Category Archives: Sjónvarp

Krapp sjónvarpsefni!!!

Eru ALLAR bandarískar sjónvarpsmyndir um miðaldra húsmæður að berjast við banvæna sjúkdóma? Eða keypti Skjár 1 bara einhvern pakka með svona myndum? Þetta er þriðji sunnudagurinn í röð þar sem er sjónvarpsmynd um þetta efni, fyrst Alzheimer með Miu Farrow, svo einhver mynd um ALS með gellunni úr Just Shoot Me og núna “At the End of the Day”, mynd um konu sem fréttir að hún á ár eftir ólifað. Og hvaða fólk er þetta sem hefur gaman af þessum myndum? Er í alvörunni fólk þarna úti sem hugsar “Já, ég hef mjög gaman af myndum um fólk sem er að veslast upp og deyja, það eru mínar uppáhaldsmyndir!”. Er ég að ætlast til of mikils að vilja fá einhverja sæmilega afþreyingu á sunnudagskvöldum???

Kúkableyjur

“Mommy, I’ve got a present for you. I’ll give you a hint: it’s in my diaper and it’s not a toaster!”

Kúkableyja í verðlaun fyrir þann sem þekkir kvótið. Er núna búinn að skipta á u.þ.b. 5000 bleyjum þannig að er orðinn nokkuð sleipur í þessu. Allt gengur annars vel, fullt af fólki búið að koma í heimsókn, öllum líst mjög vel á strákinn. A.m.k. 5 manns búnir að segja að hann sé mjög “mannalegur”, hvað sem það nú þýðir. Eru ekki öll börn mannaleg? Ég efast a.m.k. um að fólk sé mikið að líkja þeim við aðrar dýrategundir (“Til hamingju með strákinn, hann er svakalega líkur hesti!”).

En aftur að kúkamálunum. Drengurinn er engan veginn ánægður þegar á að skipta á honum og öskrar úr sér lungun en jafnar sig um leið og hann er kominn í nýja bleyju. Hann er líka búinn að koma sér upp mjög öflugri leið við að pissa. Hún gengur útá að kúka fyrst, svo þegar hann er kominn á skiptiborðið og úr bleyjunni þá lætur hann rigna gulu yfir foreldra sína, skiptiborðið og allt annað í tveggja metra radíus. Sérstaklega er hann góður í að gera þetta rétt eftir að maður snýr sér frá þannig að hann nái sem bestri pissdreifingu áður en maður tekur eftir þessu og getur stokkið á hann með aðra bleyju. En hann er duglegur að drekka, og yfirleitt voða vær þannig að við erum bara mjög ánægð 🙂

Numb3rs

Stærðfræðileg greining strikes back! Erum núna að byrja í gervigreindarpartinum á Stærðfræðilegum reikniritum sem ég hélt að mundi vera snilld, forrita talandi róbota eða gáfaðar þvottavélar eða eitthvað, en þá kemur í ljós að það er bara meiri stærðfræðileg greining, diffrun og heildun! Ég sem hélt að ég væri búinn með það að eilífu.

Nýji uppáhaldsþátturinn minn er annars um stærðfræði, nokkurnveginn. Heitir Numb3rs og fjallar um tvo bræður, annar er lögga og hinn stærðfræðisnillingur. Stærðfræðisnillingurinn lítur að sjálfsögðu út eins og hann sé klipptur úr Dressmann auglýsingu (eins og stærðfræðisnillingar gera nú yfirleitt) og er mjög duglegur við að hjálpa löggubróður sínum að leysa mál með hjálp flókinna stærðfræðijafna. Er búinn að horfa á 2 fyrstu þættina og formúlan fyrir þáttunum virðist vera nokkurnveginn svona:

  1. Raðmorðingi/bankaræningjar/hryðjuverkamenn eru búnir að drepa/ræna/sprengja á nokkrum stöðum í borginni.
  2. Stærðfræðisnillingurinn kemur til bróður síns með snilldarformúlu og reference í einhver fræg lögmál til að redda málinu. “Ég er með lausnina, samkvæmt Heisenberg-formúlunni/3. lögmáli Einstein/Wulff Morgenthaler-jöfnunni er hægt að finna út hvar þeir láta næst til skarar skríða. Ég er kominn með formúlu sem ég reiknaði út, x2 + 3″.
  3. Löggurnar fara á staðinn sem stærðfræðisnillingurinn benti á en það er einhverskonar klúður og vondu kallarnir mæta ekki og fólk deyr.
  4. Stærðfræðisnillingurinn er í öngum sínum, trúir því ekki að x2 + 3 hafi ekki virkað og fer heim í bílskúr þar sem hann krotar mikið af stærðfræðiformúlum á krítartöflur meðan töff tónlist hljómar í bakgrunni.
  5. Stærðfræðisnillingurinn kemur hlaupandi til löggubróður síns á síðustu stundu, “ég fann villuna, ég fann villuna, þetta átti að vera x2 + 4, ekki x2 + 3!!”
  6. Löggur ná vonduköllum, allt endar vel.

Þetta er semsagt snilldarþáttur sem ég ætla að halda áfram að fylgjast með 🙂

Bóla

Fótbolti á Skjá einum. Þoli ekki íþróttir! Íþróttir eru bara bóla, bóla sem á eftir að springa! Ég spái því að eftir nokkur ár muni enginn muna eftir þessum “íþróttum”…

Karlmennska

Hmmmm, ég er einn heima og það er ekkert nema Bachelorette í sjónvarpinu. Ekki gott! Nú verð ég að gera eitthvað svakalega karlmannlegt á eftir til að bæta þetta upp, t.d. fá mér bjór, sparka í dekkin á bílnum mínum eða bora í vegg. Eina vandamálið er að ég á ekki bjór, Karen er á bílnum og borvélin er hjá pabba. Kannski ég fari og kýli nágrannann í öxlina eða fari í Húsasmiðjuna og kaupi mér hamar.

CSI, Tvíhöfði og kommentakerfi

Jæja, til að komast hjá því að læra ákvað ég að breyta síðunni smá. Setti inn broskalla í kommentakerfið og bloggið þannig að nú get ég sett inn nokkra kalla, :);):S:(8):D. Annars lítið að gerast, próf í næstu viku þannig að ekkert nema lærdómur framundan :(.

Var annars að horfa á CSI: Miami. Rauðhærði gaurinn er engan veginn jafn kúl og Grissom. Líka skrýtið að vera að gera fleiri og fleiri nákvæmlega eins þætti, nú er líka komið CSI: New York. Það gæti reyndar verið kúl því Gary Sinise leikur í því. Sá sem gæti hinsvegar verið góður í CSI væri gaurinn úr Law and Order: Criminal Intent (eða Law and Order: Edgar-suit eins og einhver snillingur kallaði þetta :D). Ég væri alveg til í að fá hann í staðinn fyrir rauðhærða gaurinn, það væri fínt.

Sá í blaðinu að Tvíhöfði var að veita gullnu kindina, verðlaun fyrir þá sem gerðu verstu hlutina á árinu, verstu plötuna, versta sjónvarpsþáttinn o.s.fv. Hvernig væri að þeir gæfu sjálfum sér þessi verðlaun fyrir að vera með grjótleiðinlegan, löngu úreltan þátt sem enginn nennir að hlusta á lengur? Hvenær voru Tvíhöfði síðast fyndnir, 1998? Og hefur einhver lesið pistlana hans Jóns Gnarr aftan á Fréttablaðinu? Eintómt nýaldar-sjálfshjálpar kjaftæði “þú verður að vera ánægður með sjálfan þig til að vera ánægður með lífið, peningar skipta ekki máli, blabla”. Ömurlegt drasl og gjörsamlega ófyndið :S (jamm, mjög bitur í dag…)

Extreme…

Ég var að horfa á Discovery áðan. Þá sá ég auglýsingu um nýjan þátt sem heitir “Extreme Engineering”. Hmmm. “Engineering” finnst mér ekki hljóma spennandi en fyrst þetta er “Extreme Engineering” þá hlýtur það að vera cool. Allt sem er “Extreme” er cool, maður getur tekið hvaða hlut sem er, sett “Extreme” fyrir framan nafnið og þá verður hann meira cool. T.d. Extreme Sports, Extreme Makeover, Extreme Programming, Extreme Engineering, Extreme Robot Fighting

Nú vita allir að íþróttir eru grjótleiðinlegar og hundleiðinlegt að horfa á þær. En það væri auðveldlega hægt að gera fullt af íþróttum miklu skemmtilegri með því að gera þær aðeins meira “Extreme”. T.d:

  • Extreme Football: Ef þeir eru ekki búnir að drullast til að skora eitt einasta mark á fyrstu 45 mínútunum þá er random leikmaður hálshöggvinn og hausinn á honum notaður sem bolti í seinni hálfleik.
  • Extreme Formula 1: Þriðji hver bíll keyrir öfugan hring við hina…
  • Extreme Tennis: Tveir menn. Tveir spaðar. Ein handsprengja.
  • Extreme Skák: Hmmmmmmmmm, ok, virkar kannski ekki fyrir allt.

Þetta væri líka hægt að gera við sjónvarpsþætti. Gott dæmi er Extreme Makeover. Enginn mundi horfa á hann ef hann væri bara “Makeover”. Nú horfir enginn sem er með greindarvísitölu hærra en skónúmerið sitt á Innlit/Útlit. En!! Hver mundi ekki vilja sjá “Extreme Innlit/Útlit”: Vala Matt á amfetamíni brýst inn til óviðbúins fólks um miðja nótt:
zzzzzzzZZZZZZZZZZzzzzZZZZZ*CRASH* “GASALEGA ER ÞETTA SKEMMTILEGT RÝMI HÉRNA HJÁ YKKUR!!” “Hva, hver…” “KEYPTUÐ ÞIÐ ÞETTA RÚMTEPPI Í IKEA? ÞETTA ER *ÆÐISLEGT*”.

Hörmulegt sjónvarpsefni

Ég hef horft á mikið af lélegu sjónvarpsefni gegnum tíðina og tel mig ýmsu vanan. Hef séð Kastljós, Derrick, Nylon, sænska sjónvarpsmynd um sérstaka vináttu ungs drengs og hunds og margt fleira. Nú hefur hinsvegar botninum verið náð og titilinn VERSTA SJÓNVARPSEFNI EVER hlýtur:

Landshornaflakkarinn!

Skjár 1 á bara að sýna bandaríska afþreyingu, engan langar að sjá Súsönnu Svavarsdóttur tala við Sigurbjörn bónda frá bænum Rassaholu í Neðridal um hvað landsbyggðin sé frábær!! En almennt, ef maður vill vita hvað maður á ekki að horfa á þá eru hér nokkrar reglur:

  1. Allar myndir eða þættir með börnum í aðalhlutverkum eru rusl. Börn eru í 99% tilfella óþolandi í kvikmyndum.
  2. Allar myndir eða þættir með gömlu fólki sem aðalpersónum eru rusl. Tvöfalt rusl ef myndin er íslensk. Þrefalt rusl ef myndin er um gamalt íslenskt fólk úti á landi.
  3. Ef aðalpersónan á sniðugt gæludýr þá er myndin rusl. Tvöfalt rusl ef gæludýrið talar. (Þetta á ekki við um teiknimyndir).
  4. Allar íslenskar myndir sem eru ekki Sódóma Reykjavík eða 101 Reykjavík eru rusl. Tvöfalt rusl ef þær gerast í gamla daga. 800falt rusl ef þær eru eftir Hrafn Gunnlaugsson.
  5. Allt efni með Hemma Gunn, Gísla Marteini, Meryl Streep, Sally Field, Madonnu, Súsönnu Svavars eða einhverjum úr Nylon er rusl.
  6. Allar myndir þar sem tónlistarmenn halda að þeir séu leikarar eru rusl. Tvöfalt rusl ef tónlistarmaðurinn er rappari. Þrefalt rusl ef tónlistarmaðurinn er Madonna.

Ef myndin uppfyllir 2 eða fleiri atriði á þessum lista þá er hún súperrusl. Versta mynd í heimi væri semsagt íslensk mynd sem gerðist árið 1773, leikstýrt af Hrafni Gunnlaugssyni, með Madonnu, Sally Field og Gísla Marteini í aðalhlutverkum, þar sem þau byggju á Fáskrúðsfirði með 2 lítil börn, afa og ömmu og talandi hund.