið og fékk CPR númer sem maður þarf víst til að geta gert eitthvað hérna. Það er bara íslenska kennitalan mín, nema einn stafur var öðruvísi, sennilega bara mistök hjá konunni sem skráði þetta. Hún lét mig líka merkja við hvaða lækni ég vildi hafa og svo að lokum sagðist hún vera með smá pakka til mín frá bæjarstjóranum. Hvernig vissi hann að ég væri að koma??? Það var a.m.k. einhver bæklingur um Lyngby, tveir frímiðar í sund og eitthvað fleira sniðugt.

Síðan fór ég að opna bankareikning, þar sem ég var kominn með CPR númerið mitt. Þar lenti ég á einhverri konu sem vildi endilega tala dönsku við mig. Hún sagði eitthvað á dönsku, sem ég skildi svona að mestu leyti, ég svaraði á ensku og svo hélt hún áfram á dönsku. Þegar við vorum komin lengra inní þetta þurfti ég að segja ‘ha’ við öllu þannig að hún var farin að segja allt fyrst á dönsku og svo á ensku (sem hún talaði bara mjög vel). Ég var alvarlega farinn að íhuga að segja henni bara Det er en interessant rødvin, man kan godt drinke den i tog svo hún mundi nú endanlega fatta að ég væri vonlaust keis og skipta bara yfir í enskuna. En ég gerði það ekki, við töluðum bara mjög hægt saman og gengum frá þessu á endanum. Ég á víst von á einhverjum massa pósti frá þeim og þá fyrst get ég sótt um sjálft debetkortið.

Síðan ætlaði ég að ná í skattkortið mitt en það lokar víst kl. 13:30 á föstudögum, Commune dótið lokaði líka kl. 14:00, þessir Danir nenna greinilega ekkert að vinna! 😉 Þannig að ég fór bara að versla meira, fór og keypti mér danskt símakort (21532836) sem ég á eftir að prófa, ég gæti þurft að hringja í Vodafone heima og grátbiðja þá um að aflæsa símanum mínum áður en það virkar. Splæsti líka í USB sjónvarpskort fyrir tölvuna mína, þannig að ég get horft á sjónvarpið hérna inní herbergi. Fór svo í Nettó að kaupa í matinn, það virðist vera svona Bónus hjá Dönum, nema ennþá hrárri uppstillingar. Í hillunum með snyrtivörunum var þeim eiginlega ekki raðað upp, það voru bara hrúgur af drasli í hillunni og öllu hálfblandað saman. En ég keypti svona þetta helsta, tannkrem og tannbursta, mjólk, djús, morgunkorn og svona, þannig að nú er ég nokkuð góður, hillan mín í ísskápnum er a.m.k. vel full. Það virðist enginn annar vera fluttur inní skúrinn minn, hef a.m.k. ekki rekist á neinn ennþá.

Seinni partinn klúðraði ég svo strætóferðinni úr bænum og fór einhvern massífan hring um allt nágrennið í svona klukkutíma. Komst svo loksins heim, fékk mér að borða og fór að lesa í dönskubókinni minni og reyna að koma netinu í gang sem var eitthvað bras, ég var búinn að gleyma einhverju passwordi og eitthvað krapp, var loksins að detta inn fyrir svona 2 tímum.

Er að fara að sofa, skrýtið að sofa einn, sakna Karenar og Daníels. Stefni á að finna þvottavélar og panta hótel fyrir Karen og Daníel á morgun, og svo kannski kíkja í bæinn. Þið megið örugglega eiga von á nokkrum maraþonbloggum í viðbót næstu daga 🙂