Category Archives: Íþróttir

Íþróttaálfur

Ég hef nú oft vælt um það að ég þurfi að fara að stunda íþróttir en lítið hefur gerst í þeim málum. Núna hinsvegar er ég búinn að stunda íþrótt á hverjum virkum degi í meira en mánuð, bæði fyrir og eftir hádegi! Þessi göfuga íþrótt er að sjálfsögðu pílukast! Á hverjum degi tek ég einn leik við Hrannar fyrir hádegi og einn eftir hádegi. Þetta er reyndar spes leikur sem gengur útá að hitta þrisvar í 18, 19 og 20 og tekur svona tæpar 10 mín, við erum ekki að taka alvöru leiki því það tæki alltof langan tíma. Ég hef aðeins verið að taka saman stöðuna og hún er núna 63 – 2 fyrir Hrannari.

Ég finn líka alveg muninn á mér eftir að ég byrjaði þessa öflugu íþróttaiðkun, margir líkamspartar orðnir sterkari og liðugri, t.d. … öh, olnboginn á hægri hendi og… hmmm.. já, olnboginn á hægri hendi. Hann er orðinn mjög sterkur! Pílukast er nú eiginlega bara ein hreyfing, halda hendinni uppi og hreyfa svo framhandlegginn um 45 gráður. En núna get ég farið að taka íþróttaiðkunina uppá næsta stig, því nú er komið foosball borð hérna í Libra! Pílukast OG foosball, ég er orðinn algjör íþróttaálfur…

Hvað er að gerast?

Alda systir heimtar að ég skrifi eitthvað hérna. Mér dettur reyndar ekkert í hug til að skrifa um þessa dagana þannig að ég bjó til lista yfir það sem hefur verið að gerast síðasta mánuðinn. (Já mér finnst listar góðir. Ég er einhverfur)

  1. Er farinn að leysa Sudoku þrautirnar í Fréttablaðinu, sem by the way eru svipað ávanabindandi og að reykja krakk! Síðan þegar maður var orðinn vanur því þá kom Blaðið allt í einu með Samurai gátu sem er 5 Sudoku þrautir fastar saman. Fimmfalt krakk!
  2. Byrjaður að vinna hjá TM Software. Veit ekki hversu mikið ég má segja um hvað ég er að vinna við hérna en ég held að það sé óhætt að segja að þetta er kerfi sem heitir [ritskoðað]sem gerir manni kleift að [ritskoðað] á miklu einfaldari hátt en [ritskoðað]. Það sem ég er aðallega að vinna við í kerfinu er [ritskoðað] sem er ansi spennandi því það notar tækni sem kallast [ritskoðað] sem hægt er að [ritskoðað] og [ritskoðað].
  3. Erum flutt úr íbúðinni á Guðrúnargötunni (sem var svo lítil að mýsnar voru með kryppu) yfir í íbúðina hjá tengdapabba í Neðstaleiti (sem er svo stór að mýsnar… eh… eru beinar í baki?) Ok, skelfilegur brandari! En já, þetta er a.m.k. miklu betri íbúð og við verðum hérna þar til við finnum okkur nýja íbúð til að kaupa. Erum í því að ganga frá Guðrúnargötunni núna og ætlum að reyna að selja hana sem fyrst. Ef einhvern langar að kaupa íbúð þá bara láta mig vita 🙂
  4. Er hættur að skokka. Skokk er fyrir plebba.
  5. Byrjaður og hættur í nýju líkamsræktarátaki sem gekk útá að hlaupa upp 8 hæðir uppí matsal á hverjum degi. Það entist í tvo daga.
  6. Erum búin að fá okkur nýtt rúm sem mamma og pabbi gáfu okkur í brúðkaupsgjöf. Gamla rúmið okkar var svo mjótt að við urðum að liggja uppá rönd í því en nýja rúmið er aftur á móti álíka stórt að flatarmáli og íbúðin okkar í Guðrúnargötunni (sem var svo lítil að mýsn… hafiði heyrt þennan áður?). Það er a.m.k. mjög stórt, sem veitir ekki af ef ég fer ekki að drífa mig í nýtt líkamsræktarátak!

Svo er náttúrulega fullt að frétta af Daníel en það má lesa um það á síðunni hans.

Meiri líkamsrækt

Rocky með hendur uppí loftLíkamsræktarátakið er ennþá í fullum gangi og gengur vel. Er farinn að geta hlaupið meira en einn hring kringum Miklatún og er hættur að fá harðsperrur eftir að ég fór að gera nóg af teygjuæfingum fyrir og eftir skokkið (þó ég geri þær að sjálfsögðu ekki upp við ljósastaura, heldur heima hjá mér, með dregið fyrir, inní skáp). Ég er líka búinn að minnka nammiátið niður í tvisvar í viku, þannig að nú borða ég bara nammi á virkum dögum og um helgar. Karen benti mér á að það eina sem mig vantaði núna væru góðar tröppur til að hlaupa upp þegar ég væri að klára skokkið, eins og Rocky gerði alltaf. Þetta finnst mér snilldarhugmynd sem mundi gera skokkið a.m.k. 200% meira töff! Það eru reyndar tröppur hjá húsinu mínu en þær eru u.þ.b. 5 talsins og liggja niður þannig að það er enginn rosalegur hápunktur á skokkinu að hlaupa þær. Karen sagði mér að hlaupa til Akureyrar því þar væru fínar tröppur fyrir mig en þar sem það er víst fulllangt í burtu þá auglýsi ég hér með eftir góðum tröppum hér í Reykjavík til að hlaupa upp. Og já, ef einhver á theme-ið úr Rocky á mp3 þá væri það vel þegið 🙂

“Harðsperrur” ????

Þegar ég vaknaði í morgun var ég sannfærður um að ég væri lærleggsbrotinn á báðum löppum þar sem ég var með þvílíka verki í þeim og gat varla labbað. Ég skildi ekki almennilega hvernig ég hafði lærleggsbrotnað meðan ég var sofandi en eftir að hafa kynnt mér málin á netinu kom í ljós að ég er alls ekki brotinn heldur er ég víst með eitthvað sem kallast “harðsperrur”. Þessar svokölluðu “harðsperrur” eru víst eitthvað sem maður fær af að skokka. Af hverju lét enginn mig vita af þessu???

Hvernig á að vera töff í líkamsrækt

Líkamsræktarátakið er hafið! Þrátt fyrir góðar tillögur í kommentakerfinu þá urðu hvorki Líkami fyrir lífið né amfetamínsterar fyrir valinu. Nei, ég ákvað að skokka frekar í kringum Miklatún enda fátt hollara en að hlaupa á meðan maður andar að sér útblæstrinum frá 1000 bílum á Miklubrautinni. Eins og alþjóð veit þá er ég mjög kúl maður en skokk er afturámóti eitthvað það allra plebbalegasta sem maður getur mögulega gert. En með ákveðnum aðferðum er hægt að skokka og halda samt kúlinu. Svona er það gert:

  • Ekki ganga í níðþröngum glansbuxum eins og skokkarar gera oft. Ég vill ekki heyra neitt rugl um vindmótstöðu, svona glansbuxur eru algjörlega bannaðar ef maður vill vera töff skokkari.
  • Ekki vera með bjánaleg sólgleraugu.
  • Þegar ég mæti fólki á leiðinni kringum Miklatún hrópa ég á það að fyrra bragði “ÉG ER AÐ MISSA AF STRÆTÓ!!” svo það fatti ekki að ég sé úti að skokka. Ég sé samt fyrir mér að þetta gæti hætt að virka jafn vel þegar ég verð kominn með nógu gott þol til að skokka fleiri en einn hring og fer að mæta sama fólkinu tvisvar. Ég efast um að neinn trúi því að ég sé að hlaupa tvo hringi kringum Miklatún til að ná strætó. Ég gæti kannski fundið aðrar setningar til að hafa fjölbreytni í þessu, t.d. “ÉG ER ELTUR AF GLÆPAMÖNNUM” eða “ÉG ER AÐ MISSA AF ÞÆTTI Í SJÓNVARPINU”.
  • Teygjuæfingar upp við ljósastaura eru algjörlega bannaðar.
  • Ef þú vilt stoppa og fá þér hressingu þá skal það vera kók og súkkulaði. Ekki neitt powerbar og prótínsjeik drasl!
  • Ekki vera í neins konar íþróttagalla. Best er að vera í gallabuxum til að villa um fyrir fólki og kannski skyrtu eða leðurjakka.
  • Ekki hlusta á neina eróbikk-hressa viðbjóðstónlist. Öll tónlist sem maður hlustar á meðan maður skokkar ætti að vera samin af útlifuðum heróínsjúkum rokkstjörnum.
  • Ekki vera í sérstökum hlaupaskóm. Þeir eru allir risastórir og litskrúðugir og fólk sér strax að þú ert skokkari. Ef það er eitthvað “air” í nafninu á skónum þá eru þeir bannaðir.

Í næstu viku: Hvernig á að fara í líkamsræktarstöðvar án þess að fólk fatti að maður sé að æfa.

Hvernig líkamsrækt?

Þá er Daníel Máni orðinn mánaðar gamall! Tíminn líður ekkert smá hratt! Heill mánuður án þess að fá að sofa samfleytt heila nótt :). En það er bara gaman. Vildi bara að ég gæti skrifað forrit sem léti börn sofa!

Fyrir nokkrum mánuðum var ég að pæla í hvaða líkamsræktarprógram mundi henta mér. Enn hefur ekkert gerst í þessum málum en nú verð ég að fara að taka mig á. Þannig að ef einhver getur mælt með einhverri líkamsræktarstöð eða einhverju svona prógrammi (ekki samt einhverjum svona viðbjóði þar sem maður borðar sellerí í öll mál og má bara borða nammi á fullu tungli eða eitthvað ) þá endilega benda mér á það.

Bóla

Fótbolti á Skjá einum. Þoli ekki íþróttir! Íþróttir eru bara bóla, bóla sem á eftir að springa! Ég spái því að eftir nokkur ár muni enginn muna eftir þessum “íþróttum”…

Á leið í líkamsrækt

Nú hef ég í soldinn tíma, u.þ.b. 10 ár, verið á leiðinni að koma mér í gott form. Í þessi 10 ár hef ég pælt mikið í því hverskonar líkamsrækt henti mér best. Eftir 10 ára umhugsun hef ég komist að því að það þarf að vera eitthvað sem reynir ekki mikið á og krefst þess ekki að ég hætti að borða nammi. Þarna er ég búinn að útiloka 97% af öllum íþróttum þannig að þetta er allt að koma. Nokkrar af þeim íþróttum sem ég hef íhugað að fara að stunda eru:

  • Keila: Hægt að borða pizzu á meðan maður er að keppa, góður kostur.
  • Pílukast: Mjög lítil hreyfing, mataræði skiptir ekki máli, gott mál.
  • Skák: Mjög lítil hreyfing sem er kostur. Eini gallinn er að skák er ekki íþrótt.
  • Sund: Sund er heldur ekki íþrótt, að synda er bara aðferð til að komast hjá því að drukkna. Hinsvegar finnst mér sund skemmtilegt þannig að það kemur sterkt inn.
  • Fótbolti: Reyndi það í fyrra, eyðilagði ökklann á mér eftir 5 tíma og var á hækju í mánuð.
  • Körfubolti: Allir þessir HR-ingar vilja bara fótbolta…
  • Badmington: Spilaði síðast þegar ég var 8 ára, en þá var það gaman.

Ef einhver hefur góða hugmynd um líkamsrækt sem hentar mér, endilega láta mig vita. Og nei, mig langar ekki að fara í líkamsræktarstöð að lyfta eða hlaupa eða eitthvað svona grjótleiðinlegt, þetta verður að vera skemmtileg íþrótt.

Extreme…

Ég var að horfa á Discovery áðan. Þá sá ég auglýsingu um nýjan þátt sem heitir “Extreme Engineering”. Hmmm. “Engineering” finnst mér ekki hljóma spennandi en fyrst þetta er “Extreme Engineering” þá hlýtur það að vera cool. Allt sem er “Extreme” er cool, maður getur tekið hvaða hlut sem er, sett “Extreme” fyrir framan nafnið og þá verður hann meira cool. T.d. Extreme Sports, Extreme Makeover, Extreme Programming, Extreme Engineering, Extreme Robot Fighting

Nú vita allir að íþróttir eru grjótleiðinlegar og hundleiðinlegt að horfa á þær. En það væri auðveldlega hægt að gera fullt af íþróttum miklu skemmtilegri með því að gera þær aðeins meira “Extreme”. T.d:

  • Extreme Football: Ef þeir eru ekki búnir að drullast til að skora eitt einasta mark á fyrstu 45 mínútunum þá er random leikmaður hálshöggvinn og hausinn á honum notaður sem bolti í seinni hálfleik.
  • Extreme Formula 1: Þriðji hver bíll keyrir öfugan hring við hina…
  • Extreme Tennis: Tveir menn. Tveir spaðar. Ein handsprengja.
  • Extreme Skák: Hmmmmmmmmm, ok, virkar kannski ekki fyrir allt.

Þetta væri líka hægt að gera við sjónvarpsþætti. Gott dæmi er Extreme Makeover. Enginn mundi horfa á hann ef hann væri bara “Makeover”. Nú horfir enginn sem er með greindarvísitölu hærra en skónúmerið sitt á Innlit/Útlit. En!! Hver mundi ekki vilja sjá “Extreme Innlit/Útlit”: Vala Matt á amfetamíni brýst inn til óviðbúins fólks um miðja nótt:
zzzzzzzZZZZZZZZZZzzzzZZZZZ*CRASH* “GASALEGA ER ÞETTA SKEMMTILEGT RÝMI HÉRNA HJÁ YKKUR!!” “Hva, hver…” “KEYPTUÐ ÞIÐ ÞETTA RÚMTEPPI Í IKEA? ÞETTA ER *ÆÐISLEGT*”.