Ég hef nú oft vælt um það að ég þurfi að fara að stunda íþróttir en lítið hefur gerst í þeim málum. Núna hinsvegar er ég búinn að stunda íþrótt á hverjum virkum degi í meira en mánuð, bæði fyrir og eftir hádegi! Þessi göfuga íþrótt er að sjálfsögðu pílukast! Á hverjum degi tek ég einn leik við Hrannar fyrir hádegi og einn eftir hádegi. Þetta er reyndar spes leikur sem gengur útá að hitta þrisvar í 18, 19 og 20 og tekur svona tæpar 10 mín, við erum ekki að taka alvöru leiki því það tæki alltof langan tíma. Ég hef aðeins verið að taka saman stöðuna og hún er núna 63 – 2 fyrir Hrannari.
Ég finn líka alveg muninn á mér eftir að ég byrjaði þessa öflugu íþróttaiðkun, margir líkamspartar orðnir sterkari og liðugri, t.d. … öh, olnboginn á hægri hendi og… hmmm.. já, olnboginn á hægri hendi. Hann er orðinn mjög sterkur! Pílukast er nú eiginlega bara ein hreyfing, halda hendinni uppi og hreyfa svo framhandlegginn um 45 gráður. En núna get ég farið að taka íþróttaiðkunina uppá næsta stig, því nú er komið foosball borð hérna í Libra! Pílukast OG foosball, ég er orðinn algjör íþróttaálfur…