Category Archives: Nöldur

Síminn

Fór með mömmu í dag uppí Símann til að fá gsm síma fyrir hana og ADSL fyrir hana og pabba. Það tók sinn tíma þar sem þau eru með allt sitt hjá Símanum og við þurftum að velja hverskonar tilboðspakka og afslætti þau vildu nýta sér. Síminn er svo svakalega að reyna að sníða tilboðin að þörfum fólks að fyrir hvern síma á heimilinu þarf maður að velja úr u.þ.b. 5.000 mismunandi möguleikum. Ef maður hringir mikið úr gemsanum sínum í útlenskan heimasíma á kvöldin milli 8 og 10 hentar vel að taka leið 435a því þá fær maður 200 mínútur fríar og 25% afslátt af mínútugjaldi, ef hinsvegar maður hringir mikið með vinstrihendi í eldriborgara á Sauðárkróki þá er leið 534c sniðin fyrir mann því þar fær maður 17,3 % afslátt á mínútugjaldi milli 13:30 og 17:45, 140 mínútur fríar á morgnana og ókeypis derhúfu. Að sjálfsögðu geturðu svo slegið inn 11 á undan erlendum númerum til að fá 25% extra afslátt, þ.e. ef þú vilt vera í 1100 klúbbnum. Þegar maður er svo með 2 gemsa, 1 heimasíma og ADSL þá er hægt að gera svona skrilljón mismunandi samsetningar úr þessu öllu saman. Ég er nokkuð viss um að ef maður væri nógu sleipur í að velja réttu samsetninguna þá myndi enda með því að Síminn væri farinn að borga manni fyrir að hringja. Ég get ekki annað en hugsað að kannski væri einfaldara og þægilegra fyrir alla ef Síminn mundi sleppa öllum þessum skrilljón mismunandi möguleikum og gera eitthvað einfaldara í staðinn, t.d., hmmmmm, lækka mínútugjaldið almennt???

Kristilegt spam

Hmmm, ég virðist vera kominn á einhvern kristilegan spam lista með hotmail addressuna mína. Var að fá tvo pósta um “Christian debt relief – Financing with christian principles” og einn póst um “Meet christian singles in your area”. Hvað ætli ég fái póst um næst, kristilegt Viagra?

Super Turbo Diesel Mach 10 rakvél

Var í Bónus í dag. Sá þar rakvél, næstum eins og mína, nema þessi var Turbo útgáfan (eins og fólk sem þekkir mig veit þá er ég með geysimikinn og grófan skeggvöxt sem veldur því að ég þarf að raka mig allt að 4 sinnum í mánuði). Þetta fannst mér áhugavert, Turbo rakvél! Og það er ekki eins og ég sé með einhverja svona ofur rafmagnsrakvél með beinni innspýtingu eða eitthvað, nei, þetta er bara venjuleg Gillette Mach 3 skafa. Ég bara skil ekki hvað Turbo útgáfan getur mögulega haft framyfir mína rakvél? Beittari blöð? Ehh, kröftugra handfang? Það er bara ekki svo mikið í svona tæki sem hægt er að bæta!

Lyftur

Af hverju ýtir fólk sem kemur á eftir manni inní lyftu aftur á takkann fyrir hæðina sem það er að fara á jafnvel þó að það sé búið að ýta á hann? Heldur það að lyftan stoppi ekki nema ALLIR sem eru að fara út á hæðinni ýti á takkann?

Slepja

Jæja, kominn nýr vefur fyrir Háskólann í Reykjavík. Er mjög flottur bara, mun flottari en gamli HR vefurinn. Það eina sem mér finnst glatað eru þessir risaauglýsingaborðar sem eru efst á hverri síðu með mynd af einhverjum nemanda og einhver hallæris stikkorð með sem eiga að sýna hvað skólinn sé nú æðislegur og frábær. Þetta er t.d. einn af þeim:

Auglýsingaborði fyrir HRHin gullkornin sem eru á þessum auglýsingaborðum eru m.a:

  • Allt í umhverfinu…
  • Framúrskarandi nám…
  • Raunveruleg verkefni…
  • Samheldni nemenda er mikil…
  • Kúka á fatlaðraklósettinu…
  • Raunhæf verkefni…
  • Krefjandi nám…
  • Mikið af þrípunktum…
  • Framúrskarandi leiðbeinendur…
  • Gott veganesti…
  • Frábær aðstaða…
  • Rándýrt mötuneyti…
  • Nálægð við atvinnulífið…
  • Draum rætast…
  • Frábærir nemendur…
  • Víkkað sjóndeildarhringinn…

Ég væri nú alveg til í að víkka sjóndeildarhringinn…, vinna raunhæf verkefni… og vera í krefjandi námi… sem er í nálægð við atvinnulífið… . Og ekki væri nú verra að gera þetta allt með frábærum nemendum… og framúrskarandi leiðbeinendum… og fá sér gott veganesti… í mötuneytinu. En að sjá einhverja hvatningar-slepju-auglýsingastofu-drasl auglýsingar á ekki eftir að láta mig sækja um þarna ;).

Coca Cola Light

Fyrir nokkrum mánuðum gaf ég kalt mat á því hversu góðar mismunandi tegundir af kóki væru. Það má sjá hér. Síðan þá hefur bæst við ný kóktegund, Coca Cola Light, sem er ekki diet kók heldur önnur tegund af sykurlausu kóki. Ákvað að smakka það í þágu vísindanna og niðurstaðan er:

Coca Cola Light: Betra en Diet coke, verra en piss. Með sama ógeðssæta NutraSweet bragði og Pepsi Max. 0 stjörnur.

Hef reyndar líka séð sykurlaust OG koffínlaust kók (einnig þekkt sem “vatn”) í Hagkaup, það er í svona brúnum 330ml dósum en hef ekki prófað það þannig að get ekki dæmt um hversu gott það er. Annars er eini sykurlausi gosdrykkurinn sem er góður að sjálfsögðu Sprite Zero!

Bóla

Fótbolti á Skjá einum. Þoli ekki íþróttir! Íþróttir eru bara bóla, bóla sem á eftir að springa! Ég spái því að eftir nokkur ár muni enginn muna eftir þessum “íþróttum”…

Pravda

Muna: Ekki skrá sig oftar í óvissuferð! Stóð á viskuvefnum að það væri óvissuvísindaferð og á eftir væri svo farið á Pravda. Óvissan gekk semsagt útá það að keyra um í svona hálftíma í rútu, síðan var farið beint á Pravda. Að fara á Pravda án þess að vera orðinn fullur er eins og að fara í uppskurð án deyfingar. Ákvað að koma mér bara heim og taka DVD í staðinn.

SMS skyr???

Ekkert finnst mér fáránlegra en SMS-smáskyr. Af hverju SMS? Hvað kemur það skyri við? Hvað næst, GPS-sulta? XML-sinnep? FTP-jógúrt? Þetta er bara rugl!!