Category Archives: Kvikmyndir

Eins og Yoda, þú talar!

Talaðu eins og Yoda…

Yoda
Nú er ég búinn að skrifa svakalegasta forrit sem ég hef nokkurntímann gert.
Þetta forrit tekur venjulegar setningar og breytir þeim í Yoda setningar! T.d. setningin “Þú ert eitthvað skrýtinn!” verður “Eitthvað skrýtinn, þú ert!” og “Þú þarft virkilega að finna þér nýtt áhugamál” verður “Virkilega að finna þér nýtt áhugamál, þú þarft”. Mjög gagnlegt!


Bíó

Fór með Gísla á bíó í gær. Ætluðum að fara á King Kong en misstum af henni kl. 9 og þar sem hún er u.þ.b. 4 sólarhringa löng þá nenntum við ekki að fara á hana kl. 10. Fórum á Hostel í staðinn, hún var fín, miklu betri en ég bjóst við. Sáum nokkra trailera á undan, flesta fyrir grínmyndir sem ég hef engan áhuga á. Áður en lengra er haldið þá eru hér 3 hlutir sem benda til þess að grínmynd sé léleg:

  1. Karlar í konufötum

    Hversu oft getur maður hlegið að sömu þreyttu bröndurunum um karla í kjólum? “HAHAHA, hann er að RAKA Á SÉR LAPPIRNAR!!” Neibb, ekki fyndið.

  2. Grannir leikarar í fitubúningum

    Sumum virðist finnast það fyndnasta í heimi að sjá fólk sem er grannt og fallegt í risastórum fitubúningum. “HAHAHA, það er eins og hann sé FEITUR!!”. Hvernig væri að leyfa bara feitu fólki að fá feitafólkshlutverkin í myndum?

  3. Framhaldsmyndir

    Í 95% tilfella eru framhaldsmyndir helmingi ófyndnari en upprunalegu myndirnar og það er engin önnur ástæða fyrir þeim en að græða peninga. American Pie myndirnar eru gott dæmi um þetta.

Og hvaða mynd ætli ég hafi svo séð auglýsingu fyrir? Jamm, Big Momma’s House 2! Mynd sem tekst að sameina alla verstu hlutina við grínmyndir í einni mynd. Framhaldsmynd um grannan karl sem þykist vera feit kona!

p.s.

Sá líka auglýsingar um tvær nýjar Steve Martin myndir, Cheaper By The Dozen 2 og Pink Panther. Steve Martin minnir mig á “Grínkonuna” í Stelpunum: Alltaf hress, aldrei fyndinn!

Godfather með hálsbólgu

Það eina sem er gott við hálsbólgu er að núna tala ég eins og the Godfather! Það er að sjálfsögðu ekkert nema svalt! Nú þarf ég að fara að gera fólki tilboð sem það getur ekki hafnað 🙂

(Karen reyndar heldur því fram að ég hljómi eins og ég sé í mútum. Það er náttúrulega bara rugl!)

Batman Begins

Batman Begins logo
Fór á Batman Begins í gær. Snilldarmynd, jafnast á við Tim Burton Batman myndirnar og skrilljón sinnum betri en Batman Forever og Batman and Robin. Það eina glataða var að við sáum hana í sal 4 í Háskólabíó þar sem eru alltaf einhverjar truflanir, þegar ég sá The Incredibles þar þá voru hljóðtruflanir allan tímann og núna var gul lína lóðrétt yfir skjáinn svona helminginn af myndinni. Háskólabíó er drasl!

Meiri líkamsrækt

Rocky með hendur uppí loftLíkamsræktarátakið er ennþá í fullum gangi og gengur vel. Er farinn að geta hlaupið meira en einn hring kringum Miklatún og er hættur að fá harðsperrur eftir að ég fór að gera nóg af teygjuæfingum fyrir og eftir skokkið (þó ég geri þær að sjálfsögðu ekki upp við ljósastaura, heldur heima hjá mér, með dregið fyrir, inní skáp). Ég er líka búinn að minnka nammiátið niður í tvisvar í viku, þannig að nú borða ég bara nammi á virkum dögum og um helgar. Karen benti mér á að það eina sem mig vantaði núna væru góðar tröppur til að hlaupa upp þegar ég væri að klára skokkið, eins og Rocky gerði alltaf. Þetta finnst mér snilldarhugmynd sem mundi gera skokkið a.m.k. 200% meira töff! Það eru reyndar tröppur hjá húsinu mínu en þær eru u.þ.b. 5 talsins og liggja niður þannig að það er enginn rosalegur hápunktur á skokkinu að hlaupa þær. Karen sagði mér að hlaupa til Akureyrar því þar væru fínar tröppur fyrir mig en þar sem það er víst fulllangt í burtu þá auglýsi ég hér með eftir góðum tröppum hér í Reykjavík til að hlaupa upp. Og já, ef einhver á theme-ið úr Rocky á mp3 þá væri það vel þegið 🙂

Krapp sjónvarpsefni!!!

Eru ALLAR bandarískar sjónvarpsmyndir um miðaldra húsmæður að berjast við banvæna sjúkdóma? Eða keypti Skjár 1 bara einhvern pakka með svona myndum? Þetta er þriðji sunnudagurinn í röð þar sem er sjónvarpsmynd um þetta efni, fyrst Alzheimer með Miu Farrow, svo einhver mynd um ALS með gellunni úr Just Shoot Me og núna “At the End of the Day”, mynd um konu sem fréttir að hún á ár eftir ólifað. Og hvaða fólk er þetta sem hefur gaman af þessum myndum? Er í alvörunni fólk þarna úti sem hugsar “Já, ég hef mjög gaman af myndum um fólk sem er að veslast upp og deyja, það eru mínar uppáhaldsmyndir!”. Er ég að ætlast til of mikils að vilja fá einhverja sæmilega afþreyingu á sunnudagskvöldum???