Category Archives: Kvikmyndir

Bloggleti

Hef ekki verið duglegur að blogga undanfarið. Ástæðan er sú að ég hef verið í prófum og þegar maður er í prófum hefur maður eeeeeekkert að segja! Ég er ekki búinn að hugsa um annað síðustu 10 daga en fallaforritunarmál, ljósútreikninga, diffrun, heildun og núna stöðuvélar og Turing vélar. Ég kem heim eftir 10 tíma í skólanum, Karen spyr “hvað segirðu?” og ég segi “öööh, ég er búinn að læra að finna flatarmál milli tveggja ferla með heildun.” Ég er ekki samræðuhæfur!

En þetta endar allt á morgun, síðasta prófið, Stöðuvélar og Reiknanleiki. Hin prófin hafa öll gengið ágætlega og þetta gerir það vonandi líka. Svo er bara mánudagsdjamm og svo slappa af á þriðjudaginn. Á miðvikudaginn byrjar svo 3 vikna námskeið í vefþjónustum sem verður örugglega fínt 🙂

Er að hugsa um að bæta nokkrum fleiri kvótum við í quotes vinstra megin á síðunni. Ef einhver er með einhverjar góðar hugmyndir um fyndin kvót úr bíómyndum endilega skella því inní kommentakerfið.

Smáís auglýsing

Fór með Gísla í bíó í gær á gæðamyndina Exorcist – The Beginning. Lenti í smá vandræðum með að komast á hana þar sem hún var í Sambíóunum Álfabakka og það eru u.þ.b. 25 mislæg gatnamót á leiðinni þangað (Ég rata MJÖG illa allsstaðar og sérstaklega skil ég ekki mislæg gatnamót. Ég vill fara til vinstri, hvar á ég þá að vera, vinstri akrein, nei, hægri akrein, uppi, niðri? Alltof flókið! Og hvað er málið í Breiðholti, það mega ekki tvær götur krossast þá er búið að skella mislægum gatnamótum á þær!!). Þegar ég var búinn að keyra nokkra hringi og slaufur þá komumst við loks í bíóið og komumst að því að við vorum svona 8 árum eldri en allir aðrir þar. Myndin var skemmtileg (allar hryllingsmyndir eru góðar, alltaf!) en það sem var mest skemmtilegt var treilerinn frá Smáís, uppáhaldsfyrirtæki allra tölvunörda. Treilerinn var nokkurnveginn svona:

*Mynd af manni að stela bíl*

Texti: “ÞÚ MUNDIR EKKI STELA BÍL!”

*Mynd af manni að stela sjónvarpi*

Texti: “ÞÚ MUNDIR EKKI STELA SJÓNVARPI!”

*Mynd af manni að stela DVD disk á videoleigu*

Texti: “ÞÚ MUNDIR EKKI STELA KVIKMYND!”

Texti: “AÐ NÁ Í KVIKMYND AF NETINU ER ÞJÓFNAÐUR!!!”

*Mynd af tölvu með gjörsamlega svartan skjá nema það er risastór rauður progress bar og risastórir rauðir blikkandi stafir sem segja DOWNLOADING. Breytist síðan í DOWNLOAD COMPLETE, líka rautt, blikkandi og risastórt.*

Texti: “Smáís – Samtök myndrétthafa í Íslandi”.
Endir

Svo var myndin svona svarthvít og kornótt þegar það var verið að sýna fólk stela, allir stafir eru svona grófir og eru að hristast og hávær tónlist undir allan tímann. Allir vita að eina leiðin til að ná til ungs fólks er með háværri tónlist, “töff” myndatöku og einföldum skilaboðum…

Það sem mér fannst líka sérstaklega töff var forritið sem var verið að nota. Rosalega þætti mér gott að hafa svona forrit sem fyllti algjörlega skjáinn hjá manni þannig að maður sæi ekkert annað og sýndi ekkert hverju maður væri að downloada, hvað það væri stórt eða neitt, bara einn stóran progress bar og blikkandi stafi. Þetta er svona eins og í kvikmyndum þegar verið er að reyna að brjótast inní tölvukerfi, það kemur alltaf risastórt blikkandi ACCESS DENIED á skjáinn, mjög sjaldan sér maður venjulegt Windows messagebox með textanum “Incorrect username or password”.

Ýmislegt

Margir leikarar þakka Guði þegar þeir vinna Óskarsverðlaun. Ætli Mel Gibson þakki Jesú þegar hann vinnur fyrir Passion of the Christ?

Dávaldurinn var hérna í hádeginu. Mjöööööööög skrýtið. Birna, Gunnar, Sólrún og Stella voru öll dáleidd. Mjög fyndið 🙂 Ætla samt pottþétt aldrei að láta dáleiða mig, of creepy!!

Var að koma úr tvöföldum tíma í Stöðuvélum og Reiknanleika. Skemmtilegri áfangi en ég bjóst við. Finnst eiginlega eins og ég sé bara að leysa gestaþrautir. Gestaþrautir og Reiknanleiki.

Er annars bara að skrifa hérna til að fresta því að gera heimadæmin í Stærðfræðilegri greiningu. Vandamálið við Stærðfræðilega greiningu er ekki að hún sé erfið eða leiðinleg eða tilgangslaus, nei, vandamálið er að hún er AFSPRENGI DJÖFULSINS!

Goldfinger

Hmm. Er að horfa á Goldfinger. Snilldarmynd. En að drepa konu með því að mála hana frá toppi til táar með gullmálningu þannig að húðin fái ekki súrefni og hún kafni? Er það ekki u.þ.b. flóknasta og seinlegasta drápsaðferð sem til er? Og dýrasta? Gullmálning? Snilld samt sem áður 🙂

Hörmulegt sjónvarpsefni

Ég hef horft á mikið af lélegu sjónvarpsefni gegnum tíðina og tel mig ýmsu vanan. Hef séð Kastljós, Derrick, Nylon, sænska sjónvarpsmynd um sérstaka vináttu ungs drengs og hunds og margt fleira. Nú hefur hinsvegar botninum verið náð og titilinn VERSTA SJÓNVARPSEFNI EVER hlýtur:

Landshornaflakkarinn!

Skjár 1 á bara að sýna bandaríska afþreyingu, engan langar að sjá Súsönnu Svavarsdóttur tala við Sigurbjörn bónda frá bænum Rassaholu í Neðridal um hvað landsbyggðin sé frábær!! En almennt, ef maður vill vita hvað maður á ekki að horfa á þá eru hér nokkrar reglur:

  1. Allar myndir eða þættir með börnum í aðalhlutverkum eru rusl. Börn eru í 99% tilfella óþolandi í kvikmyndum.
  2. Allar myndir eða þættir með gömlu fólki sem aðalpersónum eru rusl. Tvöfalt rusl ef myndin er íslensk. Þrefalt rusl ef myndin er um gamalt íslenskt fólk úti á landi.
  3. Ef aðalpersónan á sniðugt gæludýr þá er myndin rusl. Tvöfalt rusl ef gæludýrið talar. (Þetta á ekki við um teiknimyndir).
  4. Allar íslenskar myndir sem eru ekki Sódóma Reykjavík eða 101 Reykjavík eru rusl. Tvöfalt rusl ef þær gerast í gamla daga. 800falt rusl ef þær eru eftir Hrafn Gunnlaugsson.
  5. Allt efni með Hemma Gunn, Gísla Marteini, Meryl Streep, Sally Field, Madonnu, Súsönnu Svavars eða einhverjum úr Nylon er rusl.
  6. Allar myndir þar sem tónlistarmenn halda að þeir séu leikarar eru rusl. Tvöfalt rusl ef tónlistarmaðurinn er rappari. Þrefalt rusl ef tónlistarmaðurinn er Madonna.

Ef myndin uppfyllir 2 eða fleiri atriði á þessum lista þá er hún súperrusl. Versta mynd í heimi væri semsagt íslensk mynd sem gerðist árið 1773, leikstýrt af Hrafni Gunnlaugssyni, með Madonnu, Sally Field og Gísla Marteini í aðalhlutverkum, þar sem þau byggju á Fáskrúðsfirði með 2 lítil börn, afa og ömmu og talandi hund.