Ég og Luke fengum niðurstöðuna úr verkefninu okkar og pappírinn okkar verður birtur í ráðstefnuriti fyrir ráðstefnuna ‘13th Nordic Workshop on Secure IT Systems‘ eða NordSec ’08. Fengum review frá þremur gaurum sem voru svona ágæt, ekkert æðisleg en nógu góð til að pappírinn verður birtur. Nú þurfum við að laga pappírinn eitthvað til skv. athugasemdum og skila inn lokaútgáfu 24. sept. Ráðstefnan er svo haldin í DTU 9-10. okt og þá verðum við með einhverja smá kynningu. Að halda kynningar er nú ekki eitthvað sem mér finnst gaman en maður hefur sjálfsagt gott af því.
Annars erum við bara á fullu núna að leita að nýrri íbúð. Við missum þessa íbúð í lok september þannig að þetta er farið að verða svolítið tæpt en við reddum þessu. Getum alltaf fengið einhverja íbúð á slæmum stað, við viljum bara reyna að fá íbúð sem er sæmilega nálægt skólanum svo ég sé ekki 2 tíma á dag í metro+lest+strætó. Þetta er aðeins skárra en í haust, núna erum við a.m.k. orðin nógu sleip í dönsku til að tala við væntanlega leigusala, maður heyrði það á mörgum í haust að þeir voru ekki sérlega hrifnir af því að þurfa að tala ensku við mann. Sumar auglýsingarnar á þessum leiguvefsíðum eru ansi spes. Einn vildi leigja íbúðina sína, en ekki einhverjum sem mundi búa þar full time, vildi bara leigja einhverjum sem byggi til dæmis á Jótlandi en kæmi nokkra daga í viku til Køben útaf vinnu. Annar vildi leigja íbúðina í meira en ár, en áskildi sér rétt til að henda leigjendunum út í 2-6 vikur á sumrin og láta vita af því með mánaðar fyrirvara. Svo eru náttúrulega margir sem geta alls ekki hugsað sér að fá börn í íbúðirnar sínar, algjör horror náttúrulega að leigja barnafjölskyldum!
Annars lentum við líka í leiðinlegu krappi um daginn. Vorum búin að finna mjög vænlega íbúð í Gentofte sem er rétt hjá skólanum, verðið var í lagi og konan hljómaði vingjarnleg í símanum. Vorum á leiðinni að skoða síðasta sunnudag og þá hringir hún í okkur svona 20 mínútum áður en við áttum að mæta og spyr hvar við séum. Við sögðum að við værum bara að labba niður götuna til hennar og hún sagði OK. Svo þegar hún fer að sýna okkur íbúðina er hún voðalega áhugalaus eitthvað, nennir ekkert að hlusta á okkur, sýnir ekki sameign eða kjallara og hafði engan áhuga á okkur. Áður en við förum segir hún að það sé einn annar mögulegur leigjandi sem sé að koma og hún láti okkur vita. Seinna um daginn hringir hún svo og segir að hún sé búin að selja íbúðina!!! Það stóð ekkert um að hún væri til sölu í auglýsingunni eða neitt. Þá fórum við að pæla meira í þessu og föttuðum að hún hefur auðvitað vitað áður en við komum að hún ætlaði ekkert að leigja okkur íbúðina, hringdi í okkur 20 mínútum á undan til að segja okkur að koma ekki en hefur hætt við það þegar hún heyrði að við værum rétt ókomin. Síðan vorum við skoðandi íbúðina og reynandi að segja henni eitthvað frá okkur eins og fífl, og áttum aldrei séns. Vorum grjótfúl restina af deginum og hugsuðum upp ýmis ljót dönsk orð til að kalla hana. Ég prófaði að leita að “danish swear words” núna á google og fann þessa fínu síðu. Kannski ekki góð síða til að opna t.d. í vinnunni þar sem það eru auglýsingar í kring með berbrjósta konum en þarna eru nokkrar góðar móðganir og blótsyrði, t.d. “Du er så grim at du gør blinde børn bange” og “Du ligner en ged og du lugter af tis“. Nú verð ég aldeilis tilbúinn fyrir næsta leigusala sem er fífl!