Category Archives: Nöldur

NordSec ’08 og íbúðarleit

Ég og Luke fengum niðurstöðuna úr verkefninu okkar og pappírinn okkar verður birtur í ráðstefnuriti fyrir ráðstefnuna ‘13th Nordic Workshop on Secure IT Systems‘ eða NordSec ’08. Fengum review frá þremur gaurum sem voru svona ágæt, ekkert æðisleg en nógu góð til að pappírinn verður birtur. Nú þurfum við að laga pappírinn eitthvað til skv. athugasemdum og skila inn lokaútgáfu 24. sept. Ráðstefnan er svo haldin í DTU 9-10. okt og þá verðum við með einhverja smá kynningu. Að halda kynningar er nú ekki eitthvað sem mér finnst gaman en maður hefur sjálfsagt gott af því.

Annars erum við bara á fullu núna að leita að nýrri íbúð. Við missum þessa íbúð í lok september þannig að þetta er farið að verða svolítið tæpt en við reddum þessu. Getum alltaf fengið einhverja íbúð á slæmum stað, við viljum bara reyna að fá íbúð sem er sæmilega nálægt skólanum svo ég sé ekki 2 tíma á dag í metro+lest+strætó. Þetta er aðeins skárra en í haust, núna erum við a.m.k. orðin nógu sleip í dönsku til að tala við væntanlega leigusala, maður heyrði það á mörgum í haust að þeir voru ekki sérlega hrifnir af því að þurfa að tala ensku við mann. Sumar auglýsingarnar á þessum leiguvefsíðum eru ansi spes. Einn vildi leigja íbúðina sína, en ekki einhverjum sem mundi búa þar full time, vildi bara leigja einhverjum sem byggi til dæmis á Jótlandi en kæmi nokkra daga í viku til Køben útaf vinnu. Annar vildi leigja íbúðina í meira en ár, en áskildi sér rétt til að henda leigjendunum út í 2-6 vikur á sumrin og láta vita af því með mánaðar fyrirvara. Svo eru náttúrulega margir sem geta alls ekki hugsað sér að fá börn í íbúðirnar sínar, algjör horror náttúrulega að leigja barnafjölskyldum!

Annars lentum við líka í leiðinlegu krappi um daginn. Vorum búin að finna mjög vænlega íbúð í Gentofte sem er rétt hjá skólanum, verðið var í lagi og konan hljómaði vingjarnleg í símanum. Vorum á leiðinni að skoða síðasta sunnudag og þá hringir hún í okkur svona 20 mínútum áður en við áttum að mæta og spyr hvar við séum. Við sögðum að við værum bara að labba niður götuna til hennar og hún sagði OK. Svo þegar hún fer að sýna okkur íbúðina er hún voðalega áhugalaus eitthvað, nennir ekkert að hlusta á okkur, sýnir ekki sameign eða kjallara og hafði engan áhuga á okkur. Áður en við förum segir hún að það sé einn annar mögulegur leigjandi sem sé að koma og hún láti okkur vita. Seinna um daginn hringir hún svo og segir að hún sé búin að selja íbúðina!!! Það stóð ekkert um að hún væri til sölu í auglýsingunni eða neitt. Þá fórum við að pæla meira í þessu og föttuðum að hún hefur auðvitað vitað áður en við komum að hún ætlaði ekkert að leigja okkur íbúðina, hringdi í okkur 20 mínútum á undan til að segja okkur að koma ekki en hefur hætt við það þegar hún heyrði að við værum rétt ókomin. Síðan vorum við skoðandi íbúðina og reynandi að segja henni eitthvað frá okkur eins og fífl, og áttum aldrei séns. Vorum grjótfúl restina af deginum og hugsuðum upp ýmis ljót dönsk orð til að kalla hana. Ég prófaði að leita að “danish swear words” núna á google og fann þessa fínu síðu. Kannski ekki góð síða til að opna t.d. í vinnunni þar sem það eru auglýsingar í kring með berbrjósta konum en þarna eru nokkrar góðar móðganir og blótsyrði, t.d. “Du er så grim at du gør blinde børn bange” og “Du ligner en ged og du lugter af tis“. Nú verð ég aldeilis tilbúinn fyrir næsta leigusala sem er fífl!

Er það afþví að ég er Íslendingur?

Ég er á fullu að leita að íbúðum hérna í Danmörku þar sem planið er að Karen og Daníel flytji hingað í janúar og það er talsvert erfitt ef við höfum enga íbúð til að flytja í. Eins gaman og það er að búa í hálfum gámi þá getur heil fjölskylda ekki búið þar 🙂 . En já, ég er búinn að senda fullt af emailum, hringja útum allan bæ og skoða nokkrar íbúðir. Í upphafi vorum við með kröfur um að íbúðin væri nú ekki of langt frá DTU og ekki of dýr. Núna hinsvegar viljum við bara finna einhverja íbúð sem er  ekki lengra  en klukkutíma í burtu.  Þegar maður skoðar litlar íbúðir í Danmörku sér maður oft mjööög lítil baðherbergi. Þegar ég fór til Ebbu og Hilmars voru þau t.d. með baðherbergi þar sem vaskurinn var inní sturtunni, maður dró bara sturtuhengi kringum svæðið og það var sturtan. En í fyrradag sá ég ennþá minna baðherbergi, og það í íbúð sem er leigð út á 7900 danskar, u.þ.b. 100.000 isk. Baðherbergið var 1 fermetri, það var klósett, vaskur alveg við klósettið og sturtuhaus á veggnum. Ef maður vildi fara í sturtu þyrfti maður grínlaust að sitja á klósettinu meðan maður væri að sprauta yfir sig. Jafnvel þó ég geti séð hvernig það gæti verið tímasparandi í vissum tilfellum þá er það frekar óspennandi. Sérstaklega með Daníel, ég sé mig fyrir mér sitjandi á klósetti, haldandi á Daníel og sprautandi vatni yfir okkur.

En já, svo hringdi ég í dag að tékka á einni íbúð sem ég sá á netinu. Tala aðeins við manninn (á ensku, já, danskan mín er ekki frábær, danir yfirleitt segja bara ha þegar ég reyni að tala dönsku) og hann spyr mig hvaðan ég sé. Ég segi að ég sé frá Íslandi og þá segir hann mér að hann vilji ekki leigja neinum útlendingum! Nei, vegna þess að ef það yrði nú eitthvað vesen þá yrði nú erfitt að ná í mig á Íslandi. Ég reyndi að segja honum að ég byggi í Danmörku, væri í skóla og svona, en nei, ekki séns. Hann var samt voða vingjarnlegur meðan hann sagði mér að hann vildi ekki leigja mér, var svona hálf afsakandi, en stóð alveg fastur á þessu. Í Danmörku er samt standard að borga 3 mánuði í deposit + 3 mánuði í fyrirframgreidda leigu þannig að hann væri með 6 * 7000 dkr, u.þ.b. hálfa milljón íslenskar frá mér áður en ég flytti einu sinni inn. En já, svona er þetta. Ég held áfram að leita og finn vonandi eitthvað fyrir 17. des

Grænmeti == Drasl

Það er stanslaust verið að segja manni að maður eigi að borða nóg af grænmeti og ávöxtum. “Helmingurinn af disknum á að vera grænn!”, “Tófú borgarar eru alveg jafn góðir og Burger King!” “Agúrka bjargar lífum”. Þetta er allt kjaftæði. Ég fór í 10-11 í gærkvöldi að kaupa mér eitthvað að borða. Í einhverju stundarbrjálæði [sem verður EKKI endurtekið] ákvað ég að það væri nú fínt að fá sér bara box úr salatbarnum, fylla það af allskonar grænmeti og pasta og vera svaka heilbrigður. Ég var meira segja svo duglegur að ég keypti bara Brazza til að drekka með, ekkert gos eða neitt svoleiðis. Jæja, fór heim, borðaði þetta, rosa ánægður með að vera svona heilbrigður.

Síðan í morgun vakna ég og mér líður eins og skít. Flökurt, með beinverki og bara slappur. Ákvað samt að láta reyna á að fara í vinnuna, skutlaði Daníel og Karen en þegar ég var búinn að því leið mér ennþá verr. Kom við í 10-11, keypti ostaslaufu og kók og fór síðan heim. Þar ældi ég þrisvar, lagði mig, leið ennþá eins og skít, ældi tvisvar í viðbót og er núna liggjandi uppí sófa bíðandi eftir næstu ælu. Ég hef oft farið í nammibarinn, hef aldrei orðið veikur af honum, en salatbarinn er bara instant gubbupest! nammi > salat! Þannig að, núna verður ekkert meira grænt. Helmingurinn af disknum verður kjöt, hinn helmingurinn af disknum verður meira kjöt, ekkert #”$%&$#%& grænmeti!! :S:S:S

Páskaegg

Þegar ég var lítill þá voru bara tvær gerðir af páskaeggjum, frá Nóa Siríus og Mónu. Nói Siríus var samt alltaf aðal, Mónuegg voru alltaf í öðru sæti, þó það mætti notast við þau í neyð. Núna hinsvegar eru komin páskaegg frá fullt af framleiðendum í allskonar stærðum og gerðum, t.d strumpaegg, púkaegg og Harry Potter egg. Mér finnst þetta farið ansi langt frá því sem páskarnir snúast um! Ég man a.m.k. ekki eftir neinum strumpum í Biblíunni (reyndar hef ég ekki lesið hana, en ég er nokkuð viss um að það eru engir strumpar þar, það kæmi mér mjög á óvart). Annað sem er asnalegt eru stærðirnar á páskaeggjunum í dag. Allir framleiðendur ættu auðvitað að fylgja metrakerfinu eins og Nói Siríus, en nei, sumir framleiðendur eru allt í einu bara með páskaegg nr. 9 sem er minna en páskaegg nr. 6 frá Nóa Siríus! Hvernig á maður eiginlega að bera svona saman til að ákveða hvað maður á að kaupa? Þetta er bara rugl! En sem betur fer þarf ég ekki að pæla í þessu þar sem ég fékk gefins ekta páskaegg frá vinnunni, Nóa Siríus egg nr. 4 með unga ofaná :).

Tóm comment

Einhver krapp bot frá http://vefsofnun.bok.hi.is kom inná síðuna mína og skildi eftir tóm comment á hverja einustu færslu á forsíðunni. Galli í síðunni hjá mér að GET fyrirspurnir á commentasíðuna geta skráð tóm comment. Búinn að laga það núna en þurfti fyrst að henda út 15 tómum commentum!

Gæðablaðamennska

Var í 10-11 áðan. Sá þá á forsíðunni á DV strák sem ég kannaðist við einu sinni og fyrirsögn um að hann hefði verið laminn og legið rænulaus í götunni. Kíkti í blaðið og las greinina. Það var alveg rétt sem stóð framan á, hann hafði verið laminn, var meðvitundarlaus og lá í götunni… …FYRIR MÖRGUM ÁRUM!! Jamm, þá reyndist fréttin vera um hvaða götuhorn í Reykjavík væri hættulegast og flestir verið lamdir og hann var bara tekinn sem dæmi. Þetta er auðvitað snilldar blaðamennska, endurnýta bara fréttir ef það vantar eitthvað á forsíðu! Ég sé fyrir mér næst þegar vantar eitthvað á forsíðuna:

MANNSHVÖRF! TVEIR MENN TÝNDIR!

Og svo þegar les sjálfa fréttina þá byrjar hún á “2 menn, Guðmundur og Geirfinnur, hurfu fyrir 25 árum…”.

Bíó

Fór með Gísla á bíó í gær. Ætluðum að fara á King Kong en misstum af henni kl. 9 og þar sem hún er u.þ.b. 4 sólarhringa löng þá nenntum við ekki að fara á hana kl. 10. Fórum á Hostel í staðinn, hún var fín, miklu betri en ég bjóst við. Sáum nokkra trailera á undan, flesta fyrir grínmyndir sem ég hef engan áhuga á. Áður en lengra er haldið þá eru hér 3 hlutir sem benda til þess að grínmynd sé léleg:

  1. Karlar í konufötum

    Hversu oft getur maður hlegið að sömu þreyttu bröndurunum um karla í kjólum? “HAHAHA, hann er að RAKA Á SÉR LAPPIRNAR!!” Neibb, ekki fyndið.

  2. Grannir leikarar í fitubúningum

    Sumum virðist finnast það fyndnasta í heimi að sjá fólk sem er grannt og fallegt í risastórum fitubúningum. “HAHAHA, það er eins og hann sé FEITUR!!”. Hvernig væri að leyfa bara feitu fólki að fá feitafólkshlutverkin í myndum?

  3. Framhaldsmyndir

    Í 95% tilfella eru framhaldsmyndir helmingi ófyndnari en upprunalegu myndirnar og það er engin önnur ástæða fyrir þeim en að græða peninga. American Pie myndirnar eru gott dæmi um þetta.

Og hvaða mynd ætli ég hafi svo séð auglýsingu fyrir? Jamm, Big Momma’s House 2! Mynd sem tekst að sameina alla verstu hlutina við grínmyndir í einni mynd. Framhaldsmynd um grannan karl sem þykist vera feit kona!

p.s.

Sá líka auglýsingar um tvær nýjar Steve Martin myndir, Cheaper By The Dozen 2 og Pink Panther. Steve Martin minnir mig á “Grínkonuna” í Stelpunum: Alltaf hress, aldrei fyndinn!

Hálsbólga

Er með hálsbólgu. Fékk mér heitt te fyrir hálsinn. Það lítur út eins og hland! Nákvæmlega eins og hland! Það er eins og ég sé með þvagprufu í bolla hérna á borðinu mínu!

Hálsbólga er líka krapp veikindi! Ef maður er með magapínu getur maður a.m.k. nýtt það sem afsökun til að drekka fullt af kóki, því það var upprunalega ætlað sem magameðal. Ef maður er með hálsbólgu þá getur maður bara fengið Strepsils, sem eru ógeðslega vondir brjóstsykrar. Ég vildi að það væri eitthvað gott nammi eða gos sem hefði upprunalega verið ætlað sem hálsbólgumeðal!

Batman Begins

Batman Begins logo
Fór á Batman Begins í gær. Snilldarmynd, jafnast á við Tim Burton Batman myndirnar og skrilljón sinnum betri en Batman Forever og Batman and Robin. Það eina glataða var að við sáum hana í sal 4 í Háskólabíó þar sem eru alltaf einhverjar truflanir, þegar ég sá The Incredibles þar þá voru hljóðtruflanir allan tímann og núna var gul lína lóðrétt yfir skjáinn svona helminginn af myndinni. Háskólabíó er drasl!

Krapp sjónvarpsefni!!!

Eru ALLAR bandarískar sjónvarpsmyndir um miðaldra húsmæður að berjast við banvæna sjúkdóma? Eða keypti Skjár 1 bara einhvern pakka með svona myndum? Þetta er þriðji sunnudagurinn í röð þar sem er sjónvarpsmynd um þetta efni, fyrst Alzheimer með Miu Farrow, svo einhver mynd um ALS með gellunni úr Just Shoot Me og núna “At the End of the Day”, mynd um konu sem fréttir að hún á ár eftir ólifað. Og hvaða fólk er þetta sem hefur gaman af þessum myndum? Er í alvörunni fólk þarna úti sem hugsar “Já, ég hef mjög gaman af myndum um fólk sem er að veslast upp og deyja, það eru mínar uppáhaldsmyndir!”. Er ég að ætlast til of mikils að vilja fá einhverja sæmilega afþreyingu á sunnudagskvöldum???