Category Archives: Kvikmyndir

Spurt og svarað

Þessi síða hefur hingað til snúist aðallega um nokkra hluti: forritun, kvikmyndagetraunir, almennt nöldur og tuð og svo hefðbundar dagbókarfærslur (… í dag fór ég í Kringluna og keypti mat…) sem eru bara áhugaverðar fyrir örfáa aðila. Hinsvegar kemur reglulega fólk hingað inn sem hefur leitað að einhverju í Google eða öðrum leitarvélum og verið vísað hingað. Stundum finnur það sem það er að leita að, en oft er það að leita að einhverju sem þessi síða hefur engin svör við. Af þessu tilefni (og af því að mér leiðist hrikalega) hef ég ákveðið að taka nokkra af þeim leitarfrösum sem hafa lent hérna síðustu mánuði og svara þeim svo það geti e.t.v. hjálpað öðrum í framtíðinni.

graenmeti
Fylltu einn þriðja af diskinum með því.

Hvar getur maður fundið símanúmer
Í símaskránni, eða ja.is á netinu.

Læknavaktin (165 fyrirspurnir)
Ég er ekki hrifinn af henni.

Rúmteppi (37 fyrirspurnir)
Prófaðu að fara í IKEA og fá þér svo sænskar kjötbollur á eftir.

ironic
Hérna er skilgreining á hvað er ekki ironic.

danmörk dtu blogg, DTU danmörk blogg
Þú ert á réttum stað, kíktu á færslurnar sem eru merktar með taginu DTU.

ég veit þér finnst ég of feit, þú bauðst mér aldrei á deit
Greinilega Nylon aðdáandi, kíktu á þessa færslu fyrir fleiri dæmi um góða Nylon texta.

Ariston, Ísskápur (og afbrigði af því, 100 fyrirspurnir)
Okkar Ariston ísskápur hefur virkað vel, mæli með þeim. (Og greinilegt að planið mitt er að virka!).

februar
Öhh, annar mánuðurinn í árinu, 28 dagar nema á hlaupárum, þá eru þeir 29. Veit ekki hvað meira er hægt að segja um hann?

strcpy
Notaðu strncpy í staðinn til að sleppa við buffer overflow.

guðmundur og geirfinnur
Kíktu á http://mal214.googlepages.com/, þar er manneskja sem er með þetta allt á hreinu.

tennis orð
spaði, bolti, Boris Becker.

MSN bot
Kíktu á http://tech.einaregilsson.com/projects/windows-live-bot.

spiderman 12
Ekki komin út, nýjasta myndin er Spiderman 3, sem var frekar slöpp. Um leið og Spiderman varð svartur gat hann dansað! Dulinn rasismi!

welcome to the jungle þýðing
Samkvæmt þessari þýðingarvél er fyrsta versið svona:

Velkominn til the frumskógur Við got gaman ‘n’ leikur
Við got allt þú vilja
Hunang við vita the nafni
Við ert the fólk þessi geta finna
Hvað sem þú mega þörf
Ef þú got the peningar hunang
Við got þinn sjúkdómur

Sjá fulla þýðingu hér.

skírn heilræði, heilræði við skírn
Hafðu snuð við hendina ef barnið fer að gráta þegar það er skvett vatni á það. Hafðu líka aukableyju við hendina. Ekki skíra barnið Svarthöfði.

verg þjóðarframleiðsla, hvað er verg framleiðsla, verg, vergur óhreinn mengaður (21 fyrirspurn)
Ósk útskýrir það ágætlega í kommentunum við þessa færslu.

góð kvót
“Intet er så godt at det ikke er skidt for noget”

hvernig segir maður 80 á dönsku
firs

Fyndin kvót
“Necessary?? Is it neccessary for me to drink my own urine? Probably not. But I do it because it’s sterilized and I like the taste”. Mini kvikmyndagetraun, jolly cola í verðlaun.

“Ég bít ekki á ryðgaðan öngul”
Ég mæli með því að bíta alls ekki á neinn öngul. Jafnvel ryðfríir önglar geta valdið alvarlegum skaða í munnholi ef maður bítur í þá.

cybercity 2002 (3 fyrirspurnir)
Hér má finna umræðu um þennan glæsivef og afrit af honum.

kennitalan mín
Kíktu aftan á debetkortið þitt.

steinbitsburrito
Örn kokkur hjá TM Software getur gefið þér uppskrift af því.

þriggja blaðsíðna ritgerð
Hafðu fyrstu blaðsíðuna forsíðu, næstu efnisyfirlit og þá þriðju heimildaskrá, þá ætti þetta ekki að taka langan tíma.

klám, klám password, simpsons klám, hommaklám, gott klám (15 fyrirspurnir)
Nágranni okkar í Svarthömrum rekur síðuna klam.is (og er með bílinn sinn merktan henni í bak og fyrir). Prófaðu það. Veit reyndar ekki hvort þar er að finna gott Simpsons hommaklám (Smithers?) en það má a.m.k. athuga það. (Hver leitar annars að “gott klám”? “Ég vill ekki neitt drasl klám, ég vill bara gott klám! Alvöru leikstjórn og búningahönnun eru skilyrði!”).

tölvugrafík verkefni, verkefni opengl (5 fyrirspurnir)
Hér og hér eru mín verkefni, en kóðinn er ekki innifalinn, þú verður að skrifa hann sjálfur.

alda en wannes, alda belgíu
Kíktu á http://aldaegils.blogspot.com.

töff setningar
“Good luck at the bad timing awards”. Önnur mini kvikmyndagetraun, Haribo í verðlaun.

bubbi rapp, bubbi í rapp, bubbi nýtt rapp lag, bubbi rappa yo
Maður með svona skelfilegan sérstakan tónlistarsmekk hefði kannski gaman af þessu lagi.

matlock on dvd
Matlock varði alltaf bara saklaust fólk. Nema í einum þætti þá var skjólstæðingurinn sekur, og þá sýndi Matlock sjálfur fram á það í réttarsalnum. Ég held hann hafi aðeins misskilið hlutverk sitt sem lögfræðingur sakborningsins. En já, kíktu á Amazon.

skattkort danmörk
Mættu bara á næstu skattútibú með atvinnusamninginn þinn og þeir redda þessu á staðnum. Getur líka kíkt á skat.dk.

Ef fólk vill fá fleiri ráðleggingar eða svör við spurningum er velkomið að senda mér þær í pósti.

Good luck at the bad timing awards

Die Hard 4 um daginn. Hún var ágæt. Besta kvótið í myndinni:

[John McClane er að ná í Matt, Matt þykist vera einhver annar]

Matt’s Friend: Hey Matt, I just downloaded that new copy of Killzone, the one that’s not out yet. You wanna play?
Matt: Nooooo thanks, but good luck at the bad timing awards.

Fer annars bráðum að skrifa meira hérna. Fer til Danmerku eftir 2 vikur og þá verð ég örugglega duglegri að blogga 🙂

48 klst DVD

Við erum búin að vera að prófa þetta 48 tíma DVD sem maður getur keypt útum allt núna. Fyrir þá sem ekki vita þá er þetta DVD diskar sem maður kaupir á 500 kall, og þeir eiga að eyðileggjast u.þ.b. 48 klst eftir fyrstu spilun. Það er semsagt eitthvað efni í þeim sem dreifist um diskinn við snúninginn og það eyðileggur diskinn. Við tókum tvær myndir síðustu helgi, Rauðhettu og Bandidas og horfðum á þær á sunnudagskvöldið. Svo var Bandidas í gangi í spilaranum í nokkra daga því við gleymdum að slökkva á honum. Núna, 7 dögum seinna, virka báðar myndirnar ennþá fullkomlega. Ég og Daníel erum einmitt að horfa á Rauðhettu núna. Nú verð ég að prófa þetta á hverjum degi til að sjá hvenær eða hvort þetta eyðileggst! Ég reyndi líka að taka aðra mynd, Lucky Number Slevin en þá var vitlaus mynd í pakkanum!

Íslensk kvikmyndagetraun

Kominn tími á nýja getraun. Best að hafa smá þema, þetta eru allt íslensk kvót. Þar sem enginn virðist nokkurntímann vitja vinningana úr þessum getraunum þá skulum við bara hafa gullkórónu og Ferrari í verðlaun.

  1. “Þungur hnífur!”
  2. “Ég bít ekki á ryðgaðan öngul.”
  3. “Þetta er Dodge Dart, fíflið þitt!”
  4. “Eina ástæðan fyrir að fólk býr hérna er að það fæddist hérna!”
  5. “Og þarna var ég ..með Baltasar Kormáki.. og Birgittu Haukdal… í Húð og Kyn…og þá kom Bergsveinn úr Sóldögg sagði: Hvar er Bob Dylan???”

Spurning 1-4 gefa 1 stig hver, en spurning 5 gefur 5 stig. Ég veit ekki sjálfur hvaðan þetta kvót er, en rakst á það á einhverri bloggsíðu um daginn og er viss um að ég hef heyrt það áður einhversstaðar!(Eða kannski er þetta ekki úr neinu og ég er bara að ruglast :))

Nördagetraun – úrslit

Jæja, það var fullt af svörum við getrauninni. Flestir voru með spurningu 2 rétta, svarið var að sjálfsögðu Ghostbusters en aðeins 3 voru með spurningu 1 rétta, það voru Lauga, Árni og Hrannar. Hrannar er reyndar dæmdur úr leik þar sem ég sagði honum svarið við spurningu 2 á Burger King þannig að Lauga og Árni eru sigurvegararnir og fá sitthvora tómu kókflöskuna. Hægt er að vitja vinningana á skrifstofutíma í Hlíðasmára 12.

Snakes on a plane!!!

Stundum sér maður trailer fyrir kvikmynd sem maður vissi ekki af og hugsar með sér að maður verði að sjá þessa mynd. Aðrar myndir eru þannig að maður þarf ekki einu sinni að sjá trailerinn, það er nóg að heyra nafnið til að vita að þær munu verða snilld. Gott dæmi um þetta er myndin Snakes on a plane sem er væntanleg í bíó. Hvernig gæti þessi mynd verið nokkuð annað en snilld? Snakes on a plane? Maður veit strax um hvað hún er, það eru snákar, það er flugvél, snákarnir eru í flugvélinni. Og í þokkabót leikur Samuel L. Jackson í henni. Þetta verður klárlega mynd ársins!

Wax on, wax off!

Karate Kid á Skjá einum. Snilldarmynd! Þeir ætla að sýna fullt af svona 80’s myndum næstu sunnudaga þannig að þá veit ég hvað ég verð að gera næstu sunnudagskvöld 🙂

Viðbrögð við bíóvísitölu



“Þessi bíóvísitala þín er drasl.”

“Þetta er það ömurlegasta sem ég hef séð!”

“… þú fokking ógeðslegi ófindni Búðingur!”

“…greinilegt að þú hefur ekki HUNDSVIT á bíómyndum…”

“Þú ættir að skammast þín fyrir þetta…”

“DONT JUDGE A BOOK BY ITS COVER ASSHOLE!”

“…þegar fólk er jafn heimskt og þú.”

“Þú ert fáviti drengur.”

“Vá hvað þú ert með lélegan bíómynda smekk…”

“Þú ert alveg yfirnáttúrulega heimsk manneskja, hversu heimskur getur einn maður verið?”

“…hversu mikilli sæmd vill einn maður hrinda frá sér í tilraun til þess að REYNA að vera fyndinn?” [Tilraun er skv. skilgreiningu að reyna eitthvað. Ég er semsagt að reyna að reyna að vera fyndinn. Vonandi tókst mér að reyna það. -Einar]

Ekki voru allir jafn hrifnir af bíóvísitölunni…

Mér sýnist samt að fólk hafi aðallega skipst í 3 flokka:

  1. Þeim sem fannst þetta fyndið. Voru sumir ósammála stigagjöfinni en voru a.m.k. ekki að taka þetta of alvarlega.
  2. Þeim sem fannst þetta ömurlegt og ég vera fáviti. Þetta var fólk sem var móðgað útaf einstökum atriðum eða sem fannst hugmyndin bara almennt glötuð. Tóku þetta mjög alvarlega!
  3. Þeir sem urðu sárir yfir þessu. Þetta finnst mér skrýtnasti hópurinn. Komment eins og:


    “Þú sem sagt getur talað fyrir allt fólk á landinu, hvað veist þú nema að einhverju fólki finnist eitthvað af þessu skemmtilegt.”

    “kannski finnst þér þetta en ekki öðru fóli”

    “það skiptir ekki máli hverjir leika í henni, hver leikstýrir eða skrifar handritið, hvort það er einhver leikari sem fer í taugarnar á ÞÉR þá eru aðrir sem fíla viðkomandi. Hvernig væri nú ef þú hugsaðir aðeins betur hvað þú ert að fara skrifa áður en þú “postar” því inn á bloggsíðuna”

    Þetta finnst mér skrýtnast af öllu. Maður má semsagt ekki skrifa það sem manni finnst af því að “kannski finnst öðrum þetta skemmtilegt”. Auðvitað er þetta bara mín skoðun, ekki skoðun allra í heiminum. Ég hefði haldið að fólk mundi fatta það, en nei, greinilega ekki. Hérna
    er smá hint um hvernig má þekkja í sundur hvað er bara mín skoðun og hvað er algildur sannleikur: Ef þið eruð að lesa færslu sem er skrifuð af mér, á minni bloggsíðu, með nafninu mínu undir, þá er það bara mín skoðun!

Og í lokin, uppáhalds kommentið mitt:

“Sem þíðir að þú ert ekki rosalega gáfaður og ég myndi bara hætta að blogga og hætta að tjá þig ef ég væri þú.NIÐUR MEÐ LÁGMENNINGU!! *kapla*”

Alltaf gaman þegar einhver er að segja manni að maður sé ekki gáfaður og endar svo kommentið á að skrifa *kapla*, það ber vott um himinháa greindarvísitölu. Já, við skulum öll kapla saman lófunum fyrir því hvað þetta var gott komment og hvað hann sagði mér vel til syndanna! *kapl* Hver veit, við gætum jafnvel staplað niður fótunum líka! *stapl*

[Athugið að það er bara mín skoðun að þetta hafi verið gott komment. Öðru fólki gæti þótt þetta komment vera lélegt, sæmilegt eða ágætt og þeirra skoðun á alveg jafn mikinn rétt á sér og mín. Þetta er allt afstætt. [Athugið að það er bara mín skoðun að þetta sé allt afstætt. Öðru fólki … o.s.fv.]]

Bíóvísitala

Ætlaði á Johnny Cash myndina um daginn en þá var Gísli búinn að sjá hana þannig að við ákváðum að finna eitthvað annað. Þegar ég skoðaði bíóauglýsingarnar þá var ekkert nema krapp þar og svo King Kong. Þá fór ég að pæla að það væri nú gott að hafa svona bíóvísitölu sem segði manni hvort það væri mikið af góðu stöffi í bíó. Þá væri einhver grunntala í vísitölunni, t.d. 500 og svo færi hún hækkandi eða lækkandi miðað við hvernig myndir væru í bíó á hverjum tíma. Það væru þá ákveðnir hlutir í myndunum sem gætu haft áhrif á vísitöluna, t.d.:

  • Meryl Streep, Sally Field, Madonna, Julia Roberts: -40 stig hver
  • Samkynhneigðir kúrekar: -20 stig
  • Vélmenni: +10 stig
  • Geimverur: +10 stig
  • Zombies: +30 stig
  • Geimverur sem taka yfir fólk og fara að stjórna því: +15 stig
  • Eitthvað sem hefur “Fast” og/eða “Furious” í nafninu: -20 stig
  • Ofbeldi: +10
  • Risavaxin górilla: +30 stig
  • Búningamynd: -30 stig
  • Hryllingsmynd: +20 stig
  • Johnny Cash: +15 stig
  • Vin Diesel: -20 stig
  • Framhaldsmynd: (númer myndar * -10 stig)
  • Fjölskyldumynd: -5 stig
  • Einstæð móðir sem er hetja: -10 stig
  • Steve Buscemi: +30 stig
  • Disney: +5 stig
  • Endurgerð: -5 stig
  • Mafían: +15 stig
  • Börn: -10 stig
  • Gamalt fólk: -20 stig (nema ef gamlir vitrir karatemeistarar, þá +30)
  • Drama: -10 stig
  • Lengri en 2 og hálfur tími: -5 stig
  • Ástarsaga: -10 stig
  • James Bond: -5 stig
  • Fólk í fitubúningum: -30 stig
  • Chuck Norris: +400 stig
  • Karlar í konufötum: -30 stig
  • Steve Martin: -20 stig
  • Ævintýramynd: +5
  • Steven Spielberg: +10
  • Ofurhetjur: +10 stig (+50 ef Batman)
  • …og eitthvað fleira

Þannig ef að við tækjum t.d. vísitöluna miðað við nokkrar myndir núna:

  • Casanova (-30 búningamynd, -10 ástarsaga) = -40
  • Final Destination 3 (+20 hryllingsmynd, 3 * -10 framhaldsmynd) = -10
  • Bambi 2 (+5 Disney, 2 * -10 framhaldsmynd) = -15
  • North Country (-10 einstæð móðir, -10 drama) = -20
  • Munich (+10 Steven Spielberg, -10 drama) = 0
  • Pride and Prejudice (-30 búningamynd, -10 ástarsaga) = -40
  • King Kong (+30 risagórilla, +10 ofbeldi, -5 lengri en 2,5 klst) = +35
  • Chronicles of Narnia (+5 ævintýramynd, -10 börn, -5 fjölskyldumynd) = -10
  • Cheaper by the Dozen 2 (2 * -10 framhaldsmynd, -5 fjölskyldumynd, -20 Steve Martin) = -45
  • The Fog (+20 hryllingsmynd, -5 Endurgerð ) = +15
  • Brokeback Mountain (-20 samkynhneigðir kúrekar, -10 ástarsaga, -10 drama) = -40
  • Memoirs of a Geisha (-10 drama, -30 búningamynd) = -40

-40 – 10 – 15 -20 + 0 -40 + 35 – 10 – 45 + 15 – 40 – 40 = -210

500 – 210 = 290

Bíóvísitalan er semsagt núna 290 og er í sögulegu lágmarki => Núna er augljóslega ekki góður tími til að fara í bíó!